Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri


 


Púlsatorar notkun hætt

Hljóðkerfi í fullu gildi.

Ísafjarðarbíó
1 salur.

Það hefur tekið tímana tvenna að senda þér nokkrar myndir, en vonandi getur þú notað eitthvað af þessu.
Undirritaður hefur verið sýningarmaður frá 1989 en Rúnar Örn Rafnsson frá 1998.  Vélarnar í klefanum er af Philips gerð frá árinu 1961 en þær voru settar upp í Ísafjarðarbíói 1963.  Aðeins önnur vélin er notuð ennþá, en hin hefur verið notuð í varahluti eftir að vatnskældu lamparnir hættu að fást, en aðeins var fjárfest í nýju lampahúsi á aðra vélina.
   
kveðja,
Þorsteinn J. Tómasson

09/01 2002

Sælir félagar,
Til gamans langaði mig að segja ykkur frá því að núna um helgina var skipt um myndlampa í sýningarvélinni í Ísafjarðarbíó. Þetta væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess að lampinn sem fyrir var, entist í 12 ár, og vel yfir sex þúsund klukkustundir.
Kveðja,
Steini - sýningarstjóri.
 


Hljóðkerfi í fullu gildi.

Rúnar við spólurokk

Rúnar við Stjórnborð

Rúnar við vél

Steini í klefa

Steini

Stjórnborð

 

bb.is | 22.11.05 | 07:00

Ísafjarðarbíó sjötugt

Ísafjarðarbíó er elsta starfandi kvikmyndahús á Íslandi, en fyrsta kvikmyndasýningin í Alþýðuhúsinu var þann 23. nóvember 1935, og verður bíóið því sjötugt á morgun. Fyrsta myndin sem sýnd var í bíóinu var örkin hans Nóa, eða Noah’s Ark eins og hún heitir á frummálinu. Í auglýsingaefni fyrir myndina segir að hún sé „afar stórfengleg kvikmynd um heimsendi“. Einnig kemur fram í auglýsingunni að í þá daga var miðasalan meira og minna opin allan daginn, eða frá 13-19. Í tilefni af stórafmælinu stendur til að frumsýna bíómyndina Harry Potter og eldbikarinn, og stendur Ísfirðingum og nærsveitarmönnum því til boða að verða fyrstir Íslendinga til að bera myndina augum. Myndin verður sýnd þrisvar yfir daginn, klukkan 15, 18 og 21. Bíómyndirnar um galdramanninn unga hafa notið feykilegra vinsælda síðustu ár líkt og bækurnar sem þær eru gerðar eftir, og hafa ævintýri þau sem Harry hefur ratað í hreyft við bæði ungum og öldnum. Nýlega hefur verið komið fyrir glæsilegu Dolby Digital hljóðkerfi í bíóinu, sem ætti ekki að spilla fyrir skemmtuninni.

Pétur Sigurðsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, og fyrrum forstöðumaður Ísafjarðarbíós hefur tekið saman brot úr sögu bíósins, og fer það hér á eftir:

Upphafið

Verkalýðsfélagið Baldur og Sjómannafélag Ísfirðinga byggðu húsið á árunum 1934 og 1935. Áður höfðu þau samið við Ísafjarðarbæ um að yfirtaka bíórekstur bæjarins. Hann var til húsa í Bæjarþinghúsinu sem nú er Skátaheimilið við Mjallargötu, en húsið stóð þá á fjörukambinum við hlið Hafnarstrætis 17 sem rifið var s.l. sumar.

Bygging samkomuhúss til fundarhalda og menningarstarfs á vegum verkalýðshreyfingarinnar sem hafði verið nokkuð viðamikið frá því að félögin tvö voru stofnuð 1916. Hægt er að orða það svo að þau hafi árið 1932 verið búin að slíta barnsskónum og afla sér almennrar viðurkenningar sem hagsmunafélög verkafólks og sjómanna hér í bæ og þess vegna tóku félagsmenn fagnandi tillögu um að reisa veglegt samkomuhús fyrir starfsemi félaganna.

Hannibal Valdimarsson var þá orðinn formaður Baldurs og dreif málið áfram af sínum þekkta dugnaði, enda búinn að fá eldskírn í þessum efnum þegar hann stóð fyrir byggingu Samkomuhússins í Súðavík. árinu áður en hann flutti til Ísafjarðar og tók við formennskunni í Baldri. Auk Hannibals áttu sæti í byggingarnefndinni Finnur Jónsson alþingismaður og fyrrverandi formaður Baldurs og bróðir hans Ingólfur Jónsson lögfræðingur.

Grettistak á kreppuárum

Erfitt er að gera sér grein fyrir því hve bygging þessi var mikið átak. Um var að ræða að byggja eitt stærsta hús bæjarins, því ekki var látið nægja að byggja aðeins samkomusal fyrir hugsanleg fundarhöld, heldur var stefnt hærra, eða eins og segir í fundargerð Baldurs: “Var í þeim tillögum gert ráð fyrir að húsið fullnægði fyllilega þeim kröfum, sem alþýðufélögin, og einnig önnur félög hér í bæ, yrðu að gera til slíks húss; þ.e. að það gæti orðið fullkomið samkomuhús fyrir kaupstaðinn. Húsameistari gerði ráð fyrir að slík hús myndu kosta 85-90 þúsund krónur. Formaður gerði ráð fyrir að með framlögðum sjóðum, sem Baldur og Sjómannafélagið og e.t.v. fleiri félög hefðu yfir að ráða, gefnum dagsverkum, vinnu lagðri fram til skuldabréfakaupa í húsinu, fjárframlögum einstakra manna, fyrirfram greiddri leigu og með láni frá bæjarsjóði mætti fá 50 þúsund króna virði til umráða.”

Út á þessa bjartsýni var síðan samþykkt að hefjast handa. Uppdrættir af húsinu, gerðir af Þóri Baldvinssyni sem lengi var forstöðumaður Tæknistofu landbúnaðarins, voru lagðir fyrir félagsfund í janúar 1934. Teikningar voru samþykktar hjá Bygginganefnd Ísafjarðarkaupstaðar í júlí sama ár og byggingaframkvæmdir hófust síðan undir stjórn Jóns Sigmundssonar daginn eftir. Hér var ekki verið að velta málunum lengi fyrir sér. Verkalýðsfélagið Baldur og Sjómannafélag Ísfirðinga byggðu ein húsið og var unnin geysilega mikil sjálfboðaliðsvinna við bygginguna, sér í lagi við uppgröft fyrir undirstöður og kjallara hússins.

Haustið 1935 var fyrsti hluti hússins tilbúinn og félagsfundur haldinn í fyrsta sinn í nýju og glæsilegu húsi öreiganna.

Fyrsta bíósýningin

Meðan á byggingu stóð var fengið einkaleyfi fyrir bíósýningum, enda húsið skipulagt í upphafi til að sinna slíku verkefni. Sveitarfélagið hafði þetta veitingavald á þeim tíma. Fyrsta kvikmyndasýningin í þessu nýja húsi var svo 23. nóvember 1935. Það eru því orðin 70 ár sem Ísfirðingar hafa sótt kvikmyndasýningar í Alþýðuhúsi Ísfirðinga. Þar fyrir utan fóru flestar leiksýningar á vegum leikfélaga fram í húsinu í ein 40 ár, sömuleiðis tónleikar og aðrar uppákomur. Þannig var Alþýðuhúsið einskonar félagsheimili bæjarins, rekið af verkalýðsfélögunum án þess að sveitarfélagið legði til þess krónu með gati.

Kvikmyndasýningar voru geysilega vinsælar meðal almennings allt þar til sjónvarpið kom til. Oft var uppselt og allir bekkir setnir. Þá gerðu menn sér að góðu að sitja á trébekkjunum 8 í salnum, því ekki fengu allir betrisæti, en það voru þrír öftustu bekkirnir niðri. Vinsælustu sætin voru þó fremsti og aftasti bekkurinn uppi á svölunum. Ástfangin pör leituðu eftir aftasta bekknum, en virðulegir borgarar eftir fremsta bekknum.

Elliheimilissjóður og Ísafjarðarbíó

Lengst af var aðgangseyrir að bíósýningum skattlagður til ríkisins. Aðgöngumiðum var úthlutað á sýsluskrifstofunni og skattur greiddur í samræmi við fjölda aðgöngumiða sem þar fengust. skattur þessi var um 15% af aðgangseyri.

Árið 1961 sömdu eigendur Alþýðuhúss Ísfirðinga við Ísafjarðarbæ um að bæjarfélagið kæmi að rekstri bíósins að nafninu til; bærinn hefði eftirlit með sölu aðgöngumiða og í stað þess að greiða skemmtanaskatt til ríkisins rynni skatturinn til Elliheimilissjóðs á vegum bæjarins. Sjóðurinn skyldi í framtíðinni, þegar honum yxi fiskur um hrygg, notaður til að byggja nýtt elliheimili í bænum. Heimamenn nutu í þessu velvildar þáverandi menntamálaráðherra, Gylfa Þ. Gíslasonar, sem veitti góðfúslegt leyfi fyrir þessu fyrirkomulagi. Breyttist þá nafn bíósins í Ísafjarðarbíó.

Árið 1986, eftir 25 ár, nam þessi skattlagning á bíóið, framreiknuð skv. verðstuðli ríkisskattstjóra, 21 milljón króna, sem þá var ráðstafað til byggingar á Hlíf I, þ.e. leiguíbúðanna á Torfnesi. Þannig má segja að Ísafjarðarbíó og eigendur Alþýðuhúss Ísfirðinga hafi lagt þeirri byggingu til stóran hluta og þó umdeild hafi verið sú ráðstöfun á fénu, þá vonum við að hún muni veita efnalitlum borgurum þessa bæjar húsaskjól á vægu verði í framtíðinni sem hingað til.

Bíó í fremstu röð

Gæði kvikmyndasýninga snúast að miklu leyti um tækni sýningarvéla og hljómburð. Ísafjarðarbíó hefur alltaf kappkostað að fylgjast vel með í þeim efnum. Strax 1940 voru keyptar nýjar vélar til kvikmyndasýninga og alltaf síðan hafa tæki og tól verið endurnýjuð eftir því sem sýningar- og hljómtækni hefur fleygt fram, nú síðast á þessu ári.

Kvikmyndasýningum á landsbyggðinni hefur fækkað að undanförnu. Segja má að videóvæðingin hafi endanlega séð til þess að eftirspurn eftir kvikmyndasýningum hefur dregist saman og nú er svo komið að aðeins fimm kvikmyndahús eru starfrækt utan Reykjavíkur; þ.e. í Keflavík, á Akranesi, Patreksfirði, Akureyri og hér á Ísafirði. Enn geta Ísfirðingar séð kvikmyndir við bestu skilyrði og gæði. Það geta þeir þakkað þrautseigju Steinþórs Friðrikssonar sem neitar að gefast og enn hefur hann komið Ísafjarðarbíói í fremstu röð, en Dúi tók við bíórekstrinum í apríl 1988.

Forstjórar og forstöðumenn Alþýðuhússins og bíósins hafa verið:

Hannibal Valdimarsson 1934 – 1938
Ragnar Guðjónsson 1939
Sverrir Guðmundsson 1940 – 1969
Pétur Sigurðsson 1970 –1987
Steinþór Friðriksson frá 1988.
 

Heimildir
bb.is | 22.11.05 | 07:00
eirikur@bb.is

 

 
   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220