Fyrsta stjórnin.

 

Á framhaldsstofnfundinum kom að því að kjósa fyrstu stjórn hins nýstofnaða félags. Kom fáum á óvart, að undirbúningsnefndin skyldi í heilu lagi vera kjörin fyrsta stjórn félagsins. Var Ólafur L. Jónsson kjörinn formaður, en meðstjórnendur þeir Karl Guðmundsson, sýningarstjóri í Tjarnarbíói, og Ólafur Árnason, sýningarstjóri í Gamla Bíói. Ákvað stjórnin með sér þá verkaskiptingu, að Karl yrði gjaldkeri en Ólafur ritari. Þá voru þeir Sigurður Gíslason og Þorsteinn Dagbjartsson tilnefndir sem fyrstu endurskoðendur félagsins.
Á fundinum voru einnig samþykkt lög félagsins og ákveðið að hefjast þegar handa við að skrifa öllum starfandi sýningarmönnum á landinu og skýra þeim frá stofnun félagsins og gefa þeim kost á að gerast meðlimir þess.
Sömuleiðis var ákveðið að ganga þegar í að útskýra tilgang félagsins og fá viðurkenningu frá hinu opinbera á starfsemi þess og nauðsyn þess, að fá setta reglugerð um opinberar kvikmyndasýningar.
Óhætt er að fullyrða, að sýningarstjórarnir þrír, sem skipuðu fyrstu stjórn F.S.K. og hvöttu fyrstir til stofnunar þess, hafi verið leiðtogar íslenskra sýningarmanna á þessum árum. Enginn þó meiri en Ólafur L. Jónsson, eða í Óli í Bíó, eins og hann var gjarnan nefndur. Ólafur var þekktur maður í bæjarlífinu, hafði yfirburðaþekkingu á kvikmyndum og hafði meðal annars unnið við nokkrar af fyrstu kvikmyndatökum, sem fram fóru hér á landi.
Þegar Ólafur átti 40 ára starfsafmæli sem sýningarmaður, árið 1959, ritaði Ólafur vinur hans Árnason, grein í Sýningarmanninn honum til heiðurs. Þar er stuttlega vikið að stofnun F.S.K. með þessum orðum:
 
Það er á engan hallað, þegar ég fullyrði, að það er fyrst og fremst áhuga Ólafs að þakka, að sú tilraun tókst og að félagið komst klakklaust yfir byrjunarörðugleikana, sem voru fleiri en flesta grunar. Ólafur var líka kjörinn fyrsti formaður félagsins og gegndi því ábyrgðarstarfi samfleytt í sjö ár.