Barátta fyrir reglugerð um öryggismál.

 

Á framhaldsstofnfundinum, 19. maí 1945, hafði stjórninni verið falið að setja fram greinargerð og bera fram kröfu um viðurkennd starfsréttindi sýningarmanna. Mánuði síðar var slík krafa og greinargerð send Félagsmálaráðununeytinu. Samkvæmt venju sendi ráðuneytið greinargerðina síðan áfram til umsagnar, fyrst til Iðnráðs, síðan til Atvinnumálaráðuneytisins og loks til Verksmiðju- og vélaeftirlits ríkisins.
Síðastnefnda ráðið snéri sér aftur til stjórnar sýningarmanna og fól henni að semja frumdrög að reglugerð um öryggisútbúnað sýningartækja við kvikmyndasýningar. Varð stjórn F.S.K. við því og aflaði sér víða gagna í kjölfarið, t.d. með hliðsjón af gildandi lögum í Danmörku, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Eftir það sendi Vélaeftirlitið reglugerðina víða til umsagnar, t.d. Fulltrúaráði verkalýðsfélaganna og Vinnuveitendafélagi Íslands og fleiri hagsmunaaðilum og var ekki laust við að sýningarmönnum væri tekið að lengja eftir reglugerðinni er hún svo loksins barst, fullfrágengin þann 12. mars 1947, frá Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu.
Var hún eftir allt saman óbreytt frá meðförum stjórnar F.S.K. og tók þegar gildi.
Reglugerðin var sannkölluð bylting. Ekki aðeins fyrir sýningarmenn, heldur einnig kvikmyndahús og alla þá aðila sem höfðu með öryggis- og brunavarnir að ræða.
Formaðurinn Ólafur L. Jónsson hafði kallað fyrstu ár félagsins "frelsisbaráttu sýningarmanna" og var nú fyrsta kaflanum í þeirri baráttu lokið með álitlegri uppskeru.
Eftir setningu reglugerðarinnar sótti stjórn F.S.K. um starfsréttindi til handa öllum félagsmönnum sínum og voru skírteini gefin út í kjölfarið. Óskaði Verksmiðju- og vélaeftirlit ríkisins eftir samvinnu stjórnar F.S.K. í því sambandi og aðstoðar við úthlutunina, gera tillögur og veita upplýsingar um einstaka umsækjendur. Kom stjórnin sér saman um reglur til að fara eftir við úthlutunina og reyndust þær svo vel að Verkmiðju- og vélaeftirlitið sá aldrei ástæðu til að ganga gegn tillögum hennar.
Starfsréttindin skiptust í þrjá flokka. Sautján sýningarmenn fengu meistararéttindi, 24 sveinsréttindi en aðrir staðbundin réttindi, sem svo voru nefnd, fyrir þá sem sýndu á kvikmyndasýningum félagsheimila eða annarra samkomuhúsa og höfðu gert í tilskilinn árafjölda fyrir setningu reglugerðarinnar. Aðeins félagsmenn fengu úthlutað starfsréttindum í upphafi og því kom ekki til þess að úthlutað væri skírteinum til staðbundinna réttinda. Þau áttu aðeins við um sýningarmenn, sem voru utan félagsins - enn sem komið var.
 Á aðalfundinum 1947 höfðu ný lög félagsins verið samþykkt, enda voru fyrstu lög félagsins þá þegar orðin ófullkomin og þörf á sértækari lagatexta.
(Þau lög hér, 2 síður)
Félag sýningarmanna við kvikmyndahús hafði nú tekið á sig nokkra mynd sem hagsmunafélag og unnið sína fyrstu sigra í því sambandi. En sem verkalýðsfélagi hafði því orðið minna ágengt og enn voru kjaramál félagsmanna víða í hinum mesta ólestri.
Strax á árdögum félagsins kom í ljós mikill munur á aðstöðu og aðbúnaði einstakra félaga. Þannig unnu sýningarmenn á höfuðborgarsvæðinu í stórum og myndarlegum kvikmyndahúsum, sem flest höfðu samið við sýningarmenn sína í einhverri mynd um kaup og kjör. Annað var upp á teningnum úti á landi. Þar voru sýningarmenn víða samningslausir og á lúsarlaunum og margskonar störf ofin inn í sýningarstarfann, t.d. ræstingar, umsjón með miðasölu og í sumum tilvikum hreinlega rekstur viðkomandi samkomuhúss.