Fer fyrir sýningarmönnum eins og loftskeytamönnum?

 

Virkir félagsmenn í Félagi sýningarmanna við kvikmyndahús fylla nú ríflega tvo tugi. Fleiri eru þeir ekki. Að vísu eru mun fleiri sýningarmenn á skrá, en ekki greiða mikið fleiri sýningarmenn gjöld til sins félags og er það vitaskuld mikil breyting frá því sem var, þegar best lét á arum áður.
Þrátt fyrir það er ágætlega komið fyrir félaginu í fjárhagslegu tilliti. Gjaldkerinn Þröstur Árnason segir eignastöðuna trausta, félagið hafi eignast nokkuð traustan sjóð með sölunni á sumarbústaði sínum til Rafiðnaðarsambandsins fyrir nokkrum arum og sá sjóður sé ávaxtaður á háum vöxtum. Vextirnir eru ætlaðir til fræðslu- og skemmtiferða á vegum félagsins og árið 1994 fóru sýningarmenn einmitt í slíka ferð til Lundúna. Var mikið fjölmenni í þeirri ferð þar sem m.a. voru sótt heim kvikmyndahús í heimsborginni, en auk þess litið við í því heimsfræga kvikmyndaveri Pinewood.
Margt bendir til að miklar breytingar eigi eftir að verða á eðli og umfangi sýningarmanna í kvikmyndahúsum á næstu árum. Eftir inngönguna í RSÍ hafa fulltrúar félagsins átt sæti í nefnd um undirbúning þess að nám sýningarmanna verði fellt inn í starfsemi Rafiðnaðarskólans. Sú vinna stendur nú þannig að drög að námskrá hafa verið send menntamálaráðuneytinu til umsagnar.
Ekki fer á milli mála að fámenni í stéttinni og óverulegur áhugi á faginu getur hér orðið Þrándur í Götu. Það er dýrt að halda úti námi sem þessu og ljóst að fleiri en tvo til fjóra nýja menn á ári þarf til að það standi undir sér í slíkum skóla.
En ekki aðeins eru að verða breytingar á menntunarmálum sýningarmanna þessi misserin. Það sem ekki síður vekur forvitni, er hin mikla gerjun sem er að verða í sjálfri sýningartækninni. Vonum seinna, kunna einhverjir að segja, því færa má rök fyrir því að sáralitlar breytingar hafi átt sér stað á sjálfri tækninni við að varpa kvikmyndinni úr sýningarvélinni yfir á hvíta tjaldið í ríflega heila öld. Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á hljóði og hljóðvinnslu kvikmyndanna, en sjálf kvikmyndasýningartæknin er að stofni sú sama og áður.
Margt bendir til þess að þessa sé að breytast. Á undanförnum árum hefur þannig verið innleidd býsna flókin tækni til þess að fjarstýra sýningarvélum í smærri sölum úr tækjasal kvikmyndahúsa og hafa mörg kvikmyndahús hér á landi tekið slíkan búnað í notkun. Þetta hefur að sumu leyti auðveldað sýningarmönnum vinnu sína, en krefst þess einnig að þeir séu vel að sér í tæknimálum og kunni vel á tölvur og hugbúnað tengdan kvikmyndasýningum.
Það er því ekki að undra að lagt sé til, í drögum að námskrá fyrir nám sýningarmanna í Rafiðnaðarskólanum, að starfsheitinu verði breytt í tæknimenn kvikmyndahúsa. Það væri sannarlega tímanna tákn.
Sigurjón Jóhannsson er líklega sá maður hér á landi sem mesta ábyrgð ber á þeirri framþróun sem orðið hefur í hljómgæðum kvikmyndahúsa á undanförum árum. Sigurjón rekur fyrirtæki um uppsetningu og viðhald búnaðar til kvikmyndasýninga og hefur sem slíkur staðið fyrir endurnýjun nálega allra kvikmyndahúsa á síðustu árum. Hann kom að uppbyggingu Regnbogans fyrir ríflega tuttugu árum, þegar bandarískir tæknimenn komu hingað til lands vegna opnunar hússins, og stuttu síðar var hann orðinn hægri hönd Árna Samúelssonar við byggingu og hönnun Bíóhallarinnar.
Uppfrá því hefur hann komið að endurnýjun eða nýbyggingu Laugarásbíós, Háskólabíós, Stjörnubíós, Bíóborgarinnar, Kringlubíós, Regnbogans og nú síðast hins væntanlega risabíós í Smáralind í Kópavogi. Í því kvikmyndahúsi er einmitt ætlunin að brydda upp á ýmsum nýjungum varðandi sýningartæki og segir Sigurjón að sláandi sé að fylgjast með þeirri tækniþróun sem nú sé að verða í greininni:
 
Fyrir nokkrum árum fórum við að gera ýmsar tilraunir í sýningarklefunum hér á landi, t.d. að samkeyra eina filmu í fleiri en einni sýningarvél svo sýna mætti sömu myndina í fleiri en einum sal samtímis. Þetta hefur gefist mjög vel, en slík tilraunastarfsemi er algjört lítilræði í samanburði við þær breytingar sem í vændum eru.
 
Sigurjón bætir því við tölvur komi sífellt meira inn í starf sýningarmannsins og ekki líði á löngu þar til flest sé orðið sjálfvirkt í sýningarklefanum.
 
Erlendis er farið að innleiða nánast algjöra sjálfvirkni. Kvikmyndin er hreinlega keyrð gegnum tölvu og svo afrituð á milli sýningarsala með tölvuforriti. Allar tæknilegar upplýsingar, svo sem um hljóðstyrk og birtu má einnig vista og afrita með þessum hætti svo ekki þurfi sífellt að vera að breyta þessum þáttum handvirkt. Þessi breyting er svo sannarlega með ólíkindum.
 
Hann er þó ekki þeirrar skoðunar að sýningarmaðurinn verði óþarfur sem slíkur, en leggur áherslu á að góður tæknimaður við kvikmyndahús verði að búa yfir mikilli tækniþekkingu, hvort tveggja bóklegri og verklegri.
 
Þeir menn sem munu veljast í þetta starf í framtíðinni verða bæði að vera klárir á tölvur, en einnig snjallir tæknimenn. Þessi tækjabúnaður verður flókinn og dýr og því geysilega mikilvægt að unnið sé gætilega og rétt farið að. Ég hef lengi haldið því fram að meiri menntun þurfi en nú er til að verða sýningarmaður og mér sýnist að sú sé nú að verða raunin. Stafrænt bíó er handan við hornið og tölvurnar eru að taka yfir í sýningarklefunum. Það segir sig sjálft að menn þurfa að hafa almennilega menntun til að standa undir slíkum breytingum.
 
En er ástæða til að hafa beinlínis áhyggjur af þessari þróun? Verða sýningarmenn máske óþarfir með þessum miklu breytingum, sérstaklega ef þeir halda ekki vöku sinni? Agnar Einarsson er einn þeirra sem er ekki bjartsýnn:
 
Ég óttast að það fari eins fyrir okkur og loftskeytamönnunum. Við verðum hreinlega óþarfir með nýrri tækni og þetta sé einfaldlega óhjákvæmileg þróun. Tæknibreytingarnar verða svo miklar og í framtíðinni munu kvikmyndirnar koma gegnum gervitungl í tölvur kvikmyndahúsanna. Sjálfvirknin verður allsráðandi og þótt vissulega verði einhverjir tæknimenn kvikmyndahúsanna, þá er ekkert sem segir að það þurfi að vera menntaðir sýningarmenn. Það stendur hvergi í okkar samningum að sýningarmenn eigi að vinna við tölvur.
 
Agnar telur að FSK verði að halda vel á spöðunum, eigi að vernda starfið áfram þrátt fyrir hinar miklu breytingar. Hann bendir á að félagið hafi ekki staðið sig nægilega vel þegar fjölsalabíóin komu, þá hafi laun ekki hækkað hjá sýningarmönnum þrátt fyrir gjörbreytt starfsumhverfi. Þá breytingu hafi aldrei náðst að leiðrétta og því sé afar brýnt að vel sé haldið á málum nú.
Hann bætir því við:
 
Það getur verið að mönnum takist að vernda þetta starf og laga það að breyttum tímum. En það tókst loftskeytamönnum ekki á sínum tíma. Það er erfitt að stöðva eða hafa áhrif á þróun sem einu sinni er komin af stað.
 
Ekki skal á það lagður dómur hér, hvort þessi svartsýnisspá Agnars Einarssonar á rétt á sér, en víst er að sýningarmenn verða að vera vakandi fyrir þeim breytingum sem framundan eru. Framtíðin ein getur skorið úr um það hvernig fer. Enginn annar.
 

 

 

THE END

FIN