Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri

 
   “ Fánýtur fróðleikur....”


Ég geri ráð fyrir að allmargir sýningarmenn muni eftir STJÖRNUBÍÓ, en ferli þessa rótgróna kvikmyndahúss lauk með rifrildi árið 2003, eftir nær 55 ára tilveru.
Eftir 3ja ára byggingabasl, var bíóið loks tilbúið og tók til starfa í september´49 Salurinn rúmaði um 500 manns í sæti með virðulegum efrisvölum.
En frum-teikningin var ekki þannig úr garði gerð. Svalinar áttu að vera helmingi minna en raunin varð og að baki þeirra sýningarklefinn. Á hæðinni fyrir ofan, sem snéri að Laugaveginum, voru “tvö herbergi og eldhús”, ætluð sem íbúð fyrir húsvörð, sem eflaust hefði átt að gegna dyravörzlu, ræstingum og viðhaldi. Flott skyldi það vera !
Á byggingastiginu datt eigendum í hug, að nýta allt svala-rýmið og færa sýningarklefann upp á hanabjálka. Þar með bættust við um eitt hundrað sætis-botnar! Út með húsvörðinn !!
. Þessi breyting olli því að frá grunnfleti hússins og upp í sýningarklefann lágu 33 tröppur - í hálfum spíral að auki. Klefinn var í heild sinni sæmilega rúmur en hólfaður í þrjá hluta með stálhurðum, samkvæmt öryggisreglum, þannig að gólfflöturinn nýttist illa.
Í minnsta herberginu, sem reyndar var hálfgerður rangali, voru afriðlarnir fyrir kolbogaljósin, opnanlegur skjár svo unnt væri að virða fyrir sér mannlífið á Laugaveginum og í gluggakistunni pláss fyrir kaffikönnu. Önnur aðstaða til matargerðar var ekki fyrir hendi.
Enginn sími þau 14 ár sem ég vann þarna við kvikmyndasýningar, þó svo að leiðslurnar væru fyrir hendi. Smíðaði sjálfur lítið útvarp til að geta hlustað á fréttir og man greinilega eftir, þegar Kennedy var myrtur.
Búinn að starta 7-sýningunni og settist niður með kaffibolla í hendi og rúgbrauðssneið. Mér varð svo mikið um þennan atburð að ég hálfpartinn fraus með kvöldmatinn hálfa leið að galopnum munninum !
Smá útidúr.


Neyðin kennir nöktum sýningarmanni að spinna sig niður eftir bandspotta !

(nýtt afbrigði að máltækinu; “ Neyðin kennir naktri konu að spinna” )

Enginn neyðarútgangur var í klefanum – og þá vitna ég aftur í reglugerðina frá 1947 um öryggi í klefa vegna “nitrate” filmunnar- reglugerð sem skilyrðislaust kvað á um eldvarnarteppi og flóttaleið fyrir sýningarmanninn.
Þegar ég kom til starfa í Stjörnubíó voru eldfimar filmur nánast úr sögunni en þó voru nokkrar eftirlegukindur sýndar af og til. Öryggisreglurnar stóðu samt sem áður blýfastar á prenti.
Til að bjarga þessu ákvæði um flóttaleiðina, þá var til taks reipi, sem náði niður á gangstétt - 25 metra, fest við ofn í litla gluggaherberginu !
Ef eldur yrði laus í klefanum, gat sýningarmaðurinn skellt aftur eldtraustu hurðinni, þröngvað sér út um gluggann með hnútalaust reipi í berum lófum og rennt sér niður! Langar einhvern til að prófa ??


“SENUÞJÓFURINN”

Umgjörð “senunnar” var þannig úr garði gerð að sýningartjaldið var nánast rammað upp að endaveggnum. Þá kom í ljós að ekkert rými var fyrir hátalarana ! Nú voru góð ráð dýr ! Leita varð leyfis frá Bygginganefnd Reykjavíkur, til að smíða útskot að utanverðu sem hýsti hólf fyrir tvo bassahátalara og lúður fyrir hátóninn. Leyfið fékkst.
Þetta “krabbamein” á endaveggnum var u.þ.b. 3x3x1 m.
En ekkert er svo illt að ei boði nokkuð gott. “Soundið“ í Stjörnubíó var mjög “þétt” og skýrt enda ekkert endurkast frá tómarúmi bak við sýningartjaldið. Þannig leystist málið farsællega á báða vegu.


“URÐ OG GRJÓT, UPP Í MÓT, EKKERT NEMA URÐ OG GRJÓT...”

Víkjum aftur að tröppunum þrjátíu og þremur. Þrisvar til fjórum sinnum á ári, bárust ”nýjar” myndir frá Columbia í Hollywood
en Stjörnubíó sat að þeim samningi. Þá var handagangur í öskjunni- í orðsins fyllstu merkingu. Mikið lá við að “prufusýna” myndirnar, kanna innihaldið og fá úrskurð kvikmyndaeftirlitsins. Leyfð, bönnuð 12 ára,
14 ára eða 16 ára. Filmurnar bar ég upp í klefa, aftur niður til geymslu og svo aftur upp, þegar að sýningum kom- 12 kílóa járnbox í hvorri hendi - þrjátíu og þrjár tröppur! Einhverntíma kom til tals að útbúa lyftu til að létta mér burðinn en sú hugmynd sofnaði jafnóðum og hún vaknaði. Bíóeigendur hafa sjaldan mulið undir sýningarmennina sína, allavega ekki á minni starfstíð.
Með tímanum fékk ég slæm einkenni af keppnisáráttu. Ég fór að telja mínúturnar sem tók mig að bera 24 kg. upp í klefa. Byrjunartíminn er á huldu en mér tókst í lokin að hlaupa nánast upp með filmuboxin- þessar þrjátíu og þrjár tröppur á 90 sek. !
Þrjár sek. pr. tröppu !


“Are you lonesome tonight ?”

Sýningarklefinn í Stjörnubíó var einmanalegasti vinnustaður í heimi ! Starfsfólkið lét varla sjá sig og eftir að ég setti upp frumstætt kallkerfi, hurfu þessar heimsóknir með öllu. Vinir og vandamenn kíktu stöku sinnum við og stóðu másandi í dyrunum eftir fjallgönguna !
En svona er lífið. Þetta var starfið sem ég valdi mér á einhverju tímaskeiði enda áhuginn fyrir hendi. Tveir sýningarmenn - og ef annar boðaði forföll, þá tóku við aukavaktir. Enginn miskunn ! Sumarfrí sömuleiðis. Súrt og sætt. Svona er lífið.


GENA-STÖKKBREYTINGIN !

Stjörnubíó tók þátt í fjölsala-kapphlaupinu. Bíóstjórinn festi kaup á íbúðarhúsnæði á þriðju hæð við hliðina á Stjörnubíó. Framkvæmdir við salinn stóðu yfir í margar vikur, mikið um múrbrot, hamarshögg og ryk ! Tröppurnar góðu fengu nýtt hlutverk. Þær urðu uppgangurinn fyrir gesti nýja bíósalarins. Til vinstri snú í Sal 2 – hægri snú í gamla sýningarklefann. Nú fengu fleiri en ég að kenna á púlinu!
Í ljósi nútíðar er það í raun skondin ákvörðun að búa til bíósal á 3ju hæð í lyftulausu húsi – vegna umræðna á seinni árum um aðgengi fatlaðra. Fötluð fól gátu með engu móti farið í Sal 2 í Stjörnubíó ! Fólk á hækjum, kerlingar slæmar í mjöðmum og bakveikir karlar voru útskúfuð ! Maður nefnir nú varla hjólastólafólkið. Kannski er fjöldinn í prósentum talinn ekki stór hluti af bíógestum – en samt.
Ég sýndi af og til í Stjörnubíó á þessu tímabili, meðfram vinnunni í Sjónvarpinu. Þetta voru stundum sæmileg hlaup milli klefanna – þó ekki væri leiðin löng – til að til að hefja sýningu, taka hlé og enda myndina.
“Plattar” voru ekki til komnir í Stjörnubíó, aðeins stórar spólur. Já púlið !
Sagan endurtekur sig alltaf.
Læt ég hér með lokið þessum “fávísa fróðleik” um starfið okkar fyrr og nú.

Með kveðju til ykkar
Agnar.
   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220