Ráðlegging til lesenda: Hlaðið síðunni inn, rjúfið síðan símasambandið og flakkið um efnið eins og ykkur lystir án þess að greiða fyrir tenginguna á meðan. | ||
UPPHAF RAFMAGNS OG FYRSTU STARFSÁR FÉLAGASAMTAKA RAFVIRKJA Guðmundur Gunnarsson Reykjavík janúar 1995
FORMÁLI
(Efnisyfirlit) Strax í upphafi var sú ákvörðun tekin að einskorða sig við þá sem lokið hafa sveinsprófi í rafvirkjun eða rafvélavirkjun eða fengið iðnréttindi í þessum iðngreinum. Eins og fram kemur í inngangi þá störfuðu margir við raflagnir fyrstu áratugi þessarar aldar og margir skráðu sig sem rafvirkja þóttt þeir hefðu ekki lokið sveinsprófi. Ef nefndin hefði tekið á skrá alla þá sem hafa kallað sig eða verið nefndir rafvirkjar eða rafmagnsvirkjar í bókum og minningargreinum, hefðum við lent á villugötum og nánast hefði verið útilokað að átta sig á hverjir hefðu haft rétt til þess að vera með og hverjir ekki. Má t.d. benda á þann fjölda manna sem starfaði við að reisa rafveitur á millistríðsárunum. Þessir menn voru oftast sjálfmenntaðir og tóku að sér að leggja raflagnir víðsvegar um landið. Fljótlega varð okkur það ljóst að
hvergi var til heildarskrá um hverjir höfðu sveinsréttindi. Vinnan við að safna
saman staðfestum upplýsingum varð vegna þessa mun meiri og erfiðari en við höfðum
gert okkur grein fyrir. Einnig voru það okkur veruleg vonbrigði hversu seint og illa
menn svöruðu spurningalistum sem við sendum út. Eftir tveggja ára starf réðum við
Hólmfríði Gísladóttur til að aðstoða okkur við söfnunina. Hún vann gríðarlega
mikið og verðmætt starf við að elta uppi upplýsingar bæði hjá einstaklingum,
Hagstofu Íslands og söfnum. Ritnefndin vill gjarnan fá allar upplýsingar, svo hægt sé að hafa Rafvirkjatalið sem réttast. Störfum við það er ekki lokið, t.d. þarf að bæta þeim við sem ljúka sveinsprófum á komandi árum. Sú skrá sem varð til við störf nefndarinnar, er eina heildarskráin sem til er yfir rafvirkja og rafvélavirkja. Hún hefur nú þegar reynst mikið og verðmætt hjálpargagn við starfsemi FÍR. Vegna lélegra skila rafvirkja var skráin að nokkru leyti unnin upp úr gögnum sem ritnefndin og Hólmfríður söfnuðu. Það vantaði því mikið af ljósmyndum auk þess sem margir sendu okkur einungis spurningalistann til baka en ekki ljósmyndir. Í ársbyrjun 1993 réði ritnefndin Sigurð Steinarsson til þess að safna saman ljósmyndum. Á haustdögum 1993 töldum við að verkið væri nú loks komið svo vel á veg að það væri tilbúið til útgáfu. Haft var samband við útgefendur og tókust samningar við Þjóðsögu. Páll Bragi Kristjónsson í Þjóðsögu og Þorsteinn Jónsson í Ættfræðistofunni fóru yfir verkið. Þá kom í ljós að gallar voru á uppsetningu og víða ósamræmi í framsetningu á upplýsingum. Við höfðum lagt gífurlega vinnu í verkið og gátum því ekki hugsað okkur að senda það frá okkur með þeim göllum sem sérfræðingarnir bentu á. Því var valinn sá kostur að endurvinna verkið. Til þess að ljúka þessari vinnu sem allra fyrst var Þór Ottesen ráðinn til viðbótar. Hafa þeir Sigurður, ásamt ritnefndinni undir stjórn Þorsteins Jónssonar, endurunnið alla skrána, leiðrétt og aukið. Margskonar vandamál hafa orðið á vegi
okkar, m.a. það hvernig menn hafa viljað að upplýsingar væru settar fram. Stundum
hefur verið um að ræða óskir sem ritnefndin gat ekki tekið tillit til vegna
heildarsamræmis og lágmarksupplýsinga um einstaklinga. Þó er það svo, að mun oftar
hefur verið farið eftir þeim. T.d. hefur það álit komið fram að menn hafi ekki
numið rafvirkjun við iðnskóla, heldur hjá rafvirkjameistara. Hér er um að ræða
túlkunaratriði á texta, en allir vita á hvern hátt nám rafiðnaðarmanna er
skipulagt. Eftir ítarlega umfjöllun var valin sú framsetning sem er í bókinni. Skráning sögu FÍR hefur oft borið á
góma á undanförnum áratugum. T.d. birti Óskar Hallgrímsson fyrrv. formaður
félagsins nokkrum sinnum kafla úr sögu félagsins í tímaritum FÍR á árunum 1950 -
1965. Þetta var oft rætt á fundum t.d. gaf Samvirki á 50 ára afmæli FÍR 100.000 kr.
til þessa. Ekkert var gert í þessu, en þegar vinna var hafin við söfnun í
Rafvirkjatalið árið 1987 bar skráningu á sögu félagsins oft á góma. Haft var
samband við aðila sem oft hefur tekið að sér samskonar verkefni. Fljótlega eftir að
hann hóf þessa vinnu réði hann sig til skráningar á sögu annarra félagasamtaka og
hætti þá. Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn svona verk. Við frágang hef ég notið margskonar leiðbeininga frá prófarkalesurum um hvað mætti betur fara, hér er um að ræða Svavar Guðbrandsson, Bjarna Sigfússon, Kolbrúnu Friðriksdóttir og Þorkel Örn Ólafsson. Auk þess hafa Páll Bragi Kristjónsson og Þorsteinn Jónsson komið fram með margar góðar ábendingar. Öllu þessu fólki stend ég í mikilli þakkarskuld við. Fyrir hönd ritnefndar, 1. KAFLI RAFMAGNIÐ UPPGÖTVAÐ UPPHAF
RAFMAGNSINS (Efnisyfirlit) Englendingurinn Mikael Faraday (1791-1867) bætti uppgötvun Örsteds og sannaði að segulmagn gæti haft áhrif á rafmagn og uppgötvaði þannig spanstrauminn, og lagði þar með grunninn að rafvélinni. Í kjölfar þess sýndi annar Englendingur, James Maxwell (1831-1879) árið 1864 fram á að í rafsegulsviði ætti sér stað bylgjuhreyfing með ljóshraða. Maxwell skýrði öll þekkt fyrirbæri rafsegulfræðinnar með fjórum jöfnum, en átti torvelt með að sýna fram á hvað hann ætti við, því enginn hafði orðið var við þessar bylgjur. Þetta var ekki staðfest fyrr en mörgum árum síðar, að Þjóðverjinn Hinrik Hertz (1857-1894) gerði sér lítið fyrir árið 1888 og sannaði með tilraunum að jöfnur Maxwells stæðust. Þjóðverjinn Röntgen (1845-1923) uppgötvaði árið 1895 rafsegulgeisla sem voru náskyldir ljósi, en með miklu meiri öldulengd. Þessi uppgötvun átti eftir að valda byltingu í sjúkdómsgreiningu. Um miðja 19. öld var fyrsti rafallinn
byggður eftir kenningum Faradays, en hann var þá til lítils gagns því rafveiturnar
vantaði. Menn voru víðs vegar í veröldinni að finna upp á ýmsum hlutum er varðar
rafmagnið en þetta var allt sundurleitt og til lítilla nota. Fyrsta rafknúna
járnbrautarlestin var tekin í notkun í Þýskalandi árið 1879. SKAMMDEGISMYRKUR
Á ÍSLANDI (Efnisyfirlit) En úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið
og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa
mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að
lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram. FYRSTA
RAFMAGN Á ÍSLANDI (Efnisyfirlit) Að þessum upplýsingum fengnum hélt
Frímann geysilega langan og háfræðilegan fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu fyrir
fullu húsi. Með endalausum útreikningum og rafmagnsformúlum komst hann að þeirri
niðurstöðu að með þessu afli mætti fá 20 faldan þann kraft sem þyrfti til þess
að lýsa 200 hús í Reykjavík með þremur átta kerta perum, og götur bæjarins með
álíka lýsingu og þegar væri á þeim. Hann áætlaði að virkjun ásamt öllum
tækjum til raflýsingarinnar myndi kosta 60 þús. kr. En ef farið væri í rafhitun
líka myndi kostnaðurinn verða með öllum rafmagnsofnum 250 þús. kr., Árlegur
rekstrarkostnaður myndi verða um 30 þús. kr. Þessu svaraði bæjarstjórn með því
að kalla Frímann "humbugista og þetta væru svo háar tölur, að auðvitað kæmu
þær ekki til greina." Við Arnarhól er höfuðból Frímann fór nú til Skotlands og árið
1895 rakst Einar skáld Benediktsson á hann í Leith. Einar taldi Frímann á að fara á
nýjan leik til Reykjavíkur. Nú hafði Frímann með sér þrjú tilboð frá þekktum
rafmagnsfélögum, tveimur enskum og einu þýsku. General Electric í London bauðst til
þess að koma upp aflstöð við Elliðaár, koma fyrir rafmagnslömpum í 200 húsum, á
götum og við höfnina fyrir 59 þús. kr. Siemens Bros í London vildi reisa 1000
hestafla virkjun og selja öll áhöld til lýsingar og hitunar fyrir 225 þús. Siemens
og Halske í Berlín gerði einnig tilboð en ekki eru til upplýsingar um hvernig því
var háttað. Og skáldin sömdu revíusöngva: Þúsund hesta þrótt, Valgarður Ó. Breiðfjörð ritstjóri
var mikill áhugamaður um hvers kyns framfarir, hann varð vinur Frímanns og í samvinnu
smíðuðu þeir rafhlöðu og tengdu við hana peru sem gaf frá sér dauft ljós. Þetta
varð Valgarði hvatning til þess að kynna sér enn frekar rafmagnsáhöld og sumarið
1896 hafði hann rafmagnsdyrabjöllur til sölu. FYRSTU
VIRKJANIR (Efnisyfirlit) Sú saga er til, að rétt um aldamótin
hafi Jóhannes Reykdal hitt Einar Benediktsson á götu í Kaupmannahöfn. Jóhannes bað
Einar að lána sér 100 kr. Á bæjarstjórnarfundi 7. maí árið
1914 var ákveðið að athuga virkjunarmöguleika í Elliðaánum. Norskt
verkfræðifyrirtæki var fengið til þess að mæla fyrir Elliðaárvirkjun árið 1916
og skilaði árið 1917 áætlun um 5 þús. hestafla virkjun, jafnframt kom áætlun um 8
þús. hestafla virkjun í Sogi. Árið 1915 var íbúafjöldi Reykjavíkur 14 þús.
Þessar áætlanir voru mönnum ofviða og íslenskir verkfræðingar, Guðmundur
Hlíðdal og Jón Þorláksson, voru fengnir til að lækka þær. Þeir lögðu fram
áætlanir sínar í maí 1918, þar komu fram tveir kostir. Annars vegar var þús.
hestafla stöð við Ártún, sem mátti stækka, hins vegar var 5 þús. hestafla stöð
við Grafarvog, ekki fjarri því sem sjúkrastöð SÁÁ stendur nú. Hún yrði gerð
með því að grafa skurð úr Elliðavatni yfir í Rauðavatn og leiða vatnið þaðan
niður í Grafarvog. Á bæjarstjórnarfundi 4. desember árið
1919 var ákveðið að virkja eftir þeirra tillögum þús. hestafla virkjun við
Ártún. Hún stækkaði í meðförum nefnda í 1.500 hestöfl og tók til starfa árið
1921 og náði til 773 heimtauga. Í kjölfar þessa lögðust allar mótorvirkjanir
niður. Hin stærsta þeirra, frá Nathan og Olsen, var flutt Hafnarfjarðar til hjálpar
Reykdalsstöðinni eins og áður hefur komið fram. FYRSTI
ÍSLENSKI RAFVIRKINN (Efnisyfirlit) Á næstu árum kom Halldór víða við,
t.d. á Vífilsstaðahælinu, Víkurkauptúni, Vestmannaeyjum, Patreksfirði, Bíldudal,
Þingeyri við Dýrafjörð, Ísafirði og á Akureyri. Fyrri heimsstyrjöldin stóð sem
hæst þegar hann var að setja upp stöðina í Vestmannaeyjum. Halldór hafði pantað
allar vélar frá Þýskalandi, en þegar þær áttu að flytjast heim höfðu
Englendingar bannað allan flutning frá Þýskalandi. Í stað þess að hætta við eða
panta aðrar dýrari og verri vélar fór hann sjálfur utan og náði í vélarnar. Á
heimleið var komið við í Skotlandi og var mikil hætta á að eftirlitsmenn fyndu
vélarnar, en hann slapp heim og kom stöðinni upp á tilteknum tíma. BRAUTRYÐJENDUR (Efnisyfirlit) Upp úr 1910 unnu bræðurnir Jón og Eríkur í Vík við iðnir sínar skósmíði og trésmíði. Þeir höfðu nýlokið við sveinspróf sín þegar Halldór Guðmundsson hófst handa við að raflýsa Víkurkauptún. Bræðurnir urðu aðstoðarmenn Halldórs og þar með voru þeir búnir að ákvarða hvert ævistarfið yrði. Rafvæðing Vestmannaeyja og á Vestjörðum tók síðan við. Þeir bræður reistu saman hús sín við Baldursgötu 13 og Óðinsgötu 25 árið 1920. Höfðu þeir lítinn verkstæðiskrók Óðinsgötumegin. Þar unnu þeir á kvöldin við að breyta gaslömpum og gasljósakrónum í rafmagnsljósatæki. Var við þetta mikil vinna eftir að Elliðaárstöðin tók til starfa.. Fyrsta virkjun Elliðaánna árið vakti menn til meðvitunar um að hérlendis vantaði kunnáttumenn í viðgerðum rafvéla og vindingu þeirra. Eiríkur fór til Danmerkur í febrúar 1922 og vann hjá nokkrum fyrirtækjumvið vindingar og mælastillingar. Þegar heim kom stofnaði hann fyritæki á Óðinsgötu 25 og vann aðallega við vindingar. Árið 1923 gerðist Jón bróðir hans meðeigandi í fyrirtækinu og það nefndist Bræðurnir Ormsson eftir það. Verkefnin urðu fjölbreyttari og meðal annars var farið í að framleiða ljóskastara og ýmis önnur smátæki. Jón varð löggiltur rafvirkjameistari 1923 og með fyrstu húsum sem hann lagði í var Dómkirkjan í Reykjavík. Fyrirtækið tók að sér verkefni víðsvegar um landið auk þess að taka að sér raflagnir í Reykjavík. 1. október 1936 er fest kaup á Vesturgötu 3 og verkstæðið flutt þangað. Þá var hafin framleiðsla á svonefndum dvergum fyri vind- og vatnsafl. Vindvélarnar voru 300 wött, 32-45 volt, vatnsdvergarnir voru aftur á móti 75-350 wött, 32 volt og einstaka 110 volt, ef stöðin var sett upp lengra frá bænum. Einn þessara dverga var settur upp á Hrafnseyri við Arnarfjörð hjá séra Böðvari Bjarnasyni. Í tilefni þess setti klerkur saman þessa stöku: Dvergasmíði er dvergurinn, Raflagnaefni á þessum árum var ákaflega sundurleitt. Það var flutt inn frá Bandaríkjunum, Englandi og nokkuð frá Norðurlöndunum. Utanáliggjandi lagnir voru algengastar á klemmum eða hnöppum, svo og opnar pípur eða píputaugar. Þetta á sína skýringu, því að nær allar lagnir voru lagðar í eldri hús og var meiri hluti þeirra timburhús. Aldamótaárið 1900 ritaði Valtýr
Guðmundsson grein í Eimreiðina undir fyrirsögninni "Aflið í
bæjarlæknum". Greinin var hugvekja til bænda og höfundurinn kennir þeim
jafnframt að mæla læki sína með svokallaðri flotholtsaðferð. Þetta var í fyrsta
sinn sem vatnsmælingarfræði var boðuð hér á landi. Í greininni komst Valtýr svo
að orði : Indriði Helgason, f. 7. okt. 1882 í
Skógargerði í Fellum, Fljótsdalshéraði. Hann var sonur hjónanna Ólafar
Helgadóttur og Helga Indriðasonar. Indriði lauk búfræðinámi frá búnaðarskólanum
að Eiðum árið 1904, stundaði nám við lýðháskólann í Askov árið 1906-1908 og
fór síðan í raffræðinám og lauk því árið 1911. Hann kom heim þá um vorið og
vann að því að setja upp virkjun á Eskifirði og leggja í hús ásamt Halldóri
Guðmundssyni. Árið 1912 fór Indriði aftur til Danmerkur, en kom heim alkominn árið
1913 og settist að á Seyðisfirði. Þar setti hann upp virkjun og lýsti upp bæinn.
Hann starfaði þar sem rafvirkjameistari og umsjónarmaður stöðvarinnar til ársins
1922. Hann reisti nokkrar smástöðvar á Austfjörðum auk þess að mæla fyrir öðrum
og kynna möguleika rafmagnsins. M.a. má geta þess að hann gerði kostnaðaráætlun um
að fara frá Seyðisfirði til Möðrudals og rannsaka aðstæður til raflýsinga. Fyrir
þessa ferð vildi hann fá 50 kr. Þetta þótti Möðrudalsbændum óheyrilegt og
höfnuðu þessi tilboði. Á þessum árum var mikið byggt af
litlum virkjunum á heimabæjum. Frá upphafi voru reistar 530 einkarafstöðvar. Margir
sjálfmenntaðir menn komu til sögunnar í sveitum landsins og unnu að túrbínusmíð,
gerð þrýstivatnspípna, mælingum á fallhæð, vatnsmagni og vatnsvegum smávirkjana
hér á landi. Jón Þorláksson og Guðmundur Hlíðdal skrifuðu greinar og kenndu
mönnum að mæla læki sína og smáár með yfirfallsstíflum. Jón Sigurgeirsson í Árteigi í S.-Þingeyjarsýslu setti upp um 40 stöðvar víðs vegar. Hann virkjaði á annað megawatt úr sytrum landsins. Einnig má þar nefna Skarphéðin Gíslason á Vagnsstöðum. Hann fór um Suðursveit og fleiri byggðir til þess að athuga möguleika til virkjana. Hann sá flestum Skaftfellingum fyrir ljósi og vatni með því að byggja virkjanir, þar sem hann smíðaði sjálfur túrbínurnar. 2. KAFLI UPPHAF STÉTTABARÁTTUNNAR FYRSTA
ALÞJÓÐASAMBAND VERKALÝÐSINS (Efnisyfirlit) Í grein í Vinnunni, 9. tbl. árið 1945
um "Kjör verkafólks á Íslandi á 19. öld", sem Haraldur Guðnason ritaði,
segir m.a.: Um aldamótin var hugtakið frjálslyndi
(líberalismi) orðið þekkt í Englandi. Það átti rætur að rekja til upphafs
iðnbyltingarinnar. Með vaxandi vélvæðingu varð handverkið undir í samkeppni um
vinnuaflið og fólkið flykktist úr sveitum að námum og verksmiðjum. Reynt var að
framleiða sem ódýrasta vöru með ódýru vinnuafli. Karlar, konur og börn unnu sums
staðar 14-18 klukkustundir á sólarhring. Atvinnuleysisvofan var alltaf nálæg. Þegar
vinna dróst saman var ódýrara að nota vinnuafl barna en feðranna. Það þekktist að
konur tóku léttasótt niðri í námunum. Þegar rætt var um úrbætur, snérust
frjálslyndir gegn því og verkalýðsfélög voru bönnuð árin 1799-1824. Með
verksmiðjulögunum árið 1833 var takmörkuð vinna barna í verksmiðjum við 9 ára
aldur og vinnutími styttur. Námulög voru sett árið 1847 og bönnuð vinna kvenna og
barna lengur en 10 tíma á dag. Þetta var upphafið á 10 tíma vinnudegi. John Stuart Mill (1806-1873) setti fram
þá skoðun, að ríkisvaldið yrði að hlaupa undir bagga með þeim sem stæðu
höllum fæti í lífsbaráttunni. Hann vonaði enn fremur að útrýma mætti allri
fátækt með réttlátri jarðeignaskiptingu, takmörkun barneigna og með stofnun
samvinnufélaga. Hann varaði við því að gera heiminn að ríkisreknum vinnubúðum
þar sem sköpunargleði einstaklingsins fengi ekki að njóta sín. Hann studdi stofnun
verkalýðsfélaga sem hefðu verkfallsrétt. Stjórnmálakenningar Mills eru stundum
nefndar sósíallíberalismi. Hugsuðir beindu í auknum mæli sjónum
sínum að eignarhaldi á framleiðslutækjunum og skiptingu arðsins í framleiðslunni.
Um árið 1830 var farið að kenna slíka menn við sósíalisma eða kommúnisma. Gísli
Brynjúlfsson (1827-1888) nefndi sósíalista "samlagsmenn" í Norðurfara
árið 1848, en síðar tók að bera á nafninu félagshyggjumenn. Gísli var
rómantískt skáld og bókmenntafræðingur, síðar prófessor við
Kaupmannahafnarháskóla Sambandið stóð í mestum blóma fram
undir árið 1870. Þá kom til styrjaldar milli Þjóðverja og Frakka þar sem samherjar
í verkalýðsstétt bárust á banaspjót. Frakkar biðu algjöran ósigur í ársbyrjun
1871. Í mars tóku verkamenn völdin í París. Alþjóðasambandið hafði samúð með
með Parísarkommúnunni. Frönsk stjórnvöld gengu milli bols og höfuðs á kommúnunni
og á einni viku í maí voru allt að 30 þús. manns teknir af lífi. Þetta var mikið
áfall fyrir Alþjóðasambandið og það leið undir lok árið 1876. Í Englandi varð Verkamannaflokkurinn til
í nánum tengslum við verkalýðsfélögin. Í Þýskalandi mótuðu stjórnmálamenn,
einkum marxistar, verkalýðshreyfinguna. Verkalýðsfélög voru bönnuð í landinu
árin 1878-1890 og þar með stjórnmálasamtök sósíalista. Annað alþjóðasamband verkalýðsins
var stofnað í París árið 1889. Þar var mikið rætt um réttindi kvenna. Einn af
fulltrúum þeirra á stofnþinginu var Clara Zetkin (1857-1933). Hún deildi harkalega á
þá úr verkalýðsstétt sem höfðu horn í síðu kvenna í hópi launþega. Umbylta
þyrfti auðvaldskipulaginu til þjóðfélags sósíalisma, sem tæki að sér uppeldi
barna að hluta til og stuðlaði að frelsi kvenna jafnt sem karla. Með svipuðum hætti
og karlar væru undirokaðir af auðvaldinu, gætu konur orðið ambáttir karlveldis.
Með aukinni hagsæld óx þörfin á vinnuafli í barnakennslu, verslunum, á skrifstofum
og við ný tæknistörf, m.a. símaþjónustu. Konur fóru í auknum mæli að sækja út
á vinnumarkaðinn. Þær fóru að taka til hendinni í réttindamálum sínum. IÐNAÐARMANNAFÉLAGIÐ
Í REYKJAVÍK (Efnisyfirlit) Til þess að öðlast réttindi í
iðngrein, varð að komast á námssamning hjá viðurkenndum meistara og réði gildið
fjölda iðnnema á hverjum tíma. Að loknum námstíma, sem oft var 6 ár, gekkst neminn
undir sveinspróf og varð að sanna að hann kynni til allra starfa viðkomandi
iðngreinar. Í stað þess að vera einungis matvinnungur, eða þurfa jafnvel að borga
með sér, fékk iðnsveinninn nokkuð hátt kaup og hann gat flutt sig um set milli
meistara. Á fyrri öldum lærðu nokkrir íslenskir handverksmenn til verka, einkum í Danmörku og nokkrir í Þýskalandi. Þeir stunduðu oft iðn sína eftir að þeir komu heim, ýmist í fullu starfi á biskupssetrum eða öðrum stórbýlum og stundum í hjáverkum með eigin búskap. Langt fram á síðustu öld var iðnaðarmönnum bannað að bindast samtökum. Iðnaðarmannafélögin urðu víða fyrstu stéttarfélögin sem stofnuð voru. Þau urðu víða mjög öflug og komu á víðtækum umbótum fyrir félagsmenn sína. Um aldamótin 1800 voru aðeins 5 iðnaðarmenn í Reykjavík, 1 bakari, 1 skósmiður, 1 járnsmiður og 2 trésmiðir. Íbúatala var 300. Annars staðar á landinu þekktust ekki iðnaðarmenn nema í prenti. 50 árum síðar voru íbúar Reykjavíkur orðnir 1150 og iðnaðarmenn voru orðnir 40, flestir trésmiðir, 15 talsins, hinir voru 4 járnsmiðir, 4 skósmiðir, 3 prentarar, 2 bakarar, 2 glerskerar, 2 hattarar, 2 múrarar, 2 söðlasmiðir, 1 bókbindari, 1 beykir, 1 silfursmiður og 1 sótari. Um aldamótin var Reykjavík orðin að stórbæ með 6700 íbúa, þá er talið að 650 manns hafi unnið að iðnaði. Iðngreinar voru taldar vera 29. 1930 voru íbúar Reykjavíkur taldir vera 26.500, iðnaðarmenn voru um 1700 og iðngreinarnar voru um 50. 3. febrúar árið 1867 var stofnað í
Reykjavík Handiðnaðarmannafélagið af 31 handiðnaðarmanni í þeim tilgangi að koma
upp duglegum iðnaðarmönnum og efla og styrkja samheldni milli handiðnaðarmanna á
Íslandi. Nafni félagsins var breytt 6. mars árið 1882 í Iðnaðarmannafélagið í
Reykjavík. Talið er að Sigfús Eymundsson ljósmyndari og Einar Þórðarson hafi
verið helstu hvatamenn að stofnuninni. Félagið sinnti aðallega menningarmálum og var
það frumkvöðull að mörgum merkum málum. Sumir voru stórhuga og töldu þetta hús vera alltof lítið og á fundi 19. jan. árið 1896 var samþykkt að reisa hús samkvæmt teikningu sem búið var að gera og verja til þess allt að 7 þús.kr. En húsið var stækkað og reist í sjálfboðavinnu, endanlegur kostnaður varð 36 þús. kr. Þann 29. des. árið 1896 var haldinn fyrsti fundurinn í húsinu, "Iðnó", eins og það var fljótlega kallað. Dagana á eftir voru haldnir samsöngvar í húsinu og voru um 400 áheyrendur hvort kvöld. Aldrei höfðu verið haldnar jafnfjölmennar samkomur innan dyra hér á landi. Fljótlega eftir að byggingu hússins lauk var stofnað Leikfélag Reykjavíkur. En lánin þurfti að borga og urðu stjórnendur félagsins þreyttir á að vera í sífellu að taka ný lán til þess að borga hin eldri. Einnig kom fljótlega fram, að gera þyrfti miklar endurbætur á húsinu svo það gæti nýst sem leikhús bæjarins. Þetta varð til þess að ákveðið var að selja húsið. Tilboð kom frá Fr. Håkonsen, veitingamanni að upphæð kr. 75 þús. Ákveðið var að gefa leikfélaginu kost á að ganga inn í kauptilboðið, en af því varð ekki. þann 6. maí árið 1918 var húsið svo selt Håkonsen. Á fundi 5. maí árið 1892 var ákveðið að vinna að stofnun sjúkrasjóðs fyrir félagið. Hann var svo stofnaður 7. jan. árið 1894 en þá var samþykkt: "Fjelagið stofni sem allra fyrst styrktarsjóð handa fátækum iðnaðarmönnum og ekkjum þeirra, þegar sjúkdómar eða ófyrirsjáanleg óhöpp bera að höndum". Skipulagsskrá sjóðsins fékk konunglega staðfestingu 18. sept. árið 1896. Ákveðið var að allir meðlimir Iðnaðarmannafélagsins sem vildu ganga í sjóðinn, skyldu greiða til hans eina krónu og fimmtíu aura, en aðrir iðnaðarmenn tvær krónur. Þann 17. maí árið 1921 var stjórn sjóðsins gerð sjálfstæð, enda þótti það eðlilegt því fleiri en meðlimir Iðnaðarmannafélagsins áttu aðild að honum. Í 2. gr. skipulagsskrárinnar stóð: "Tilgangur sjóðsins er að styrkja meðlimi sjóðsins, ekkjur þeirra og börn, en meðlimir geta orðið allir meðlimir Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík og aðrir iðnaðarmenn í Reykjavík, ef þeir eru samþykktir á aðalfundi sjóðsins". Þá voru meðlimir 67 og árgjald var 5 kr. Iðnaðarmannafélagið stóð fyrir iðnsýningum. Sýndir voru ýmsir munir sem iðnaðarmenn höfðu gert. Fyrsta sýningin var haldin í Barnaskólahúsinu 2. ágúst árið 1883. Á sýningunni voru 390 munir og hinn dýrasti metinn á 400. kr. Árið 1905 var haldin sýning á prófmunum iðnnema. Næst var haldin mikil sýning 17. júní árið 1911, þar voru sýndir 1100 munir, dýrasti gripurinn var metinn á 6 þús. kr. Á fundi 17. sept. árið 1906 var ákveðið að standa fyrir því að reisa minnismerki fyrsta landnámsmanns Íslands og fá Einar Jónsson til þess að vinna verkið. Þann 24. febrúar árið 1924 var styttan af Ingólfi Arnarsyni afhjúpuð á Arnarhóli að viðstöddum miklum mannfjölda. Ingólfsmyndin kostaði 40.000 kr. og langmestur hluti þess var greiddur úr sjóðum félagsins. STOFNUN
ALÞÝÐUSAMBANDS ÍSLANDS (Efnisyfirlit) Margar lýsingar eru til um vinnutíma
verkafólks í Reykjavík áður en verkalýðsbaráttan hófst. Þetta birtist í
Ísafold árið 1889: Hvað kaup karlmanna snertir þá er það
að nafninu til ekki svo lágt ... En kvenmannsdaglaunin eru aftur á móti svo lág að
slíkt er á engu viti byggt; eða hvaða sanngirni er að gjalda kvenmanninum ekki nema
3/5 á móti karlmanni, eða kannski tæplega það, og það þó kvenmaðurinn beri á
börum móti karlmanni frá morgni til kvölds? Og þegar þau skila börunum að kvöldi
fær karlmaðurinn 2 kr. 50 a., en kvenmaðurinn 1 kr. 50 a. Er eigi þetta ástæðulaus
og gegndarlaus ójöfnuður?" Verkafólk 19. aldarinnar hafði ekki
kosningarétt og konur ekki heldur, þótt húsfreyjur væru. Kosningarétt höfðu
einungis búendur. Að vísu höfðu tómthúsmenn kosningarétt, en til þess að
öðlast hann, urðu þeir að greiða 6 ríkisdali í útsvar. Með öðrum orðum:
eignin hafði kosningarétt. Árið 1855 voru 140 tómthúsmenn í Reykjavík. 6 þeirra
greiða 6 rd. í útsvar, 134 eru réttlausir á vettvangi landsmálanna. Árið 1847 var
kosningaréttur bundinn við 10 hundraða fasteign. Þá höfðu jafnvel sumir
embættismenn ekki kosningarétt, ef þeir áttu ekki áskilda eign. Pétur Pétursson verkamaður giftist
árið 1909 og fór að búa í litlu herbergi með eldunarplássi á Hverfisgötunni.
Hann sagði: Einnig er lýsing Haraldar Ólafssonar í
bókinni Brimöldur forvitnileg: Öryggi í örbirgð var lakari kostur en
hin háu laun sem togarasjómönnum buðust, jafnvel fimm eða sexföld árslaun
vinnumanns eftir eina saltfisksvertíð. Atvinnubyltingin við sjávarsíðuna dró fólk
til sín. Togarasjómenn urðu brátt fjölmennasta atvinnustétt höfuðborgarinnar.
Félagslegur grundvöllur var að skapast. Þannig löguð samtök miða að því
að varðveita einstakan verkamann eða iðnaðarmann gegn samkeppni eða undirboði
stéttarbræðra sinna og um leið halda uppi réttu hlutfalli milli þess hagnaðar, sem
vinnuveitandi hefur, og þeirra launa sem hann geldur fyrir vinnuna. Því meiri sem
fátæktin er meðal verkamanna og því lægra sem allar vinnuafurðir eru metnar til
peninga, því nauðsynlegri er þessi félagskapur og því meiru góðu getur hann
komið til leiðar. Það var ný hugsun hér á landi að semja um takmörkun vinnutíma. Til þessa hafði verkalýður orðið að vinna myrkranna á milli ef á þurfti að halda. Sumarfrí voru óþekkt fyrirbæri. Fyrsti vísirinn að slíku var þegar kaupmenn tóku upp á því árið 1894 að loka búðum sínum einn dag á sumri og kölluðu það hvíldar- eða frídag verslunarmanna. Í samningum prentara árið 1908 fengu þeir inn ákvæði um, "að þeir sem unnið hefðu eitt ár eða lengur, skyldu fá allt að þriggja daga sumarleyfi án kaups". Árið 1915 fengu prentarar því svo framgengt að þessir þrír sumarleyfisdagar yrðu borgaðir. Þetta voru mikilvægar nýjungar og stefnumarkandi fyrir önnur félög. Prentarar voru í fararbroddi
verkalýðsbaráttunnar og stofnuðu fyrsta eiginlega stéttarfélagið árið 1887,
Prentarafélagið, það lognaðist út af árið 1890. Árið 1888 stofnuðu skósmiðir
stéttarfélag, Skósmiðafélag Reykjavíkur, það starfaði í eitt ár. Saga verkalýðshreyfingarinnar hér á landi hófst í raun þegar skútukarlafélagið Báran var stofnað árið 1894. Fyrr það ár höfðu eigendur þilskipa stofnað með sér Félag útgjörðarmanna við Faxaflóa. Aðalforgöngumaður þess var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, en hann hafði þá nýverið beitt sér fyrir því að keyptir voru 8 stórir kútterar til Reykjavíkur. Fyrsta verkefni þessa félags var að birta reglugerð um ráðningarkjör sjómanna. Launakjörin versnuðu við þetta og mataræðið versnaði til muna. Þá voru 12 - 15 ára drengir eða örvasa gamalmenni höfð til þess að sjá um matseldina um borð, kokka ofan í allt að 24 menn. Fljótlega eftir stofnun höfðu 80 hásetar samþykkt að ráða sig ekki á skip nema samkvæmt samþykkt félagsins. Þar voru ákvæði um bætt fæði og að a.m.k. helmingur launa yrði greiddur í peningum. Meðal forystumanna Bárunnar voru góðtemplarar sem vildu koma drykkjuóorðinu af sjómönnum og hafa siðbætandi áhrif á félagsmenn. Eftir að Dagsbrún var stofnað árið 1906 lækkaði sól Bárunnar og árið 1910 lognaðist félagið endanlega út af. Verkamannafélög voru stofnuð samtímis árið 1897 á Seyðisfirði og á Akureyri. Steinsteypan ruddi sér til rúms sem byggingarefni á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum 20. aldar. Múrarar vori 11 hér um aldamótin, þar af líklega 7-8 steinsmiðir. Þeir stofnuðu Múr- og steinsmiðafélagið 23. feb. árið 1901. Þetta félag starfaði með miklum þrótti til ársins 1908, þá lognaðist það út af. Járnsmiðir í Reykjavík höfðu með
sér samtök um að vinna ekki á sunnudögum árið 1889, en 7. feb. árið 1899 var
stofnað Járnsmíðafélag Reykjavíkur, það var í byrjun nefnt Bandalagið Framsókn.
Félagið starfaði í ein 6 ár en var formlega slitið árið 1925. Í millitíðinni
var Sveinafélag járnsmiða stofnað, 11. apríl árið 1920. Árið 1894 voru íbúar Reykjavíkur 4031, en 9797 árið 1906 þegar verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað. Úr vexti bæjarins dró árið 1908 en aftur tók hann kipp árið 1911 og var fólksfjöldinn orðinn liðlega 14.000 í ársbyrjun 1916. Árin 1906-1908 voru gróskuár í upphafi verkalýðshreyfingarinnar. Í byrjun árs 1906 hóf Alþýðublaðið göngu sína. Fyrsta tilraunin til þess að stofna heildarsamtök var stofnun Verkamannasambands Íslands árið 1907. Forgöngumenn að Verkamannasambandinu voru m.a. Ágúst Jósefsson prentari, frændi hans Pétur G. Guðmundsson og Ottó N. Þorláksson. Verkamannasambandið leið út af árið 1911. Stefnuskrá sambandsins var pólitísk og sniðin eftir stefnuskrá jafnaðarmanna á Norðurlöndum. Stjórnmálaflokkar hér á landi höfðu fram að þessu myndast um utanríkismál. Menn skiptust í flokka eftir því hversu langt þeir vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni. Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á var þessi flokkaskipting orðin úrelt. Við höfðum tekið atvinnumálin í okkar hendur. Útgerð og verslun jókst hröðum skrefum. Baráttan einkenndist af kaupgjaldsmálum og breytingum á fyrirkomulagi verslunar. Lög um greiðslu verkakaups í peningum voru sett 14. febrúar árið 1902. Reyndar sögðu lögin að laun ætti að greiða með peningum nema öðruvísi væri um samið. Einstaklingar stóðu höllum fæti gagnvart kaupmönnum þegar þeir vildu greiða fyrir vinnu með vöruúttekt. Á fundi í Verkamannafélaginu Dagsbrún 28. október árið 1915 voru Ottó N. Þorláksson og Ólafur Friðriksson kosnir til þess að koma á samvinnu milli verkalýðsfélaga. Frá nóvember árið 1915 fram í mars árið 1916 starfaði undirbúningsnefnd frá 5 verkalýðsfélögum, Ottó og Ólafur frá Dagsbrún, Guðleifur Hjörleifsson og Jónas frá Hriflu fyrir Hásetafélagið í Reykjavík, Jónína Jónatansdóttir og Karólína Siemens fyrir Verkakvennafélagið Framsókn, Þorleifur Gunnarsson og Gísli Guðmundsson fyrir Bókbandssveinafélagið og Guðjón Einarsson og Jón Þórðarson fyrir Hið íslenska prentarafélag. Verkamannafélagið Hlíf og Hásetafélagið í Hafnarfirði komu seinna til sögunnar. Sunnudaginn 12. mars árið 1916 var stofnþing ASÍ og Alþýðuflokksins sett í Bárubúð. Fjöldi stofnfélaga var um 1500. Þingið setti Jónas frá Hriflu. Hann var leiðandi maður í samningu stefnuskrár ASÍ og Alþýðuflokksins. Honum er eignuð sú hugmynd að gera þessi tvenn samtök að einni félagslegri heild, en svo var allt til ársins 1940. Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kjörinn fyrsti forseti ASÍ, en á fyrsta sambandsþinginu var Jón Baldvinsson kjörinn forseti og jafnframt formaður Alþýðuflokksins. Á stofnfundinum gerði Jónas frá Hriflu Jón Baldvinsson að ritara. Jónasi leist vel á forystuhæfileika Jóns og er talið að hann hafi beitt áhrifum sínum til þess að Ottó var vikið úr forsetastólnum á sambandsþinginu og Jón valinn. Með Jóni og Jónasi var gott samband og höfðu þeir um margt svipaðar skoðanir. Þetta stuðlaði að því bandalagi sem var með Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum næstu áratugina. Verkamenn unnu stórsigur í
bæjarstjórnarkosningum árið 1916. Þessi óvænta uppákoma kom eins og köld
vatnsgusa yfir borgarastétt Reykjavíkur. Morgunblaðið sagði frá úrslitunum: "Verkamannahreyfingin
hér í bæ minnir á kvennahreyfinguna hér um árið, fer geyst á stað og endar með
deyfð og áhugaleysi. Öðru vísi getur ekki farið vegna þess að byggt er á
óeðlilegum grundvelli. Það er verið að reyna að æsa verkamenn til stéttarrígs,
sem hér hefur ekki þekkst áður, og er það illt verk og óheiðarlegt, getur engu
góðu komið til leiðar, en mörgu illu. En vér trúum því að alþýða hér hafi
svo næma dómgreind að hún sjái villuna áður en í óefni er komið". Leiðtogunum var ljóst að viðurkenning
á ASÍ sem samningsaðila var mikilvæg. Í málefnasamningi ríkisstjórnar
Alþýðuflokks og Framsóknarflokks árið 1934 stóð: "Að viðurkenna
Alþýðusamband Íslands sem samningsaðila um kaupgjald verkafólks í opinberri vinnu.
Sé nú þegar gengið til samninga með það fyrir augum að jafna og bæta kjör
þeirra sem þá vinnu stunda. Opinberri vinnu verði hagað þannig: að hún verði
einkum til atvinnuaukningar í þeim héruðum, þar sem hún er unnin". Rafvirkjafélag Reykjavíkur var utan ASÍ
fyrstu árin, en ekki kemur fram í gögnum félagsins hvers vegna. Á árinu 1937 kom
fram á fundum að rétt væri að æskja inngöngu og á fundi 7. nóvember árið 1937
var samþykkt að ganga í ASÍ. Réðu þar atvinnusjónarmið, töldu félagsmenn sig
með þessu tryggja atvinnu hjá rafveitunni. Af einhverjum ástæðum svaraði
miðstjórn ASÍ ekki umsókn félagsins. Ekki er ólíklegt að pólitískar deilur hafi
haft áhrif þar á. Á fundi í desember 1938 kom fram að þolinmæði manna væri
þrotin og samþykkt að draga umsóknina til baka jafnframt sem því var harðlega
mótmælt að á sama tíma og rafvirkjum væri ekki einu sinni sýnd sú kurteisi að
þeim væri svarað, þá væru önnur félög tekin inn í ASÍ athugasemdalaust. 3. KAFLI RAFMAGNSVIRKJAFÉLAG REYKJAVÍKUR STOFNFUNDUR (Efnisyfirlit) Guðmundur Þorsteinsson taldi "að
mikil nauðsyn væri til samtaka meðal rafmagnsvirkja. Það væri vitanlegt að mjög
mikið fúsk ætti sér stað um land allt. Æskilegt er að félagið gangist fyrir
prófum á hæfni rafmagnsvirkja". Guðmundur hélt áfram og sagði m.a.:
"Akkorðsvinna er á mjög skökkum grundvelli eins og nú er". Föstudaginn 4. júní 1926 var haldinn
stofnfundur Rafmagnsvirkjafélags Reykjavíkur í K.F.U.M. húsinu. Fundarstjóri var
kosinn Hallgrímur Bachmann og fundarritari Hafliði Gíslason. Fyrsta mál á dagskrá
var að formaður laganefndar, Ögmundur Sigurðsson, las upp lög félagsins grein fyrir
grein og voru þær allar samþykktar án nokkurra breytinga. Næsti fundur var haldinn á Hótel Heklu þann 25. september 1926. Þar voru rædd samningsdrög sem samin höfðu verið. Einnig kom fram, að rætt hefði verið við rafmagnsstjóra um vinnuréttindi. Hann sagðist mundu taka til greina allar kærur sem væru byggðar á þeim grundvelli, að menn sem ekki hefðu verið full 4 ár við rafmagnsvinnu væru látnir vinna sjálfstætt og eftirlitslaust að raflögnum í húsum. Einnig hafði verið rætt við Gísla Guðmundsson gerlafræðing, formann nefndar sem vann að undirbúningi iðnlöggjafar fyrir næsta Alþingi. Hann tók málaleitan formanns félagsins vingjarnlega. Fram kom í umræðunni í fundarlok að verið væri að leita að húsnæði fyrir félagið. Nafn félagsins breyttist fljótlega í
Rafvirkjafélag Reykjavíkur. Á þessum árum var stéttin nefnd jöfnum höndum
rafmagnsvirkjar, rafvirkjar og raflagningarmenn. Það kemur ekki fram í fundargerðum
að þessi nafnbreyting sé formlega afgreidd. Í fyrsta kjarasamningnum í maí 1927 kom
fram að hann var gerður í nafni Rafvirkjafélags Reykjavíkur. Þetta nafn birtist
fyrst í fundargerðarbókum á aðalfundi 1928. STOFNENDUR RVR (Efnisyfirlit) HALLGRÍMUR
JÓN BACHMANN (Efnisyfirlit) Árið 1916 flutti Hallgrímur að heiman til Reykjavíkur og hóf nám í rafvirkjun hjá dönskum meistara að nafni Larsen. Hann fékk borgarabréf (verslunarleyfi) í Reykjavík 14. maí 1920. Að loknu námi réðst hann til Paal Smith þar sem hann starfaði í mörg ár , eða þar til hann réðst til Rafmagnseinkasölu ríkisins. Þar starfaði hann til 1940, þá var hann í nokkur ár hjá Raftækjasölunni hf. Hann fékk meistararéttindi 11. júní 1935. Árið 1943 stofnaði hann ásamt öðrum fyrirtækið Rafljós hf. Það fyrirtæki var innflutnings- og heildsölufyrirtæki fyrir raftækja- og leiksviðsbúnað. Hallgrímur vann við þetta fyrirtæki þar til skömmu fyrir andlát sitt. Árið 1921 hóf hann störf sem ljósameistari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og starfaði þar til 1950, þegar hann réðst til Þjóðleikhússins. Hann gerðist félagi í Leikfélagi Reykjavíkur 1935, var gjaldkeri þess 1936-1943 og varagjaldkeri til ársins 1950. Hann gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum hjá Leikfélaginu og lék þar nokkur minni háttar hlutverk. Hallgrímur var hjá Þjóðleikhúsinu til 1965 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Hann sinnti starfi sínu sem ljósameistari af mikilli alúð og naut mikillar virðingar í því starfi. Hallgrímur var sjálfmenntaður, m.a. í
tungumálum og fór oft utan, aðallega til Norðurlanda, Þýskalands og síðar til
Englands, til þess að kynna sér það nýjasta sem þekktist í ljósabúnaði
leikhúsa. Hallgrímur starfaði um árabil innan Góðtemplarareglunnar. Þessi ár voru róstusöm hjá félaginu. Félagsmenn áttu í deilum við aðra iðnaðarmenn um hverjir ættu að vinna við raflagnir. Smiðir og aðrir sem sáu um að reisa húsin töldu að rafvirkjar væru algjörlega óþarfir. Hver sem væri gæti auðveldlega lagt rafmagnið um leið og þeir reistu húsin og gerðu það reyndar í mörgum tilfellum. Þá var oft um alverktöku að ræða. Einn og sami maðurinn gróf fyrir húsinu, reisti það, lagði allar lagnir og smíðaði einnig innréttingarnar. Töluvert var um að ófaglærðir "fúskarar" væru notaðir til raflagnastarfa. Meistarar vildu hafa óbundnar hendur um fjölda nema og víða var lítið lagt upp úr að kenna nemum ýmis grundvallaratriði sem nauðsynlegt var talið að þeir lærðu. En þetta skýrðist mikið árið 1926 með lögum um iðju og iðnað. Á árunum þar á eftir var unnið brautryðjendastarf við mótun félaganna, auk þess sem verið var að vinna að gerð fyrstu kjarasamninga og bættri stöðu iðnnema. Á 25 ára afmæli félagsins var Hallgrímur gerður að fyrsta heiðursfélaga þess og á 30 ára afmælinu er honum afhent fyrsta gullmerki félagsins ásamt öðrum stofnendum sem enn voru í félaginu. Hallgrímur Bachmann lést 1. desember árið 1969. RÉTTINDI
FÉLAGSMANNA (Efnisyfirlit) Á þessum aðalfundi var samþykkt
"að þeir félagsmenn sem hafa verið atvinnulausir einn mánuð eða lengur eigi
ekki að greiða félagsgjald". Þessi samþykkt hefur alla tíð verið virt í
samtökum rafiðnaðarmanna. Því miður virðist það vera svo að hún hafi ekki náð
fram að ganga hjá öllum stéttarfélögunum innan verkalýðshreyfingarinnar. Á þessum árum byrjuðu allir fundir á því að inngöngubeiðnir voru bornar upp til samþykktar. Inngöngubeiðninni þurftu að fylgja meðmæli tveggja félagsmanna og staðfesting á því að viðkomandi hefði starfað sem rafvirki í 4 ár og síðar lokið sveinsprófi. Einnig þurfti að samþykkja á fundi, vildu menn komast úr félaginu. Félagið kom mjög fljótt á því fyrirkomulagi að samþykkja þyrfti hvern þann nema sem meistarar tóku í læri. Með þessu fyrirkomulagi og svo samningsákvæðum við meistarafélagið um forgangsrétt til vinnunnar, var haldið mjög ákveðið um hverjir fengju að vinna við rafvirkjun í Reykjavík og þess gætt, að fjölgun yrði ekki of mikil. Þetta var í raun sama fyrirkomulag og var á meðal iðnaðarmanna strax í upphafi iðngildanna á miðöldum og lýst er hér að framan í kaflanum um Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Nokkuð var um að Danir og Norðmenn
væru hér við vinnu í rafvirkjun. Þeir virtust koma hingað án þess að hafa
atvinnuleyfi og voru þyrnir í augum íslensku rafvirkjanna. Samþykkt eftirfarandi
ályktunar á félagsfundi lýsir viðhorfum manna vel: "Fundurinn samþykkir að
skora á stjórn félagsins að gera ítarlegar og áhrifamiklar ráðstafanir til að
hverjum þeirra útlendinga sem hér vinnur að rafmagnsstarfsemi verði bolað frá
atvinnu og landvistarleyfi þeirra, ef slík eru til, verði stytt svo mikið sem hægt er". Á aðalfundi árið 1934 var lesið upp bréf frá Rafmagnseftirliti ríkisins þar sem farið var fram á að félagið heimili 18 mönnum utan af landi að vinna við rafmagnsiðn í 6-12 mánuði, til þess að geta fengið ríkislöggildingu. Urðu miklar umræður um þetta. Var talið að þessir menn hlytu að vera mjög lélegir fagmenn úr því að Rafmagnseftirlitið treysti sér ekki til þess að löggilda þá. Samþykkt var að hafna þessu algjörlega á þeim grundvelli : 1. að það muni valda atvinnuleysi 18
rafvirkjasveina í Reykjavík. Á þessum árum, frá 1921 til 1940 voru mjög margar virkjanir reistar víða um landið, eins og kemur fram í kaflanum Brautryðjendur hér framar. Þeir sem að því störfuðu lærðu hver af öðrum og það er víst að þeir hafa lagt raflagnir í húsin, það var hluti verksamningsins um byggingu virkjunarinnar. Rafmagnsstjóri hafði eftirlit með
raflögnum frá árinu 1920. Ári síðar fékk hann sér aðstoðarmann, sá fyrsti var
norskur rafvirkjameistari, Hårseth að nafni. Hann hafði komið hingað árið 1920 til
þess að annast raflagnir fyrir Paal Smith verkfæðing. Haustið 1922 réðist Sigurður
Jakobsson rafvirki til starfa með þeim og sá um mælauppsetningar og eftirlit.
Eftirlitsstarf Hårseths jókst ört og varð hann að fá sér aðstoðarmann. Hann
réði Nikulás Friðriksson, er hafði verið línumaður við uppbyggingu kerfisins.
Áður hafði hann stundað rafvirkjastörf á Eyrarbakka m.a. hjá Halldóri
Guðmundssyni. Nikulás mótaði eftirlitsstarfið og
fór nokkrar ferðir utan til þess að kynna sér hvernig nágrannaþjóðir okkar
stæðu að verki. Hann mótaði eftirlitsdeildina hjá rafmagnsstjóra mest eftir norskri
fyrirmynd. Hann hafði mikinn áhuga á umbótum í frágangi raflagna og tilhögun
þeirra. Hann kom á notkun samsetningardósa í öllum pípulögnum sem var mikil bót á
verklegum frágangi. Hann lét sér mjög annt um grunntengingu og smá saman innleiddi
hann reglubundna skoðun lagna. Í einni utanlandsferðinni undirbjó hann stofnun
Raftækjaverksmiðju Hafnarfjarðar í samvinnu við norsku raftækjaverksmiðjuna Berg
Hansen í Porsgrunn. FÉLAGSSTARF OG HÚSNÆÐISMÁL
(Efnisyfirlit) Það gekk erfiðlega að fá menn til þess að sækja fundi, en mikið var lagt upp úr því að halda a.m.k. einn fund í mánuði. Aðalfundum var oft frestað vegna þess hve fáir mættu. En áhugi stjórnarmanna virðist hafa verið ódrepandi og alltaf tókst að smala saman mönnum á fundi. Viðhorfið virðist hafa verið það, að ef ekki heppnaðist að halda fundi reglulega þá lægi vís dauði fyrir félaginu. Félagslega deyfð bar oft á góma í fundargerðum og hvað væri hægt að gera til þess að eyða henni, t.d. hvort ekki mætti koma á spilakvöldum eða skemmtifundum. Einar Bachmann sagði eitt sinn í umræðu um félagsstarfið, "að heppilegt væri að fá 1 eða 2 menn á fundi með einhver skemmti- eða fróðleiksatriði, sem mættu verða til þess að auka fundarsókn félagsmanna. Það er þreytandi að sitja lengi yfir alvörumálum án þess að hafa sér eitthvað til skapléttis". Það sem oftast kom fram í umræðunni á fundum þegar félagsstarf bar á góma var að koma þyrfti upp safni bóka og tímarita. Einnig var rætt um að félagið þyrfti að eiga lesstofu. Reyndar var þessu stundum mótmælt og því haldið fram að best væri að fá bækur heim, því þar væru á því mestar líkur að menn stunduðu lestur. Einnig kom það fram, "að félagið þyrfti að semja við einhvern raffræðing til þess að taka saman leiðbeiningar í undirstöðuatriðum rafmagnsfræðinnar, menn strönduðu yfirleitt snemma á formúlum við heimalestur í erlendum bókum". Í ársbyrjun 1930 var auglýst eftir
stofu í dagblaðinu Vísi og nokkur tilboð bárust. Eftir að hafa farið yfir tilboðin
þótti aðeins stofa hjá Eimskip koma til greina á 75.00 kr. á mánuði, upphituð.
Mönnum fannst þetta heldur dýrt og var rætt við Rörlagningafélagið um samstarf um
húsnæðið. Félagið tók stofuna á leigu eitt síns liðs og hélt sinn fyrsta fund
þar 2. maí árið 1930. Keyptir voru þrjátíu stólar og tvö borð. Ákveðið var
að efna til frjálsra samskota til þess að létta undir með félagssjóði í
húsgagnakaupunum. FERÐIR
OG SKEMMTANIR (Efnisyfirlit) Haustið 1930 kom fram hugmynd um að
reyna að halda árshátíð til skemmtunar félagsmönnum. Umræður voru um að
eitthvað þyrfti að gera til þess að glæða áhuga manna á félaginu. "Það
væru nægar veitingar þó að menn fengju einungis kaffi". Fram kom, "að
rétt væri að koma þessari skemmtun á sem allra fyrst svo félagsmenn næðu að
kynnast almennilega og við förum sameiginlega upp úr skítnum og skemmtum okkur eins
vel og hægt væri". A) Hótel Hekla: Matur (3 réttir) 4.50
kr. pr. mann og frítt hús til kl. 2.00 og músik til B) Hótel Skjaldbreið: Matur 4.00 kr. pr.
mann. Húsið frítt til kl. 2.00-3.00 og músik til Í heitum umræðum um árshátíðina kom fram að það lægi ekki svo mikið á að halda skemmtunina fyrir hátíðir (fundurinn var 14. desember 1930), það hefði hvort eð er ekki verið haldin skemmtun þau 5 ár sem félagið hefði starfað. Einnig þótti músikin á Hótel Skjaldbreið ófær dansmúsik. Þrátt fyrir þetta var samþykkt á fundinum að fela árshátíðarnefndinni að semja við Hótel Skjaldbreið og sjá um allt er skemmtanahaldið varðaði. Árshátíðin var haldin 3. jan. 1931. Á fundi 13. jan. 1931 kom fram að halli hefði orðið á skemmtuninni upp á 189.00 kr. vegna þess hve illa hún var sótt. Urðu miklar og snarpar umræður um hver ætti að borga hallann. Fram kom tillaga um að greiða hann úr félagssjóði. Sú tillaga var felld og samþykkt að setja nefnd í að kanna betur tekjur og útgjöld skemmtunarinnar. Eftir að farið hafði verið betur yfir
reikningana og innheimtir ógreiddir aðgöngumiðar, kom í ljós að hallinn var
64.00.kr. Enn var gerð athugasemd við hallann og spurt hver hefði séð um
miðasöluna. Hallgrímur Bachmann gaf skýringar og sagði, "að hallinn væri vegna
þess að hann hefði talið að 60 manns myndu mæta. Kvaðst hann gjarnan vilja greiða
hallann úr eigin vasa þar sem hann hefði verið sá glópur að ætla félagsmönnum
meiri áhuga en fyrir fyndist hjá þeim". Á fundinum var samþykkt að félagið
greiddi hallann. Hótelið og kaffi 50.00 Næsta skemmtun var svo 10 ára afmælishátíð félagsins. Í ársbyrjun 1937 var samþykkt að kjósa nefnd til þess að halda 10 ára afmælishátíð. Nefndin skilaði af sér 11. apríl 1937 og þar reyndist hafa verið 20 kr. halli á skemmtuninni. Hallinn var greiddur úr félagssjóði. Á fundi 1. mars árið 1932 var
ákveðið að fara í skemmtiferð að Kolviðarhóli 9. apríl. Kostnaður var 4.00 kr.
fyrir máltíð á Hólnum og bílsætið 4.00 kr. fyrir manninn. Almennt var talið
sjálfsagt að félagssjóður greiddi fyrir hljóðfæraslátt. Að auki var samþykkt
að félagssjóður greiddi fyrir bílfarið. Á næsta fundi, 20. apríl á Hótel Borg
kom fram að erfitt væri að fá menn til þess að greiða fyrir ferðina fyrirfram. JÓNAS
SIGURSTEINN GUÐMUNDSSON (Efnisyfirlit) FÉLAG
RAFVIRKJAMEISTARA Í REYKJAVÍK (Efnisyfirlit) Jón Ormsson var kosinn formaður,
Júlíus Björnsson ritari og Jón Sigurðsson gjaldkeri. Félagsgjald var ákveðið
60.00 kr. á ári en var lækkað í 30.00 kr. ári seinna. Á stofnfundi voru samþykkt
lög þar sem segir að tilgangur félagsins sé að styrkja samstarf félagsmanna og
gæta hagsmuna þeirra í hvívetna, svo og að halda uppi áliti og virðingu
stéttarinnar með samheldni, framtakssemi og bættum vinnuaðferðum. Árið 1932 var Iðnsamband byggingamanna
stofnað, ætlunin var að samtök byggingamanna, bæði sveina og meistara væru innan
þess. Iðnsambandið átti að gegna sáttasemjarahlutverki í deilumálum ásamt því
að vinna að framgangi sameiginlegra hagsmunamála. Iðnsambandið var oft gagnrýnt í
fundargerðum RVR fyrir það að rafvirkjar töldu það alltof hliðhollt sjónarmiðum
meistara. Úrsögn var oft til umræðu og var hún samþykkt í ársbyrjun 1935 en ekki
kemur nægjanlega skýrt fram í fundargerðum hver framvindan varð. FYRSTI
KJARASAMNINGURINN (Efnisyfirlit) Ábyrgðin sem getið er í 6. gr. átti eftir að valda geysilega miklum deilum í félaginu næstu áratugi. Samningur milli Félags löggiltra rafvirkja í Reykjavík og Rafvirkjafélags Reykjavíkur 1. gr. Dagvinnutími telst frá tímabilinu frá 1. mars til 31. ágúst frá kl. 7 árdegis til kl. 6 síðdegis. Á tímabilinu 1. sept. til síðasta dags febr.mánaðar frá kl. 8 árd. til kl. 6 síðd. 2. gr. Aukavinna. Vinna eftir hættutíma (samkv. 1. gr.) til kl. 10 síðdegis greiðist með 50% viðbót á dagvinnulaun. Vinna eftir kl. 10 síðdegis til vinnubyrjunar næsta dag (samkv. 1. gr.) svo og vinna á lögboðnum helgidögum og frídögum, greiðist með 100% álagi á dagvinnulaun. 3. gr. Veikindi. Þeir rafvirkjar, sem ráðnir eru með árs- eða mánaðarkaupi, skulu ekki verða fyrir neinu frádragi af kaupi sínu þótt þeir verði veikir allt að 14 dögum á ári, ef veikindin stafa ekki af óreglu hlutaðeiganda. 4. gr. Sumarleyfi. Hver sá, sem starfað hefur hjá sama meistara í eitt ár, og haft minnst 6 mánaða vinnu, skal fá 6 daga sumarleyfi með fullu kaupi. 5. gr. Kaupgreiðsla. Þeim rafvirkjum, sem vinna gegn tímakaupi. skal greiða vinnulaun vikulega. Þeim, sem vinna gegn mánaðarkaupi, skal greiða kaupið við lok hvers mánaðar, nema öðruvísi sé um samið. Samningsvinna greiðist vikulega í hlutfalli við það sem unnið hefur verið. Öll aukavinna greiðist vikulega. 6. gr. Ábyrgð. Komi í ljós eftir afhendingu verks -innan 6 mánaða- sem unnið er af rafvirkja og nemanda, sem honum -sveininum- hefur verið fenginn til aðstoðar, að verkið sé ekki unnið samkvæmt reglum Rafmagnsveitu Reykjavíkur um raflagnir í Reykjavík, skal Rafvirkjafélag Reykjavíkur þá gera á sinn kostnað nauðsynlegar umbætur á verkinu, svo að það verði í samræmi við áðurnefndar reglur og afhendi það síðan hlutaðeigandi rafvirkjameistara. Gagnkvæmt skuldbinda rafvirkjameistarar sig til að taka ekki í vinnu menn sem standa í óbættum sökum við Rafvirkjafélag Reykjavíkur. 7. gr. Lágmarkskaup skal vera kr. 1.70 um kl.st. í dagvinnu, fyrir þá rafvirkja er unnið hafa hjá löggiltum rafvirkja að raflögnum eða öðru því er að iðninni lýtur í full 4 ár og reynast færir um að leggja í gömlu timburhúsi minnst 4 lampastæði á dag, eða standast það próf er ákveðið kann að verða. 8. gr. Rafvirkjafélag Reykjavíkur skuldbindur sig til að sjá um að félagsmenn vinni ekki að neinni þeirri vinnu er til rafvirkjastarfsemi getur talist, nema í þágu löggiltra rafvirkjameistara. 9. gr. Dagvinna í skipum og vélbátum skal til áðurnefnda rafvirkja greiðast m. kr. 2.00 pr. klst. 10.gr. Mánaðarlaun mega vera 5% lægri
en tímakaupið, séu menn ráðnir til 6 mánaða, en 10% lægri en tímakaupið, séu
menn ráðnir til eins árs. 11. gr. Samningsvinna í gömlum timburhúsum og húsum sem eru í smíðum, greiðist: a. Þar sem algengir utan á liggjandi
rofar og tenglar eru notaðir kr. 0.90 pr. metra í 5/8" pípum. Í a,b og c liðum er átt við
fullgerðar ljósa- og hitagreinar með uppsettum mælum og greiniborðum, séu tréborð
notuð. 12. gr. Verk, sem samkvæmt þessari verðskrá ekki nemur kr. 25.00, getur hvorugur samningsaðili krafist samningsverðs á. Lagnir sem lagðar eru í meir en 5 metra hæð frá gólfi, eða af öðrum ástæðum eru sérstaklega örðugar, greiðast eftir samkomulagi. 13. gr. Rísi deilur út af samningsvinnu eftir samningi þessum skulu þær lagðar í gerð og velur stjórn RVR einn mann, löggiltir rafverktakar annan, en rafmagnsstjóri Reykjavíkur sé oddamaður 14. gr. Fjöldi nemenda og aðstoðarmanna hjá hverjum rafvirkjameistara má ekki vera meira en einn á móti hverjum þeim er uppfyllir skilyrði 7. gr. Rafvirkjameistari skal sjá um að nemandi sé undir handleiðslu æfðs rafvirkja. 15. gr. Nú þarf vinnuveitandi aukinn verkalýð og skal þá stjórn RVR skylt að gjöra sitt til að útvega honum hæfa menn til þeirra verka er fyrir liggja á hverjum tíma.
16. gr. Rafvirkjameistara ber að stuðla að því, að sveinar þeir er hann ræður til sín gangi í RVR og séu þeir ekki í óbættum sökum við félagið. Þetta nær þó ekki til verkstjóra. 17. gr. Rísi ágreiningur út af einhverju atriði í samningi þessum sker gerðardómur V.F.Í. úr. Þeim úrskurði má áfrýja til dómstólanna. 18. gr. Brot á samningi þessum varða frá kr. 50.000 til kr. 300.000 sekt og ákveður gerðardómur V.F.Í. upphæðina í hvert sinn. 19. gr. Samningur þessi gildir um eitt ár frá dagsetningu hans. Reykjavík 1. maí 1927 F.h. Félags löggiltra rafvirkja í Reykjavík F.h. Rafvirkjafélags Reykjavíkur
A - TAXTI I. Innfelld, skrúfuð pípulögn, með alinnfeldum búnaði. a) Einfalt lampastæði er talin lögn
með einfaldri kveikingu, eða tengill, miðað við allt að 6 m pípulengd til jafnaðar
á lampastæði og ekki færri en 8 lampastæði á grein eða í hús. Skal það
fullbúið að lömpum reiknast á kr. 20.00 hvert lampastæði. Í þessu er innifalið:
Stofn, trjesjald og spjaldkassi, vör og annar töflubúnaður. b) Krónustæði reiknast 1,5 einfalt stæði. c) Einir samsnerlar fyrir einum lampa reiknast sem 1 3/4 einfalt lampastæði. d) Einir samsnerlar fyrir tveimur lömpum reiknast sem 2,5 einfalt lampastæði. Séu samsnerlar eða lampar fleiri, reiknast hver loftdós eða rofi með tilheyrandi pípu og þræði, til viðbótar, sem 60% úr einföldu lampastæði. e) Tengill við rofa reiknast 0,5 einfalt stæði. f) Hitagrein, með 1-2 stæðum, reiknast pr. stæði tvö einföld, en 3 stæði og þar yfir reiknast 1,5 stæði, enda sé að minnsta kosti vírinn 2,5 mm, pípuvídd 3/4" og búnaður 15 amp. g) Hringingarlögn. Eitt hringingarstæði reiknast tvöfalt, algengt lampastæði. Sé um að ræða 2-3 hringingarstæði, reiknast þau 1,5 pr. stæði. Sje um fleiri hringingarstæði að ræða, reiknast fyrstu 3 stæðin eins og áður er sagt, en hvert stæði þar fram yfir sem einfalt lampastæði, enda er þá númerakassi meðtalinn. Spennubreytir og ein bjalla fylgir ávallt með í verðinu. h) Þar sem um lengri lagnir er að ræða en 6 m til jafnaðar pr. stæði í ljósa- og hitalögn, en 10 m. í hringingarlögn, skal reikna aukalega kr. 1.00 fyrir hvern m í ljósa- og hringingarlögn, kr. 1.50 pr. m í hitalögn með 3/4" pípu. Í samsnerlum miðast yfirlengd á pípum við fjölda lampadósa. i) Þar sem sótt er spjald í kjallara
fyrir allar hæðir, skal reikna aukalega á grein sem hér segir: j) Spjaldbúnað með gegnumsettum spjaldkassa 40 x 50 cm og ein hurð reiknast aukalega kr. 40.00. Sama stærð, læst beggja vegna, kr. 65.00. Spjaldkassi 60 x 70 cm og ein hurð kr. 60.00. Sami, læstur beggja vegna, kr. 75.00. Sé spjald úr marmara, skal það reiknað aukalega á 0,2 aura hvern fercm. II. Blýstrengslögn, grunntengd, reiknast kr. 27.00 pr. algengt lampastæði, svo hlutfallslega sbr. liðina I a - i og j óbreytt, ef um það er að ræða, nema um vatnsheldan spjaldbúnað sé að ræða. Þá skal reikna hlutfallslega eins og I a - i. III. Utanáliggjandi pípulögn, með utanáliggjandi búnaði, reiknast kr. 16.00 algengt stæði. Síðan hlutfallslega sbr. liðina I a - i og j óbreytt, ef um það er að ræða. IV. Innfelld lögn, með utanáliggjandi eða hálfinnfelldum búnaði, reiknast kr. 18.00 pr. algengt stæði. Síðan hlutfallslega sbr. liðina I a - i og j óbreytt, ef um er að ræða. Taxti þessi er lágmarkstaxti á verðlagi algengra ljósa-, hita-, og hringingarlagna í venjuleg íbúðarhús, búðir, skrifstofur og þ.u.l. Taxti þessi er samþykktur á lögmætum félagsfundi Rafvirkjameistarafélags Reykjavíkur þann 7. september 1933, og gildir þangað til öðruvísi verður ákveðið af lögmætum félagsfundi. 4. KAFLI KJARABARÁTTAN FYRSTU ÁRIN FYRSTI
SAMNINGUR ÓBREYTTUR (Efnisyfirlit) Á framhaldsaðalfundi 12. febrúar árið 1928 las Hallgrímur Bachmann upp frumvarp til reglugerðar fyrir sveinspróf rafmagnsvirkja og óskaði eftir umsögn félagsins. Engar athugasemdir voru gerðar. Á næsta fundi, 25. mars árið 1928, var lögð fram til umsagnar reglugerð um verklegt nám rafmagnsvirkja og verkefni þeirra til sveinsprófs. Samþykkt var að leita til Iðnaðarmannafélagsins um að RVR fengi að segja álit sitt á reglugerðinni, meistarafélagið hafði breytt reglugerðinni án samráðs við RVR. RVR vildi fá fram breytingar á verkefnum til sveinsprófs. Stofnuð var nefnd til að athuga hvort stofna ætti sjúkrasjóð. Niðurstaða nefndarinnar var að félagið væri of fámennt til þess að geta staðið undir slíkum sjóði, félagsmenn vildu ekki greiða hærri félagsgjöld, félagið stæði í stórræðum með leigu á fundarstað og frekar ætti að hvetja félagsmenn til að vera í Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Á fundi 29. apríl 1929 var kynnt álit
meistarafélagsins um að kaup nýsveina eigi að lækka niður í 1.62 kr. og
nýsveinataxti fyrir sveina á 1. og 2. ári í 1.52 kr. og að ákvæðisvinnutaxti
haldist óbreyttur þrátt fyrir að járnkassar væru settir undir töflur og pípur
skrúfaðar saman. Einnig var þess krafist, að kaupið miðist framvegis við
járnsmiðakaup en ekki húsasmiði eins og hingað til, þar sem rafvirkjar sinni
léttari og þokkalegri vinnu sem útheimti ekki eins mikið fataslit og hjá smiðunum. Á aðalfundi árið 1930 var lögð fram sú tillaga frá meistarafélaginu, að sveinar eigi sjálfir sín verkfæri, tösku undir þau og tröppu. Samþykkt var að gera þetta að samningsatriði, en gera þá einnig kröfu um að meistarar ábyrgðust verkfærin á vinnustað og lærlingar fengju sömu verkfæri hjá meistara. Meistarar vildu samanburð við trésmiði, þeir sköffuðu sjálfir sín verkfæri Á það var bent af samningamönnum RVR, að slíkur samanburður væri ekki eðlilegur þar sem trésmiðir gætu notað sín verkfæri sjálfir utan vinnutíma, en það gætu rafvirkjar ekki sakir þess, að samkvæmt gildandi samningi mættu þeir ekkert vinna við iðnina nema fyrir löggilta meistara eða með samþykki þeirra. Það náðist ekkert samkomulag um þessi atriði og samningar héldust óbreyttir áfram. Í samningaviðræðum árið 1932 vildu meistarar lækka ákvæðisvinnutaxtann og tímakaup í skipum í 2.00 kr. Þar kom fram að meistarar sögðu upp samningum. Fram kom að meistarar hefðu staðið slælega við samninginn í öllum tilfellum. Fundurinn vildi takmarka nemafjölda og skylda meistara til þess að greiða félagsgjöld þeirra sem hjá þeim vinna. Á næsta fundi kom fram að nær engin ákvæðisvinna væri unnin á félagssvæðinu. En þá var nær eingöngu unnið í ákvæðisvinnu hjá H.f. Rafmagn og þeir hafi skapað sér taxta sem væri 4.35 til 4.50 kr. pr. lampastæði og frían lærling. Samþykkt var að ófært væri að Rafmagn ynni eftir einkasamningi sem ekki væri samþykktur af félaginu. Samþykkt var að banna félagsmönnum að taka ákvæðisverk þar til tekist hefðu samningar um ákveðið verð fyrir ljósastæði. FYRSTA
VINNUDEILAN (Efnisyfirlit) Á þessum fundum var samþykkt að stefna að því að dagvinna væri frá kl. 8 - 18.00 alla daga nema laugardaga, þá væri hún til kl. 13.00. Einnig komu fram tillögur um að meistarar mættu taka 1 nema á móti hverjum 2 sveinum í fullri vinnu allt árið. Með þessu yrðu nýir nemar ekki fleiri en sem svaraði 4-5 á ári. Einnig var fellt að taka upp samninga um akkorð. Á móti hverjum heilum mánuði sem sveinn ynni hjá meistara skyldi hann fá 1 dag í orlof á fullu kaupi og hafa heimild til að taka alla dagana í einu sem sumarfrí. Samningar náðust ekki og voru þeir eldri framlengdir óbreyttir. Á þessum árum og fram yfir stríð, kostaði það mikla baráttu að fá rafvirkjanema samþykkta í félagið. Nemar utan af landi komu með skjöl undirrituð af heimamönnum þar sem því var lofað að viðkomandi nemi myndi flytjast út á land þegar að námi loknu. Þeir leituðu uppi áhrifamenn í félaginu með þessi skjöl og ef þeir fengu samþykki eða vilyrði fyrir inngöngu var mun auðveldara að komast á samning. Ef ekki var til staðar vilyrði fyrir inngöngu í félagið, var útilokað að nemar kæmust á samning. Einn rafvirkjanema utan af landi sem var vel liðtækur í fótbolta, fullyrðir að þegar hann hefði lofað stjórnarmanni að hann gengi í KR, fékk hann inngöngu í félagið. Mikið var sett upp af vindmyllum með 6-12 volta rafal til ljósa. Lagðir voru annað hvort blýstrengir eða lagðar lagnir á hnöppum. Vatnsþétt efni var brætt í dósir. Efni var aðallega flutt inn af Einkasölunni, einnig af bræðrunum Ormsson og Eiríki Helgasyni. Í skipum voru allar lagnir úr málmi, snittaðar fittingslagnir. Farartæki sem rafvirkjar notuðu voru lang oftast reiðhjól, allt efni var borið á öxlunum eða hengt utan á hjólin. Þegar lagt var af stað í ný verkefni, var kassi með raflagnaefni settur á bögglaberann og búnt af járnrörum sett á öxlina, verkfærin voru hangandi um hálsinn framan á brjóstinu og síðan var hjólað, stundum bæinn á enda. Rafvirkjar sem unnu við að koma fyrir sendum útvarpsins á Rjúpnahæð hjóluðu þangað á hverjum morgni árið 1930 neðan úr miðbæ. Oftast voru þeir með eitthvert efni á bögglaberanum og stundum líka á öxlunum. Reiðhjólið var rafvirkjum og nemum nauðsynlegt og voru þeir oft með kröfur um stuðning vegna útgerðar þeirra í kjarasamningum. Það voru oftast mikil viðbrigði þegar kveikt var á rafljósunum. Myrkrið hafði verið allsráðandi og í torfbæjum var ekki mikið um glugga. Sá leikur var vinsæll hjá rafvirkjum þegar þeir lögðu í sveitabæi, að tengja raflögnina við vindmylluna eða heimavirkjunina án þess að minnast á hvað stæði til og láta svo öll ljósin kvikna allt í einu. Sumum húsmæðrum varð svo mikið um að þær fengu aðsvif eða misstu það sem þær voru með í höndunum í gólfið. Það var oft mikið hlegið og mikil kátína að þessu afstöðnu. Enda var hér um mikinn viðburð að ræða. Hin mikla birta raflýsingarinnar varð húsmæðrum torfbæjanna oft til mikilla vandræða og kinnroða. Birtan kostaði miklar hreingerningar og kröfur á hendur húsbændum þeirra um bættan frágang á veggjum, gólfi og lofti. Veturinn 1934-1935 var unnið að stofnun
Landssambands rafvirkja með rafvirkjameisturum, rafveitustjórum og vélgæslumönnum.
Það kemur ekki fram í gögnum félagsins hvað varð um þetta samband. Fljótlega kom fram áætlun um að stofna
Raftækjaeinkasölu ríkisins. Bæði rafvirkjar og rafvirkjameistarar börðust gegn
þessu af miklum krafti. Á fundi 1. apríl 1935 segir Hallgrímur Bachmann að þetta sé
fyrsta einkasalan sem sett er á stofn er við kemur sérstétt og þar hafi engir komið
að málinu sem hafi til að bera sérþekkingu: "Þetta er slæmt fordæmi og
getur alls ekki svo til gengið. Þetta er hrein móðgun við stéttina, en ef við erum
nógu samtaka fáum við þessu breytt. Ef einhverjir vilja svíkjast undan merkjum
blokkerum við þá". Fyrsta vinnudeila félagsins hófst 27.
júní árið 1936 og stóð til 8. júlí sama ár. Vinnubrögð félagsins í deilunni
voru mjög vel skipulögð, fundir haldnir á hverjum degi og farið var á vinnustaði.
Þá voru í félaginu 73 menn. Höfðu atvinnurekendur sagt upp samningum og neituðu að
undirrita nýja. Var því raunverulega um verkbann af hendi meistarafélagsins að
ræða. Eftir að þessum samningum var náð, færðist nokkur værð yfir kjarabaráttuna um skeið. Þó var á árinu 1937 gerður viðbótarsamningur við FLRR, þar sem ákveðið var að kaup rafvirkja skyldi hækka til samræmis við aukna dýrtíð, samkvæmt vísitölu Hagstofunnar. Varð þetta þannig í framkvæmd, að ef vísitala Hagstofunnar hækkaði eða lækkaði um 5 stig, breyttist kaup félagsmanna til samræmis við það. Þann 15. jan. árið 1941 átti félagið á ný í vinnudeilu við atvinnurekendur, og stóð hún til 22. sama mánaðar, að samningar tókust. Helstu breytingar frá fyrri samningum voru þær, að tímakaup hækkaði í 1.93 kr. á klst. og ákveðið var að greiða sveinum fæði og uppihald, auk ferðakostnaðar þegar unnið var utan Reykjavíkur. Samningurinn var gerður til eins árs, en uppsagnarfresturinn var 3 mánuðir. Haustið 1937 voru Sogstöðvarnar teknar í notkun. Rafmagnsveitur Reykjavíkur höfðu þá töluverða umframorku og gripu til þess ráðs að hefja auglýsingaherferð til þess að fá bæjarbúa til þess að fjárfesta í rafmagnseldavélum. Dagbók Hallgríms Bachmann úr ferðalagi hans Frá byrjun voru undirskriftir stuðningsmanna að kröfum rafvirkja þannig, að útilokað var að telja þær tengdar sértækri stjórnmálastefnu einni frekar en annarri því undir skrifuðu strax stuðningsmenn sjálfstæðismanna, kommúnista, jafnaðarmanna og framsóknar, því öllum virtist ljóst að þarna var um að ræða hverja möguleika í næstu framtíð rafvirkjar hefðu til að lifa af því starfi sem þeir hefðu valið sér sem aðalstarf. Og þeim virtist öllum ljóst að ef raftækjaeinkasalan seldi öllum þeim er reglugerð tilnefndi raflagningaefni og tæki, myndi vinnan, og þá um leið öryggið fyrir að sómasamlega væri frá lögnum gengið, að mjög miklu leyti hverfa úr höndum rafvirkja. Til Vestmannaeyja var komið kl. 1.20
e.m. hinn 11. maí. Til Hornafjarðar var komið kl. 8.25
f.m. hinn 12. maí. Til Fáskrúðsfjarðar var komið kl.
10 e.m. hinn 12. maí. Til Reyðarfjarðar kl. 3 að nóttu
hinn 13. maí. Til Eskifjarðar kl. 6.20 að morgni
hinn 13. maí Til Neskaupstaðar í Norðfirði var
komið kl. 11.30 f.m. hinn 13. maí. Til Seyðisfjarðar var komið kl. 5.30
e.m. hinn 13. maí. Til Húsavíkur var komið kl. 10.35
hinn 15. maí. Til Akureyrar kl. 7.30 hinn 15. maí. Til Siglufjarðar var komið kl. 4.20
e.m. hinn 16. maí. Einangrunarmæli tók ég hjá Jónasi Magnússyni til viðgerðar hjá H.f. Rafmagn. Til Sauðárkróks var komið kl. 10
að kveldi hinn 16. maí. Til Blönduóss var komið kl. 10.10
f.m. hinn 17. maí. Til Hólmavíkur kl. 2 að nóttu hinn
18. maí. Til Ísafjarðar kl. 5 hinn 18. maí. Til Flateyrar kl. 10.30 e.m. hinn 18.
maí. Til Þingeyrar kl. 1.30 hinn 19. maí. Til Bíldudals var komið kl. 4.40 að
nóttu hinn 19. maí. Til Patreksfjarðar var komið kl. 8.50
f.m. hinn 19. maí. Til Stykkishólms var komið kl. 6.30
e.m. hinn 19. maí. Í Reykjavík kl. 10.30 hinn 20. maí. TÍMARIT
RAFVIRKJA (Efnisyfirlit) Flest raforkumál, eða einstakar
framkvæmdir, stórar og smáar, hafa verið framkvæmdar á mjög sérdrægnislegan
hátt, án samvinnu þeirra annarra aðila er rafvirkjastéttin samanstendur af, þ.e.
rafmagnsverkfræðinganna, raffræðinganna, rafvirkjameistaranna og rafvirkjasveinanna.
Þetta hefur gengið svo langt, að menn í hærri embættum innan stéttarinnar hafa
beitt aðstöðu sinni til að ganga algerlega á snið við faglærða menn innan
rafvirkjastéttarinnar tilheyrandi fagvinnu, heldur leitað utan stéttarinnar að mönnum
til þessara starfa. Í þessu landi fossanna, en sem á að
verða land raforkuveranna, verður að skapa vel menntaða og samhuga rafvirkjastétt.
Þarna er mikið verk að vinna. Stéttin er dreifð um byggðir landsins, þessvegna er
henni nauðsynlegt að koma á þeim tengilið, sem tímarit getur orðið. Tímaritið kom út eins og til var ætlast fyrsta árið. Blaðið var myndarlegt og flutti ýmsar fræðandi greinar um félags- og fagtæknileg mál. Ritstjórinn hvarf úr félaginu vegna starfa og útgáfan lagðist af. Árið eftir kom ekkert út en 1941 kom út eitt tölublað. Eftir þetta lagðist öll útgáfa af í mörg ár. Á fundi árið 1948 var ákveðið að reyna aftur. Óskari Hallgrímssyni var falin ritstjórn. Fyrsta blaðið kom út í mars árið 1949 og var ætlunin að reyna að koma blaðinu út þrisvar til fjórum sinnum á ári. Í desember gerðist FLRR aðili að útgáfunni. Þetta blað kom út um skeið en lagðist svo af. GERÐARDÓMSLÖGIN (Efnisyfirlit) Iðnsveinafélögin sem áttu í deilu, héldu með sér fund og mótmæltu gerðardóminum. Jafnframt var skorað á verkalýðsfélögin að sameinast um mótmælaaðgerðir til að hrinda kúgunartilgangi bráðabirgðalaganna. Þann 9. jan. var haldinn fundur í Rafvirkjafélaginu til þess að ræða hið nýja viðhorf sem skapast hafði við setningu gerðardómslaganna. Þar var ákveðið að tilkynna FLRR að félagið ætti ekki lengur í deilu við meistarafélagið og félagsmönnum því frjálst að hefja vinnu að nýju. Slíkt hið sama gerðu prentarar. Engir félagsmenn hófu þó vinnu hjá meisturum. Atvinnurekendur gerðu allt sem unnt var til þess að freista þess að kljúfa samstöðu iðnfélaganna, og tókst það að nokkru, er bókbindarar og járniðnaðarmenn ákváðu að semja og leggja samninginn fyrir hinn lögþvingaða gerðardóm. Með því höfðu þessi félög viðurkennt dóminn. Þóttu nú horfur á sigri í þessari deilu stórum versna. Atvinnurekendur gerðu ítrekaðar
tilraunir til þess að fá félagið til að undirrita svipaða samninga og járnsmiðir
höfðu gert, þar sem slíkum samningi myndi verða tryggður byr í gegnum
gerðardóminn. Þær tilraunir báru þó eigi annan árangur en að treysta samtök
rafvirkja og skerpa andstöðuna gegn hinum lögþvingaða gerðardómi. Meðan á þessu
gekk kvað Félagsdómur upp þann úrskurð að samningsuppsögn RVR væri ólögleg. Samtök rafvirkja reyndust sterk og ekkert
lát varð á baráttuviljanum. Þessi samheldni er fyrir það merkileg, að í félaginu
voru nokkrir menn sem höfðu gerst meðeigendur í sameignarfyrirtækjum, sem þá voru
nýlega stofnuð. Hafa meistararnir eflaust gert sér vonir um að fá einhverja áheyrn
hjá þessum mönnum, öðrum frekar. Vonbrigðin hafa því orðið mikil, þegar einmitt
þessir menn stóðu fast við hlið félaga sinna í RVR. 1. Fundurinn samþykkir að fresta
samningagerð um óákveðinn tíma. Var síðari tillagan birt í útvarpi og blöðum, sem áskorun til félagsmanna um að hefja störf á ný. Þar með var þessari löngu og þýðingarmiklu deilu, - lengstu deilu er rafvirkjastéttin hefur háð til þessa - formlega lokið. Naumast er það þó sannleikanum samkvæmt. Réttara væri að segja að skipt hafi verið um baráttuaðferð. Sú ákvörðun félagsins að vinna samningslaust, en hver og einn réði sig fyrir bestu kjör, var slungnari en ýmsum kann að virðast í fljótu bragði. Með þeirri ákvörðun var raunverulega stigið fyrsta jákvæða skrefið í baráttunni fyrir endurheimt samningsréttarins - afnámi hins lögþvingaða gerðardóms -, fyrsta skrefið í þeirri baráttu er síðar hlaut viðurnefnið "skæruhernaðurinn 1942". Prentarar viðurkenndu aldrei
gerðardóminn, en framlengdu samninga óbreytta. Þegar líða tók á árið bættust
stöðugt fleiri félög í þann hóp, er tók upp baráttu fyrir afnámi
gerðardómsins. Sóknarþungi verkalýðshreyfingarinnar óx stöðugt, og um haustið
hafði verkalýðurinn að fullu brotið af sér fjötra gerðardómslaganna. 5. KAFLI RAFIÐNAÐARNEMAR UPPHAF
IÐNSKÓLANS (Efnisyfirlit) Svo virðist vera, að eini Íslendingurinn sem forframaðist erlendis á 17. öld hafi verið Gísli Magnússon (1621-1696), sýslumaður að Hlíðarenda í Fljótshlíð, oftast kallaður Vísi-Gísli. Hann fór til Kaupmannahafnar árið 1639 og stundaði háskólanám í 2 ár. Gísli fór síðan til Hollands, Englands og Frakklands þar sem hann lagði stund á náttúrufræði og "praktísk vísindi". Fyrst eftir heimkomuna ferðaðist Gísli víða um landið og rannsakaði náttúru þess. Hann gerði tilraunir í jarðrækt og saltpétursvinnslu. Hann lagði mikið kapp á að gera brennistein að útflutningsvöru. Gísli skrifaði konungi bréf um viðreisn efnahagslífs og bætta stjórnarhætti árið 1647. Hann benti á að auka mætti gæði landsins með ræktun, fiskveiðum, fuglaveiðum og vinnslu jarðefna. Hann vildi byggja fátækrahús víðsvegar um landið og sjá þar fátæklingum og flökkurum fyrir kennslu í handmennt. Engu fékk Gísli áorkað nema hann fékk leyfi til brennisteins- og saltvinnslu. Á seinni hluta síðustu aldar kom hagnýtishyggjan fram í Bandaríkjunum, helsti forkólfur stefnunnar var Willian James (1842-1910). Hann sagði m.a.: "Algildur sannleikur sem engin frekari reynsla fær haggað er aðeins fjarlægur draumur. Nú á tímum er eins og raunveruleikinn sé frumeindir eða rafeindir, en menn mega ekki taka það bókstaflega því áður en langt um líður getur þeim sannleika verið kollvarpað. Menn hafa skynsemi til að bera og beita henni sem tæki í lífsbaráttunni. Þessu tæki beita þeir til þess að laga sig að umhverfinu, gera náttúruna sér undirgefna, skapa ný verðmæti, hagnýt gildi." Bandaríkjamaðurinn John Dewey (1859-1952) var í þessum hópi. Hann gat sér einkum orð sem brautryðjandi í uppeldis- og kennslufræðum. Góður er batnandi maður og gildir einu um hversu illa hann hefur hagað sér áður. Snorri Sturluson sagði: "Drengir heita vaskir menn og batnandi". Dewey vildi kenna piltum og stúlkum það sama, hvort heldur var verklegar eða bóklegar greinar. Virkja þyrfti nemendur með áþreifanlegum verkefnum, nám í verki. Skólinn átti að bera keim af rannsóknarstofu. Í þessum hópi var einnig Þjóðverjinn Georg Kerschensteiner (1854-1932). Hann lagði grunninn að verknáminu, en víst þykir að Dewey hafði áhrif á hann. Georg taldi nauðsyn að leggja stóraukna rækt við handavinnu í skólum, slíkt nám hæfði betur þroska barna en glíman við óhlutstæð þekkingaratriði, það reyndist betur þegar út í lífið kæmi. Íslendingar lögðu kapp á að efla
svokallaða æðri menntun á 19. öld. Stofnaðir voru svonefndir embættismannaskólar,
Prestaskólinn 1847, Læknaskólinn 1876 og Lagaskólinn 1908, þessir skólar mynduðu
svo deildir í Háskóla Íslands árið 1911. Á þessum árum voru stofnaðir sérskólar: Kvennaskólar, sá fyrsti í Reykjavík árið 1874, Búnaðarskólar, sá fyrsti í Ólafsdal í Dalasýslu, Stýrimannaskóli í Reykjavík árið 1891 og lög um Vélskóla voru sett 1915. Á þessum árum var Reykjavík að breytast í athafnabæ. Iðnfyrirtæki og iðngreinar spruttu upp. Algengt var að iðnaðarmenn sigldu til náms með styrk frá Alþingi og kæmu til baka með nýjar hugmyndir og nýja tækni. Árið 1890 lifðu 14,7% Reykvíkinga af iðnaði, en árið 1910 var þetta hlutfall komið í 25%. Skipta má upphafi Iðnskólans í þrjú
tímabil: Sunnudagaskóla, teikniskóla og síðan iðnskóla. Sunnudagaskólinn hófst í
nóv. árið 1873 á vegum Iðnaðarmannafélagsins. Upphafsmaður var Sigfús Eymundsson
ljósmyndari, og var hann í fyrstu skólanefndinni ásamt Árna Gíslasyni leturgrafara
og Jónasi Helgasyni organista. Það var lengi áhugamál
Iðnaðarmannafélagsins að fá fullkomna löggjöf um iðnnám og iðnrekstur.
Ráðamenn þjóðarinnar sáu þó ekki nauðsyn þess, en þann 16. desember árið 1893
voru loks samþykkt lög á Alþingi um iðnnám. Með þeim var stigið fyrsta skrefið
til núverandi fyrirkomulags um iðnfræðslu. Fram að þessu hafði námstíminn verið
samkomulagsatriði milli meistara og nema. Meistarinn lét nemann gera sveinsstykki í lok
námstímans. En með tilkomu laganna var fyrst um formlegt sveinspróf að ræða.
Framkvæmd laganna gekk með ýmsu móti. Það tíðkaðist t.d. sjaldnast, að iðnnemar
gengju undir sveinspróf. Það var fyrst ellefu árum síðar, árið 1904 að gefin var
út reglugerð og þá voru sveinsprófsnefndir skipaðar. Var þá algengast að meistari
legði fram sveinsstykki nemans og vottorð tveggja valinkunnra manna úr sömu stétt um
að neminn hefði lokið náminu. Þá var sótt um sveinsbréf hjá viðkomandi fógeta
eða sýslumanni. Síðan sóttu iðnaðarmennirnir um borgarabréf og höfðu þá
öðlast réttindi til þess að stunda iðnina, hafa með höndum eigin rekstur og standa
fyrir vinnu. Í desember árið 1892 var skólamálið vakið upp og rætt um að koma á teiknikennslu. Iðnaðarmenn sem höfðu verið erlendis við framhaldsnám sáu gildi notkunar teikninga við öll iðnaðarstörf. Það var samþykkt að byrja aftur í upphafi árs 1893 og skyldi kenna á sunnudögum kl. 16.00-18.00. Kennslan var ókeypis fyrir félagsmenn Iðnaðarmannafélagsins, en kostaði 2.00 kr. fyrir aðra. Næstu árin voru með svipuðu fyrirkomulagi, kennt var frá áramótum til aprílloka og aðeins var kennd flatar-, fríhendis- og húsateikning. En árið 1898 er byrjað að kenna 1. nóv., þann vetur voru nemendur 30 og kostnaður við skólann kr. 50.00. Haustið eftir var kennslan enn aukin og kennt í 6 tíma á hverjum sunnudegi. Árið 1900 var fyrirkomulaginu breytt, teikning var kennd í 2 tíma, en íslenska, reikningur og danska í 1 tíma á dag hver námsgrein. Einhver hluti kennslunnar var fluttur yfir á kvöldin. Færðist þá verulegt líf í skólann. Krafan um sæmilega undirstöðumenntun alþýðu fór vaxandi og lærlingarnir sjálfir tóku fegins hendi allri þeirri fræðslu sem þeim var boðin. Á fundi 13. nóv. árið 1901 var ákveðið á fundi í Iðnaðarmannafélaginu að gera skólann að kvöldskóla. Kostnaður félagsins af skólahaldinu var orðinn það mikill að ákveðið var að sækja um styrk til Alþingis. Því var vel tekið og veittur var styrkur að upphæð 1000 kr. á ári næstu tvö árin. Í byrjun árs 1903 lauk Jón Þorláksson
(1877-1935) verkfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla. Tók hann þegar að beita
sér fyrir umbótum á iðnfræðslunni. Hann skrifaði Iðnaðarmannafélaginu bréf þar
sem hann lýsti hugmyndum sínum hvernig reka mætti skólann. Í framhaldi af þessu
skrifaði félagið Alþingi bréf og fór fram á 4500 kr. styrk og var bréf Jóns
látið fylgja með umsókninni. Alþingi veitti 4000 kr. styrk, auk 1700 kr. námsstyrks
handa iðnnemum utanlands. Á næsta þingi var styrkurinn hækkaður í 5000 kr. og á
þinginu árið 1909 upp í 6000 kr. á ári. Haustið 1903 kom Jón á fund í
Iðnaðarmannafélaginu og hélt ræðu um hvernig hann teldi að skólahaldið ætti að
vera. Þar var samþykkt að kjósa 3 manna skólanefnd, auk þess átti að skipa
skólastjóra. Landshöfðingi átti að útnefna teiknikennara. Þessir tveir menn áttu
einnig að sitja í skólanefnd. Jón Þorláksson var skipaður fyrsti skólastjórinn í
ársbyrjun 1904. Fastur teiknikennari var skipaður Þórarinn B. Þorláksson málari.
Hann fór utan til þess að kynna sér hvernig þessu starfi væri háttað. Vinnutími var almennt 12 tímar á dag,
nemendur unnu til kl. 19.00 og byrjuðu að vinna 6 að morgni. Síðan mættu þeir kl.
20.00 í skólann. Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu 6. okt. árið 1904 flutti Jón
Þorláksson erindi þar sem hann lagði til að vinnutíminn yrði færður niður í 10
tíma á dag og 8 tíma hjá lærlingum meðan þeir væru í skólanum. Þessu máli var
vel tekið og voru flestir iðnmeistarar búnir að koma þessu vinnufyrirkomulagi á
næsta vetur. Á Akureyri var stofnaður iðnskóli
árið 1905, og síðar spruttu upp iðnskólar víða um landið, flestir mjög smáir í
sniðum. Fræðslulögin voru samþykkt árið 1907. Þessi lög þóttu fljótlega ekki
nægilega góð, en það var ekki fyrr en 25. mars árið 1927 sem lög um iðnaðarnám
voru samþykkt á Alþingi. Þann 12. apríl árið 1927 voru samþykkt á Alþingi lög
um iðju og iðnað. Þar var kveðið á um skilyrði þess að fá meistararéttindi.
Samkvæmt þeim varð meistari að hafa sveinsbréf í iðn sinni og hafa unnið í 3 ár
hjá meistara hið skemmsta að loknu iðnnámi. Meistarar höfðu einkarétt á að taka
nema. Einkaréttur iðnaðarmanna til starfs í iðngrein sinni var lögfestur árið
1936. Fyrir forgöngu Iðnaðarmannafélagsins
var árið 1928 stofnað Iðnráð. Stofnun þess stóð í beinu sambandi við
iðnaðarlöggjöfina árið 1927. Iðnráð var skipað þannig, að í því átti sæti
einn fulltrúi fyrir hverja iðngrein, kosinn af stéttarfélagi sínu. Hallgrímur
Bachmann var kosinn fulltrúi Rafvirkjafélags Reykjavíkur. 1. Að líta eftir því að reglugerð
um iðnaðarnám sé framkvæmd og haldin. Við breyttar þjóðfélagsaðstæður varð heimilisfræðslan sífellt ótraustari og úrtöluraddir um það bruðl og óhóf að koma á barnaskólum ómarkvissari. Árið 1936 var svo skólaskylda frá 7 ára aldri ákveðin. Öll áhersla var lögð á að auðvelda unglingum aðgang að framhaldsnámi og þá yfirleitt menntaskólanámi. Með nýju fræðslulögunum árið 1946 átti að gera verkmenntun hærra undir höfði. Í framkvæmd varð þó bóknámið ofan á. Í stríðslok voru nemendur Iðnskólans í Reykjavík um 1000, en þeim fækkaði í um 600 fáum árum síðar. Árið 1950 samþykkti Alþingi lög um stofnun iðnfræðsluráðs, sem var í fyrstu ætlað að hafa umsjón með því að iðnnemar hlytu nægilega góða verklega þjálfun á vinnustað. Félög iðnmeistara tilnefndu 2 meðlimi ráðsins, sveinafélögin 2, en menntamálaráðuneytið formann. Ráðið fékk heimild til þess að tilnefna iðnfulltrúa um land allt til þess að fara með eftirlitshlutverkið. Ríkisvaldið skipti sér lítið af iðnfræðslunni fyrri hluta aldarinnar. Rekstur iðnskólanna var að mestu leyti í höndum iðnaðarmanna sjálfra eða til 1955, þegar samþykkt var að ríki og sveitarfélög skyldu skipta kostnaðinum með sér. Þá varð Iðnskólinn í Reykjavík dagskóli. EIRÍKUR
KARL EIRÍKSSON (Efnisyfirlit) FYRSTU
KRÖFUR RAFVIRKJANEMA (Efnisyfirlit) Á fundi á Hótel Borg 20. apríl árið
1932 var samþykkt að kjósa 2 lærlinga og einn svein í nefnd til þess að athuga
kjör lærlinga. Kosnir voru Eiríkur Karl Eiríksson, Aðalsteinn Tryggvason og Daníel
Sigurbjörnsson. Á fundinum skilaði nefnd, sem unnið hafði að könnun á kjörum nema, skýrslu. Geysilegur munur var á kjörum þeirra: Nemar á 1. ári frá kr. 70.00 og allt
að kr. 200.00 á mán. Einnig kom í ljós að nemar höfðu
enga uppbót í skipavinnu og þorrinn fékk enga uppbót vegna yfirvinnu, þrátt fyrir
ákvæði iðnlöggjafarinnar um leyfilegan vinnutímafjölda nema. 1. Mánaðarkaup lærlinga í rafiðnaði skal vera á 1. ári kr. 100.00 á mánuði, á 2. ári kr. 130.00, á 3. ári kr. 170.00 og á 4. ári kr. 220.00 á mánuði. 2. Eftirvinna lærlinga skal borgast með kr. 1.00 pr. klst. á 1. ári, kr. 1,25 á 2. ári, kr. 1,50 á 3. ári og kr. 1,75 á 4. ári. 3. Næturvinna borgist með kr. 0,50 á tíma á eftirvinnukaup. 4. Í skipavinnu greiðist lærlingum uppbót sem nemur: á 1. ári kr. 0.15 á klst., á 2. ári kr. 0,20, á 3. ári kr. 0,25 og á 4. ári kr. 0,30. Eftirvinnuuppbót með 25% hækkun. Næturvinnuuppbót með 50% hækkun. 5. Hafi lærlingur reiðhjól við vinnu skal greiða honum kr. 7.00 í leigu á mánuði eða greiða allan kostnað af viðgerðum. Fram kom, að talið væri að erfitt væri að ganga gegn gerðum samningum, en rétt væri að ganga eftir því að bæta kjör nema. Kosin var nefnd til þess að vinna að framgangi þessa máls, 2 sveinar og 2 lærlingar: Eiríkur Karl Eiríksson, Jóhannes Kristjánsson, Aðalsteinn Tryggvason og Þórður Finnbogason. Á fundi á Hótel Borg 18. janúar árið 1933 vakti Júlíus Steingrímsson máls á því fyrir hönd nema í félaginu, að þeir vildu stofna sérdeild innan félagsins. Þessi deild átti að hafa skipulagslegt sjálfstæði, halda sjálfstæða fundi og móta stefnu í málum er vörðuðu nema. Tekið var undir þetta á fundinum, en menn vildu láta undirbúa málið betur. Einn lagðist þó gegn þessu, hann áleit að vegna þess hve mikið hefði áunnist með fækkun nema undanfarið, þá yrði þessi félagsskapur eftir nokkur ár hlægilegur vegna fámennis nemenda. Það mætti auðveldlega skipa nefnd nemenda á fundum til þess að fjalla um þeirra mál. Á fundi 5. apríl árið 1933 á Hótel Borg reis mikil deila um nematakmörkun. Meistarafélagið hafði sent félaginu beiðni um að 14. gr. samningsins um að rafvirkjameistarar skuldbindi sig til að taka enga nemendur á þessu samningsári, yrði annaðhvort felld úr gildi eða breytt. Stjórnir beggja félaganna höfðu komið saman og orðið ásáttar um að mæla með eftirfarandi tillögu: Meistari með 0 sveinn 1 lærlingur Þetta var bundið því að þessi sveinatala væri minnst 6 mánuði á ári. Það kom fram í máli formanns, að meistarar myndu segja upp kjarasamningnum um næstu áramót ef þetta samkomulag yrði ekki gert. Um þetta spunnust miklar umræður. Sumir töldu að með þessu væri gengið alltof langt og vildu halda óbreyttu ástandi, aðrir voru þessu sammála. Formaður tók það fram, að nemar hefðu ekki atkvæðisrétt í þessu máli. Nemar sem voru á fundinum mótmæltu þessu harðlega. Varð nú svo mikil ókyrrð á fundinum að formaður sleit honum. Á næsta fundi var lesinn upp úrskurður Iðnsambandsins um að lærlingar megi engan atkvæðisrétt hafa um samninga á fundum sveinafélaga. Stjórnin fór fram á að mega semja á grundvelli tillagna frá síðasta fundi. Þá kom fram tillaga um að heimila einn lærling pr. meistara. Hún var felld með jöfnum atkvæðum. Sömu leið fór tillaga stjórnarinnar. Þá kom fram að meistarar myndu, samkvæmt 17 gr. samningsins, vísa 14. gr. í gerð. Á þessum fundi kom fram að meistarar fara fram á að gerður verði samningur um ákvæðisvinnu. Það var samþykkt að kjósa 3 manna nefnd til þess að semja um málið. Á fundi í janúar árið 1934 kom fram að meistarar væru farnir að taka lærlinga þvert ofan í gerða samninga. Á fundinum var samþykkt að breyta ekki fyrri fundarsamþykktum um nematakmörkun. STOFNUN
IÐNNEMASAMTAKA (Efnisyfirlit) Hið næsta sem vitað er um samtök iðnnema er að árið 1927 var stofnað Félag prentnema og 1929 Iðnnemafélag á Ísafirði. Þessi félög liðu bæði út af eftir nokkur ár. Eina iðnnemafélagið sem stofnað var á þessum tíma og hefur starfað óslitið síðan er Félag járniðnaðarnema, það var stofnað árið 1927. Árið 1940 voru samþykkt á Alþingi lög, að tilstuðlan Thor Thors þingmanns Snæfellinga, gegn harðri andstöðu verkalýðshreyfingarinnar, þess efnis að iðnnemum skyldi meinaður aðgangur að sveinafélögunum. Með þessu hófst mikil vakning hjá iðnnemum og nokkur félög voru stofnuð, t.d. Félag rafvirkjanema og Félag bifvélavirkjanema. Fljótlega fór að bera á umræðu um stofnun heildarsamtaka, en sú umræða var drepin í dróma með ofstækisfullri andstöðu meistarafélaga og annarra hagsmunaaðila. Mikil munur var á kjörum iðnnema og félögum iðnnemafélaganna, það var ljóst að ekki væri hægt að bæta úr því nema með stofnun heildarsamtaka. Árið 1944 mynduðu þau iðnnemafélög sem þá voru með einhverja starfsemi, undirbúningsnefnd að stofnun heildarsamtaka: Félag rafvirkjanema, Félag járnsmíðanema, Prentnemafélagið, Félag pípulagninganema og síðan bættist við Félag bifvélavirkjanema. Jón Sigurðsson þáverandi framkvæmdastjóri ASÍ, var nefndinni mikil hjálparhella. Þann 23. september árið 1944 var stofnþing haldið í Góðtemplarahúsinu. Í fyrstu stjórn samtakanna voru kosnir: Óskar Hallgrímsson formaður, Sigurður Guðgeirsson varaformaður, Egill Hjörvar ritari, Kristján Guðjónsson meðstjórnandi, Baldvin Halldórsson 1. varam., Ingimar Sigurðsson 2. varam., Ámundi Jóhannsson 3. varam., og Haukur Morthens 4. varam. Í fyrstu var barist fyrir því að fá hækkaða grunnkaupsprósentuna. Kaup iðnnema var ákvarðað sem ákveðið hlutfall af grunnkaupi iðnsveina. Þessi ákvörðun var í höndum iðnfræðsluráðs allt fram til ársins 1966. Árin 1952, 1956 og 1962 tókst að ná fram hækkunum. Með breyttum iðnfræðslulögum árið 1966 breyttist kjarabarátta iðnnema og settar voru fram kröfur um: 1. Hækkun hlutfalls úr 30% í 45% og
10% hækkun milli ára. Leitað var til sveinafélaganna,
því iðnnemar höfðu ekki fengið viðurkenningu á samningsrétti sínum og höfðu
ekki verkfallsrétt. Á þessum árum var mikil atvinna og mikið um yfirborganir hjá
iðnnemum. Þetta gerði þá áhugalitla í kjarabaraáttunni. Eitt af aðalbaráttumálunum í upphafi samtakanna var að fá dagskóla í stað kvöldskólanna. 1945 var hafin tilraun með dagskóla. Hún gafst ákaflega vel, en það var ekki fyrr en 1950 sem lög gerðu ráð fyrir dagskóla. Ríkisvaldið hafði ekki skipt sér af iðnfræðslunni og látið iðnaðarmennina sjá um skólahaldið til þessa. Árið 1955 varð breyting á þessu. Samþykkt voru lög um að ríki og sveitarfélög skiptu með sér kostnaðinum við rekstur iðnskólanna. Iðnskólinn í Reykjavík var þá gerður að dagskóla. Smám saman fóru kvöldskólarnir að týna tölunni og um árið 1970 voru síðustu kvöldskólarnir að hætta. Einnig bar mikið á umræðu um að hagsmunir meistarans réðu of miklu um hvað iðnneminn var látinn læra. Oft væri það svo, að iðnneminn stæði við sveinspróf með mjög takmarkaða sérþekkingu í sinni starfsgrein. Frægur er viku vinnuseðill lærlings frá árinu 1955, þar stóð: "Unnið við að skafa skít og leita að Hr. Hansen, 48 tímar." Á þessu varð breyting árið 1967 þegar samþykkt voru lög sem heimiluðu verknámsskóla. Iðnskólinn í Reykjavík opnaði fljótlega verknámsdeildir og árið 1974 var Fjölbrautarskólinn í Breiðholti stofnaður og fleiri verknámsdeildir opnaðar. Á þessum árum var áfanganám tekið upp. Það hefur síðan þá haft mikil áhrif á skipulag náms iðnaðarmanna. Iðnnemasamtökin tóku þátt í því með sveinafélögunum, að berjast gegn því að ófaglærðir "fúskarar" fengju að starfa í löggiltum störfum iðngreinanna. Árið 1950 var mikil barátta fyrir þessu og því beint til iðnfræðsluráðs að það hætti að veita ófaglærðum sveins- eða meistarabréf. Árið 1966 fékk Iðnnemasambandið fulltrúa í iðnfræðsluráði og gat þar með farið að hafa bein afskipti af fræðslumálum. Árið 1972 var iðnfræðslulögum breytt á þann veg að iðnnemasamtökunum var tryggður fastur fjárhagsgrundvöllur með því að meistarar voru látnir greiða staðfestingargjald, 1% af árslaunum nema við rafvirkjun, en neminn 1/2% af sömu viðmiðun, sem skyldi renna til Iðnnemasambandsins. Árið 1974 keyptu svo Iðnnemasamtökin kjallaraíbúð að Njálsgötu 59 og tveimur árum síðar var keypt hæð að Skólavörðustíg 19. Fljótlega var ráðinn fastur starfsmaður til sambandsins og komst á yfir starfsemina. 6. KAFLI FÉLAG ÍSLENSKRA RAFVIRKJA (Efnisyfirlit) Það var öflug starfsemi innan R.V.R. á árunum 1937-1941. Margir félagsfundir voru haldnir og árshátíðir reglulega. Á félagsfundum sem haldnir voru á árinu 1942, var mikið rætt um að breyta skipulagi og starfsháttum R.V.R. Miklar breytingar urðu á atvinnuháttum þessarar stéttar, sem og annarra, á þessu tímabili. Ýmsir þeirra er höfðu verið leiðtogar félagsins í hagsmunabaráttunni og í gerðardómsdeilunni, höfðu ýmist gerst atvinnurekendur eða þá meðeigendur í atvinnufyrirtækjum. Hafði þessi þróun miður hollar afleiðingar í för með sér fyrir félagsheildina. Fram að þessu hafði félagið eingöngu verið sveinafélag með starfssvæði í Reykjavík, nemendur voru að vísu teknir inn sem aukafélagar. En nú komu fram raddir um breytingar í þessu efni. Aðallega virtust þó tvö sjónarmið hafa verið uppi. Annars vegar að meistarar gætu verið í félaginu og þá yrði eitt félagi í iðninni, hins vegar að félagið yrði áfram eingöngu launþegafélag, en starfssvæði þess yrði allt landið. Þeir sem fylgdu síðarnefndu hugmyndinni deildu nokkuð um hvort leggja bæri Rafvirkjafélag Reykjavíkur niður og stofna nýtt félag, eða eingöngu að gera breytingu á lögum félagsins í þessa átt. Þeir sem fyrrnefndu skoðuninni fylgdu, bentu á að með þeim hætti opnaðist möguleiki á að ná meisturunum út úr Vinnuveitendafélaginu, en meistarafélagið hafði oft notað VÍ sem skálkaskjól. Hinir bentu hins vegar á þá hættu sem því væri samfara að mynda félag með meisturum, lögðu áherslu á þann styrk sem hlytist af því að rafvirkjasveinar af öllu landinu sameinuðust í eitt félag. Eins og kom fram í kaflanum um ASÍ, gekk R.V.R. í ASÍ á árinu 1942. Inngangan í ASÍ gefur til kynna hvert stefndi. Sumir félagsmanna töldu það vera fyrir neðan virðingu félagsins að sækja um inngöngu þegar litið var til niðurlægjandi meðferðar ASÍ manna á fyrri umsókn R.V.R. Aðrir voru þeirrar skoðunar að það væri félagsleg skylda rafvirkja að sameinast með öðrum í að gera ASÍ að heildarsamtökum allra launamanna í landinu. Viðbrögð ASÍ forystunnar voru nú með þeim hætti, að inngangan var strax tekin fyrir og samþykkt. Á aðalfundi árið 1943 var lagt fram frumvarp að nýjum lögum fyrir félagið. Var þar gert ráð fyrir að félagið yrði einungis launþegasamtök, starfsvæði þess fært út og yrði allt landið. Á framhaldsaðalfundi sama ár var þetta lagafrumvarp samþykkt og nafni félagsins breytt í Félag íslenskra rafvirkja. Á þessum fundi var sjúkra- og ellitryggingasjóður félagsins stofnaður, hverjum félagsmanni var gert skylt að greiða 2 krónur á viku í þessa sjóði, einnig átti hluti af tekjum félagsins að renna í sjóðina. Í nýju lögunum sagði m.a.: "Félagið heitir Félag íslenskra rafvirkja, skammstafað F.Í.R. Stjórnin hefur aðsetur í Reykjavík, en starfssvið félagsins er allt landið". "Tilgangur félagsins er að ákveða kaup og kjör meðlima sinna og vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna. Vinna að auknu samstarfi rafvirkja um land allt og auka framfarir í iðninni". Á þessum árum hafði Rafmagnseftirlitið sett fram þá kröfu, að rafvirkjar gengjust undir próf ef þeir ætluðu að gerast meistarar. Þessar kröfur voru ekki gerðar til annarra iðnaðarmanna. Þetta varð tilefni mikilla deilna sem að sumu leyti má segja að standi enn þann dag í dag. Á félagsfundi í desember 1941 var eftirfarandi tillaga samþykkt: "Með tilvísun til hinnar tilefnislausu réttinda- og atvinnuskerðingar, sem rafvirkjar hafa orðið fyrir vegna reglugerðar Rafmagnseftirlits ríkisins, sem og annarrar rangsleitni, sem rafvirkastétt landsins hefur verið beitt í skjóli hennar, samþykkir fundurinn að gera nú þegar ráðstafnir til verndar réttmætum réttindum rafvirkjastéttarinnar og kjósa í því augnamiði 3ja manna nefnd til að undirbúa málið og leggja það fyrir fund R.V.R. sem haldinn sé innan hálfs mánaðar hér frá". Í nefndina voru kosnir Ríkarður Sigmundsson, Haraldur Eggertsson og Jónas Ásgrímsson. Nefndin fór m.a. á fund dómsmálaráðherra. Þann 8. ágúst ritaði dómsmálaráðuneytið bréf til félagsins þar sem fallið var frá prófinu. RAFVIRKJAFÉLAG
AKUREYRAR (Efnisyfirlit) 1. Lesið uppkast að félagslögum og
þau samþykkt með smá athugasemd. Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum.
Fundi slitið. Þetta var fyrsta fundargerð RFA. Félagið starfaði fram yfir stríð, en þá lagðist starfsemin að mestu niður og lá niðri um nokkurt skeið. Helsta verkefni félagsins var kjarasamningar við rafverktaka. Nokkrar tilraunir voru gerðar til þess að koma á annarri félagslegri starfsemi, m.a. var Gústaf Jónassyni falið að koma á gleðinefnd sem annast skyldi undirbúning skemmtanahalds. Í fundargerðum kemur einnig fram að mikið var rætt um það á fyrstu árum félagsins að koma upp félagsheimili. Ekki varð úr framkvæmdum. Upp úr 1949 hefst starfsemi félagsins aftur og er kröftug. Á þessum árum var farið að ræða sameiningu við FÍR og fór Óskar Hallgrímsson norður til viðræðna við RFA-menn. Þessum viðræðum var vel tekið, og samþykkt að ganga til samstarfsins. En það var ekki fyrr en í apríl 1954 sem samþykkt var, að félagið gengi í FÍR sem deild. Í fundargerðarbókum kemur fram að starfið hafi verið gott meðan félagið starfaði innan FÍR. Það er svo 1970 við stofnun RSÍ, að félagið tekur að starfa sem sjálfstætt félag innan sambandsins. NÝIR
SAMNINGAR (Efnisyfirlit) 15. apríl árið 1946 var gerður kjarasamningur á ný við FLRR. Lauk þar fjögurra ára tímabili er félagið hafði verið samningslaust m.a. vegna þátttöku sinnar í baráttunni fyrir afnámi hins lögþvingaða gerðardóms. Með þessum samningi náðust fram ýmsar þýðingarmiklar kjarabætur. Lágmarkskaup var 3.55 kr. og hækkaði um 10% frá síðasta samningi. Dagvinna styttist í 9 tíma 5 daga vikunnar og í 4 tíma á laugardögum. Ákveðinn var skýlaus forgangsréttur félagsmanna til vinnu. Í slysa- og sjúkdómstilfellum, sem orsakaðist af vinnunni, greiddist kaup í allt að 4 vikur, í hverju tilfelli. Uppsagnarfrestur einstaklings var ákveðinn einn mánuður. Samningur þessi var gerður til eins árs og uppsagnarfrestur var einn mánuður. 4. mars árið 1947 var gerður samningur við FLRR. FÍR hafði boðað til vinnustöðvunar en til hennar kom ekki því samningar tókust á síðustu stundu. Með þessum samningum voru gerðar meiri breytingar á kjörum rafvirkja en dæmi eru um áður. Helstu nýmæli voru þau að grunnkaup hækkaði í 3.80 kr. Eftirvinna styttist í 2 klst. úr 4. Vinnuvikan styttist í 48 klst. en varð í raun ekki nema 43 klst. vegna niðurfellingar á kaffitíma. Vinna féll niður á laugardögum yfir sumarmánuðina og teknar voru upp greiðslur vegna veikinda, 12 dagar á ári, en allt slíkt hafði fallið niður þau ár sem taxtinn gilti. Þá var komið á kauptryggingu í þeim tilfellum sem vinna féll niður vegna veðurs, efnisskorts eða annarra orsaka sem rafvirki átti ekki sök á. FLRR sagði upp samningum frá og með 1. mars árið 1948. Settu meistarar fram þær kröfur að stytting vinnuvikunnar með niðurfellingu kaffitíma, frá því árið áður, yrði afnumin, svo og greiðsla veikindadaga o.fl. Þessu var alfarið hafnað af FÍR og boðað jafnframt verkbann hjá félagsmönnum FLRR frá og með 1. mars árið 1948. Það bann stóð til 8. mars en þann dag var nýr samningur undirritaður fyrir milligöngu sáttasemjara, eftir að FLRR hafði fallið frá öðrum kröfum en forgangsrétti meðlima FLRR til rafvirkja til starfa á sínum vegum. En jafnframt skuldbatt FLRR meðlimi sína til þess að láta nemendur ekki vinna í vinnudeilum. SKORTUR
Á VERKFÆRUM (Efnisyfirlit) Á stjórnarfundi 6. september árið 1949 lá fyrir reikningur frá Innkaupasambandi rafvirkja um verð á verkfærum sem félagið hafði pantað frá Bretlandi. Ákveðið var að selja verkfærin á kostnaðarverði, sem var 36.00 kr. settið (5 tengur). Þann 28. desember árið 1949 komu 400 bíttengur til landsins. SKÓGRÆKTARNEFND
STOFNUÐ (Efnisyfirlit) KAUPLÆKKUNARTILRAUN
HRUNDIÐ FYRIR FÉLAGSDÓMI (Efnisyfirlit) Félag íslenskra rafvirkja var eitt af þeim 40 verkalýðsfélögum sem varð við tilmælum ASÍ og samþykkti félagið á fundi þann 28. júlí að segja upp samningum, m.a. við Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík. ASÍ hóf síðan viðræður við ríkisstjórnina um vísitölumálið og lyktaði þeim viðræðum með því að ríkisstjórnin féllst á að leiðrétta vísitöluna nokkuð og gaf út bráðabirgðalög sem hækkuðu vísitöluna um 3 stig. Við þessi málalok beindi ASÍ þeim tilmælum til verkalýðsfélaganna að þau framlengdu samninga sína við atvinnurekendur óbreytta og var það samþykkt á félagsfundi FÍR að framlengja samningana um óákveðinn tíma. Þegar kom til þess að ganga frá framlengingu samninganna neituðu meistararnir með öllu að framlengja þá óbreytta og setti FLRR fram kröfur um breytingar sem jafngiltu því að kaup rafvirkja yrði lækkað um 12,5%! Jafnframt kröfðust meistarar þess að samningum yrði breytt á þann veg, að þeim væri því aðeins skylt að greiða rafvirkjum fullt vikukaup, að vinna væri fyrir hendi hjá meistara. Vöktu þessi viðbrögð FLRR mikla undrun, þar sem allir aðrir vinnuveitendur höfðu orðalaust framlengt samninga við sína viðsemjendur, enda þóttu verkalýðsfélögin hafa sýnt mikinn þegnskap með framlengingu óbreyttra samninga, eins og kjörum var þá háttað, þrátt fyrir nokkra leiðréttingu á vísitölu. Til að skýra hvað FLRR var að fara fram á, er nauðsynlegt að rifja upp hvað samið var um í samningum frá 9. mars árið 1948. Þessi samningsákvæði þýddu það að meistara var skylt að greiða þeim rafvirkjum sem öðlast höfðu uppsagnarfrest, óskert vikukaup án tillits til þess hvort um verkefni var að ræða eða ekki. Hafði þessi framkvæmd verið ágreiningslaus til þessa tíma. Þegar kom fram á árið 1950 fór að gæta verkefnaskorts hjá rafvirkjameisturum, enda fór atvinnuástand almennt versnandi. Nokkur fyrirtæki í iðninni urðu þá uppvís að því að reyna að sniðganga þessi samningsákvæði, með því að greiða aðeins unnar stundir, þegar verkefni voru ekki fyrir hendi, enda þótt menn hefðu öðlast uppsagnarfrest. Þessu var að sjálfsögðu þegar í stað mótmælt af hálfu FÍR og þess krafist að fyrirtækin stæðu við gerða samninga. Eins og áður er getið neitaði FLRR að framlengja samninga óbreytta og setti m.a. fram þá kröfu, að framangreindu samningsákvæði yrði breytt þannig: "Sé vinna fyrir hendi hjá meistara telst vinnuvika 48 stundir". Þessari ákvörðun meistara um breytingar á samningunum hafnaði FÍR alfarið og boðaði jafnframt vinnustöðvun frá 21. september. Sáttasemjari ríkisins tók nú deiluna í sínar hendur og eftir nokkurt þóf féllu meistarar frá kröfum sínum og framlengdu samninga óbreytta. Var nú allt kyrrt að kalla um sinn og bar ekki á frekari tilraunum til samningsbrota. Atvinnuástandið fór þó enn versnandi, og þegar líða tók á árið 1951 tóku meistarar upp fyrri iðju og neituðu að greiða sveinum umsamda kauptryggingu. FÍR var nú orðið langþreytt á stöðugum samningsbrotum og ákvað því að höfða mál á hendur FLRR fyrir Félagsdómi og var það gert með stefnu útgefinni 27. september 1951. Krafðist FÍR þess að dæmt yrði, að "rafvirkjameistara sé skylt að greiða félagsmönnum í Félagi íslenskra rafvirkja er hjá þeim vinna, dagvinnukaup fyrir 48 klst. vinnuviku, ef þeir mæta til vinnu réttstundis og eru ekki ráðnir til ákveðins tíma". Lögmaður Vinnuveitendasambandsins flutti
málið fyrir hönd FLRR. Hann virtist ekki hafa verið of trúaður á að málstaður
meistara stæðist fyrir dómi, því að hann gerði þá varakröfu, að meisturum væri
því aðeins skylt að greiða fulla vinnuviku, að ekki hafi verið samið um annað
milli meistara og sveina, er hlut eiga að máli. Með þessum úrslitum var endanlega hrundið þeirri tilraun til stórfelldrar kjaraskerðingar hjá rafvirkjum, sem FLRR hóf á öndverðu ári 1950, fyrst með beinum kröfum um breytingar á samningum, en þegar þær fengust ekki fram, þá með tilraunum til hreinna samningsbrota. SÖGULEGIR
SAMNINGAR 1952 (Efnisyfirlit) Samningar gengu tiltölulega greiðlega fyrir sig og undirrituðu formenn samninganefndanna samkomulag um breytingar á síðustu samningum þegar að kvöldi 19. desember. Næsta dag var gengið frá samningi í samræmi við samkomulagið og undirrituðu samninganefndir félaganna það. FÍR aflýsti síðan síðan verkfalli og hófst vinna samkvæmt hinum nýja samningi þá þegar. Helstu nýmæli í þessum samningum voru þau, að samið var í fyrsta sinni um fast vikukaup í stað tímakaups, sem áður hafði gilt og orlof var lengt úr 12 dögum í 15 daga á ári. Grunnvikukaup var 576 kr. Með þessum samningum höfðu rafvirkjar náð fram umtalsverðum kjarabótum umfram aðra og ríkti almenn ánægja með árangurinn. Öðru máli gegndi í höfuðstöðvum
atvinnurekenda. Þegar herrunum hjá VSÍ varð ljóst, hvaða samningar höfðu tekist
milli FÍR og FLRR voru meistararnir teknir á hvalbeinið og þeim lesinn pistillinn og
skipað að rifta gerðum samningum. Forsvarsmenn FLRR þrjóskuðust þó við í fyrstu
og töldu einsýnt að þeir yrðu að standa við gerða hluti, enda hefðu þeir haft
umboð frá félagi sínu til samningsgerðar. Stóð nú í stappi milli FLRR og VSÍ í
10 daga, rafvirkjar unnu samkvæmt hinum nýju samningum eins og ekkert hefði í skorist. Á fjölmennum félagsfundi í FÍR sem
haldinn var þennan sama dag, var einróma samþykkt eftirfarandi tillaga: Í janúarmánuði árið 1953 fóru fram
nokkur viðtöl milli stjórna FÍR og FLRR, m.a. fyrir milligöngu sáttanefndar þeirrar
sem starfaði í deilunni 1.-19. desember árið 1952. Þessar viðræður beindust að
því að leita leiða til þess að skera stjórn FLRR niður úr snöru VSÍ. Leit svo
út um tíma að stjórn FLRR ætlaði að hrista af sér ok VSÍ og standa við gerða
samninga, en þegar á reyndi hafnaði félagsfundur meistara leiðsögn stjórnarinnar. Eins og áður er getið, færði
samningurinn frá 20. desember rafvirkjum nokkru meiri kjarabætur en verkalýðsfélögin
fengu almennt í desembersamningunum og af þessum ástæðum reyndi VSÍ með öllum
ráðum að fá samningnum rift. Beitti VSÍ því einkum fyrir sig, að samkvæmt
samþykktum þess væri FLRR óheimilt að gera skuldbindandi samninga nema með samþykki
VSÍ. Þessi rök taldi FÍR markleysu eina gagnvart sér, samninganefndirnar hefðu hvor
um sig haft fullt umboð sinna félaga til samningsgerðar og þeir verið undirritaðir
fyrirvaralaust af beggja hálfu. Auk þess var á það bent, að samþykktir VSÍ hefðu
ekkert gildi gagnvart FÍR og gætu á engan hátt haggað gerðum samningi við FLRR. FYRSTI
HEIÐURSFÉLAGINN OG AFHENDING FYRSTU GULLMERKJA
(Efnisyfirlit) FYRSTA
FÉLAGSHEIMILIÐ (Efnisyfirlit) Fyrsti fundur FÍR í hina nýja húsnæði var haldinn 2. júlí árið 1958. Vígsla félagsheimilisins fór fram í ágústmánuði 1958. Þegar ráðist var í bygginguna að Freyjugötu voru félagsmenn FÍR um 100. Á þeim tíma var nánast óþekkt að verkalýðsfélög réðust í að byggja yfir sig, hvað þá jafn fámennt og FÍR. En þetta fordæmi varð til þess að fljótlega fylgdu fleiri í kjölfarið. Á þessum árum tók félagið stórstígum framförum undir öruggri stjórn þáverandi formanns Óskars Hallgrímssonar. Einnig má benda á að Magnús Geirsson síðar formaður félagsins var að koma til starfa á þessum árum, fyrst í hlutastarfi síðar í fullu. Félagið hélt miklar árshátíðir og fyllti stærstu veitingahús bæjarins. Einnig voru haldin skemmti- og spilakvöld í nýja félagsheimilinu. Á þessum stóru skemmtunum komu fram ýmiskonar söng- og skemmtihópar. Hagyrðingar voru fengnir til þess að setja saman margra söngtexta. Hér er einn sem var sunginn í fimmtíu ára afmæli félagsins, eins og kemur fram í textanum: (Lag: Úr fimmtíu centa glasinu) Svo skapaði hann manninn, og skepnan
reyndist góð, Og fólkið tók að kvarta og fannst
það nokkuð hart Svo komust menn á lagið með kertaljós
og slíkt En margir voru alltaf, er sögðu: Meira
ljós En rafvirkja þarf góða er
rafmagnsnotkun vex Og náttúrulega urðu svo nýir sveinar
til Nú yrkingum lýkur, því andans kraftur
þverr BYGGING
FYRSTU ORLOFSHÚSANNA (Efnisyfirlit) Í fyrsta áfanga voru byggð 22 orlofshús og sumarið 1965 voru þau hús leigð til fyrstu dvalar. Síðar voru 14 hús byggð til viðbótar, svo nú eru húsin 36 auk kjarnahússins og húsanna sunnan þess. Á aðalfundi árið 1964 var lesið upp bréf frá ASÍ þar sem orlofshúsin í Ölfusborgum voru boðin föl. Á aðalfundinum var samþykkt að heimila stjórn félagsins að festa kaup á allt að 3 húsum og greiðsla kæmi úr fasteignasjóði. Árið 1965 voru félagsmenn 447. RAFIÐNAÐARSAMBAND ÍSLANDS STOFNAÐ (Efnisyfirlit) Dagana 28. og 29. nóvember 1970, var svo haldið fyrsta þing Rafiðnaðarsambands Íslands. Þar voru Þorsteinn Sveinsson, Reykjavík og Albert K. Sanders, Njarðvík þingforsetar. Ritarar voru Bjarni Sigfússon Reykjavík og Sævar Sigtýsson Akureyri. Fyrir þingið voru lagðar reglugerðir fyrir lífeyrissjóð, styrktarsjóð og orlofsheimilasjóð rafiðnaðarmanna. Fjórar nefndir störfuðu: Kjara- og atvinnumálanefnd, mennta- og iðnaðarnefnd, fjárhagsnefnd og kjörnefnd. Í stjórn RSÍ voru kjörnir: Óskar K.
Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Ólafur Þorsteinsson ritari, Gunnar
Bachmann gjaldkeri. Meðstjórnendur: Jóhannes Bjarni Jónsson, Engilbert Þórarinsson
og Albert K. Sanders. Töluverð breyting verður á starfsemi
FÍR við stofnun RSÍ. Félagið hafði starfað sem landsfélag frá stofnun þess, og
frá 1954 hafði RFA starfað sem deild innan FÍR. Nú varð RFA að sjálfstæðu
félagi, stofnuð voru ný félög rafvirkja á Suðurlandi, Vestmannaeyjum og á
Suðurnesjum. Einnig voru innan RSÍ félög útvarpsvirkja, skriftvélavirkja og
línumanna. Ætlunin var að stofna félög á Vestur- og Austurlandi, en úr því varð
ekki. Það kostaði Óskar mikil átök að fá það samþykkt innan FÍR að láta RSÍ eftir sterka sjóði og fasteignir FÍR. FÍR var orðið gamalt og gróið félag og átti fasteigna-, verkfalls-, styrktar- og orlofssjóði. Hin félögin voru tiltöluleg ung og fámenn félög og áttu litlar sem engar eignir. En framsýni Óskars hefur reynst rafiðnaðarmönnum ákaflega happadrjúg og eru hin landssamböndin sum hver að breyta skipulagi sínu í svipað horf og það er innan RSÍ. FYRSTA
NÁMSKEIÐIÐ OG STARFSEMI EFTIRMENNTUNARNEFNDANNA
(Efnisyfirlit) Félagsmenn voru mjög óánægðir með rafmagnsfræði- og teiknikennsluna í Iðnskólanum og rætt var um hvort ekki mætti að einhverju leyti nýta rafmagnsfræðikennsluna sem var í Vélskólanum. En úr því varð ekki. Á fundi í október árið 1936 var sett nefnd í að athuga hvort ekki væri hægt að koma á fót námskeiði, það væru nægir kraftar innan félagsins til þess að kenna þar. Það kemur ekki fram hvort varð af þessu námskeiði. Á fundi 26. október árið 1948 var skýrt frá því, að samið hefði verið við Magnús Magnússon rafmagnsverkfræðing um að hann tæki að sér að standa fyrir framhaldsnámskeiði fyrir rafvirkja. Magnús óskaði eftir tillögum um innihald námskeiðsins. Námskeiðið átti að hefjast 10. nóv. í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og námskeiðsgjald að vera 75 kr. Á fundi 17. nóvember árið 1948 var rætt um að fá menn til þess að flytja fyrirlestra um eftirfarandi efni: 1. Hagnýting jarðhitans til virkjunar. 2. Um olíukyndingar. 3. Um eftirlit með raflögnum. 4. Hitun húsa með rafmagni. 5. Ljósfræði. 6. Um Neon og flúorsent lýsingu. 7. Deyfing á radíótruflunum. 8. Vatnsaflsfræði. Á fundi 12. jan. 1949 var rætt um að fá Jón Bjarnason til þess að flytja fyrirlestur. Á fundi 28. desember var rætt við Pétur Símonarson í Vatnskoti um hvort hann vildi taka að sér að flytja fyrirlestur, rætt var um að fá húsnæði hjá Fiskifélaginu. Á næsta fundi (19. janúar 1950) kom Pétur og skýrði frá því, að hann væri búinn að fá loforð fyrir kennslutækjum, bæði niðri í Fiskifélagshúsi og í Sjómannaskólanum. Talaði Pétur um að hafa námskeiðið 2 tíma tvisvar á viku í 6 vikur. Ákveðið var að greiða honum 70 kr. pr. klst. Þann 26. maí árið 1950 var rætt um að koma á námskeiði í logsuðu í samvinnu við Vélsmiðjuna Héðin. Margskonar námskeið voru haldin á árunum 1955-1970, en mest var þó um svokölluð 10% námskeið, sem samið var um í kjarasamningum. Þessi námskeið voru að hluta til verkleg. Kennd var log- og rafsuða, bílarafmagn, tengingar jarðstrengja og heimilistæki. Námsefni þessara námskeiða var síðan fellt inn í nám rafvirkjanema. Þegar farið var að byggja Búrfellsstöð og álverið í Straumsvík, urðu þeir rafvirkjar sem þar störfuðu sér meðvitaðir að þeir væru að mörgu leyti langt á eftir í þekkingu á rafeindatæknibúnaði. Þær nýjungar sem fylgdu í kjölfar hálfleiðarans og síðar örtölvunnar höfðu geysileg áhrif á þann búnað sem rafiðnaðarmenn unnu við. Þetta varð til þess að notkun teikninga og handbóka varð mun ríkari þáttur í störfum rafvirkja. Fram til þessa hafði lítið verið lagt upp úr lestri og frágangi teikninga hér á landi. Þetta varð til þess að FÍR fór að gefa út tæknirit og fá kennara til þess að halda námskeið í rafeindatækni og stýriteikningalestri. Þessi námskeið voru haldin á kvöldin og um helgar. Þeir sem kenndu á þessum námskeiðum fóru fljótlega að hafa orð á því að þeir þyrftu betri aðstöðu og kennslutæki til þess að ná viðunandi árangri. Upp úr árinu 1970 var farið að huga að því að endursemja námskrár. Fjölbrautaskólar ruddu sér til rúms og verkmenntadeildir voru reistar. Grunndeild málmiðna var sett á laggirnar. Rafiðnaðarmenn voru óánægðir með hversu mikil áhersla var þar lögð á vinnubrögð í málmiðnaði og töldu að tímann mætti nýta betur með því að auka kennslu í undirstöðuatriðum rafmagnsfræðinnar. Fljótlega var grunndeild rafiðna sett á laggirnar. En rafvirkjarnir sem voru úti á vinnumarkaðnum gerðu sífellt harðari kröfur um að þeir fengju tækifæri til þess að endurnýja menntun sína og kröfðust þess að FÍR hefði forgöngu þar um. Eftir að byggingu álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar lauk 1968-1969 var mikið atvinnuleysi meðal byggingariðnaðarmanna. Fóru margir þeirra í atvinnuleit til Norðurlanda. Upp úr 1971 fóru þeir að koma heim aftur og höfðu þá margir þeirra kynnst hvernig eftirmenntunarmál voru skipulögð á Norðurlöndunum. Þessir menn fjölluðu um þau mál á félagsfundum og það var svo í sólstöðusamningunum árið 1974 að rafverktakar og fulltrúar rafvirkja urðu sammála um að standa að stofnun eftirmenntunarnefndar á sama hátt og rafiðnaðarmenn í Danmörku höfðu gert. Í fyrstu eftirmenntunarnefndina voru skipaðir Magnús Geirsson og Gunnar Bachmann af hálfu FÍR og af hálfu rafverktakanna Árni Brynjólfsson og Reynir Ásberg, Guðmundur Gunnarsson var ráðinn starfsmaður nefndarinnar. Þegar að loknum samningunum var haft samband við dönsku eftirmenntunarnefndina og framkvæmdastjóri hennar, Börge Lindberg, kom hingað í ársbyrjun 1975. Þá var gerður samningur um að þeir sendi hingað kennara ásamt kennslutækjum til þess að koma á námskeiðum í segulliðastýringum og síðan rafeindastýringum. Þetta varð að gera vegna þess að þessi kennslutæki voru ekki til í verkmenntaskólunum hér á landi. Sett voru á laggirnar grunnnámskeið þar sem farið var í gegnum grundvallaratriði rafmagnsfræðinnar og rafeindatækninnar. Þessi námskeið voru strax fullbókuð og voru haldin víðsvegar um landið. Það var svo 1. apríl 1975 sem danski kennarinn Arne Nielsen kom hingað með fyrsta segulliðanámskeiðið. Því fylgdi um hálft tonn af kennslutækjum. Þetta námskeið varð langvinsælasta námskeiðið sem eftirmenntunarnefndin hefur haldið. Þegar það námskeið var haldið í fyrsta sinn voru kennslutækin send með einum Fossanna hingað til lands. Daginn eftir að skipið kom átti námskeiðið að hefjast. Arne Nielsen var kominn hingað, en þátttakendurnir komu margir utan af landi til Reykjavíkur. Það vafðist fyrir tollþjónum að afgreiða tollpappírana vegna þess að þeir voru ekki vissir um hvernig ætti að tollflokka þennan nýja búnað, en með miklu harðfylgi tókst að koma pappírunum í gegn og voru þeir þá komnir á skrifborð deildarstjóra í tollstöðinni. Komið hafði leki að skipinu á leið til lands svo það var drifið upp í slipp stuttu eftir komu hingað. Nú voru góð ráð dýr, því fyrir lá að senda kennarann utan aftur og nemendurna heim. Farið var alla leið til æðstu manna hjá Eimskip og síðan með bréf frá þeim til æðstu manna í Slippnum um að kennarinn og nemendur hans mættu fara um borð í skipið þar sem það lá í Slippnum, fara niður í lest og finna til kassana sína. Það var stormað niður Slipp með þátttakendur námskeiðsins og danska kennarann til þess að ná í kennslutækin. Með hjálp kaðla og netatrossu sem fannst á Slippsvæðinu voru kassarnir hífðir með handafli upp úr lestinni og síðan slakað með síðunni niður á jörð og þaðan inn í sendiferðabíl, upp í Iðnskóla og fyrsta verkefni námskeiðsins var að taka upp úr kössunum og koma kennslutækjunum fyrir. Síðan var kennt langt fram á nótt til þess að vinna upp þann tíma sem hafði tapast í umstanginu. Í nóvember árið 1975 kom Arne Nielsen hingað aftur og þá með fyrsta rafeindatækni-námskeiðið. Það var ákveðið að halda eitt námskeið í Reykjavík og síðan annað á Akureyri. Þessar Íslandsferðir urðu Arne mikil ævintýr og varð hann mikill Íslandsvinur, kom hann oft hingað og eyddi m.a. einu sinni sumarleyfi sínu hérna ásamt fjölskyldu sinni. Arne dó langt fyrir aldur fram úr krabbameini og var þar mikill missir fyrir norrænt menntunarstarf rafvirkja. Árið 1974 ákváðu norrænu rafiðnaðarsamböndin ásamt rafverktakasamböndunum að stofna Nordisk El-Utbildings Komité (NEUK). Þessi norræni hópur hélt ráðstefnur á eins og hálfs árs fresti, þess á milli starfaði vinnuhópur að verkefnum sem ráðstefnurnar ákváðu. Unnið var að samræmingu námskeiða og grunnnáms rafvirkja. Árangur varð ekki mikill í því að samræma námið milli landa, en upplýsingastreymið varð mikið milli landa og varð óbeint til þess að nám rafvirkja á Norðurlöndum varð líkara en áður. Einnig sköpuðust í gegnum NEUK tengsl milli skóla og þeirra er að námskrár- og kennslubókagerð unnu. Árin 1975-1978 var eftirmenntunarnefndin rekin með fjárframlagi sem fékkst á fjárlögum í gegnum iðnaðarráðuneytið. Árið 1978 var klippt á fjárveitingar frá hinu opinbera. Þá sömdu rafverktakar og rafvirkjar um að vinnuveitendur myndu greiða 0,75% af útborguðum launum í eftirmenntunarsjóð. Innheimta eftirmenntunargjaldsins gekk frekar illa til að byrja með og félögin, þá sérstaklega FÍR, stóðu undir rekstri eftirmenntunarinnar árin 1978 og 1979. Árið 1980 var eftirmenntunargjaldið síðan hækkað í 1% og stóð þá undir rekstrinum. Starfsemi eftirmenntunarnefndarinnar varð fljótlega svo umfangsmikil, að nefndin varð að kaupa sjálf kennslutækin og hætta að leigja þau frá Danmörku. Verulegur hluti rekstrarfjárins fór í kennslutækjakaup á þessum árum eða allt að 60%. Fyrsta árið voru haldin þrenns konar námskeið, þ.e. Grunnnámskeið, Einlínumyndir og Rafeindatækni I, alls 18 námskeið með 245 þátttakendum. Námskeiðsstaðir voru Selfoss, Keflavík, Reykjavík, Akranes og Akureyri. Næstu árin bættist við eitt nýtt námskeið á ári og námskeiðsstöðum fjölgaði. Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Sauðárkrókur og Egilsstaðir bættust við sem fastir viðkomustaðir, einnig kom fyrir að námskeiðin væru haldin á öðrum stöðum. Árið 1980 var boðið upp á 6 mismunandi námskeið og það ár voru haldin 20 námskeið. Haustið 1985 hófst samstarf við eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja og Rafiðnaðarskólinn var stofnaður. 70 ferm. húsnæði var leigt að Skipholti 7 og námskeiðin í Reykjavík voru haldin þar. Þetta hafði mikil og góð áhrif á starfsemina. Fram að þessu höfðu öll námskeið í Reykjavík verið haldin í Iðnskólanum. Það varð sífellt erfiðara að fá kennslustofur nema þá á kvöldin. Námskeiðssóknin jókst verulega og námskeiðsfjöldi fór upp í 44 með 593 þátttakendum, boðið var upp 10 mismunandi námskeið. Ári seinna var það ljóst að leiguhúsnæðið í Skipholtinu var of lítið. Þá var farið í samstarf við rafverktakasamtökin og ákvæðisvinnustofuna og þriggja hæða verksmiðjuhús í Skipholti 29 keypt. Rafiðnaðarskólinn fékk um 150 ferm., auk þess sem aðgangur var að kaffistofu. Tveim árum síðar voru fest kaup á 530 ferm. hæð í Skeifunni 11B. Það var FÍR sem keypti hæðina og innréttaði hana, leigði síðan Rafiðnaðarskólanum á vægu gjaldi. Í nýja húsinu voru 4 kennslustofur, setustofa og aðstaða fyrir fræðslumynda- og bókasafn, kaffistofa, skrifstofur fyrir kennara og skrifstofa fyrir ákvæðisvinnustofuna. Árið 1992 voru haldin yfir 100 námskeið með rúmlega 1.000 þátttakendum. Boðið var upp á 70 mismunandi námskeið og fastráðinn starfsmannafjöldi 4, auk fjölda annarra lausráðinna kennara. Árið 1993 var svo enn aukið við húsnæðið, helmingur 2. hæðar var keyptur. Þar var innréttaður ráðstefnusalur sem skipta mátti í kennslustofur. Veturinn 1994-1995 var stofnuð bókaútgáfa til þess að halda utan um fjölmargar kennslubækur sem skólinn og samtökin höfðu látið þýða og semja. Starfsemi eftirmenntunarnefndanna hefur alltaf haft mikil áhrif á menntun rafiðnaðarmanna. Þau kennslutæki sem nefndirnar fluttu inn og þær kennslubækur sem þýddar hafa verið á þeirra vegum, var flutt að miklu leyti inn í verknám rafvirkjanna. Á þessum árum voru námskrár rafvirkja endursamdar og hafði eftirmenntunarnefndin mikil áhrif á hvernig þetta starf var unnið. HEIMILDASKRÁ: (Efnisyfirlit) 1926 Hallgrímur Bachmann form., Jón Guðmundsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Hafliði Gíslason vararitari og Sæmundur Runólfsson varagjaldkeri. 1927 Hallgrímur Bachmann form., Jónas Guðmundsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Jóhannes Kristjánsson vararitari og Davíð Árnason varagjaldkeri. 1928 Jónas Guðmundsson form., Hallgrímur Bachmann varaform., Jóhannes Kristjánsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Guðmundur Þorsteinsson vararitari og Davíð Árnason varagjaldk. 1929 Jóhannes Kristjánsson form., Hallgrímur Bachmann varform., Sigurður P.J. Jakobsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Davíð Árnason vararitari og Guðmundur Þorsteinsson varagjaldk. 1930 Hallgrímur Bachmann form., Sigurður Jónsson varaform., Sigurður P.J. Jakobsson ritari, Jóhannes Kristjánsson gjaldk., Dagfinnur Sveinbjörnsson vararitari og Jón Guðmundsson varagjaldk. 1931 Hallgrímur Bachmann form., Sigurður Jónsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Jóhannes Kristjánsson gjaldk., Páll Einarsson aðstoðargj.k. Varamenn Ólafur Jónsson, Magnús Jónsson, Jón Guðmundsson og Sigurður P.J. Jakobsson. 1932 Hallgrímur Bachmann form., Sigurður Jónsson varaform., Sigurður P.J. Jakobsson ritari, Sigurður Gíslason gjaldk., Einar Bjarnason aðstoðargj.k. Varamenn Ólafur Jónsson, Ögmundur Sigurðsson og Magnús Jónsson. 1933 Jón Guðmundsson form., Ólafur Jónsson varaform., Gissur Pálsson ritari, Hallgrímur Bachmann gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. Varamenn Gísli Hannesson, Gissur Erasmusen, Einar Bjarnason og Kári Þórðarson. 1934 Ólafur Jónsson form., Kári Þórðarson varaform., Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Hallgrímur Bachmann gjaldk., Ólafur Guðmundsson aðstoðargj.k. Varamenn Jón Sveinsson, Jóhannes Kristjánsson, Sigurður Magnússon og Sigurður Gíslason. 1935 Kári Þórðarson form., Eiríkur Karl Eiríksson varaform., Jón Sveinsson ritari, Ólafur Jónsson gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. Varamenn Jóhannes Kristjánsson, Einar Bjarnason og Ingolf Abrahamsen. 1936 Kári Þórðarson form., Eiríkur Karl Eiríksson varaform., Jón Sveinsson ritari, Ólafur Jónsson gjaldk., Ríkarður Sigmundsson aðstoðargj.k. Varamenn Þórður Finnbogason, Sigurður Bjarnason og Guðjón Guðmundsson. 1937 Kári Þórðarson form., Jón Sveinsson, Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Ríkarður Sigmundsson gjaldk., Guðjón Guðmundsson aðstoðargj.k. Varamenn Haraldur Jónsson, Þorlákur Jónsson og Ólafur Jónsson. 1938 Guðjón Guðmundsson form., Guðmundur Þorsteinsson varaform., Haraldur Eggertsson ritari, Ríkarður Sigmundsson gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. Varamenn Vilhjálmur Hallgrímsson og Haraldur Lárusson. 1939 Ríkarður Sigmundsson form., Magnús Hannesson varaform., Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Júlíus Steingrímsson gjaldk., Vilhjálmur Hallgrímsson aðstoðargj.k. 1940 Kári Þórðarson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Einar Bjarnason gjaldk., Júlíus Steingrímsson aðstoðargj.k. 1941 Jónas Ásgrímsson form., Sigurður Magnússon varaform., Þorsteinn Guðmundsson ritari, Einar Bjarnason gjaldk., Elías Valgeirsson aðstoðargj.k. 1942 Jónas Ásgrímsson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Adolf Björnsson ritari, Finnur B. Kristjánsson gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. 1943 Jónas Ásgrímsson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Adolf Björnsson ritari, Hjalti Þorvarðarson gjaldk., Finnur B. Kristjánsson aðstoðargj.k. 1944 Jónas Ásgrímsson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Hannes Jónsson ritari, Hjalti Þorvarðarson gjaldk., Finnur B. Kristjánsson aðstoðargj.k. 1945 Hannes Jónsson form., Finnur B. Kristjánsson varaform., Aðalsteinn Tryggvason ritari, Hjalti Þorvarðarson gjaldk., Kjartan Sveinsson aðstoðargj.k. 1946 Hjalti Þorvarðarson form., Siguroddur Magnússon varaform., Árni Brynjólfsson ritari, Eiríkur Þorleifsson gjaldk., Þorsteinn Sveinsson aðstoðargj.k. 1947 Siguroddur Magnússon form., Árni Brynjólfsson varaform., Óskar K. Hallgrímsson ritari, Eiríkur Þorleifsson gjaldk., Kristján Sigurðsson aðstoðargj.k. 1948 Siguroddur Magnússon form., Árni Brynjólfsson varaform., Óskar K. Hallgrímsson ritari, Eiríkur Magnússon gjaldk., Þorsteinn Sveinsson aðstoðargj.k. 1949 Óskar K. Hallgrímsson form., Ingvar Jón Guðjónsson varaform., Kristján Sigurðsson ritari, Gísli Ingibergsson gjaldk., Guðjón Eymundsson aðstoðargj.k. 1950 Óskar K. Hallgrímsson form., Ragnar Stefánsson varaform., Óskar Jensen ritari, Kristján Sigurðsson gjaldk., Guðmundur Jónsson aðstoðargj.k. 1951 Óskar K. Hallgrímsson form., Ragnar Stefánsson varaform., Magnús Kristjánsson ritari, Kristján Sigurðsson gjaldkeri, Guðmundur Jónsson aðstoðargj.k. 1952 Óskar K. Hallgrímsson form., Kristján Sigurðsson varaform., Árni Örnólfsson ritari, Guðmundur Jónsson gjaldkeri, Þorsteinn Sveinsson aðstoðargj.k. 1953 Óskar K. Hallgrímsson form., Þorvaldur Gröndal varaform., Gunnar Guðmundsson ritari, Kristján Benediktsson gjaldkeri, Páll J. Pálsson aðstoðargj.k. 1954 Óskar K. Hallgrímsson form., Þorvaldur Gröndal varaform., Gunnar Guðmundsson ritari, Kristján Sigurðsson gjaldkeri, Guðmundur Jónsson aðstoðargj.k. 1955 Óskar K. Hallgrímsson form., Páll J. Pálsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Jónas Guðlaugsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn. 1956 Óskar K. Hallgrímsson form., Páll J. Pálsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Jónas Guðlaugsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn. 1957 Óskar K. Hallgrímsson form., Páll J. Pálsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristján Benediktsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Auðunn Bergsveinsson varamenn. 1958 Óskar K. Hallgrímsson form., Auðunn Bergsveinsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristinn K. Ólafsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn. 1959 Óskar K. Hallgrímsson form., Auðunn Bergsveinsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristinn K. Ólafsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn. 1960 Óskar Hallgrímsson form., Auðunn Bergsveinsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristinn K. Ólafsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Pétur J. Árnason varamenn. 1961 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Pétur J. Árnason gjaldk., Sigurður Sigurjónsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn. 1962 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Pétur J. Árnason gjaldk., Sigurður Sigurjónsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn. 1963 Óskar K. Hallgrímsson form., Pétur K. Árnason varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn. 1964 Óskar K. Hallgrímsson form., Pétur K. Árnason varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn. 1965 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Kristinn K. Ólafsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Jón Á. Hjörleifsson varamenn. 1966 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Kristinn K. Ólafsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Jón Á. Hjörleifsson varamenn. 1967 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Kristinn K. Ólafsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Jón Á. Hjörleifsson varamenn. 1968 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Bjarni Sigfússon gjaldk., Jón Á. Hjörleifsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Gunnar Bachmann varamenn. 1969 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jón Steinþórsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Jón Á. Hjörleifsson meðstj., Gunnar Bachmann og Úlfar Þorláksson varamenn. 1970 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jón Steinþórsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Jón Á. Hjörleifsson meðstj., Gunnar Bachmann og Úlfar Þorláksson varamenn. 1971 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jón Steinþórsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Gunnar Bachmann meðstj., Lárus Sigurðsson og Ólafur Júníusson varamenn. 1972 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Gunnar Bachmann meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn. 1973 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn. 1974 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn. 1975 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn. 1976 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn. 1977 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Einar S. Bjarnason ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Eyþór Steinsson og Jón Ólafsson yngri varamenn. 1978 Magnús Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Einar S. Bjarnason ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1979 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Einar S. Bjarnason gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1980 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1981 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1982 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1983 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1984 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1985 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1986 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn. 1987 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldk., Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn. 1988 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldk., Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn. 1989 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldk., Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn. 1990 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn. 1991 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Þór Ottesen varamenn 1992 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Þór Ottesen varamenn 1993 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Þór Ottesen varamenn 1994 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Þór Ottesen ritari Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Halldór I. Hansson og Ísleifur Tómasson varamenn. 1995 Haraldur Jónsson form., Guðmundur Gunnarsson varaform., Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Halldór I. Hansson og Ísleifur Tómasson varamenn. 1996 Haraldur Jónsson form., Guðmundur Gunnarsson varaform., Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Halldór I. Hansson og Ísleifur Tómasson varamenn. 1997 Haraldur Jónsson form. Guðmundur Gunarsson varaform. Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Ísleifur Tómasson meðstj. og Stefán Sveinsson meðstj. 1998 Haraldur Jónsson form. Guðmundur Gunarsson varaform. Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Ísleifur Tómasson meðstj. og Stefán Sveinsson meðstj. 1999 Haraldur Jónsson form. Stefán Sveinsson varaform. Jón Þór Kristmannsson ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Sigurður Sigurðsson meðstj., Ísleifur Tómasson meðstj. og Helgi Helgason meðstj. |