Gaflararnir taka við sér.
Hafnarfjarðarbíó, eða Árnabíó.

 

Þótt kvikmyndasýningar hæfust fyrst í Reykjavík með reglubundnum hætti, kom fljótt í ljós að annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni var ekki minni áhugi fyrir rekstri slíkra húsa. Víða stóðu vannýtt félagsheimili og tilvalið þótti að renna styrkari stoðum undir rekstur þeirra með kaupum á tækjum til kvikmyndasýninga. Auk þess fóru farandsýningarmenn um landið og sýndu margskyns kvikmyndir við miklar vinsældir.
Í Hafnarfirði hófust kvikmyndasýningar í Hafnarfjarðarbíói, eða svonefndu Árnabíói árið 1914. Haustið 1913 höfðu þeir Árni Þorsteinsson, Oddur Ívarsson og Sæmundur Guðmundsson stofnaði með sér Kvikmyndafélag Hafnarfjarðar til að hefja rekstur kvikmyndahúss í bænum. Fóru sýningarnar fram í húsi á mótum Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar, þar sem nú stendur Kirkjuvegur 3. Þetta var íbúðarhús sem hafði verið stækkað og í lítilli viðbyggingu var komið fyrir rafstöð.
Sýningar hófust í aprílbyrjun og fyrst í stað var sýnt tvisvar til þrisvar í viku. Eins og í öðrum kvikmyndahúsum var í Árnabíói einnig boðið upp á annars konar menningarstarfsemi, oft voru þar dansleikir og skemmtiklúbburinn Frelsið hélt þar til með samkomur sínar.
Árnabíó var ágætlega tækjum búið, rafdrifnar Bauer-sýningarvélar þóttu fullkomnar og sýningartjaldið var um 15 fermetrar. Í litlum áhorfendasalnum voru bekkir allra fremst, en sjö oftustu raðirnar höfðu stóla. Öll sæti voru númeruð.
Fernt starfaði alla jafna við sýningar í húsinu; Árni sjálfur, sem sá um dyravörslu, en auk hans unnu undirleikari, sýningarmaður og rafmagnsmaður, einkum til að gæta þess að rafmótorinn ofhitnaði ekki.
Um það leyti sem kvikmyndahúsið hóf starfsemi eignaðist Árni það að öllu leyti. Lóðin að Kirkjuvegi 3 var í eigu tengdaforeldra hans, en Árni fékk snemma áhuga á að byggja stærra og veglegra hús undir starfsemina. Í því skyni fékk hann Ásgeir G. Stefánsson til að gera teikningar að nýju kvikmyndahúsi, en af framkvæmdum varð ekki sökum fjárskorts.
Hafnarfjarðarbíó var því rekið við heldur rýran húsakost fram eftir öldinni, en þegar hernámslið Breta og síðar Bandaríkjamanna steig á land á Íslandi fór heldur en ekki að batna ástandið hjá Árna bíóeiganda.
Með hernáminu 1940 jókst aðsókn nefnilega mjög að kvikmyndasýningum og svo fór, að fjölga varð sýningum svo þær urðu fleiri en ein sum kvöldin. Árni hafði fest kaup á lóð undir nýtt bíó árið 1936, en í ljósi mikillar velgengni á árum seinni heimssyrjaldar lét hann slag standa og reis húsið á árunum 1940-43. Fyrsta kvikmyndasýning í hinu nýja húsi við Strandgötu fór fram skömmu fyrir jól 1943.
Talvélar höfðu leyst Bauer-vélina af hólmi og alls mátti koma fyrir 300 gestum í nýja kvikmyndahúsið. Hönnuður þess var Ásgeir Stefánsson.
Lengst af sýndi Hafnarfjarðarbíó myndir sem það tók á leigu frá kvikmyndahúsunum tveimur í Reykjavík, Gamla og Nýja Bíó. Þó kom fyrir að kvikmyndir voru keyptar beint á vegum hússins og frumsýndar í Hafnarfirði.
Frá upphafi var Hafnarfjarðarbíó rekið sem fjölskyldufyrirtæki. Árni rak bíóið sjálfur til dauðadags árið 1956, en synir hans Níels og Kristinn höfðu þá báðir komið að starfseminni.
Níels varð framkvæmdastjóri, en báðir sýndu þeir bræður í kvikmyndahúsi sínu. Þekktasti sýningarmaður þess var þó án efa Níels Þórarinsson, en einnig sýndi Þórður Einarsson þar um langt árabil.
Þegar hið nýja bíó í Hafnarfirði reis var orðið ljóst að Árni Kristjánsson yrði ekki einn um hituna í bænum. Bæjaryfirvöld höfðu nefnilega sjálf augastað á rekstri kvikmyndahúss og svo fór að þau létu reisa kvikmynda- og skrifstofuhús í miðbæ Hafnarfjarðar - Bæjarbíó.
Bæjarbíó tók til starfa á þrettándanum 1945 og var forstöðumaður þess Helgi Jónsson. Bíóið tók 336 manns í sæti og hóf snemma að flytja inn eigin kvikmyndir, þar eð Hafnfirðingar höfðu flestir séð myndir Reykjavíkurbíóanna. Myndir þessar voru oft af listrænum toga og spratt af því sérstaða kvikmyndahússins, en gestir þess voru jafnan af öllu höfuðborgarsvæðinu.
Í árdaga íslenska ríkissjónvarpsins tók heldur að halla undan fæti í rekstri Bæjarbíós og það lenti í kröggum. Ágóði þess átti að renna til uppbyggingar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði, en undir lok sjöunda áratugarins var orðið umtalsvert tap á rekstrinum. Var því gripið til þess að semja við einkaaðila um reksturinn og frá árinu 1974 sá Laugarásbíó í Reykjavík um rekstur þess og sýndi þar myndir sem áður höfðu gengið í Reykjavík.
Sýningarmaður í Bæjarbíói lengst af var Róbert Bjarnason, en hann sat um árabil í stjórn FSK, jafnan sem gjaldkeri, enda vanur að fást við tölur úr aðalstarfi sínu sem skrifstofustjóri á Sólvangi í Hafnarfirði.
Reglulegar kvikmyndasýningar lögðust svo alveg af í Bæjarbíói á níunda áratugnum og bar þá meira á starfsemi ýmissa leikfélaga, sem þar fengu inni. Árið 1995 var svo Kvikmyndasafni Íslands fengin afnot af bíóinu fyrir starfsemi sína og má segja að þar sé nú vagga kvikmyndanna hér á landi.