Fréttir frá 2018

03 6. 2018

Auknum kostnaði í heilbrigðisþjónustu velt á sjúklinga

asi rautt

Þann 1. mars sl. hækkuðu stjórnvöld greiðsluþátttökuþak fyrir heilbrigðisþjónustu um 2% og á sama tíma var komugjald á sjúkrahús hækkað um 2,3 til 3,2%. Þessu til viðbótar hefur einingarverð sjálfstætt starfandi sérfræðilækna hækkað um tæp 5% frá því að nýja kerfið tók gildi 1. febrúar 2017. Þessar hækkanir koma í kjölfarið af fréttum um aukna greiðsluþátttöku lífeyrisþega sem nemur um 16% fyrir hópinn í heild og má m.a. rekja til kostnaðar við þjónustu sérfræðilækna. 

Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um „Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu“ er bent á að fullnægjandi greiningu vanti þegar stofnunin gerir samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega er bent á rammasamning við sjúkraþjálfara og sjálfstætt starfandi lækna í þessu samhengi. Í úttekt Ríkisendurskoðunar er bent á að samningurinn við lækna sé „án skýrra takmarkana um magn“ og feli í sér „fjárhagslega hvata til mikilla afkasta óháð gæðum og árangri“.

Viðbrögð Sjúkratrygginga voru að boða uppsögn á rammasamningum við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og sjúkraþjálfara með sex mánaða fyrirvara. Enn hefur þó ekki komið til uppsagnar en í  frétt frá stofnuninni segir að það verði ekki gert fyrr en velferðarráðuneytið hafi tekið afstöðu til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða í samræmi við fjárlög 2018. 

Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um skort á stefnumótun af hálfu stjórnvalda og veikleika í þarfagreiningu og gæðaviðmiðum við samningagerð Sjúkratrygginga. Viðbrögð stjórnvalda eru, enn á ný, að velta auknum kostnaði yfir á sjúklinga. 

ASÍ hefur ítrekað mótmælt of háu greiðsluþaki sjúklinga og bent á að hlutfallslega fleiri fresti læknisheimsóknum hér á landi en á hinum Norðurlöndunum vegna kostnaðar. Hækkun á greiðsluþátttöku mun auka enn á þennan vanda. ASÍ skorar á stjórnvöld að hætta við þessa hækkun, sem bitnar verst á þeim tekjulægstu, og eykur ójöfnuð enn frekar. 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?