Félagsheimili eða sumarbústaðir?

 

Eins og áður er getið varð þróunin sú að félagsheimilið í Tjarnargötu 10 stóð ónotað langtímum saman. Þeim fjölgaði sem vildu sjá breytingar, en félagsmenn greindi þó á um hvað ætti að gera þegar félagsheimilið hefði verið sett. Einhverjir vildu skipta andvirðinu meðal félagsmanna og gera um leið upp þær skuldaviðurkenningar sem aflað var á sínum tíma, en aðrir töldu skynsamlegast að festa starfsemina einhvers staðar í leiguhúsnæði og mynda síðan sjóð um andvirði sölu félagsheimilisins. Enn aðrir vildu að félagið færi að dæmi fjölmargra annarra verkalýðsfélaga á þessum árum og byggði orlofshús fyrir félagsmenn sína, helst á sólríkum og gróðurmiklum stað í grennd við helstu orlofshúsabyggðir annarra félaga, svo sem í Borgarfirði eða í nágrenni Laugarvatns.
Sigurjón Jóhannsson, þá formaður félagsins, beitti sér fyrir þessu á fundum félagsins og á aðalfundi í júní 1981 kynnti hann útfærðar hugmyndir sínar í þessum efnum.
Sigurjón hóf máls sitt með því að benda á að félagsheimilið að Tjarnargötu 10 hefði alls fjórum sinnum verið notað undir samkomur á vegum félagsins síðastliðið starfsár. Kynnti hann því næst tillögu um að fjárfestingarforminu yrði breytt þannig að keyptir yrðu tveir sumarbústaðir og kaupin fjármögnuð með sölu á Tjarnargötu 10. Spannst nokkur umræða um tillögur Sigurjóns, en í umræðunni vóg þungt hinn mikli kostnaður sem fylgdi því að eiga fasteign í miðborg Reykjavíkur. Jafnframt var bent á að miklu ódýrara væri fyrir félagið að leigja fasta aðstöðu undir starfsemina. Meðal yngri fundarmanna reyndist og vera mikið fylgi við hugmyndir um kaup eða byggingu orlofsheimila, enda kæmi slíkt að miklu meiri notum fyrir hinn almenna félagsmann og fjölskyldu hans, heldur en félagsheimili fyrir stöku kvöldsamkomur.
Svo fór að á fundinum var samþykkt að leita hófanna með kaup á sumarbústöðum og fjármagna þau með sölu íbúðarinnar við Reykjavíkurtjörn. Ekki voru þó allir sáttir við þau málalok og t.d. sá Óskar Steindórsson ýmis tormerki á ráðahagnum:
 
Úr því sem komið var gátum við lítið barist gegn því að félagsheimilið yrði selt. En mér fannst ekki koma til mála að eyða peningunum í einhvern sumarbústað uppi í sveit. Það var eitthvað það vitlausasta sem ég hafði lengi heyrt.
 
Fleiri tóku í sama streng, t.d. Róbert Bjarnason í Bæjarbíói sem taldi félagið lítil not hafa fyrir sumarhús í sveitinni. Svo fór þó að þeir sýningarmenn sem vildu sjá sumarbústað félagsins rísa, höfðu sitt fram. Flestir voru þeir af yngri kynslóðinni og þá væntanlega fjölskyldumenn sem born sem vildu fá að njóta verunnar í sveitinni með börnum sínum í orlofinu. Slíkt var óðum að ryðja sér til rúms, einkum hjá stærri verkalýðsfélögum og þótti mörgum sýningarmönnum vegur félagsins aukast heldur með þessu.
Færa má fyrir því gild rök að á endanum hafi fjárhagslegar ástæður vegið þyngst fyrir sölunni á Tjarnargötu 10. Á vormánuðum 1982 voru reikningar félagsins kynntir og þá kom í ljós um 11 þúsund kr. kostnaður við félagsheimilið gegn engum tekjum. Félagið hafði orðið að slá víxil til að standa skil á fasteignagjöldum. Allt að einu var samþykkt á aðalfundi félagsins þetta ár að selja félagsheimilið og lán, þar á meðal við styrktarsjóð FSK, yrðu að fullu gerð upp með verðbótum. Aukinheldur var samþykkt að öllum þorra félagsmanna að eftirstöðvum af söluandvirði yrði varið til kaupa á sumarbústað í Grímsnesi og einnig að festa kaup á öllum nauðsynlegum búnaði og aðstöðu fyrir slíkt húsnæði.
Fyrir valinu varð svæði þar sem heitir Hraunborgir í Grímsnesi. Þá var þar óðum að rísa byggð sumarhúsa hinna ýmissa félaga og stofnana, ekki síst verkalýðshreyfingarinnar, en einnig áttu einstaklingar lóðir þar um slóðir. Nokkuð hrjóstrugt var á þessu svæði og ekki búið að ganga frá öllum nauðsynlegum tengingum. Seinna átti þetta eftir að verða eitt eftirsóttasta orlofsheimilasvæði landsins.
Sumarbústaðurinn var formlega tekinn í notkun með vígsluathöfn á vegum félagsins hinn 21. maí 1983 og héldu sýningarmenn ásamt mökum í rútum frá Tónabíói til Grímsness í tilefni dagsins. Fólk var í sannkölluðu hátíðarskapi, enda veður gott, og slegið var upp mikilli veislu á staðnum – sannkölluðu reisugildi.
Sumarhús FSK að Lundeyjarsundi 103, Hraunborgum í Grímsnesi varð strax feykivinsælt og var setið um leiguna. Leigð var út vika í senn, alls fjórtan vikur á ári yfir sumarmánuðina og var ekki ástæða til að kvarta yfir nýtingunni. Ákveðið hafði verið að gefa öðru starfsfólki kvikmyndahúsanna möguleika á að sækja um dvöl í bústaðnum, en sýningarmenn skyldu þó njóta forgangs. Varð því sjaldan messufall yfir sumarmánuðina.
Sérstök nefnd var stofnuð innan félagsins um rekstur og umsjón sumarbústaðarins og lengst af var Pétur Pétursson í forsvari hennar. Til að halda kostnaði í lágmarki voru verkfæri höfði í bústaðnum ef ske kynni að sýningarmenn færi að klæja í fingurna í fríinu eftir verklegri vinnu og stundum var einnig farið í hópferðir og heilmiklu komið í verk með samstilltu átaki. Var þá jafnan tekið hraustlega til matar síns og jafnvel drykkjar á eftir.
Gunnar Árnason, fyrrverandi formaður félagsins, gerði sumarbústaðinn einmitt að umtalsefni á fundi 1986 og minnti á að í sinni formannstíð hefði verið afráðið að selja félagsheimilið að Tjarnargötu 10 og kaupa þess í stað sumarbústað fyrir félagsmenn.
 
Miklar umræður spunnust þá um málið og sýndist sitt hverjum. Nú eru hins vegar flestir sammála um að það hafi verið mjög hagkvæm lausn. Flestir telja líka að félagsstarfið hafi glæðst nokkuð við þetta.
 
Síðasta setningin í ræðu Gunnars verður að teljast býsna athyglisverð. Að salan á félagsheimilinu hafi orðið til þess að glæða félagstarfið er ekkert annað en grátlegt í ljósi hins upphaflega tilgangs með kaupum á því; nefnilega að koma félaginu þak yfir höfuðið, efla samkennd meðal félagsmanna og efla starfsemi á vegum félagsins.
Með árunum kom þó í ljós að hæpið var að reisa rekstrargrundvöll húsnæðis á útleigu yfir tæplega þrjá mánuði á ári hverju. Kostnaður vegna viðhalds og uppbyggingar jókst eftir því sem árin liðu og ekki tókst að brúa bilið með nokkurri hækkun gjalda. Enn fór því svo að raddir heyrðust um réttmæti þess að félagið héldi út slíku orlofsheimili, ekki síst þegar ljóst væri að borgað væri með því úr rýrum sjóðum félagsins.
Líklegt má telja að innganga FSK í Rafiðnaðarsamband Íslands hafi orðið sumarbústaðnum til bjargar. Á vegum RSÍ voru reknir fjölmargir bústaðir og stóðu þeir öllum félagsmönnum til boða, einnig sýningarmönnum. Þess vegna kom upp sú hugmynd að bjóða Rafiðnaðarsambandinu bústaðinn til kaups – leysa hann með öðrum orðum inn í orlofshúsanet sambandsins.
Ekki reyndist eining um þetta með félagsmanna og í fyrstu var því farin sú leið að fela RSÍ útleigu á bústaðnum og umsjón með öllum rekstri. Þetta reyndist prýðilega, þótt einhverjir sýningarmenn ættu erfitt með að sætta sig við að þurfa að keppa um vikuvist í bústaðnum á jafnréttisgrundvelli við aðra meðlimi Rafiðnaðarsambandsins.
Ekki leið þó langur tími þar til samstaða náðist um að bjóða RSÍ bústaðinn til kaups, en sambandið hafði þá sjálft ljáð máls á því eftir að hafa keypt þrjá bústaði Félags rafvirkja á sömu slóðum. Því fór svo að í maí 1991 keypti Rafiðnaðarsambandið bústaðinn og allt fylgifé. Kaupverðið var ríflega hálf þriðja milljón króna og fólst hluti upphæðarinnar í jöfnun skulda vegna endurbóta og annarra framkvæmda sem greiddar höfðu verið úr sjóðum rafiðnaðarmanna.
Þar með var lokið húsnæðiskafla í sögu Félags sýningarmanna við kvikmyndahús. Sýningarmenn höfðu verið átt eigið húsnæði við Tjarnargötu og síðar Hraunborgir í 18 ár, en eftir þessi viðskipti áttu þeir aðeins hlut í húsnæði hér og hvar gegnum aðild sína að Rafiðnaðarsambandinu og Alþýðusambandinu. Sá hlutur var og er ekki stór, enda félagið mjög lítið. En það er önnur saga.