Uppbygging & hlutverk

Rafiðnaðarsamband Íslands er landssamband stéttarfélaga rafiðnaðarmanna, sem eru Félag íslenskra rafvirkja 1.500 félagsm., Félag rafeindavirkja 900 félagsm., Félag íslenskra símamanna 850 félagsm., Rafvirkjafélag Norðurlands 150 félagsm., Félag rafiðnaðarm. á Suðurlandi 150 félagsm., Rafiðnaðarfélag Suðurnesja 120 félagsm., Félag sýningarm. við kvikmyndahús 30 félagsm., og Félag tæknifólks í rafiðnaði 500 félagsm. Heildarfjöldi félagsmanna er um 4.800.


Sambandið er starfsgreinasamband sem í eru allir launþegar sem starfa í rafiðnaðargeiranum, hvort sem þeir hafa löggilt sveinspróf eða ekki. Allur félagslegur rekstur er í höndum sambandsins ásamt umsjón eigna, sjóða og gerð kjarasamninga.

Starfsemi sambandsins felst í að gæta hagsmuna félagsmanna og fjölskyldna þeirra, bæði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Helstu verkefni er gerð kjarasamninga og er sambandið með 25 kjarasamninga við atvinnurekendur í rafiðnaði, auk nokkurra vinnustaðasamninga. Endurnýjun, viðhald og túlkun kjarasamninga er fyrirferðamikill þáttur í daglegu starfi, auk þess að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum, sem felst m.a. í umsögnum um lög og reglugerðir og þátttöku í margskonar nefndum og ráðum aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera.

RSÍ er aðili að norrænum samtökum rafiðnaðarmanna sem í eru 140 þús. rafiðnaðarmenn. Félagsmenn innan norrænu samtakanna halda fullum réttindum hvar sem þeir eru á norðurlöndunum. Norrænu rafiðnaðarsamböndin standa að samtarfi við samtök norrænna atvinnurekenda um framhalds- og eftirmenntun í rafiðnaðargeiranum. RSÍ er auk þess aðili að samtökum norrænna byggingarmanna sem aftur eru aðilar að evrópskum og alþjóðlegum samtökum byggingarmanna. Þessi samtök hafa mikil áhrif á fjölþjóðlega reglugerðarsetningu m.a. í Brussel. Einnig eru þessi samtök með umfangsmikla starfsemi í þróunarhjálp og vinna að uppbygginu stéttarfélaga byggingarmanna í þróunarlöndunum.

Félagsgjald RSÍ er 1% af launum. Auk þess greiðir fyrirtæki 1% í sjúkrasjóð, 0,25% í orlofssjóð og 1,1% í eftirmenntunarsjóð, þessi gjöld eru reiknuð af heildarlaunum. Á vegum sambandsins er rekinn öflugur styrktarsjóður sem hleypur undir bagga með félagsmönnum lendi þeir eða fjölskylda þeirra í erfiðleikum vegna veikinda eða slysa. Auk þess greiðir hann útfararkostnað og styrk til eftirlifanda maka og barna undir 18 ára aldri. Sjóðurinn styrkir einnig félagsmenn til líkamsræktar og forvarnastarfs. Sambandið ræður yfir mjög öflugum vinnudeilusjóði. Einnig á sambandið menningarsjóð sem m.a. á það húsnæði sem Rafiðnaðarskólinn er í og styrkir með því starfsemi skólans.

RSÍ á og rekur orlofshús á eftirfarandi stöðum: 2 hús við Svignaskarð, 1 hús í Vatnsfirði, 1 hús í Varmahlíð, 3 íbúðir og 1 raðhús á Akureyri, 1 hús í Vaglaskógi, 3 hús  á Einarsstöðum, 2 hús í Lóni, 2 hús við Kirkjubæjarklaustur, 14 hús við Apavatn, 3 hús í Ölfusborgum og 6 íbúðir í Reykjavík. Þessi hús eru flest með 8 – 10 rúmstæðum og fullkomnum húsbúnaði. Heitir pottar eru við 18 húsanna. Auk þess á sambandið 270 fermetra hús við Apavatn sem er vinsælt til fjölskyldu- og vinnustaðamóta. Í því húsi eru auk salar, eldunaraðstöðu, sturtuklefa og heits potts, 4 svefnherbergi og lítil íbúð. Við Apavatn á sambandið einnig rúmgott og  vinalegt tjaldsvæði með góðri hreinlætisaðstöðu. Þar eru einnig leiksvæði og aðgangur að vatninu. RSÍ á einnig 2 orlofshús í Torreveija á Spáni. Sambandið á 6 tjaldvagna sem eru leigðir frá Reykjavík. Auk framantalins er sambandið með á leigu orlofshús á Illugastöðum, Flúðum og eina íbúð í Kaupmannahöfn. RSÍ er ásamt Félagi bókagerðarmanna aðili að Dalbúa sem á og rekur 9 holu golfvöll í landi Miðdals við Laugarvatn. Félagsmenn fá kort að vellinum gegn vægu gjaldi og einnig fylgir kort orlofshúsum sambandsins í nágrenni við völlinn. 

Aðalskrifstofur sambandsins eru við Stórhöfða 31 í Reykjavík auk þess er sambandið með skrifstofur á Selfossi, Keflavík, Akranesi og á Akureyri. Í húsinu að Stórhöfða eru einnig skrifstofur  Matvís og Grafíu. Í húsinu eru salur og fundarherbergi af ýmsum stærðum auk þess að þar er aðstaða fyrir orlofsútgerð sambandanna.

Á heimasíðu RSÍ – rafis.is –  er að finna allar upplýsingar um starfsemi sambandsins, alla kjarasamninga, orlofshús og einnig er þar að finna fréttasíðu þar sem birtast nýjar fréttir af helstu atburðum sem snerta rafiðnaðarmenn auk pistla um fagpólitísk efni.

Umfangsmikill þáttur í störfum RSÍ er starfs- og símenntun og hefur sambandið verið brautryðjandi á þessum vettvangi hér landi. Í samvinnu við atvinnurekendur í raf- og tölvuiðnaði eru reknir eftirmenntunarsjóðir rafiðnaðarmanna. Þessir sjóðir eiga Rafiðnaðarskólann. Þar er staðið fyrir margskonar framhaldsnámi fyrir rafiðnaðarmenn í formi starfsmenntunarnámskeiða.

Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarmanna hefur skrifstofu sína að Stórhöfða 27. Skrifstofan sér um námsskrár í rafiðnaðargreinum og námseftirlit. Einnig starfa þar fræðslunefndir í rafiðnaðargreinunum og sveinsprófsnefndir. Skrifstofan sér um prófabanka og sveinspróf í rafiðnaðargreinum sem eru haldin í Rafiðnaðarskólanum. Allri starfsmennta- og fræðslustarfsemi rafiðnaðarmanna er stjórnað af Fræðsluráði rafiðnaðarins, sem í eru fulltrúar frá öllum starfsgreinum í rafgreinum og vinnuveitendur þeirra.

Rafiðnaðarmenn reka Ákvæðisvinnustofu rafiðna sem er með skrifstofu á Stórhöfða 27. Hún hefur umsjón með ákvæðisvinnutaxta og viðhald hans, auk þess gefur hún út taxtann í forriti sem stendur félagsmönnum til boða án endurgjalds.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?