Gallup2017Nú fer hver að verða síðastur til að taka þátt í launakönnun RSÍ. Allir félagsmenn sem eru með skráð e-mail hjá okkur fengu póst sendan frá Gallup í upphafi októbermánaðar og hvetjum við ykkur til að nýta tækifærið og taka þátt. Þeir sem ekki eru með skráð e-mail eða með óvirkt e-mail skráð hjá okkur fengu síðan bréf sent í bréfpósti. Könnun verður lokað um miðja næstu viku og því ekki seinna vænna en að drífa í þessu. Nokkrir heppnir þátttakendur fá glaðning sem getur verið helgarleiga í orlofshúsi eða jafnvel gjafabréf sem nýtist upp í greiðslu á flugi erlendis.

Við þökkum ykkur kærlega fyrir að taka þátt og veita okkur mikilvægar upplýsingar sem bæði nýtast öllum félagsmönnum sem og okkur við greiningu á stöðu rafiðnaðarmanna og mótun kröfugerðar á hverjum tíma. #Rafidnadur #Samstada 

rafidnadarsambandidÍ fréttum á undanförnum dögum hefur veirð fjallað um skýrslu Vinnueftirlits ríkisins vegna banaslyss sem varð í Úlfarsárdal í byrjun september fyrir ári síðan. Rafiðnaðarsamband Íslands hefur ekki komið að málinu á neinn hátt nema að skýrslan hefur verið lesin af fulltrúum RSÍ. 

Það sem vekur athygli við lestur skýrslunnar er að svo virðist sem að rannsóknaraðilar hafi ekki rannsakað slysstað með fullnægjandi hætti eða þá að vísvitandi er mikilvægum þáttum sleppt úr við gerð skýrslunnar. Það má vera að þetta sé sökum þekkingarskorts rannsóknaraðila á rafmagnsöryggismálum. 

Það vekur mikla furðu þegar lesning sem þessi vekur upp spurningar fagmanna sem ekki hafa skoðað slysstað en slíkt hlýtur að draga verulega úr gildi skýrslunnar. Við gerum kröfu um að rannsókn mála sé svo vönduð að hún taki af allan vafa í málum en vekji ekki upp fleiri spurningar og efasemdir.

Það verður að segjast eins og er að gagnrýni og ábendingar sem hefur borist frá Veitum eigi við rök að styðjast. Augljóst er að nauðsynlegt er að styrkja starf Vinnueftirlits í þessum málum. Í skýrslunni kemur fram að alvarlegar athugasemdir um öryggi starfsmanna höfðu verið gerðar á byggingastaðnum löngu áður en umrætt slys varð án þess að vinna hafi verið stöðvuð. Þó svo ábendingar tengist ekki aðilum sem um ræðir né slysinu þá er ljóst að með bættum vinnubrögðum á verkstað hefði mögulega verið hægt að takmarka verulega líkur á að slys yrðu. Mestu hættur á byggingastöðum eru væntanlega fallhætta eða að hluti falli á starfsmenn. Athugasemdir sem þessar hefðu átt að stöðva framkvæmdir þar til úrbætur hefðu verið gerðar.

Það er mjög mikilvægt að greining á slysum sem þessum sé svo vel unnin að mögulegt sé að læra af þeim en einnig að koma í veg fyrir að svona hræðileg slys geti endurtekið sig. Fulltrúar RSÍ hafa lýst yfir áhuga á því að haf aðkomu að eftirmálum þessa máls með nánari fræðslu. Öryggisnefnd RSÍ hefur málið til umfjöllunar og mun fylgjast vel með þróun mála og mun leggja til aðgerðir sem æskilegt verður að grípa til svo öryggi félagsmanna verði tryggt. Við lýsum jafnframt yfir vilja til þess að eiga beina aðkomu að málum sem þessum með rýni á faglegum þætti vinnunnar. 

asi rautt

Verðlag hækkaði um 0,14% í september samkvæmt nýrri mælingu á vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Ársverðbólga er nú 1,4% og hefur ekki verið lægri síðan um mitt ár 2016. Húsnæðisverð heldur áfram að leiða hækkun verðlags. Sé húsnæðisliðurinn undanskilin úr vísitölunni lækkar verðlag um 0,21% frá fyrra mánuði og hefur á síðustu 12 mánuðum lækkað um 3,1%. 

VTN 0917 

Mest áhrif til hækkunar á verðlagi milli mánaða hefur hækkun á kostnaði vegna búsetu í eigin húsnæði um 1,2% sem hefur 0,24% áhrif til hækkunar á vísitölunni. Einnig hækkar verð á fötum og skóm um 6% frá því ágúst (0,21% vísitöluáhrif). Þá hækka ýmsir aðrir liðir vísitölunnar ss. greidd húsaleiga, heimilistæki, sjónvörp og heimilissímaþjónusta frá fyrra mánuði og hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. 

Á móti vegur lækkun á dagvörum um 1,3% frá fyrra mánuði (-0,2% vísitöluáhrif), þar af má nefna lækkun á brauði, kjöti, ostum, kartöflum, drykkjarvörum og hreinlætisvörum. Flugfargjöld til útlanda lækka sömuleiðis um tæp 19% milli mánaða ( -0,25% vísitöluáhrif). Þá lækka ýmsir aðrir liðir ss. bensín, lyf og farsímaþjónusta og hafa áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs. 

 

rafidnadarsambandid rautt

Þann 19. september var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem RSÍ rak gegn Fjarskiptum (Vodafone). Málavextir voru þeir að Fjarskipti settu fram bakvaktarskipulag þann 1. september 2004 sem fjallaði um fyrirkomulag bakvakta og greiðslna vegna þeirra. Deilt var um það hvort greiða ætti orlof á bakvaktargreiðsluna en Fjarskipti höfnuðu því og töldu að það nægði að hluti af greiðslunni fyrir þessa vinnu væri orlof, eða sem næmi hálfum frídegi fyrir hverja bakvakt en að hámarki 5 dagar á ári.

RSÍ færði rök fyrir því að svo væri ekki, hálfur orlofsdagur væri hluti af greiðslu fyrir bakvakt og að greiða ætti orlof af heildargreiðslunni.

Dómsniðurstaðan var sú að Fjarskiptum bar að greiða lögbundið orlof ofaná greiðslur fyrir bakvaktir og að umsaminn hálfur orlofsdagur fyrir bakvakt væri hluti af heildarlaunum. Dómurinn taldi að krafan væri ekki fyrnd, en sökum verulegs tómlætis var kröfunni hafnað og Fjarskipti sýknuð.

Ljóst er að Fjarskipti, Vodafone, mun þurfa að gera upp orlof vegna þessarar dómsniðurstöðu við alla þá starfsmenn sem starfa eftir þessu fyrirkomulagi og gefur auga leið að fyrirtækið getur ekki beitt rökum um tómlæti gagnvart núverandi starfsmönnum. Því er ljóst að núverandi starfsmenn Vodafone munu njóta góðs af þessari niðurstöðu.

bordar 1300x400 10

Laugardaginn 23. september voru afhent sveinsbréf í rafvirkjun, rafveituvirkjun og rafeindavirkjun.
Afhendingin fór fram í sal Rafiðnaðarskólans að Stórhöfða 27 eins og undan farin ár.

Myndir frá afhendingu (smella hér)

rafidnadarsambandid2Fulltrúar RSÍ heimsóttu kennara Verkmenntaskólans á Akureyri fyrir skömmu þar sem við nýttum tækifærið og færðum nýjum kennurum á staðnum spjaldtölvur sem þeir nota við kennsluna. Eins og fram hefur komið þá fá nemendur í rafiðngreinum spjaldtölvur afhentar í upphafi annar auk þess sem kennsluefni er aðgengilegt fyrir nemendur og kennara, sem og aðra áhugasama, rafrænt og gjaldfrjálst á www.rafbok.is

Spjaldtölvuverkefnið er samstarfsverkefni RSÍ, SART, Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og Menntasjóðs rafiðnaðarins. Markmiðið er að draga verulega úr kostnaði nemenda við að sækja sér rafiðnaðarmenntun en auk þess að geta boðið upp á besta mögulega námsefni á íslensku.

 Spjald VMA2017 web
 Hér afhendir Kristján Þórður, formaður RSÍ, Óskari Inga, brautarstjóra rafiðngreina VMA, spjaldtölvu

rafbokÍ dag afhentu fulltrúar Rafiðnaðarsambands Íslands og SART nýnemum í rafiðngreinum í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti spjaldtölvur. Spjaldtölvurnar munu nemendurnir nota við námið en samtök rafiðnaðarmanna hafa um langt skeið unnið að gerð námsefnis á rafrænu formi sem nemendur geta notað gjaldfrjálst í gegnum allt námið. 

Gríðarleg ánægja var á meðal nemenda með spjaldtölvurnar og augljóst að þessi gjöf kemur sér virkilega vel fyrir þá. Það er þó ekki síður verðmætt fyrir nemendur að geta notað gjaldfrjálst efni við námið enda oft um mjög mikil útgjöld tengt kennslubókum. Áhugasamir geta fengið aðgang að vefnum inni á www.rafbok.is

Á næstu dögum og viku verður haldið áfram að dreifa spjaldtölvum til nemenda í öðrum skólum á landinu sem rafiðnnám er kennt.

IMG 5459
 Hér afhendir Kristján Þórður, formaður RSÍ, nýnema spjaldtölvu

 

 IMG 5465
 Hér afhendir Ásbjörn, framkvæmdastjóri SART, nýnema spjaldtölvu

 

 IMG 5474
 Flottur hópur en á myndina vantar rúmlega 20 nemendur.

 

rafidnadarsambandid2Í gær fóru fram ræður ýmissa alþingismanna. Það fór heldur betur fyrir brjóstið á mér, og eflaust fleirum, þegar forsætisráðherra setti fram þá fullyrðingu að vinnumarkaðslíkanið væri ónýtt. Þar var vísað til þess sem gerist í nágrannalöndum okkar, aðilar vinnumarkaðar byrjuðu á því að meta svigrúm til launahækkana áður en samið væri. Gefið var í skyn að það væri eina verkefnið sem unnið væri fyrir samningalotuna.

Með þessu gaf hann í skyn að vegna frekju og yfirgangs, þá væntanlega verkalýðsfélaga, væru launahækkanir hér alltof miklar fyrir fólkið. Kröfurnar væru þá væntanlega úr öllu hófi og menn miðuðu ekki við efnahagslega stöðu.

Ekki minntist hann einu orði á ákvarðanir kjararáðs sem er skipað af hinu háa Alþingi. Í kjararáði sitja fulltrúar Alþingis til þess meðal annars að ákvarða hver laun alþingismanna eigi að vera auk annarra hópa sem einnig hafa hagsmunaaðila í ráðinu.

Frá árinu 2013 og til og með árinu 2016 hafa regluleg laun iðnaðarmanna, í nóvember, innan ASÍ hækkað um 22,9% þessu til viðbótar hefur framlag í lífeyrissjóði hækkað. Laun verslunarmanna innan ASÍ hafa hækkað um 24% á sama tímabili. Laun verkamanna hafa hækkað um 30,9%. Laun alþingismanna hafa hækkað um 70,9%.*

Það sér það hver maður sem sjá vill að launafólk á almennum vinnumarkaði hefur ekki verið leiðandi í launaþróun á þessu tímabili. Aðildarfélög innan ASÍ hafa einmitt reynt að ryðja brautina inn á nýjar slóðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika EN þar spila kjarasamningar ekki stærsta hlutverkið. Til að tryggja efnahagslegan stöðugleika þarf líka að tryggja félagslegan stöðugleika, tryggja grunnstoðir samfélagsins svo sem velferðarkerfið, menntakerfið og heilbrigðisþjónustu. Þetta er stóra myndin.

Nú er það svo að kjararáð, í umboði Alþingis, er að setja vinnumarkaðinn á hliðina með gríðarlegum launahækkunum til þessarra háu herra sem síðan kunna sig ekki og skammast í almúganum. 

Miðstjórn RSÍ lagði til á sínum tíma að skipan kjararáðs yrði endurskoðuð og þar yrði fulltrúi launafólks til þess að reyna að tengja ráðið við raunveruleikann.

Ef Alþingi mun ekki fella ákvarðanir kjararáðs úr gildi þá gefur það auga leið að mikil átök verða framundan á næstu árum. Ef menn halda að þetta reddist vegna þess að fólkið verði búið að gleyma þessu þá er það rangt. Misskipting er að aukast svo gríðarlega, stjórnvöld virðast vinna að því að brjóta niður velferðarkerfið og auka gæði þeirra ríku á kostnað þeirra sem minna hafa. Vonlaust er að gera breytingar á kjarasamningamódelinu nema að allt sé tekið með á sama tíma. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

*Samkvæmt tölum hagdeildar ASÍ

golf

Golfmótinu sem halda átti á Hamarsvelli á Dalvík er aflýst vegna dræmrar þátttöku.

rafidnadarskolinn

Þegar hugað er að starfslokum og upphafi töku lífeyris er að mörgu að hyggja. 

Rafiðnaðarskólinn bíður nú upp á námskeið fyrir þá sem farnir eru að velta þessum málum fyrir sér.
 
Á námskeiðinu verður farið yfir hvað tekur við þegar fólk hættir störfum á vinnumarkaði, réttindaávinnslu og töku lífeyris. Einnig verður farið yfir uppbyggingu eftirlauna í almannnatryggingakerfinu, réttindum lífeyrisþega og samspili almanntryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins.
 
Æskilegt er að þátttakendur hafi með sér fartölvu/spjaldtölvu.

Dagsetning     Kennslutími 
11.09.2017   13:00-16:00