Inngangan í Rafiðnaðarsambandið.

 

Aldrei kom þó til þess að sýningarmenn segðu skilið við heildarsamtök launafólks í landinu. Hins vegar urðu miklar breytingar á aðild þeirra að Alþýðusambandinu, í kjölfar þeirrar stefnu ASÍ að fjölga stórum landsamtökum og innlima í þau mörg smærri félög. Ein helsta ástæða þessa var hversu starf ASÍ var orðið umfangsmikið, enda forsvarmenn hvers einasta aðildarfélags fulltrúar á þingum þess, hversu lítil sem aðildarfélögin voru.
Óskar Steindórsson segir að gegn þessari þróun hafi fulltrúar smærri félaga barist árum saman, en að lokum orðið að játa sig sigraða, árið 1985:
 
Við reyndum að spyrna við fótum, en það gekk ekki endalaust. Þetta var eindregin stefna Alþýðusambandsins, enda voru þing þess orðin slíkt bákn að ekkert var hægt að gera, og við það urðum við að sætta okkur. Úr því sem komið var, var mjög mikilvægt fyrir okkur að verða aðilar að Rafiðnaðarsambandinu, því þar áttum við auðvitað heima og hvergi annars staðar. Á tímabili stóð til að hafa okkur í þjónustusambandi með þjónum, veitingafólki og fleiri aðilum, en það kom ekki til mála af okkar hálfu. Við höfðum engan áhuga á því.
Þröstur Árnason varð við inngönguna fyrsti fulltrúi sýningarmanna í miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins og gegndi því embætti í fjögur ár, uns Óskar Steindórsson tók við. Óskar segir að inngangan hafi að mörgu leyti verið góð fyrir sýningarmenn, en greinileg eftirsjá eftir sjálfstæði félagsins er þó til staðar:
 
Félagið er nú bara deild í þessu sambandi og ekkert meira en það. Ég vissi alltaf að það myndi gerast og við því er lítið að segja. Við erum lítil skúffa í risastóru sambandi og höfum til þess að gera lítið að segja.
 
Óskar bætir því hins vegar við, að þegar að kjaramálunum komi sé Rafiðnaðarsambandið geysilega sterkur bakhjarl:
 
Nú stjórna þeir öllu í samningamálunum og fyrir okkur er það vitaskuld mikill styrkur. FSK hefur enn formlega samninganefnd, en aðstoð RSÍ og ráðgjöf er miklu meiri og nánari en nokkurn tíma hjá Alþýðusambandinu áður.
 
Óskar bendir jafnframt á hversu margt annað hefur breyst í starfsemi félagsins. Þannig séu nú borgaður ákveðinn skattur af fjölda félaga til RSÍ, en ekki ASÍ eins og áður. Sömuleiðis séu ekki lengur fulltrúar sendir á þing Alþýðusambandsins, heldur séu fulltrúar Rafiðnaðasambandsins á þeim þingum fulltrúar allra sinna félagsmanna.
Aðrir telja inngönguna í Rafiðnaðarsambandið hafa hvorki meira né minna en skipt sköpum fyrir framtíð FSK. Í þeim hópi eru feðgarnir Jóhann Sigurjónsson og Sigurjón Jóhannsson, en sá síðarnefndi sat árum saman í miðstjórn RSÍ og tók við af Óskari Steindórssyni sem slíkur. Sigurjón segir:
 
Öll starfsemi félagsins og félagið sjálft var í mikilli kreppu þar til við gengum inn í Rafiðnaðarsambandið. Það gerðist eftir margra ára þref og var mikið gæfuspor. Geysilega mikið gæfuspor.
 
Sigurjón bætir því við að árum saman hafi mjög hamlað kjarabaráttu sýningarmanna hversu nátengdir margir þeirra voru forstjórum kvikmyndahúsanna. Þannig hafi sumir sýningarmenn verið á mjög góðum launum og þess vegna haft lítinn áhuga á beinskeittri launabaráttu yngri manna og beinlínis barist með oddi og egg fyrir hagsmunum kvikmyndahúsanna.
Tekur hann sem dæmi þá breytingu sem varð 1978 með tilkomu Regnbogans og fimm sýningarsala hans. Áfram hafi verið einn sýningarmaður í klefa, þrátt fyrir gjörbreytt verkvið og miklu meira umfang. Leynir sér ekki að Sigurjón telur að með samstilltu átaki sýningarmanna hefði mátt koma á eðlisbreytingu um leið og sölum fjölgaði, með því að hækka launin verulega og fjölga um leið sýningarmönnum á vakt hverju sinni:
 
Því miður voru ákveðnir aðilar í félaginu of forstjóratengdir og tóku afstöðu með kvikmyndahúsunum en ekki félögum sínum. Ákveðnir sýningarmenn voru þannig orðnir hluti af þessari forstjóraklíku og var það í fullu samræmi við það sem verið hefur frá upphafi, að sumir sýningarmenn voru með mjög góð laun og aðrir ekki. Sumir voru nefnilega hægri hönd forstjóranna og kunnu engan veginn að skilja þarna á milli.
 
Þröstur Árnason, sýningarstjóri í Bíóhöllinni og gjaldkeri FSK lengur en nokkur annar í sögu félagsins, tekur undir þetta. Hann segir að hin mikla nálægð sýningarmanna við forstjórana hafi verið orðinn félaginu fjötur um fót:
 
Enn og aftur var það hið nána og persónulega samband milli sýningarmanna og rekstraraðila kvikmyndahúsanna sem háði starfi félagsins þegar kom að kjaramálum. Þessi mikla nálægð reyndist mjög erfið og við komumst hvorki lönd né strönd í samningaviðræðum. Við sáum okkur styrk í því að sækja reynslu af gerð kjarasamninga og samskipta við atvinnurekendur í fagsambandi eins og Rafiðnaðarsambandinu.
 
Sigurjón Jóhannsson bendir hins vegar á hversu þetta hafi breyst með inngöngunni í Rafiðnaðarsambandið. Þröstur Árnason er sama sinnis og líkir þessu við að leikmenn hafi skyndilega komist í flokk með atvinnumönnum:
 
Þeir í Rafiðnaðarsambandinu bjuggu yfir víðtækri þekkingu á vinnumarkaðnum og gengu því alls óhræddir til samningaviðræðna, ólíkt okkur sem alltaf hafði kviðið fyrir samningalotunum.
 
Þröstur bætir því við að forstjórar kvikmyndahúsanna hafi margir brugðist ókvæða við inngöngu sýningarmanna í Rafiðnaðarsambandið og sumir hafi jafnvel hótað því að viðurkenna ekki RSÍ sem samningsaðila. Ekki hafi þó komið til þess, en kvikmyndahúsaeigendum var sýnilega mjög brugðið:
 
Ég held að þeir hafi orðið svolítið reiðir. Ekki allir eigendur kvikmyndahúsanna, en árum saman höfðu sumir þeirra reynt að gera sem minnst úr félagsskap okkar sýningarmanna og reynt að fara sínu fram í öllum málum. Fyrir þá var þetta algjört kjaftshögg, því skyndilega var öll okkar starfsemi orðin eins og hjá hverju öðru verkalýðsfélagi. Það fór rosalega í taugarnar á þeim.
 
Líkt og við fyrstu gerð kjarasamninga eftir inngöngu sýningarmanna í Alþýðusambandið í upphafi sjötta áratugarins, skipti hið öfluga bakland miklu máli strax við gerð fyrstu kjarasamninga eftir að FSK gekk inn í Rafiðnaðarsamnandið. Sá samningur lyfti sýningarmönnum talsvert upp, einkum í launum, og mikil ánægja ríkti með breytingarnar í hópi sýningarmanna, að sögn Þrastar Árnasonar:
 
Forystumenn Rafiðnaðarsambandsins tóku okkur strax mjög vel og fylgdu okkur gegnum fyrstu skrefin eftir inngönguna. Þannig hefur það verið æ síðan og aldrei höfum við fundið fyrir smæð félagsins. Það hefur alltaf verið komið fram við okkur af hálfu forystu RSÍ eins og hvert annað félag.
 
Þröstur segir að almennt hafi sýningarmenn verið mjög ánægðir með hvernig fór, enda þótt sumir hafi séð eftir hinu formlega sjálfstæði félagsins. Hann hefur reyndar efasemdir um að félag sýningarmanna væri til sem slíkt, hefði ekki komið til inngöngu í Rafiðnaðarsambandið árið 1987:
 
Ég myndi segja að ef við hefðum ekki gengið inn á þessum tímapunkti, að þá værum við ekki til í dag. Félagið var bara orðið svo veikburða á þessum tíma, að til hreinna vandræða horfði. Vanmáttur okkur í samningamálum fór í taugarnar á sýningarmönnum og félagslífið var orðið mjög máttlítið. Þetta var einfaldlega sú andlitslyfting sem við þurftum á að halda.
 
Rafiðnaðarsambandið hefur í dag með höndum samningsumboð Félags sýningarmanna við kvikmyndahús og í raun daglegan rekstur þess. Þangað geta sýningarmenn leitað eftir úrlausn sinna mála, rétt eins og aðrir félagar Rafiðnaðarsambandið og í höfuðstöðvum RSÍ er jafnframt lögheimili FSK og póstfang.
Félag sýningarmanna nýtir einnig á margan hátt þá aðstöðu sem fyrir er í herbúðum Rafiðnaðarsambandsins. Þannig sér skrifstofa RSÍ um innheimtu félagsgjalda fyrir FSK og önnur aðildarfélög, heldur utan um félagaskrá og hýsir aðalfund félagsins ár hvert. Hvenær sem er stendur félaginu skrifstofu- og fundaaðstaða í húsakynnum Rafiðnaðarsambandins til boða, því að kostnaðarlausu.
Þröstur segist hins vegar alls ekki sammála þeirri túlkun að FSK sé nú aðeins lítil skúffa í hinu stóra skrifborði Rafiðnaðarsambandsins:
 
Vissulega er þetta lítið félag í stóru sambandi. En við höfum allt til alls og njótum þess að eiga svo öflugt bakland. Þegar við höfum þurft á stuðningi að halda, hefur aldrei brugðist að RSÍ kæmi fljótt og örugglega til aðstoðar. Þess vegna tel ég að stærðin skipti ekki neinu máli. FSK er ennþá til og lifir góðu lífi.