Félagið stofnað.
Stofnfundurinn á Hótel Borg.

 

Þannig var umhorfs í íslenskum kvikmyndaheimi þegar nokkrir forkólfar íslenskra sýningarmanna komu saman eitt síðdegið á Hótel Borg í Reykjavík í þeim tilgangi að stofna með sér félagsskap; samtök sem ynnu að hagsmunum og réttindum íslenskra sýningarmanna og að því að fá starfið lögverndað. Einnig var markmiðið að fá „...reglugerð setta um nám og námstíma þeirra er ætla sér að nema starfið í framtíðinni,” eins og sagði í samþykkt stofnfundarins.
Samþykkt var að nefna félagið „Félag Sýningarmanna við kvikmyndahús", skammstafað F.S.K., og skyldi það beita sér fyrir undanþágu þeim til handa sem unnið hefðu við starfið á undangengnum árum, svo þeir hlytu tilskilin starfsréttindi. Þá var einnig samþykkt að beita sér fyrir því að komið yrði á landslögum um öryggi sýningarklefa í kvikmyndahúsum og meðferð eldfimra kvikmynda, „sambærileg þeim bestu er tíðkast meðal annarra þjóða", eins og það var orðað.
Stofnfélagar félagsins voru Ólafur L. Jónsson, sýningarstjóri í Nýja Bíói, Ólafur Árnason, sýningarstjóri í Gamla Bíói, Karl Guðmundsson, sýningarstjóri í Tjarnarbíói, Sigurður Gíslason, sýningarmaður í Nýja Bíói, Kristinn H. Árnason, sýningarmaður í Hafnarfjarðarbíói, Níels Petersen, Gamla Bíói, Sigurður Jónsson, sýningarmaður í Hafnarfjarðarbíói, Bogi Sigurðsson, sýningarmaður í Tjarnarbíói, Valdimar R. Jónsson, sýningarmaður í Gamla Bíói, Sveinn Guðmundsson, á Akranesi, Þorsteinn Dagbjartsson, sýningarmaður í Nýja Bíói, Gunnar Þorvarðarson, sýningarmaður í Tjarnarbíói, Karl Guðjónsson, sýningarmaður í Nýja Bíói, og Guðmundur M. Jónsson, sýningarmaður í Nýja Bíói.
Bréf barst á stofnfundinn frá Guðmundi Jónssyni, sem þá var sýningarmaður í Keflavík. Guðmundi hafði verið boðið á fundinn en hann ekki átt heimangengt. í bréfinu fór hann fram á að verða einn af stofnfélögunum og var það samþykkt. Hann telst því einn af fjórtán stofnendum félagsins, en undirskrift hans vantar þó á stofnyfirlýsinguna.
Þrír fyrstnefndu sýningarmennirnir höfðu boðað til fundarins og kom það í hlut Ólafs L. Jónssonar að ávarpa stofnfundinn. Í ræðu sinni lýsti hann nauðsyn þeirri sem væri á stofnun félagsins og mælti síðan með stofnyfirlýsingunni. Hún var síðan samþykkt í einu hljóði án umræðu og rituðu fundarmenn allir nöfn sín undir.
Þetta var hátíðleg stund fyrir íslenska sýningarmenn og þeir þrettán sýningarmenn, sem undirrituðu stofnyfirlýsinguna, voru prúðbúnir í tilefni dagsins. Ákveðið var að kjósa ekki stjórn á þessum fundi, en sömu menn og séð höfðu um undirbúning stofnfundarins voru fengnir til að starfa áfram þar til lög hefðu verið samin og næsti fundur kæmi saman. Var ákveðið að hafa framhaldsstofnfundinn á laugardeginum fyrir Hvítasunnu, eða 19. maí 1945. Í lokin var síðan ákveðið ársgjald félagsmanna og skyldi það vera kr. 50 á mann á ári hverju, en innheimtast með stofngjaldi fyrsta sinni.
Sigurður Jónsson, einn af stofnendunum, lýsir upplifun sinni af fundinum svo:
 
Aðalmaðurinn á bak við stofnunina og stofnfundinn var auðvitað Ólafur Jónsson í Nýja Bíói. Greinilegt var að sýningarmönnum þótti mikið til þessa foringja síns koma og allir voru í sannkölluðu hátíðarskapi, klæddist í sitt fínasta púss á Hótel Borg um hábjartan daginn.
 
Af þessum orðum má ráða að ekki hafi sýningarmenn beinlínis verið íklæddir jakkafötum og í „sitt fínasta púss“ á hverjum degi, en hann bætir því við að líklega hafi allflestir sýningarmenn landsins verið komnir saman á fundinum. Utan þó þeir sem störfuðu í Vestmannaeyjum, en þeir höfðu ekki átt heimangengt.
 
Staðreyndin var sú að á þessum stöðum úti á landsbyggðinni var þetta starf varla launað; margir sinntu þessu af því að þeir höfðu gaman að þessu. Hér á höfðuborgarsvæðinu var þessu öðruvísi farið og við sýningarmennirnir unnum við þetta nálega alla daga vikunnar. Hermennirnir sóttu mikið í kvikmyndahúsin og fjölga varð sýningum á hverjum degi. Það var því mjög mikið að gera og tekjur okkar voru eftir því. Ég man að ég hafði rífandi tekjur og á einu ári jukust þær um helming. Þetta voru sannkallaðir dýrðardagar.
 
Sigurður bætir því að fundurinn sjálfur hafi verið lítt eða ekkert auglýstur, en tíðindin um hann hafi borist eins og eldur í sinu meðal sýningarmanna. „Það átti að fara að stofna félag,“ sögðu menn og fjölmenntu á hótelið fína við Austurvöll.
Hann segist jafnframt hafa velt því nokkuð fyrir sér hvað dregið hafi mann eins og Ólaf L. Jónsson áfram í þessum efnum. Bendir hann á að Ólafur hafi verið í góðri stöðu sem sýningarstjóri og í raun andlit annars af stærstu kvikmyndahúsum þjóðarinnar, eflaust vel launaður og því haft lítinn persónulegan hag af stofnun félagsins.
 
Hann hlýtur að hafa haft svona mikinn áhuga á þessu starfi og framgangi þess. Nú var hann auðvitað í fullri vinnu og eflaust á ágætum launum. En samt var hann tilbúinn að fórna sér í þetta og styðja við bakið á yngri mönnunum sem voru að koma undir sig fótunum í faginu og bjuggu ekki yfir reynslu hans.