Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir t.v. og Kristín Birna Fossdal.  Morgunblaðsmynd: Gunnar Svanberg.

Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir útskrifaðist á dögunum sem rafvirki eftir að hafa lokið námi á methraða. Hún bættist þar með í hóp um fimmtíu kvenna sem öðlast hafa fagréttindi í rafiðngreinum hérlendis. Það sem hins vegar sætir sérstökum tíðindum er að meistari hennar í starfsnáminu er líka kona, Kristín Birna Fossdal. Slíkt hefur ekki gerst áður á Íslandi að því er við hjá Rafiðnaðarsambandinu vitum best. Og það sem meira er: Aníta og Kristín eru nú vinnufélagar hjá Orku náttúrunnar – ON og brosa breitt yfir vinnunni, vinnustaðnum og samverunni!

Morgunblaðið fjallaði í máli og myndum um rafvirkjana okkar tvo sunnudaginn 4. nóvember 2018. Þar kemur fram að Anítu hafi aldrei leitt hugann að því að læra rafvirkjun fyrr en eftir að hafa glímt við bilaðan farsíma sem hún vildi gjarnan geta lagfært sjálf. Skemmst er frá því að segja að hún lærði að gera við símann sinn og miklu, miklu meira til. 

Á vordögum 2019 er stefnan sett á háskólanám í Danmörku til að læra rafmagnstæknifræði. 

Svona geta nú bilaðir símar spunnið slungna örlagavefi.

Haft er eftir Kristínu rafvirkjameistara í Morgunblaðinu að hending hafi líka ráðið því að hún lærði rafvirkjun. Það gerðist eftir starfskynningu í tíunda bekk grunnskóla. Hún tók sveinspróf 2001 og varð rafvirkjameistari 2010.

Aníta:
„Rafmagnið er svo skemmtilegt og fjölbreytt. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvað rafmagnið er stór hluti af okkar lífi. Rafmagnið er hvar sem við erum, allar byggingar, tæknin, skólarnir, bílarnir – allt er háð rafmagni. Þú getur unnið við svo margt. En rafmagn er aldrei einfalt. Maður þarf alltaf að einbeita sér og hugsa um hvað maður er að gera.“

Kristín:
„Ég held kannski að of margar stelpur sjái rafvirkjun fyrir sér sem eitthvert „skítadjobb“ og að þær þurfi að vera á skítugu verkstæði. En þetta er alls ekki þannig. Starfið er mjög fjölbreytt og það hentar konum ekki síður en körlum. Þetta er alls ekki bara karlastarf.“

Morgunblaðsviðtalið við Anítu og Kristínu í heild (smella)

rafidnadarsambandid2Þing ASÍ kallaði eftir skýrum áherslubreytingum í samfélaginu. Við viljum mjög breytt skattkerfi þar sem skattur á þá tekjuhæstu verður hækkaður verulega, skattar þeirra sem eru á lægstu laununum og millitekjum verði lækkaður.

Það er bráðnauðsynlegt að hækka verulega fjármagnstekjuskatt því það er galið að þeir sem eiga fjármagnið þurfi ekki að leggja jafn mikið til samfélagsins. Það er galið að þeir sem greiða lágan tekjuskatt en eiga og lifa á fjármagnstekjum skuli nánast ekki leggja neitt til sveitarfélaga í formi útsvars.

Sanngjarnara skattkerfi á að stuðla að betra samfélagi.

Þegar talað er um skattkerfið er einnig rétt að bæta stöðu barnafólks og þeirra sem greiða háa leigu eða háa vexti. Efling barnabóta sem og endurreisn vaxtabótakerfisins geta verið leiðir til þess að jafna stöðu landsmanna.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

 

Skogarnes123

Fimmtudaginn 1. nóvember 2018 kl 9:00 verður opnað á bókanir orlofshúsa innanlands fyrir tímabilið 4. janúar til loka maí 2019 að undanskildum páskum. Opnað verður fyrir umsóknir um páskatímabil í janúar og sumartímabil í febrúar. Félagsmenn fá sendar nánari upplýsingar í fréttabréfi þegar nær dregur.  

 

 

asi bleikur

Á nýafstöðnu þingi ASÍ var okkar maður, Kristján Þórður Snæbjarnarson kjörinn 2. varaforseti ASÍ. Við erum ánægð með okkar mann,  en hann fékk engin mótframboð og því sjálfkjörinn. Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins var kjörin nýr forseti ASÍ með 65.8% greiddra atkvæða en Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri Afls forsertarstarfsgreinafélags var einnig í framboði. Drífa er fyrsta konan til að gegna embættinu í 102 ára sögu sambandsins. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness var kjörinn 1. varaforseti með 59.8% greidda atkvæða en Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og formaður Landssambands Íslenzkra verslunarmanna var einnig í framboði. 

rafidnadarsambandid2

Mikið er leitað til skrifstofu RSÍ vegna vinnutíma og hvíldartíma. Því er tilvalið að minna á helstu hvíldartímareglur. Reglurnar eru byggðar á Evróputilskipun 2003/88/EB. Sömu reglur er að finna í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og þær er einnig að finna í kjarasamningum. 

Í kjarasamningum eru reglurnar einnig útfærðar nánar og fjallað um hvernig skal fara með brot á reglunum. Allir kjarasamningar innihalda reglur um hvíldartíma og vinnutíma og byggja þeir að mestu á samningi ASÍ og Vinnuveitendasambandsins (forveri Samtaka atvinnulífsins) frá 1996. Tilgangur hvíldartímareglna er að tryggja að starfsmenn nái hvíld til þess að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna. Reglurnar eru því mikilvægar og almennt á ekki að brjóta þær nema nauðsynlegt sé. 

Í almenna kjarasamningi RSÍ og SA er fjallað um lágmarkshvíld í kafla 2.7. Þessi umfjöllun er tekin úr þeim samningi. 

Meginregla um 11 tíma hvíld

Meginreglan er að á hverjum sólarhring, talið frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn 11 klst. samfellda hvíld. Ef það er hægt skal hvíldin vera að næturlagi. Það þýðir að óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 klst. 

Undantekning – 8-13 tíma hvíld

Frá þessari meginreglu eru frávik. 

Á skipulögðum vaktaskiptum er heimilt að stytta hvíldartíma í 8 klst.

Það er einnig heimilt að lengja vinnulotu í allt að 16 klst. Skal starfsmaður þá fá 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni. Ef starfsmaður mætir seinna eða ekki til vinnu vegna þessa heldur hann reglulegum launum á meðan hann hvílist. Ef starfsmaður er beðinn um að mæta til vinnu áður en hann nær 11 klst. hvíld fær hann uppbótarhvíld sem nemur 1,5 klst. fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Sú hvíld skal tekin síðar, en heimilt er að greiða út 0,5 klst. af 1,5 klst. frítökurétti. Sama gildir ef starfsmaðurinn átti frí daginn eftir, þá reiknast frítökuréttur.

Hámarks frítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur mest orðið einn vinnudagur á launum. Frítökurétttur skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum. Ef starfsmaður hættir störfum skal hann fá frítökuréttinn greiddan við starfslok. 

Einnig eru sérreglur um útköll, ef útkalli lýkur fyrir miðnætti má leggja saman hvíld fyrir og eftir miðnætti. Ef útkalli lýkur eftir miðnætti reiknast frítökuréttur miðað við muninn á lengstu hvíld og 11 klst. 

Algjör undantekning – Hvíld undir 8 klst.

Í algjörum undantekningartilvikum, svo sem þegar bjarga þarf verðmætum eða vegna ytri aðstæðna svo sem bilana eða veðurs, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst. Ef það er gert reiknast frítökuréttur líkt og fjallað var um að ofan (1,5 klst. fyrir hverja klst. undir 11 tíma hvíld) og að auki fær starfmaður greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer undir 8 klst. Athugið að reglan um greiðslu klst. í yfirvinnu er ekki í öllum kjarasamningum. 

Að lokum

Starfsmenn Rafiðnaðarsambandsins eru alltaf tilbúnir til að aðstoða við útreikninga vinnutíma, hvíldartíma og frítökuréttar. Hægt er að hringja á skrifstofu RSÍ, senda tölvupóst eða koma í heimsókn. Einnig geta félagsmenn snúið sér til trúnaðarmanns á vinnustað. 

 

 

Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur konur til að leggja niður störf kl: 14:55 í dag og  mæta á samstöðufund á Arnarhóli kl 15:30 undir kjörorðunum: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Í tilefni dagsins er vel við hæfi að hlusta á fagra tóna Kvennakórsins Kötlu (smella hér)

 

 

rafidnadarsambandid2Í dag hefst þing Alþýðusambands Íslands þar sem fjallað verður um fjölda málefna. Meðal veigamestu málefna er umfjöllun um aukinn ójöfnuð á Vesturlöndum og það sama á við um stöðuna hér á landi.

Við sjáum ein skýrustu merki aukins ójöfnuðar þegar kjararáð úrskurðaði alþingismönnum gríðarlegar launahækkanir. Hækkunin nam hundruðum þúsunda króna á mánuði. Fulltrúar RSÍ hafa mótmælt þessum úrskurðum harkalega á undanförnum árum en án þess að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hlusti. Alþingi leiðir með þessu aukinn ójöfnuð á Íslandi.

Skattkerfinu hefur verið breytt á þann veg að skattbyrði þeirra tekjuhæstu hefur minnkað. Mikill fjöldi fólks hefur komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar með því að greiða arðgreiðslur út úr fyrirtækjum sem ber lægri skattprósentu. Þessu þarf að breyta, fjármagnstekjuskattur á að vera til samræmis við hæsta þrep tekjuskattsins enda eiga allir að leggja til samfélagsins. Það er sama hvort um er að ræða venjulegt launafólk eða stóreignafólk sem hingað til hefur lagt hlutfallslega minna af mörkum.

Þing ASÍ mun taka á þessum þáttum og berum við miklar væntingar til þess að starf þingsins verði gæfusamt og stefna ASÍ verði skýr hvað varðar þau málefni sem við ætlum okkur að taka fast á næstu tvö árin.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

kvennafri3

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.55 miðvikdaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Arnarhóli, kl. 15.30, undir kjörorðunum: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 - eftir 29 ár! Eftir því getum við ómögulega beðið. Síðaðstliðið ár hafa frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum undirstikað að brýnt sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Kvennafríið í ár er helgað #MeToo. 

Að fundinum standa samtök kvenna og launafólks. 

Konur víða á landsbyggðinni hyggjast einnig ganga út og safnast saman. Nánari upplýsingar um fundarstaði og Kvennafríið í heild má finna á kvennafri.is

 

 

rafidnadarsambandid2

 

Á föstudaginn í síðustu viku, 12. október, fóru fulltrúar RSÍ, VM, Eflingar og FIT í eftirlitsferð á byggingarvinnustað City Park Hótel við Ármúla. Ábending hafði borist frá félagsmanni í einum af félögunum um að e.t.v. væru aðstæður þar ekki í lagi. Eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna komu á vettvang og sáu strax að ekki var allt með felldu. Ekki var byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi en framkvæmdir samt komnar vel á veg. Aðstæður að öðru leyti voru hörmulegar. 

Vinnueftirlitið var kallað til og byggingarsvæðinu var lokað samdægurs. Í frétt á vef Vinnueftirlitsins kemur fram að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur og veruleg hætta fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Eftirlitsfulltrúar upplýstu starfsmennina um að þeir ættu að halda fullum launum á meðan verkstöðvun stendur yfir og voru þeir hvattir til að leita aðstoðar síns stéttarfélags ef misbrestur yrði á því.

Rafiðnaðarsambandið hefur lagt mikla áherslu á virkt vinnustaðaeftirlit og gott samstarf við opinberar eftirlitsstofnanir. Við tökum við öllum ábendingum um staði til að fara í eftirlitsferðir á, best er að hafa samband við Adam Kára Helgason.

 

asi rauttIlla verðmerkt hjá Nettó

Iceland er dýrasta matvöruverslunin samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var 10. október sl. en í 60% tilfella eða 53 af 89 var Iceland með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið eða í 54 tilfellum af 89 eða 61% tilfella. 

Lélegar verðmerkingar var víða að finna í verslun Nettó í könnuninni eða í 18% tilvika en slíkt kemur í veg fyrir að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun við innkaup. 

Í þriðjungi tilfella var munurinn á hæsta og lægsta verði í könnuninni yfir 60%, í 16% tilfella yfir 90% verðmunur en í 53% tilfella var verðmunurinn yfir 40%. Mestur verðmunur var á hreinlætisvörum, grænmeti og ávöxtum og ýmis konar þurrvörum.

Iceland með hæsta verðið en Bónus það lægsta
Mikill verðmunur var á flestum þeim vörum sem kannaðar voru. Í 8 tilfellum af 89 var yfir 120% verðmunur og í 7 tilfellum yfir 90% verðmunur. Iceland er sem fyrr sú verslun sem oftast er með hæsta verðið eða í 60% tilfella en þar á eftir kemur Hagkaup með hæsta verðið í 21 tilfelli af 89 eða í 23% tilfella. Bónus var oftast með lægsta verðið eða í 53 af 89 tilfellum eða í 61% tilfella en Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 13 tilfellum. 

Lélegar verðmerkingar grafa undan samkeppni
Athygli vekur hversu oft vantaði verðmerkingar í Nettó en samkvæmt lögum ber fyrirtækjum að verðmerkja allar vörur, annaðhvort á vörunni sjálfri eða með hillumerkingu eða skilti við vöruna. Verðmerkingar eru afar mikilvægar til að stuðla að heilbrigðum markaði en nauðsynlegt er að verðmerkja vörur svo að neytandi átti sig á samhenginu milli vöru og verðs. Lélegar verðmerkingar gera neytendum erfitt fyrir að taka upplýsta ákvörðun og grafa þannig undan samkeppni. 

Mestur verðmunur á hreinlætisvörum og þurrvörum 
Mesti verðmunurinn er á hreinlætisvörum en sem dæmi má nefna að 175% verðmunur var á dömubindum en lægst var stykkjaverðið á þeim í Costco á 12 kr. en hæst í Iceland á 34 kr stk. Þá var 118% verðmunur á hæsta og lægsta verði á 50 rykklútum frá Takk, dýrastir voru þeir í Kjörbúðinni Garði á 649 kr. en ódýrastir í Bónus á 298 kr. 

235% verðmunur var á kílóverðinu á Neutral Storvask þvottaefni en hæst var það í Hagkaup, 1332 kr. en lægst í Bónus Árbæ, 398 kr. Mikill verðmunur var einnig á ýmsum þurrvörum en þar má nefna að 90% verðmun á kílóverði á Cheerios, lægst var það í Bónus, 864 kr. en hæst í Iceland, 1643 kr. 

Verðkönnunin í heild sinni (smella hér)

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 89 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Árbæ, Nettó Búðakór, Krónan Lindum, Hagkaup Kringlunni, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaup, Costco og Kjörbúðin Garði. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?