Aðstöðu- og réttindaleysi.

 

Ólafur L. Jónsson hafði lengi velt fyrir sér leiðum til að bæta úr aðstöðu- og réttindaleysi sýningarmanna í kvikmyndahúsum. Sem sýningarstjóri í stóru kvikmyndahúsi í höfuðborginni var hann í nánum tengslum við sýningarmenn úti um land allt í gegnum filmuleigu kvikmyndahússins og skynjaði þannig aðstæður sýningarmanna, sem oft sýndu kvikmyndir við frumstæðustu skilyrði.
Í bréfi til sýningarmanns í Vestmannaeyjum, frá 27. maí 1945, lýsir sýningarstjórinn og fyrsti formaður félagsins, stofnun þess og segir m.a.:
 
 ... til þess að hugga þig í raunum þínum útaf réttindaleysi sýningarmanna sem þú talar um í bréfinu ... má það því verða þér raunabót að frétta að þann 29. apríl síðastliðinn stofnuðu 14 sýningarmenn við kvikmyndahúsin í Reykjavík og nágrenni með sér félagsskap er nefnist „Félag sýningarmanna við kvikmyndahús". Framhaldsstofnfundur var haldinn 19. maí, lög félagsins samþykkt og stjórn kosin.
 
Eftir þessar upplýsingar heldur Ólafur áfram og skýrir nú frá verkefnum þeim sem stjórn félagsins hefur verið falið:
 
 ... við sem í stjórn vorum kosnir undirbúum nú af kappi að semja ávarp til sýningarmanna við öll kvikmyndahús úti á landi og bjóðum þeim þátttöku í félagsskapnum ef þeir uppfylla viss skilyrði. Einnig er í undirbúningi greinargerð er send verður til Félagsmálaráðuneytis þar sem við krefjumst réttinda fyrir starf vort. Allt er þetta í undirbúningi, en við reynum að hraða málum eftir bestu getu. Til þín og bíófélaga þinna í Eyjum verður þetta sent samtímis og við getum afgreitt það til annarra sýningarmanna á landinu.
Ef það opinbera veitir okkur, sem ég ekkert efast um þótt það máske dragist eitthvað, réttindi í starfi voru leysast sanngjarnar kröfur um kauphækkanir af sjálfu sér og án allra erfiðleika.
 
Bréfið sýnir ljóslega þann bjartsýnishug, sem rak Ólaf L. Jónsson í baráttunni fyrir bættum kjörum og aðbúnaði sýningarmanna í upphafi.
Viðtakandinn, 25 ára sýningarmaður við Vestmannaeyjabíó, Óskar Steindórsson að nafni, átti síðar eftir að koma mjög við sögu hins nýstofnaða félags.
Forystumenn félagsins höfðu fyrir löngu gert sér grein fyrir nauðsyn þess að koma réttindamálum stéttarinnar í lag, enda fjölgaði sýningarmönnum ört. Ný kvikmyndahús risu upp víða um land í kjölfar hernáms Breta og síðar Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöld og útlit var fyrir viðbót í Reykjavík, því þar var í byggingu stórt kvikmyndahús við Snorrabraut í austurbænum - Austurbæjarbíó. Engar reglur voru hins vegar fyrirliggjandi um störf sýningarmanna fyrir þessi kvikmyndahús og mjög bar á ósamræmi í launum þeirra. Það er því óhætt að segja, að miklar vonir hafi verið bundnar við félagið strax frá upphafi.
Nýkjörin stjórn félagsins hófst þegar handa við að uppfylla stefnu þá sem samþykkt var á stofnfundunum. Annars vegar að skrifa öllum sýningarmönnum á landinu og segja þeim frá stofnun félagsins, tilgangi þess og bjóða aðild og hinsvegar að fá hið opinbera til að fallast á réttmæti þess að setja lög um öryggi í sýningarklefum kvikmyndahúsa og aukinheldur að fá starf sýningarmannsins verndað með lögum.
Hinu nýja félagi var strax vel tekið af sýningarmönnum og á aðalfundi þess, 18. apríl 1947, tilkynnti stjórnin að tíu sýningarmenn hefðu gerst félagar frá stofnfundinum. Voru það þeir Árni G. V. Sigurðsson, Tómas Snorrason og Óskar Steindórsson, úr Vestmannaeyjum, Gústav Andersen, Akureyri, Guðmundur J. Kristjánsson og Ólafur B. Finnbogason, Reykjavík, Halldór Sigurgeirsson, Ísafirði, Kristinn Eymundsson og Ægir Jónsson, Siglufirði og Níels Þórarinsson, Hafnarfirði. Á sama fundi sóttu þrír sýningarmenn um inngöngu í félagið, þeir Gísli Sigurðsson, Akranesi, Kristján Magnússon, Sauðárkróki og Sigurður Sigurgeirsson, Stykkishólmi. Voru þeir allir samþykktir.
Félagar í F.S.K. voru þannig orðnir 27 að tölu aðeins tæpum tveimur árum eftir stofnun þess. Enn voru þó margir sýningarmenn, einkum í smærri félagsheimilum á landsbyggðinni, utan þess. En stjórnarmenn höfðu einnig haft erindi sem erfiði í baráttu sinni fyrir reglugerð um öryggismál.