Hluti af stærri heild.

 

Félag sýningarmanna við kvikmyndahús var ekki orðið gamalt, þegar fyrst tóku að heyrast raddir um nauðsyn þess að eignast öflugt bakland. Þetta var á þeim árum þegar Alþýðusamband Íslands (ASÍ) var að gera sig gildandi sem heildarsamtök launafólks í landinu og marga sýningarmenn fýsti að fá inngöngu í þessi stóru landssamtök. Ekki síst vakti fyrir mönnum að fá aðgang að skrifstofu Alþýðusambandsins og starfsfólki þess, sem hafði mikla reynslu í samningagerð og af samskiptum við atvinnurekendur.
Sá þáttur hafði nefnilega alltaf verið heldur veikur í starfsemi félagsins. Sökum fámennis í stétt sýningarmanna var nálægðin við forstjóra kvikmyndahúsanna – viðsemjendurna – ávallt mikið og á stundum gekk illa að skilja þar í milli. Meðal sýningarmanna var sú skoðun og útbreidd að forstjórnarnir litu ekki á FSK sem „alvöru” verkalýðsfélag, heldur meira klúbb um félagsstarf og fagið sem slíkt.
Ekki bætti heldur úr skák að innan raða sýningarmanna sjálfra voru skoðanir mjög skiptar í þessum málum og lögðu ekki allir áherslu á kröfur um bætt kjör og betri aðbúnað. Mikill launamunur viðgekkst nefnilega innan stéttarinnar, sumir sýningarmenn voru einnig sýningarstjórar og höfðu þá umtalsvert betri laun en almennir sýningarmenn. Þá sáu sumir um leigu á kvikmyndum út á land og höfðu af þeirri starfsemi drjúgar aukatekjur. Af þessum sökum gætti jafnan nokkurrar tortryggni sýningarmanna í millum þegar launamálin voru annars vegar.
Á fyrstu árum félagsins var alltaf af og til uppi umræða um inngöngu í Alþýðusambandið. Þannig bar fyrsta stjórn félagsins upp tillögu „um heimild stjórnar til að sækja um inngöngu, telji stjórnin hag í því fyrir félagið”. Var tillagan samþykkt einróma, en þrátt fyrir það varð ekkert af inngöngu að sinni. Efndir fylgdu í raun ekki orðum fyrr en árið 1952. Þá var samþykkt á aðalfundi að leita eftir formlegri inngöngu inn í ASÍ og gangast um leið undir skyldur þeir sem aðildarfélögum innan sambandsins voru settar, þar á meðal að breyta lögum í félagsins, samræma félagsgjöld og fleira í þeim dúr.
Tildrög þess að aðalfundur 1952 samþykkti þetta voru þau að vísir að klofningi hafði myndast í röðum sýningarmanna. Sýningarmenn í Reykjavík og víðar á höfuðborgarsvæðinu voru orðnir þreyttir á að líða fyrir það að sýningarmenn úti á landi væru ekki í sýningarmennsku að aðalstarfi og væru því seinþreyttir til vandræða þegar deilt var um kaup og kjör.
Því gerðist það að sjö áhrifamiklir sýningarmenn úr borginni, þeir Stefán H. Jónsson, Árni Kristjánsson, Árni Sigurðsson, Gunnar Þorvarðarson, Óskar Steindórsson, Tómas Snorrason og Jóhann Sigurjónsson, ákváðu að stofna með sér sérstakt stéttarfélag sýningarmanna í Reykjavík sem vinna skyldi að hagsmunamálum sýningarmanna í borginni. Um leið báru þeir fram tillögu þess efnis að FSK yrði breytt í landssamband sýningarmanna, bæði þeirra sem hefðu kvikmyndasýningar að aðalstarfi og einnig annarra.
Óhætt er að segja að tillaga þessi hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti inn á aðalfund sýningarmanna. Ólafi L. Jónssyni var sýnilega brugðið og fleirum þótti tillagan gróf atlaga að formennsku hans í félaginu. Flutningsmenn tillögunnar þverneituðu því hins vegar að vilja sölsa félagið undir sig, þeir væru aðeins að berjast fyrir bættum kjörum og aukinni stéttarvitund og þeim markmiðum yrði betur náð með samstöðu sýningarmanna í stærstu kvikmyndahúsum þjóðarinnar.
Ólafur Árnason, ritari, var einnig ósáttur við tillöguna og lét þess sérstaklega getið í fundargerð að flutningsmenn tillögunnar hafi lagt hana fram án þess að gera nánari grein fyrir ástæðu eða nauðsyn þeirra breytinga sem í tillögunni fólust. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir snarpar og allheitar umræður á fundinum. Ólafur L. Jónsson lét þess t.d. getið að tillagan bryti á bága við lög félagsins og tilgang, eins og hann hefði komið fram í samþykkt stofnfundar. Flutningsmenn bentu hins vegar á að lög félagsins væru ekki óumbreytanleg og þeim mætti breyta á aðalfundi, sýndist mönnum svo. Lýsti Ólafur sig algjörlega mótfallinn tillögunni og taldi að það myndi veikja samtök sýningarmanna ef horfið yrði að því ráði, sem ætlast var til samkvæmt tillögunni. Flutningsmenn voru vitaskuld á öðru máli og töldu að það yrði reykvískum sýningarmönnum fjötur um fót að vera háðir sýningarmönnum utan borgarinnar, t.d. í launabaráttu. Reykvískir sýningarmenn ættu meiri hagsmuna að gæta, þar sem sýningarmennskan væri þeirra aðalatvinna, en jafnan væri hún aukastarf í kvikmyndahúsum á landsbyggðinni. Bentu þeir t.d. á að kæmi til verkfalls, væri vandséð að stuðningur fengist við slíkt frá landsbyggðarmönnum. Töldu þeir því heppilegra að hafa sérstakt Reykjavíkurfélag sem væri jafnframt meira stéttarfélag í skilningi þess orðs, en FSK yrði áfram til í breytti mynd sem landssamband og í því væru sýningarmenn úti á landi.
Loftið væri lævi blandið á fundinum sem fram fór í Félagsheimili verslunarmanna. Aldrei hafði komið upp svo alvarlegur ágreiningur í röðum sýningarmanna áður og Ólafur L. Jónsson taldi útséð um framtíð hins litla félags, sem hann hafði haft svo mikið fyrir að stofna til aðeins sjö árum áður. Það var því af miklum þunga sem formaðurinn talaði er hann tók félagsmenn á eintal og skýrði sín sjónarmið í málinu. Ólafi var jafnframt ljóst að ætti að takast að halda félaginu saman, yrði að leita sátta með einhverjum hætti og gera hina óánægðu sýningarmenn úr borginni áhrifameiri innan raða félagsins.
Róbert Bjarnason, sýningarstjóri úr Hafnarfirði, var einn þeirra sem gekk fram fyrir hönd landsbyggðarmanna. Hafnfirðingar voru þá taldir með landsbyggðarmönnum og Róberti þótti mjög miður hve litla trú sýningarmenn virtust hafa á samstöðu innan félagsins og stuðningi landsbyggðarmanna. Sagði hann félagsmenn enga ástæðu hafa til að vantreysta utanbæjarmönnum ef kæmi til verkfalls í launabaráttu. Hins vegar benti hann á, að yrði tillagan samþykkt, myndi það leiða til þess að stofnuð yrðu smáfélög víðsvegar um landið sem engu fengju áorkað. Breytingin yrði því til að veikja samtök sýningarmanna.
Sýnt var, þegar hér var komið við sögu, að þetta var skoðun meirihluta fundarmanna. Flutningsmenn tillögunnar báðu um hlé til að ráða ráðum sínum, en um síðir kvað Gunnar Þorvarðarson sér hljóðs og tilkynnti að flutningsmenn drægju tillögu sína til baka. Jafnframt lagði hann fram tillögu um að aðalfundurinn fæli komandi stjórn að sjá um að félagið gangi í Alþýðusambandið hið bráðasta. Var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Ljóst var að Ólafur L. Jónsson, nafni hans Árnason og fleiri úr stjórninni höfðu unnið mikilvægan varnarsigur. En jafnljóst var að kröfuna um inngöngu í ASÍ yrði að taka alvarlega og að nýir aðilar yrðu að koma að forsvari félagsins, svo sættir mættu nást til framtíðar.
Svo fór því að Ólafur L. Jónsson lét af formennsku á fundinum og í hans stað var kjörinn formaður Árni Kristjánsson, en meðstjórnendur þeir Óskar Steindórsson og Gunnar Þorvarðarson. Þeir menn sem höfðu lagt hina umdeildu tillögu fram, höfðu því beðið ósigur en um leið sigur með því að taka við stjórn félagsins. Sjálfur gegndi Árni Kristjánsson aldrei formennsku í félaginu, hann baðst þegar undan slíku sökum anna. Stjórnin skipti hins vegar með sér verkum og kom í hlut varaformannsins Óskar Steindórssonar að halda um stjórnartauma í félaginu. Ári síðar hlaut hann síðan glæsilega kosningu sem formaður FSK og gegndi því embætti síðan næsta hálfan annan áratuginn, eða svo.
Óskar var ennfremur kjörinn fyrsti fulltrúi FSK á þing ASÍ og sótti hann þau jafnan næstu árin á eftir. Þegar ljóst var að inngangan var í höfn og öllum formsatriðum hafði verið mætt, sagði hann m.a. á fundi í félaginu 1953:
 
Með upptökunni er stórt skref stigið í átt að settu marki og er það okkar félagi mikill styrkur að eiga svo voldugan bandamann sem hægt er að leita til með aðstoð og fyrirgreiðslu er til samningaumleitana kemur.
 
Óskar hefur löngu síðar minnst með þessum orðum ástæðunnar fyrir inngöngu sýningarmanna í Alþýðusambandið:
 
Fyrst og fremst sóttumst við eftir ráðgjöf sambandsins og starfsmanna þess, og svo auðvitað hvers kyns aðstoð í tengslum við gerð kjarasamninga. Ýmislegt annað kom þar einnig til. Auðvitað nutum við góðs af því að vera orðnir aðilar að heildarsamtökum verkalýðsins og ýmsar samþykktir komu okkur til góða, eins og svo mörgum öðrum félögum.
 
Segja má að strax ári síðar hafi aðildin að ASÍ komið sér vel í launabaráttunni. Lítið hafði þá gengið um nokkra hríð í samningaþrefi við eigendur kvikmyndahúsa og var ekki útlit fyrir lausn málsins, fyrr en ASÍ skarst í málið og útbjó drög að kjarasamningi, fyrir hönd sýningarmanna. Þau drög urðu síðan að samningi með örlitum lagfæringum og þótt sýningarmönnum hér komin sönnun þess að inngangan í Alþýðusambandið hefði verið gæfuspor.
En ekki voru samt allir jafn hrifnir. Óskar var sýningarstjóri í Hafnarbíó á þessum árum og varð nokkuð kostnaðarsamt fyrir FSK að senda hann sem fulltrúa sinn á þing Alþýðusambandsins. Félagið þurfi nefnilega að greiða laun staðgengils hans í kvikmyndahúsinu á meðan, og þess vegna gátu hin löngu þing ASÍ, sem stóðu minnst yfir í eina viku, orðið litlu félagi æði kostnaðarsöm:
 
Þetta kostaði félagið jafnan mikla peninga. Ég sat þessi þing jafnan, öll þessi ár og þurfti félagið að greiða afleysingarmanni laun á meðan. Þessi þing sem voru þung í vöfum og tóku ógnartíma urðu þess vegna ansi dýr fyrir félagið og fyrir vikið skapaðist nokkur kurr meðal félagsmanna. Það var ekkert óeðlilegt útaf fyrir sig, enda mátti deila um það gagn sem sýningarmenn höfðu af aðildinni að sambandinu.
 
Ekki aðeins fór kostnaður vegna launa afleysingamanns formannsins í taugarnar á sumum félagsmönnum í FSK, heldur hitt að árum saman stóð forysta félagsins í stappi við aðalskrifstofu sambandsins vegna skattgreiðslna. Stóð ASÍ fast á því, og vísaði í lög sambandsins, að af tölu heildarfjölda félagsmanna í hverju aðildarfélagi, skyldi greiða ákveðinn hundraðshluta til sambandsins. Stjórn FSK taldi hins vegar af og frá eðlilegt að greiða slíka upphæð af hverjum félagsmanni, enda væri stór hluti félaga í FSK sýningarmenn úti á landi með staðbundin réttindi og alls ekki í sýningarmennskunni að aðalstarfi. Sýningarmenn í fullu starfi sem slíkir væru mjög fáir og í raun aðeins á Suðvesturhorni landsins og af þeim ætti að greiða fullt gjald til sambandsins, en öðrum ekki.
 
Margir sýningarmenn voru mjög ósáttir við þessa skilgreiningu sambandsins og vitaskuld kom þetta mjög illa niður á litlu félagi eins og okkar, þar sem ekki voru margir félagsmenn og enn færri virkir. Þessi hausaskattur ASÍ varð tilefni mikilla deilna, en við gerðum sitthvað til þess að komast framhjá þessu og eflaust hafa tölur okkar til ASÍ um fjölda félagsmanna ekki alltaf átt við rök að styðjast. En þetta var auðvitað barátta um skilgreiningar. Hvað væri fullgildir félagi og hvað ekki. Sýningarmennskan var fyrst og fremst á herðum örfárra manna í Reykjavík og þeir vildu sannarlega ekki greiða gjöld af sýningarmönnum úti á landi. Þeir sem höfðu staðbundin réttindi greiddu ekki nema smágjald til félagsins og ekki stóð til af okkar hálfu að borga með þeim gagnvart Alþýðusambandinu.
 
Ekki síður fór í taugarnar á mörgum sýningarmönnum, að lög ASÍ voru öllum lögum aðildarfélaga æðri og kom það í ljós í margvíslegum myndum. Þannig þurfi að leggja af þann sið á aðalfundum FSK að fjarverandi sýningarmenn gætu afhent öðrum umboð sitt til atkvæðagreiðslu. Fjölmargir sýningarmenn, einkum úti á landi, sáu sér ekki fært að ferðast suður til Reykjavíkur á aðalfundi og því hafði um langa hríð tíðkast heimild þeirra til að hafa umboðsmenn á fundum sem færu jafnframt með atkvæðisrétt þeirra. Að kröfu ASÍ var þessi siður lagður af, eftir að stjórn félagsins hafði árangurslaust reynt að skýra út sérstöðu sýningarmanna fyrir yfirstjórn Alþýðusambandsins.
Af og til á næstu árum heyrðust því efasemdarraddir um réttmæti aðildar FSK að Alþýðusambandinu. Ingimundur Einarsson, formaður FSK, 1973, lét þess þannig getið að fjölmörg erindi hefðu að venju borist frá ASÍ, en flest þeirra fjölluðu um mál sem lítið erindi ættu til sýningarmanna. Meðal þeirra mætti nefna bréf um ódýrar hóporlofsferðir félagsmanna, ýmis betlibréf og bréf um samstöðu í ýmsum málum, sem eflaust væru allra góðra gjalda verð. Síðan sagði Ingimundur:
 
Við höfum oft rætt um gildi aðildar okkar að Alþýðusambandinu. Raunverulega hefur aldrei reynt á aðstoð þess, en til þess kann þó að koma. Og þá getum við betur gert upp hug okkar, hvort við eigum að standa einir í baráttunni eða hafa not af heildarsamtökum.