Húsnæðismálin.

 

Frá stofnun félagsins hafði starfsemi þess ekki farið fram á neinum einum sérstökum stað, heldur skipulögð á heimilum stjórnarmanna og fundir annað hvort haldnir á skemmtistöðum í Reykjavík eða á vinnustöðum félagsmanna, kvikmyndahúsunum. Einna oftast fóru samkomur á vegum félagsins fram í Lindarbæ við Lindargötu eða Naustinu við Vesturgötu. Oft var rætt um að við slíkt mætti ekki búa, félagið þyrfti sitt eigið húsnæði, sem um leið yrði eins konar miðstöð félagsmanna og vettvangur starfseminnar.
Á aðalfundum félagsins voru margoft gerðar um þetta samþykktir, en árið 1966 vakti Óskar Steindórsson, þá formaður félagsins, athygli á „aðstöðuleysi félagsins“ eins og hann lýsti því. Taldi hann nauðsyn á því að fá einhvers staðar inni með starfsemina.
Nokkrir sýningarmenn kvöddu sér hljóðs vegna þessa og töldu sumir jafnvel tímabært að sækja um lóð fyrir félagsheimili og hefja byggingarframkvæmdir þegar aðstæður leyfðu. Gerðu menn almennt góðan róm að þessari stórhuga tillögu, en þó var engin samþykkt gerð um málið og látið við það sitja að halda áfram hinum vinsælu skemmtifundum í salnum í Lindarbæ.
Lítið var gert til að bæta úr aðstöðuleysi félagsins næstu árin, en á fundi 1969 gerði Árni Hinriksson, sýningarmaður í Austurbæjarbíói, raunar tillögu þess efnis að stofnaður yrði sérstakur félagsheimilasjóður FSK. Var þessari tillögu tekið vel, en samþykkt að ræða málið frekar áður en ákvörðun yrði tekin og m.a. leita hófanna hjá öðrum litlum og fjárvana félögum með sameiginlega framkvæmd í huga.
Ári síðar varð Óskar Steindórsson enn til að brýna félaga sína í þessum efnum. Taldi hann beinlínis nauðsynlegt fyrir félagið að eignast eða fá aðstöðu fyrir fundi og til að geyma gögn félagsins. Lét hann þess getið að sýningarmenn yrðu að vera tilbúnir til að leggja eitthvað sjálfir af mörkum í þessu sambandi, en benti um leið á að menningarsjóðurinn væri öflugur og vel mætti lána fé úr honum til framkvæmdanna, enda væru þær án efa félaginu til heilla þegar litið væri til framtíðar.
Á aðalfundinum 1973 var síðan samþykkt að láta aðgerðir fylgja orðum. Stjórn félagsins auglýsti eftir húsnæði og bárust nokkur tilboð. Eftir vandlega yfirlegu var ákveðið að ganga að einu þeirra og festa kaup á fjórðu hæð hússins að Tjarnargötu 10 í Reykjavík. Var um að ræða þriggja herbergja íbúð, beint á móti þar sem nú stendur Ráðhús Reykjavíkur. Var felldur niður veggur milli tveggja herbergja og útbúinn fundarsalur og skrifstofa í þriðja herberginu.
 Húsnæðiskaupin voru fjárfrek og í litlu félagi var ekki í digra sjóði að sækja. Auk þess að sækja um stórt lán til Atvinnuleysistryggingasjóðs var því samþykkt á félagsfundi að leita til félaga um fjárframlög. Var afráðið að hver félagi greiddi um eitt þúsund krónur á mánuði í eitt ár til að byrja með. Tók það í fyrstu aðeins til félaga á höfuðborgarsvæðinu. Í áskorun, sem dreift var á umræddum félagsfundi, sagði m.a.:
 
 Þetta er stærsta átak sem félag okkar hefur lagt út í og það er trú okkar að ef allir leggjast á eitt, þá takist þetta og muni verða félaginu mikil efling í framtíðinni.
 
 Sýningarmenn þeir sem lögðu fé í húsnæðiskaupin fengu í staðinn sérstakar skuldaviðurkenningar, eða víxla, til staðfestingar því fé sem þeir lögðu til málefnisins. Ekki var um eiginlega skuldaviðurkenningu að ræða, þar sem aldrei var ætlast til þess að framlög yrðu greidd til baka. Þó voru sumir sem sérstaklega gáfu félaginu sínar viðurkenningar eftir. Á víxla þessa var ritað:
 
 Víxla þessa er félagi sýningarmanna heimilt að gefa út og selja til fjáröflunar vegna kaupa á húsnæði að Tjarnargötu 10, Reykjavík. Skoðast greiðsla víxlanna sem styrkur frá samþykkjanda til félagsins vegna kaupanna, þó þannig, að samþykkjandi á kröfu á að fá það fé, sem hann hefur þannig greitt, endurgreitt vaxtalaust, ef félagið selur húsnæðið að Tjarnargötu 10 innan tíu ára og söluverðið er hærra en áhvílandi skuldir og aðrar skuldbindingar félagsins vegna húsnæðisins, hvort heldur er vegna kaupanna, endurbóta eða reksturs þess.
 
Langþráður draumur var þar með orðinn að veruleika og mun óhætt að telja helstu hvatamenn að kaupunum á Tjarnargötu 10 þá Óskar Steindórsson formann félagsins, en einnig Arnar Guðmundsson ritara, nú kaupmann í Ástund, og Kristinn Eymundsson gjaldkera. Óskar Steindórsson rifjar upp aðdragandann að kaupunum með þessum orðum:
 
Arnar var sérstaklega áhugasamur um kaupin og mjög drífandi. Þetta nýja húsnæði okkar vakti mikla lukku meðal félagsmanna og það var heilmikil stemmning meðan við vorum að koma okkur fyrir.
 
Óskar minnist þess að mikilli ráðdeild hafi verið beitt við innréttingar á húsnæðinu og þannig hafi notuð húsgögn héðan og þaðan verið sett þangað inn. Allt hafi þetta verið prýðilegir húsmunir, en keyptir á mjög góðu verði. En vinsælasta mubla félagsheimilisins varð hins vegar forláta skenkur sem nýttist vel sem bar þegar sýningarmenn lyftu sér upp.
 
Þetta var geysilega skemmtilegur vínskenkur – gömul og glæsileg mubla og mjög áberandi. Jón Ragnarsson veitingamaður átti hann og mig minnir að hann hafi komið úr Naustinu. Eitt sinn bað ég Jón að lána okkur þennan skenk, þar sem ég vissi að hann væri ekki í notkun þá stundina. Jón brást höfðinglega við og einfaldlega gaf sýningarmönnum skenkinn. Við komum honum fyrir í einu horninu og þetta skapaði heilmikla stemmningu eins og nærri má geta.
 
Að sögn Óskars fór hins vegar fyrir starfseminni í félagsheimilinu, eins og raunar flestu áður í félagslífi sýningarmanna, að vinnutíminn reyndist erfið hindrun frekara starfi. Sýningarmenn unnu jú þegar flestir aðrir áttu frí og voru ekki búnir í vinnu á kvöldin fyrr en um eða jafnvel eftir miðnætti.
 
Það fór eiginlega með félagslífið hversu seint á kvöldin menn voru að sýna. Við reyndum lengi vel að hittast eftir síðustu kvöldsýningarnar, en auðvitað var það ekki hægt til lengdar að vaka langt fram eftir nóttu. Það kom einnig fyrir að menn hittust snemma dags, þ.e. fyrir fyrstu sýningar en það hentaði einnig illa, þar sem bæði skapaðist ekki sama stemmningin og hitt að margir sýningarmenn sinntu annarri vinnu á daginn og komust því hvergi.
 
Ekki leið á löngu þar til menn áttuðu sig á því að dýr munaður var að halda úti heilu félagsheimili með svo lítilli nýtingu sem stöku félagsfundi við og við. Þrátt fyrir litla notkun þurfti jú að greiða af sameign og hita og rafmagn og slíkir reikningar vógu þungt í bókhaldi lítils félags. Snemma fóru því að heyrast hugmyndir um að leita hófanna með frekari nýtingu Tjarnargötu 10, t.d. með leigu til annarra félagasamtaka. Einnig var kannaður áhugi Alþingis á húsnæðinu, enda aðeins skotspöl frá húsnæði löggjafarsamkundunnar við Austurvöll. Lítið varð hins vegar úr leigusamningum og rekstur húsnæðisins varð sífellt þyngri í skauti. Með árunum urðu þær raddir þess vegna æ háværari sem vildu losa félagið undan þessari byrði og selja félagsheimilið. Óskar Steindórsson var hins vegar mjög mótfallinn slíku:
 
Ég var mjög mótfallinn því að selja félagsheimilið. Kannski var þetta tilfinningasemi í mér, en það kom auðvitað til af þeirri miklu vinnu sem menn höfðu lagt í að koma félaginu þaki yfir höfuðið. Þetta var orðið ansi skemmtilegt og huggulegt hreiður sem mönnum þótti gaman að sækja í. Fyrst eftir að félagsheimilið var opnað ríkti geysileg ánægja með það meðal félagsmanna, enda voru allir orðnir hundleiðir á því að vera með fundi hér og hvar á öldurhúsum bæjarins og eiga engan samastað, heldur safnast jafnvel saman í bíóunum sjálfum eftir síðustu kvöldsýningu – í skítugum salnum. Hins vegar færðu þeir sem selja vildu húsnæðið mjög veigamikil rök fyrir sínum málum og þar kom fyrst og fremst til hin lélega nýting félagsheimilisins. Eins mikill hvalreki og það var okkur sýningarmönnum fyrst í stað, varð þróunin á endanum sú að það stóð autt langtímum saman. Engum til gagns og þaðan af síður til einhverrar ánægju.