Þróun kvikmyndasýninga í höfuðborginni.

 

Bent hefur verið á að tekið hafi íslensk stjórnvöld langan tíma að sætta sig við hina nýju tegund menningar sem fólst í kvikmyndasýningum fyrir fjöldann. Það sé um leið ein helsta skýringin á því að aðeins tvö kvikmyndahús einokuðu markaðinn í höfuðborginni í þrjá áratugi.
„Það tók íslensk stjórnvöld fimmtíu ár að aðlagast kvikmyndasýningum,” sagði Skarphéðinn Guðmundsson, sagnfræðingur, í viðtali við Morgunblaðið árið 1994. „Hinsvegar tók það almenning ekki nema tuttugu ár,” bætti hann við.
Skarphéðinn er að vísa til þess að yfirvöld voru tvístígandi vegna menningar- og siðferðislegra áhrifa kvikmynda á þjóðfélagið, sem leiddi til þess að kvikmyndahúsalöggjöf var ekki samþykkt á Alþingi fyrr en árið 1943 og 1944 í borgarstjórn Reykjavíkur.
Einungis var veitt leyfi til bíósýninga í Gamla bíói og Nýja bíói í Reykjavík. Margir sóttu um leyfi en þau voru ekki veitt meðal annars vegna þess að enginn gat uppfyllt kröfurnar sem gerðar voru. Ein var að aðeins mætti sýna í steinhúsum. Ástandinu hefur verið lýst þannig:
 
Yfirvöldum og menningarvitum fannst það peningabruðl hjá alþýðunni að eyða peningum í að sjá bíósýningar og litu jafnvel á kvikmyndahúsaeigendur sem loddara, sem hefðu einungis áhuga á að græða peninga.
 
Dýrtíðarumræðan var líka hávær, kreppa var í heiminum og áherslan á sparnað mikil. Aftur á móti var og er kvikmyndasýning skemmtun sem höfðaði til allra og í raun fremur ódýr. Miðaverðið hefur eiginlega verið á svipuðum nótum alla öldina.
 Yfirvöld viðurkenndu kvikmyndasýningar sem menningar- og menntunartæki vegna möguleikans á fræðslu en vegna afþreyingarinnar óx þeim í augum gróði þeirra sem ráku bíóin.
 
Alþýðuflokksmenn héldu því fram alveg til 1944 að ríkið ætti að reka kvikmyndahús og þjóðnýta þau sem fyrir voru. Hugmyndin var að gróðinn rynni síðan til æðri menningar eins og leiklistar í væntanlegu Þjóðleikhúsi. Þjóðleikhússnefndin fékk meira að segja kvikmyndasýningarleyfi, sem aldrei var notað.
 
Alþýðuflokksmenn fengu loks tækifæri í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1943 til að framkvæma hugmyndir sínar með liðsinni sjálfstæðismannsins Árna Jónssonar í Múla. Samþykkt var í borgarstjórn að fela borgarstjóra, Bjarna Benediktssyni, að leita samninga um kaup á kvikmyndahúsunum. Og að ef samkomulag næðist ekki að leita eignarnámsheimildar til Alþingis.
Fram kemur í skrifum í Alþýðublaðinu að þetta hafi verið nauðsynlegt til að þjóðnýta peningana sem rekstur kvikmyndahúsanna skilaði.
Bjarni Benediktsson borgarstjóri náði ekki samningi við kvikmyndahúseigendur og leitaði borgarstjórn því til Alþingis um heimild til eignarnáms. Hún fékkst ekki. Hinsvegar var samþykkt frumvarp sem opnaði einstaklingum og félögum möguleika á að reka bíó, og voru ný kvikmyndahús opnuð hvert á fætur öðru frá 1946; Trípólíbíó, Austurbæjarbíó, Hafnarbíó og Stjörnubíó.
Á undan holskeflunni hafði þriðja bíóið opnað, Tjarnarbíó, en leyfi til þess reksturs fékkst vegna þess að það var á ábyrgð Háskóla Íslands og þar með ríkisins gegnum svonefndan Sáttmálasjóð.
Tjarnarbíó var opnað þrjátíu árum eftir að Nýja bíó var opnað. Stöðnunin var því nokkuð löng. Aftur á móti fékkst leyfið vegna þess að reiknað var með að Háskólinn byði upp á vandað og uppbyggjandi efni.  Skarphéðinn Guðmundsson bendir á að umsókn Háskólans um bíórekstur hafi í raun samsvarað hugmyndum borgaryfirvalda um hentuga rekstraraðila. Undir þetta tóku fleiri, t.d. kallaði Þjóðviljinn þetta „Tækifæri til þess að horfa á eitthvað annað en Hollywood-daður.”
Ástæður þess að forráðamenn Háskóla Íslands fóru út í rekstur kvikmyndahúss má rekja til þess hve verulega þrengdi að fjárhag þessarar æðstu menntastofnunar þjóðarinnar í kreppunni á þriðja áratugnum og í upphafi þess fjórða.


Sáttmálasjóður Háskólans, sem stofnað hafði verið til með sambandslögum milli Íslands og Danmerkur, 1. desember árið 1918, átti að stuðla að eflingu andlegs sambands milli Danmerkur og Íslands og ennfremur auka veg vísindastarfsemi og menntunar, hafði að sönnu verið mikil lyftistöng, en þegar ríkisvaldið hóf að draga úr stuðningi sínum við Háskólann og vísa í auknum mæli á styrk sjóðsins fóru að renna tvær grímur á háskólamenn. Því var gripið til annarra fjáröflunarleiða, happdrætti var komið á fót 1934 og hinn 29. september árið 1939 skipaði háskólaráð prófessorana Bjarna Benediktsson, síðar forsætisráðherra, og Níels Dungal í nefnd sem athuga átti arðvænlegri ávöxtun sjóða Háskólans og leggja til hugmyndir við ráðið.
Niðurstaða nefndarinnar varð tillaga þess efnis að sótt yrði um leyfi til reksturs kvikmyndahúss í Reykjavík. Rekstur kvikmyndahúsanna tveggja gekk enda vel á þessum tíma og miklar sögur fóru af ofsagróða bíóstjóranna. Svo fór að háskólaráð samþykkti tillöguna, en samkvæmt tillögu tvímenninganna var afráðið að leita hófanna með kaup á Gamla Bíó. Í bréfi til bæjaryfirvalda sem sent var í kjölfarið segir m.a.:
 
Oss hefur borist til eyrna, að í ráði væri að selja Gamla bíó. Þar sem líkur eru til, að Háskólinn hafi fjármagn til að kaupa þetta fyrirtæki, vill háskólaráð mælast til, að bæjarstjórn taki til vinsamlegrar athugunar að veita Háskóla Íslands rekstrarleyfi, ef samningar skyldu takast við eigendur kvikmyndahússins. Eins og háttvirtri bæjarstjórn er ljóst, er það menningaratriði að kvikmyndahús bæjarins séu vel rekin, og fyndist oss vel við eiga, að fé Háskólans væri ávaxtað með því að hann tæki nefnt fyrirtæki að sér.
 
Fleirum en bæjarstjórn kom á óvart að Gamla bíó væri til sölu, en eins og greint er frá á öðrum stað í þessu riti kom það til af löngun gamla Bíópetersens til að flytjast aftur til Danmerkur. Ætlan háskólamanna vakti gífurlega athygli og sýndist sitt hverjum um þessi áform. Rektor skólans, Alexander Jóhannesson, gerði grein fyrir áhuga háskólaráðs í blaðaviðtali:
 
Háskólinn hefir yfir allmiklu fé að ráða sem hann hefir hingað til ávaxtað þannig að kaupa veðdeildarbréf, ríkisskuldabréf og önnur verðbréf. En nú, þegar gengi íslensku krónunnar er mjög óstöðugt og allt er í óvissu um fjárhagsafkomuna er það mikils virði fyrir Háskólann sem menningarstofnun að koma sínu fé fyrir á sem haganlegastan hátt. Við teljum því öruggara að koma eignum Háskólans fyrir í fasteignum en verðbréfum.
 
Í viðtalinu gerði háskólarektor sitt til þess að svara óánægjuröddum og benti hann á þá skoðun háskólamanna að betra væri fyrir bæinn að afhenda Háskólanum sérréttindi til reksturs kvikmyndahúss fremur en einstaklingum, þar eð væntanlegar tekjur af kvikmyndahúsunum myndu þá renna til vísindastarfsemi í landinu. Á þann hátt fengist einnig nokkurs konar trygging fyrir því að viðkomandi kvikmyndahús yrði rekið sem menningartæki, eins og það var orðað. Að sjálfsögðu myndi svo Háskólinn greiða til bæjarins af rekstrinum, bætti rektor við, eins og hvert annað einkafyrirtæki.
Ekki er að efa að með orðum sínum um að tengsl Háskólans væru trygging fyrir því að viðkomandi kvikmyndahús yrði rekið sem menningartæki, voru ætluð til þess að slá á gagnrýnisraddir. Svo fór enda að Morgunblaðið lét af andstöðu sinni við áformin og blaðamaður þess hélt því fram að almenningur tæki þessum tíðindum fagnandi. Færi vel á því að rekstur kvikmyndahúss væri í höndum menningarstofnunar og „hagnaðinum vart betur varið en til eflingar vísindastarfsemi í landinu“.
Dagblaðið Vísir sá hins vegar enn öll tormerki á áformum Háskólans og benti á að það væri all hæpin fjárfesting að verja fé almennings í svo áhættusaman fyrirtækjarekstur sem með engu móti væri öruggara en að tryggja féð í verðbréfum.


Ekkert varð hins vegar af því að Háskólinn tæki yfir rekstur Gamla Bíós. Þrýstingur forsvarsmanna skólans á borgaryfirvöld hélt hins vegar áfram og svo fór að skólanum var veitt leyfi til reksturs eigin kvikmyndahúss. Var því valin staður í gamla íshúsinu við Tjarnargötu, við hliðina á gömlu slökkviliðsstöðinni og þótti sumum hugarfró í að vita að hinum eldfimu filmum í nábýli við slökkviliðsmennina.
Fljótlega kom í ljós að efasemdarmenn um afskipti Háskólans af rekstri kvikmyndahúsa höfðu ekki á réttu að standa. Rekstur Tjarnarbíós gekk nefnilega mjög vel, í raun réttri stórkostlega. Kvikmyndahúsið skilaði miklum hagnaði til Sáttmálasjóðs öll sín starfsár og til ársloka 1960 nam hagnaður af rekstrinum samanlagt ríflega 10 milljónum króna, sem var stórfé í þeim tíma. Á tímabilinu nam hagnaðurinn ríflega þrjátíu af hundraði af veltu kvikmyndahússins.  Hagnaðurinn fór líka stöðugt vaxandi og var það stjórn kvikmyndahússins mikil hvatning, enda fyrst og fremst litið á reksturinn sem fjármögnunarlið fyrir Háskólann. Því er þó ekki að leyna, að á sama tíma og gjaldkerar kvikmyndahússins brostu sínu breiðasta yfir sannkölluðum ofsagróða, hleyptu svokallaðir menningarvitar bæjarins brúnum og býsnuðust heil ósköp yfir því að á vegum Háskólans væri verið að sýna lágkúrulegar kvikmyndir, sem jafnvel höfðu lítið eða ekkert listrænt gildi – hvað þá fræðslulegt, eins og einn rýnirinn orðaði það í síðdegisblaði á þessum arum.


Tjarnarbíó, sem enn stendur og hefur verið samastaður ýmissa leikhópa hin síðari ár, tók alls 396 áhorfendur í sæti og oftar en ekki var þar löng biðröð fólks fyrir framan að bíða eftir sýningu.
Gríðarleg sókn Íslendinga og hermanna í kvikmyndahús á styrjaldarárum jók mjög á starfsemi kvikmyndahúsanna. Þau brugðust við með ýmsum hætti, fjölguðu starfsfólki og stórbættu aðstöðu en fjölguðu einnig sýningum á degi hverjum. Um helgar var bætt við sýningu kl. 15 í eftirmiðdaginn og var þar komið hið fræga „þrjú-bíó” sem svo geysivinsælt hefur verið síðan af íslenskri æsku.
Jafnan var uppselt á þrjú-bíóin í kvikmyndahúsum borgarinnar og handagangur í öskjunni fyrir sýningu, í hléi og eftir. Heil viðskiptagrein blómastraði kringum þessar sýningar, nefnilega sala og býtti á s.k. hasarblöðum og myndum af frægum amerískum kvikmyndastjörnum. Já, það hafði margt breyst í henni Reykjavík með tilkomu kvikmyndanna og enn átti heilmargt eftir að breytast.
Þrjú-bíóið varð geysivinsælt meðal yngstu kynslóðarinnar, en hinir fullorðnu voru ekki síður ánægðir með að hafa salinn út af fyrir sig á síðari sýningum. Prúðbúnir gestir kvikmyndahúsanna höfðu nefnilega jafnan haft horn í síðu pörupiltanna sem litu á kvikmyndahúsin sem samkomustað og komu þar saman til að stunda hrekki, kasta poppkorni í aðra gesti og jafnvel setja fingurna fyrir geislann frá sýningarvélinni og framkalla þannig skuggamyndir á hvíta tjaldinu, fullorðna fólkinu til ama.
En þau kvikmyndahús sem fyrir voru juku ekki einasta við þjónustu sína, heldur fór svo að bíóum fjölgaði stórum í borginni. Með því að Háskólinn fékk leyfi til kvikmyndasýninga var sem skriða færi af stað og framtak hernámsliðsins varð svo enn til að auka á framboðið.
Alls opnuðu fjögur kvikmyndahús í Reykjavík með tiltölulega skömmu millibili í Reykjavík frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar fram til ársins 1950. Þar af voru tvö í braggabyggingum sem reistar höfðu verið af hernámsliðinu og nýttust vel til kvikmyndasýninga nokkru eftir að hermennirnir sjálfir voru á bak og burt.
TRÍPÓLÍBÍÓÁ Melunum opnaði þannig bíó kennt við Trípolí árið 1947 í samnefndum bragga sem áður hafði verið nýttur til leik- og kvikmyndasýninga hersins á stríðsárunum. Nefndist hann þá Tripoli-Theater. Í samræmi við þær hugmyndir menningarsinna að lista- og menningarstofnanir ættu í auknum mæli að njóta góðs af gróða kvikmyndahúsanna, var það Tónlistarfélagið í Reykjavík sem hafði með höndum rekstur kvikmyndahússins.
Nokkru eftir opnun Trípólí-bíós var svo opnað nýtt og stórglæsilegt kvikmyndahús við Snorrabraut, Austurbæjarbíó. Var það raunar vonum seinna, því kvikmyndahúsið hafði staðið um nokkurt skeið nánast fullklárað, en sökum skorts á byggingarefni, tækjum og síðast en ekki síst gjaldeyri, hafði dregist að reka endahnútinn.  Það var hins vegar gert með formlegum hætti þann 25. október 1947. Austurbæjarbíó varð þá stærsta samkomuhús landsins, með sæti fyrir 787 manns. Bygging þess hófst tæpum tveimur árum áður á vegum „fjelags þeirra Ólafs og Kristjáns Þorgrímssonar frá Laugarnesi, Ragnars Jónssonar forstjóra, Bjarna Jónssonar á Galtafelli og Guðmundar Jenssonar forstjóra,” eins og sagði í frétt Morgunblaðsins daginn eftir.  Athyglisvert er að geta þess að á byggingartíma hússins höfðu menn uppi miklar efasemdir um skynsemi þess að reisa svo stórt samkomuhús, svo langt frá miðbæ Reykjavíkur!  Arkitektar hússins voru þeir Hörður Bjarnason og Gunnlaugur Pálsson og hlutu þeir mikið lof fyrir verkið, enda kvikmyndahúsið löngum verið rómað fyrir glæsileik innan dyra og utan. Enda sagði tíðindamaður Morgunblaðsins, að „það væri sérstaklega hannað fyrir hljómleika, lögun þess tæki mark af því og málningin hljóðdeyfandi og hrjúf í áferð.”  Þá var sérstaklega til þess tekið, að salur hússins væri klæddur með húðuðu timbri og senan glæsilega rúmaði fjörutíu manna hljómsveit. Fyrirhugað var að setja upp geysilega umfangsmikinn og flókinn ljósabúnað, en af því varð ekki, sökum ríkjandi gjaldeyrisskorts í landinu, eins og það var orðað. Þá var loftið í anddyrinu einn risastór spegill og þar var stórt málverk Gunnlaugs Scheving, „Landsýn”, mikil prýði.
Opnunarmyndir kvikmyndahússins voru tvær. Annars vegar var gamanmyndin Hótel Casablanca með þeim Marxbræðrum, en hinsvegar tónlistarkvikmyndin „Jeg hefi ætíð elskað þig”, þar sem píanósnillingurinn Arthur Rubinstein fór á kostum meðal annarra.
Sýningarmenn lengst af í Austurbæjarbíói voru þeir Stefán Jónsson og Árni Kristjánsson. Stefán var sýningarstjóri kvikmyndahússins um áratuga skeið og hafði einnig veg og vanda af allri tæknivinnu vegna annarrar starfsemi hússins, þar á meðal leiksýningum Leikfélags Reykjavíkur, en s.k. kabarett-sýningar LR á miðnætti í Austurbæjarbíói voru fastur liður í menningar- og skemmtanalífi borgarbúa um langt árabil.
Austurbæjarbíó starfaði í fjörutíu ár en fyrir þrettán árum var nafni þess breytt þegar það komst undir hatt Sambíóanna og hlaut nafnið Bíóborgin. Miklar endurbætur voru gerðar á húsinu og frá upphafi hefur það verið með vinsælli kvikmyndahúsum þjóðarinnar. Bíóið varð fyrst til að taka upp hið virta THX hljóðkerfi og var m.a. fyrir nokkrum árum valið eitt besta kvikmyndahús á Norðurlöndum. Ekkert fær hins vegar til lengdar staðist tímans tönn og síðla árs 2002 var kvikmyndasýningum endanlega hætt á vegum Sambíóanna í Bíóborginni, sýningarvélar teknar niður og húsið selt byggingaverktökum til niðurrifs. Mörgum urðu dapurleg örlög þessa glæsilega kvikmyndahúss harmsefni, en hin síðari ár gekk rekstur bíósins sífellt verr, m.a. vegna bílastæðaskorts í miðborginni.
Á annan dag jóla árið 1948 tók til starfa annað kvikmyndahúsið í gömlum hermannabragga. Var þar komið Hafnarbíó, en það stóð í breskum herskála á horni Barónstígs og Skúlagötu. Í bragga þessum hafði verið starfræktur klúbbur fyrir yfirmenn setuliðsins á styrjaldarárunum, en jafnframt haldnar þar ýmsar skemmtanir, t.d. kvikmyndasýningar.
Nokkrum mánuðum síðar var svo fjórða kvikmyndahúsið opnað, aðeins spölkorn frá Hafnarbíói og var þar komið Stjörnubíó við Laugaveg. Smíði þess hafði þá tafist í nokkur ár og þess getið að húsið hlyti að standa á einhverjum álagabletti. Árni Óla tengdi í minningum Reykjavíkur álögin við það að Glímufélagið Ármann hafi verið stofnað á þessum slóðum árið 1880 og ekki hafi átt að byggja á þessum reit. En hvort sem um álög var að ræða eða eitthvað annað, þá er víst að tvisvar hefur kviknað í Stjörnubíói og verður slíkt ekki sagt um önnur kvikmyndahús hér á landi.  Af þessum fjórum kvikmyndahúsum skáru Austurbæjarbíó og Stjörnubíó sig nokkuð úr, enda ný og stórglæsileg kvikmyndahús þar á ferðinni. Í tilfelli Hafnarbíós og Trípólí-bíós var hins vegar notast við aðstöðu hernámsliðsins til samkomuhalds og kvikmyndasýninga í húsum sem báru þess glögglega merki að hafa upphaflega aðeins verið reist til bráðabirgða. Var því ólíku saman að jafna.


Eftir fjölgun kvikmyndahúsanna gátu alls hálft fjórða þúsund kvikmyndahúsagesta séð kvikmyndir samtímis í borginni og hafði alls fjölgað um tvö þúsund sæti með nýju bíóunum fjórum.
Hin bágindalegu húsakynni Tónlistarfélagsins í Trípólí-bíó urðu félagsmenn fljótlega ljós og því var ráðist í byggingu nýs kvikmyndahúss.

Var það opnað í Skipholti tíu arum síðar og var þar komið Tónabíó sem síðar var rekið þar um árabil með miklar vinsældir. Einkum kom þar til umboð bíósins á myndum United Artists kvikmyndafélagsins, en það félag dreifði um veröld víða hinum geysivinsælu kvikmyndum um njósnara hennar hátignar, James Bond.
Trípólí-braginn á Melunum var hins vegar rifinn í kringum 1970. Nokkru seinna var kvikmyndasýningum svo hætt í Tónabíói, mörgum til sárra vonbrigða og þar er nú rekið m.a. bingó á vegum líknarsamtaka.


Uppbygging kvikmyndahúsa í höfuðborginni var þó hvergi nærri lokið. Árið 1957 tók Sjómannadagsráð, sem m.a. rak Hrafnistu, ákvörðun um að taka þátt í kvikmyndahúsarekstrinum. Reisti ráðið Laugarásbíó í tengslum við stórframkvæmdir sínar við Hrafnistuheimilið í Laugarásnum og opnaði þar nýtt og glæsilegt kvikmyndahús þremur arum síðar, eða 1960. Þótti það þá vera alveg í útjaðri bæjarins og alls ekki liggja vel við samgöngum.
Hin gríðarlega þensla í rekstri kvikmyndanna var síðan fullkomnuð með risavaxinni nýbyggingu Háskólans á Melunum, Háskólabíói sem opnaði með pomp og prakt 1961. Átti húsið engan sinn líka á Íslandi, enda var það sérhannað til að geta nýst hinum æðri listum samhliða bíórekstrinum, t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Í október 1961 var Háskólabíó formlega tekið í notkun á fimmtíu ára afmælishátíð Háskólans. Í frásögn Morgunblaðsins eru lýsingarorðin hvergi spöruð þegar kemur að því að lýsa húsnæðinu fyrir lesendum blaðsins:
 
Hinn mikli samkomusalur, sem rúmar um 1000 manns í sæti, er stílhreinn og fagur, en látlaus. Loft og veggir eru steypt í fellingar, og í hreyfanlega fleka sem stjórna hljómendurkasti. Öðru megin úr harðviði, og er þeirri hliðinni snúið út, þegar tónlist er flutt. Flötum þessum má snúa á skammri stundu. Litir í salnum eru mildir. Hin þægilegu sæti eru í bláum litum, svo og baktjald á sviði, en veggir og loft ljós. Salurinn er lýstur með fjölmörgum litlum lömpum, en hanga í lofti.
 
Í umfjöllun blaðsins var sérstök áhersla lögð á hinn fagra hljóm sem salurinn hafði upp á að bjóða. Er athyglisvert að rifja hér upp ummæli tónskáldsins Páls Ísólfssonar frá þessum tíma, ekki síst í ljósi þeirrar gagnrýni sem hljómburður í húsinu hefur mátt þola af hendi tónlistarfólks hin síðari ár. Páll sagðist ekki sjálfur hafa stjórnað tónflutningi í jafn góðum salarkynnum áður og kvaðst raunar efast um að hann hefði nokkru sinni heyrt betri hljómburð en í Háskólabíói. Fullyrti hann að salurinn væri sá langbesti sem Íslendingar hefðu eignast og sagði síðan:
 
... ég tel það mikinn viðburð í íslensku músíklífi, að slíkur glæsisalur sem svo fullkomnum hljómburði skuli nú loks vera fyrir hendi. Okkur er óhætt að óska hvert öðru til hamingju með þann merka áfanga.
 
Gaman er að rifja upp skemmtilega sögu af þeim sýningarmönnum Boga Sigurðssyni og Karli Jónssyni frá þessari fyrstu sýningu Háskólabíós. Þeir félagar höfðu gert allt til þess að stundin yrði sem hátíðlegust fyrir frumsýningargesti og margfarið yfir hin nýju tæki og tól til þess að allt færi nú vel fram. Sýningarfilman náðist hins vegar ekki til landsins fyrr en sama dag og því hafði þeim félögum ekki gefist ráðrúm til að „renna filmunni í gegn“ eins og sagt er. Því var það að þegar ríflega klukkustund var liðinn af sýningunni, ákveða þeir að taka hlé og stöðva sýninguna í tuttugu mínútur eins og hefð er fyrir. Áhorfendur létu sér vel líka, fóru fram og spjölluðu um myndina, keyptu sér kannski sitthvað í sælgætissölunni og héldu síðan aftur í hinn stóra og magnaða sal. Undrun þeirra varð hins vegar ekki lítil þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af seinni hluta myndarinnar, þegar ljósin kviknuðu, myndin stoppaði og á tjaldinu blöstu við stórir stafir: „Intersection“ eða hlé!
Framleiðendur myndarinnar höfðu semsé verið svo forsjálir að koma fyrir sjálfvirkju fimmtán mínútna hléi á sjálfri sýningarfilmunni og hafa létta tónlist undir. Það voru heldur vandræðalegir sýningarmenn sem fylgdust með gestum bíða í forundran á meðan hléið gekk um garð, hafandi rétt komið sjálfir úr einu slíku!
Sagan segir að eftir þetta hafi sýningarmenn í Háskólabíó alltaf skoðað filmur vel og vandlega sjálfir fyrir sýningar.