Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri

 
 

 

Hugleiðingar um Hollywood-kvikmyndir.

 

Einnig þær sem fjalla um ævi og störf Jesú Krists.

Það verður ekki af Hollywoodurunum skafið, þegar kemur að smíði stríðs- og ofbeldismynda. Þá eru þeir í Essinu sínu ! Hraðinn, ógeðið og tæknin í hámarki. Í sérflokki eru dans- og söngvamyndir. Þar eru ameríkanarnir fremstir meðal jafningja. Ég get ekki minnst ógrátandi á grátmyndir um ástir og örlög. Persónulega finnst mér að þegar MGM ljónið er búið að öskra, þá eigi að birtast á hvíta tjaldinu: "The End" Kátlegast þykir mér þó gervi-siðferðið, sem ríkir í bandarískum ástarlífsmyndum. Skötuhjúin hoppa upp í rúmið – albúin að gamna sér.  Ég segi "albúin", því þau eru venjulega kappklædd ! Karlmaðurinn í vel gyrtum Lewis-gallabuxum- jafnvel úlpu en kvenstoðin í "overall" frá hálsi og niðurúr.  Hefst nú athöfnin. Kvensan sviftir sænginni yfir höfuð beggja, rassaköst með híi og hlakki í stutta stund, áður en myndin fer í "svart". Svo er bíógestum gjört að nota ímyndunaraflið. Sérlega æsandi !  Í seinni tíma myndum hefur þetta aðeins lagast. Skötuhjúin eru komin uppí. Nú er gaurinn ber að ofan en samt klæddur gallabuxum að neðanverðu ! Skvísan í brjóstahöldum og nærbuxum. 40 cm. nekt skilur þar á milli.  Brambolt og bylgjuhreyfingar undir þunnri yfirbreiðslu.  Þegar líður nær hámarkinu, eru sýndar myndir frá barnæsku undirlægjunnar, dúkkunum hennar, frá fermingunni með tannspangir og útskrift úr Gaggó. Lokaskotið: Ein og hálf sekúnda, þegar korktappi er slegin úr vel hristri kampavínsflösku. Þá er klippt á gæjann, þar sem hann hendir sér  á bakið - ofan af kvenholdinu, baðar út öllum öngum og stynur:  "OHHHH –my God !!! You are marvelous" !

Nær komumst við ekki raunveruleikanum í amerískum ástarlífsmyndum. Þið kannist við þetta ? Er þakki?  En kristileg efnistök ræmuverksmiðjunnar er kjarninn í skrifum þessum.

Þegar kemur að framleiðslu Biblíu-mynda frá Hollywood, set ég strik undir og stórt núll-zero fyrir neðan ! Á sýningarárum mínum, sýndi ég a.m.k. þrjár slíkar Jesú-myndir. Að auki fékk ég boðsmiða á opnunarmynd Háskólabíós ; "Fiskimaðurinn frá Galelíu" sem gerist í hringiðu NýjaTestamentisins. Myndin var í 70mm Todd-AO með sex rása hávaðasömum segultón. Þarna var 35 millimetrum og fimm hljóðrásum ofaukið !  Það sem fyrst og fremst vekur óskipta "aðdáun" mína á öllum þessum helgi-myndum, er hve lýðurinn í Landinu Helga -fyrir 2000 og tíu árum, talaði lýtalausa Hollywood-amerísku. Hebreska var púkó ! Þá hefði líka þurft að setja enskan skýringatexta á myndirnar. Það hefðu bandarískir bíógestir ekki meikað ! Nei, amerísku skyldu allir mæla, með tilheyrandi slanguryrðum og latmælgi !  Svo bar við að ég var stundum fenginn til að sýna kvikmyndir í Bæjarbíó á vegum Kvikmyndasafnsins . Hæg voru heimatökin, því ég vann á safninu fyrir Sjónvarpið, við lagfæringar á gömlum fréttafilmum sem þar voru hýstar. Í bíóinu sýndi ég Guðs-myndina Passion of the Christ. Hún var á sínum tíma mjög umtöluð og umdeild. Gefið var í skyn  að kona sú er Maria Magdalena hét, hefði eigi verið við eina fjölina felld og jafnvel átt vingott við sjálft jólabarnið! Prestar og prelátar brjáluðust.  Þar kemur að því atriði í myndinni að skeggaður og skuggalegur skríll er þess albúinn að grýta Mariu Magdalenu til bana. Hún var dæmd syndug og syndugar konur skyldu grýttar! María sat hnípin í laut, dæld eða lægð í gulum eyðimerkursandinum og beið örlaga sinna. Hróp og köll heyrast;  tæfa ! hóra ! kvensnift ! fock you ! og fleiri nöturyrði. Steinn í lófa. Hnúar hvítna.  Skyndilega - og án nokkrar viðvörunar, stígur Frelsarinn inn í 70mm myndrammann og horfir stingandi augum á grjótkastarana.  Hann er vafinn hvítu "king-size" laki (sennilega úr einhverjum Rúmfatalager) og til fótanna í sallafínum ECCO sandölum !  Frelsarinn er fríður sýnum með sítt hár og mikið skegg - ekki ólíkur íslenzku Jesúunum okkar, þeim Úlfari á Þrem Frökkum og Hamborgara-Tomma, sem ætluðu ekki að skerða líkamshár sín fyrr en Farísear og Tollheimtumenn hefðu lækkað okurvextina niður fyrir 10% ! Hópurinn hörfar um eitt skref og þagnar.  Jesú gengur til Maríu, reisir hana á fætur og mælir þessu fleygu orð:  "Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum" ! Kurr kemur í hópinn. Maldað í móinn. Í Biblíunni stendur að hórdómur sé dauðasök. Sá djarfasti gengur nú fram og mælir á ekta Texas- mállísku :  "Wanna make some´ing out of it" ?  Það vantaði bara barðastóran kúrekahatt og "six-shooters" í lúkurnar !  Á þessu augnabliki kúgaðist ég- en ég kyngdi ! Spólan var að verða búinn og þurfti að skifta yfir á Vél 2

 

Ágætu kvikmyndagerðamenn. Látið Biblíuna í friði !  Einu mennirnir sem ég myndi treysta til að framleiða raunsanna Jesú-mynd, væru þeir félagarnir Fred Flintstone og vinur hans Barney. Þetta gæti ekki versnað!  Okkur er kennt: ... Eigi skalt þú leggja nafn Guðs við hégóma ...

Persónulega afneita ég slíku athæfi með þessari ritsmíð.  Hégóminn kemur frá nefnilega frá Hollywood !

 

Með kveðju, Agnar

 

 

   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220