Til baka á forsíðu

logofir.jpg (15799 bytes)

SKÝRSLA STJÓRNAR 1999

SKÝRSLA STJÓRNAR FÉLAGS ÍSLENSKRA RAFVIRKJA UM STARFSEMINA SÍÐASTA STARFSÁR.

LÖGÐ FRAM Á AÐALFUNDI 7. APRÍL 2000

 

Látnir félagar.

Jónas Haraldsson
Fæddur 30/1 1916 dáinn 25/4 1998
Jónas lærði rafvirkjun hjá Jónasi Magnússyni. Hann lauk sveinsprófi 1948. Vann lengst af hjá Jóhanni Rönning og síðar hjá Ljósvirki h.f.

Erling Adolf Ágústsson
Fæddur 9/8 1930 dáinn 8/1 1999
Nam rafvirkjun við Iðnskólann í Vestmannaeyjum. Lauk sveinsprófi 1953. Meistari hans var Lárus Guðmundsson. Lauk einnig sveinsprófi í útvarpsvirkjun. Lærði hjá Hauk og Eggert. Starfaði við viðgerðir á kæli-og heimilistækjum og við verslunarstörf.

Þorsteinn Þorsteinsson
Fæddur 9/9 1944 dáinn 3/1 1999
Þorsteinn var mikill áhugamaður um félagsmál Hann var í forystusveit rafiðnaðarmanna nánast frá því hann tók sveinspróf í rafvirkjun 1966. Meistari hans var Skúli B. Ágústsson. Starfaði hjá Raflögnum s.f., Trésmiðju Þ og Á h.f., Rafmagnsveitum ríkisins og hjá Rafveitu Selfoss frá 1970. Hann var í stjórn Félags rafiðnaðarmanna á Suðurlandi frá stofnun þess . Var ritari 1975-1982. Formaður árin 1982 - 1991 og aftur frá 1993. Hann sat í miðstjórn RSÍ frá 1983 til dauðadags. Sat í stjórn veitustofnana á Selfossi 1978-1986. Var fulltrúi á flestum þingum RSÍ og sat mörg þing ASÍ.

Bjarni Júlíusson
Fæddur 30/4 1931 dáinn 18/2 1999
Bjarni lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1957. Meistari hans var Jón J. Guðjónsson. Vann hjá Ljósbliki, Jóhanni Rönning og síðast hjá Landsvirkjun. Bjarni var í stjórn Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna 1975-1982. Hann var í kjörnefnd FÍR og endurskoðandi reikninga félagsins í áratugi. Átti sæti í trúnaðarmannaráði FÍR og var kjörinn trúnaðarmaður rafvirkja hjá Landsvirkjun. Sat flest þing RSÍ . Sat í sambandsstjórn RSÍ um tíma og var einnig varamaður í miðstjórn. Bjarni hlaut gullmerki FÍR 1987.

Sigurgeir Svanur Eyvindsson
Fæddur 28/5 1931 dáinn 24/2 1999
Sigurgeir Svanur lauk sveinsprófi 1953. Meistari hans var Sigurður Bjarnason.
Starfaði m.a. hjá Segli h.f. en lengst af sem rafvirkjameistari hjá Skeljungi h.f.

Geir Í Geirsson
Fæddur 20/5 1922 dáinn 9/4 1999
Geir lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1948, og hlaut meistararéttindi 1954. Hann sigldi á norsku olíuflutningaskipi sem rafvirki á árunum 1952-1953. Þá starfaði hann sem rafvirki á Elliheimilinu Grund 1954-1987. Var einnig hjá O.Johnson og Kaaber og við Búrfellsvirkjun. Síðast var hann hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Hörður Sævar Gunnarsson
Fæddur 2/3 1941 dáinn 15/5 1999
Hörður lærði rafvirkjun og lauk sveinsprófi 1966. Meistari hans var Eiríkur Ormsson.
Vann m.a. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur.Hlaut meistarabréf 1971. Starfaði síðan sem sjálfstæður rafverktaki.

Ágúst Nordgulen
Fæddur 30/7 1957 dáinn 23/5 1999
Lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1978. Meistari hans var Lúðvík S. Nordgulen. Starfaði síðan sem rafvirki til ársins 1984, er hann stofnaði eigið fyrirtæki, Á.N. verktakar ehf., er hann rak síðan til æviloka.

Guðbjartur Betúelsson
Fæddur 27/1 1908 dáinn 10/6 1999
Lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1936. Fór í nám í mótorvindingum hjá Thomasi B. Thrige í Óðinsvéum á Fjóni. Starfaði í Danmörku við fag sitt til ársins 1946 er hann kom heim og starfaði fyrstu árin hjá h.f. Rafmagn. Vann síðan sjálfstætt sem rafverktaki allt til ársins 1995.

Hörður Zophaníasson
Fæddur 12/5 1955 dáinn 19/9 1999
Hörður lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1979. Meistari hans var Jón Ólafsson. Hörður vann síðast við verslunarstörf er tengdust iðn hans.

Haraldur Hermannsson
Fæddur 16/7 1928 dáinn 5/10 1999
Haraldur lauk sveinsprófi 1952. Meistari hans var Jón Ólafsson. Fékk meistarabréf 1955 og löggildingu 1956. Starfaði hjá Br. Ormsson, skipum Eimskips sem rafvirki og Rafver h.f. en hann var einn af stofnendum þess. Vann síðast á tæknideild Landspítalans uns hann lét af störfum síðla árs 1996.

Sigurður Torfi Sigurðsson
Fæddur 30/10 1952 dáinn 1/10 1999
Sigurður lærði rafvélavirkjun og starfað við fag sitt uns hann stofnaði eigið fyrirtæki, sem hann starfaði síðan við til æviloka.

Sigurður Lárusson
Fæddur 30/5 1917 dáinn 8/10 1999
Sigurður hlaut starfsréttindi sem rafvirki 1955. Hann lauk síðan námi við Iðnskólann í Borgarnesi 1957 og tók sveinspróf 1961. Meistari hans var Reynir N. Ásberg. Vann sem rafverktaki við eigin rekstur síðan.

Haraldur S. Gíslason
Fæddur 15/8 1929 dáinn 9/11 1999
Haraldur lærði rafvirkjun og lauk sveinsprófi 1950. Hann starfaði lengi sem rafverktaki í Stykkishólmi. Þá stundaði hann einnig kennslustörf við Iðnskólann í Reykjavík.

Gunnlaugur Þórarinsson
Fæddur12/10 1926 dáinn 18/11 1999
Nam rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík. Lauk sveinsprófi 1949.Meistari hans var Adolf Björnsson. Fékk landslöggildingu 1954. Löggildingu í Reykjavík 1957 og meistarabréf sama ár. Starfaði hjá Segli h.f. 1944-1965, þar af sem verkstjóri í 10 ár. Var einnig hjá Eimskip, sem rafvirki í afleysingum á skipum félagsins árin 1954-1972. Starfaði sem rafverktaki árin 1965-1974. Var síðast skoðunar og matsmaður hjá Samábyrgð Íslands.

Eiríkur Kr. Eiríksson
Fæddur 9/5 1917 dáinn 11/1 2000
Starfaði við Héraðsskólann á Laugarvatni við raflagnir og tengd störf. Hann fékk ráðherrabréf og á sínum tíma löggildingu sem rafverktaki og rafvirkjameistari.


Formaður:  Haraldur Jónsson
Varaformaður:  Stefán Sveinsson
Ritari:  Jón Þór Kristmannsson
Gjaldkeri:  Björn Ágúst Sigurjónsson
Meðstjórnendur: Ísleifur Tómasson, Helgi Helgason, Sigurður Sigurðsson

Trúnaðarmannaráð:
Brynjar Svansson, Elmer H. Elmers, Einar Ólafsson, Einar Sigurgeirsson, Guðmundur Gunnarsson, Guðmundur Ævar Guðmundsson, Helgi Kristinn Hannesson, Hermann Lúðvíksson, Jens Guðfinnsson, Jens Ragnarsson, Kristján F. Nielsen, Ólafur Hermannsson, Óskar Hlíðar Jónsson, Rúnar Bachmann, Sigurjón Sveinsson, Stefán Ó. Guðmundsson, Þór Ottesen, Þórður Bachmann

Skoðunarmenn FÍR : Hermann Lúðvíksson og Viggó Jensson. Til vara Jóhannes Bjarni Jónsson

Stjórnar- og félagsfundir
Stjórn heldur fundi yfirleitt einu sinni í mánuði að undanskildum sumarmánuðum, trúnaðarráð situr a.m.k. tvo fundi á hverju ári. Allir almennir félagsfundir eru nú orðið, utan aðalfunda aðildarfélaga, undantekningalaust haldnir á vegum RSÍ. Kjarasamningar innan RSÍ eru sameiginlegir og eru afgreiddir í sameiginlegum atkvæðagreiðslum þvert á aðildarfélög innan RSÍ. Búin er til kjörskrá sem miðast við þá sem vinna á viðkomandi kjarasamning. Hver samningur er heildstæður og sjálfstæður samningur.

Þetta er sama skipulag og er viðhaft innan hinna rafiðnaðarsambandanna á norðurlöndunum. RSÍ er eina landsambandið hér á landi sem hefur þetta fyrirkomulag við afgreiðslu kjarasamninga, í öðrum landssamböndum er það hvert aðildarfélag sem afgreiðir hvern kjarasamning fyrir sig. Í flestum tilfellum er um að ræða einn aðalkjarasamning viðkomandi félags og síðan eru í einhverjum tilfellum samið um kálfa út frá honum. Rafiðnaðarsambandið var eina heildstæða starfsgreinasambandið hér á landi og hefur það fyrirkomulag marga augljósa kosti í för með sér, sérstaklega við skipulag starfsmenntunar í starfsgeiranum og eins nýtast eftirmenntunarnámskeið fyrir allar starfsgreinar í geiranum. Matvís hefur verið byggt upp með sama skipulagi og RSÍ.

Umfangsmiklum málaflokkum er vísað í starfsnefndir þ.e. orlofsnefnd, ritnefnd, laganefnd og úthlutunarnefnd styrktarsjóðs, auk annarra nefnda sem starfa í samráði við meistarafélagið. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til meiri valddreifingar og virkara stjórnkerfis innan sambandsins. Þátttaka rafiðnaðarmanna í sameiginlegri starfsemi verkalýðshreyfingarinnar er mikil, auk þess að við eigum fulltrúa í nokkrum nefndum hins opinbera og í sameiginlegum nefndum norrænna rafiðnaðarmanna og norræna og evrópska byggingarsambandinu. Þetta kostar tíma og fjárútlát, en gefur okkur tækifæri til þess að hafa víðtækari áhrif á framvindu mála og aðstæður til þess að koma sjónarmiðum okkar mjög víða á framfæri.

Skrifstofan
Starfsemi skrifstofunnar verður sífellt margþættari m.a. sakir þess að lögð hefur verið á það áhersla undanfarin ár, að félagsmenn sjái sér hag í því að vera innan samtaka rafiðnaðarmanna frekar en litið sé á það sem skyldu. Mjög mikil fjölgun hefur verið á félagsmönnum RSÍ undanfarin ár eftir nánast kyrrstöðu á meðan niðursveiflan ríkti á árunum 1991 – 1995.

Nokkuð hefur borið á því að verktakar hafi sótt í RSÍ vegna hagstæðra námskeiðsgjalda og styrkja frá Styrktarsjóð, og viljað greiða afturvirkt félagsgjöld til þess að öðlast full réttindi strax. Þessir aðilar hafa svo gefið upp laun sem eru lægri en lægstu taxtar á vinnumarkaði. Nú hafa verið settar strangari reglur um inngöngu í sambandið. Það er leitt til þess að vita að til séu aðilar, sem hiklaust ætlast til þess að fá að njóta alls þess sem fullborgandi félagsmenn hafa skapað án þess að taka þátt í að greiða fyrir það.

RSÍ og aðildarfélög þess hafa aðgang að lögmönnum ASÍ og eru þeir nýttir þegar upp koma deilur vegna túlkana á kjarasamningum, en þegar upp koma deilur vegna launa eða innheimtu gjalda þá sjá lögmenn sambandsins, þ.e. Löggarður og Lára V. Júlíusdóttir , um þau mál. Rafiðnaðarsambandið hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að þjálfa upp trúnaðarmenn sambandsins og hefur verið varið til þess hundruðum þúsunda króna á ári.

Starfsmenn RSÍ Guðmundur Gunnarsson form. kjarasamninga og samskipti út á við; ASÍ, nefndarstörf og norræn samskipti. Helgi R. Gunnarsson framkv.stj. dagleg stjórnun á skrifstofu, kjarasamningar og nefndarstörf. Sigurður Hallvarðsson gjaldkeri, atvinnuleysistryggingar og styrktarsjóður. útsendingar og umsjón kjörskráa. Þór Ottesen og Ísleifur Tómasson samskipti við vinnustaði, vinnuverndarmál, viðhald orlofshúsa. Hulda Jakobsdóttir ritari, bókhald, útleiga orlofshúsa.

Starfsmaður Ákvæðisvinnustofu : Þór Ottesen

Starfsmenn innheimtudeildar : Elín Sigurðardóttir framkv.stj., bókhald, afgreiðsla. atvinnuleysisbóta. Anna María Hannesdóttir færsla innheimtukerfis Fjóla Þorvaldsdóttir færslur innheimtukerfis, bókhald aðildarfélaga, umsjón orlofsumsókna. Sigrún Magnúsdóttir ritari. um áramótin var innheimtustofa Matvís sameinuð innheimtustofu rafiðnaðarmanna við það fluttist Ásta Kristjónsdóttir starfsmaður hennar til okkar.

Starfsmenn Lífiðnar : Friðjón Þórðarson framkv.stj., innheimtumál, ávöxtun verðbréfa, Bjarni Sigfússon innheimtumál, umsjón lífeyrissjóðs. Gunnar Árnason bókhald, uppfærslur verðbréfa, Unnur Magnúsdóttir bókhald lífeyrissjóðs
Sigrún og Anna María eru í hálfu starfi

Fulltrúar á landsbyggðinni : Bjarni Árnason starfar nokkrar klst. á viku á skrifstofu á Akranesi og Helgi Jónsson ásamt stjórnarmönnum sínum í RFN sjá um skrifstofuna á Akureyri. Ómar Baldursson ásamt stjórnarmönnum sínum í FRS sjá um skrifstofuna á Selfossi og Arnoddur Jónsson um málefni sambandsins á Suðurnesjum, Þórður Bachmann í Borgarnesi, Júlía Björk Þórðardóttir á Ísafirði, Ingimar Hólm Ellertsson og Frosti Frostason á Sauðárkrók, Vigfús Ingi Hauksson Siglufirði, Magni B. Sveinsson á Neskaupstað, Sigurður Karlsson á Höfn, Gunnar Jónsson Kirkjubæjarklaustri, og Arngrímur Magnússon í Vestmannaeyjum.

Starfsmenn Rafiðnaðarskólans : Sigurður Geirsson framkv.stj, Jón Árni Rúnarsson framkv.stj., Guðfinnur Traustason verkefnastj., Haukur Konráðsson verkefnastj., Þórdís Bergmundsdóttir skrifstofustj., Rannveig Friðriksdóttir ritari og skráning, Hafdís Reinaldsdóttir skráning og umsjón kaffistofu, Guðmunda Kristinsdóttir verkefnastj., Anna S. Ragnarsdóttir skrifst., Gunnlaugur S. Gunnarsson netumsjón, kennsla. Logi Halldórsson útbreiðsla, auglýs.
Auk þess er skólinn með samninga við u.þ.b. 25 kennara, sem hver um sig sér um ákveðin námskeið.

Fræðslumiðstöð rafiðnaðarins : Ísleifur Árni Jakobsson og Stefán Ó Guðmundsson.

Starfsmenn Viðskipta- og tölvuskólans : Jón Árni Rúnarsson skólastjóri
Fjóla Hauksdóttir verkefnastj., Jón B. Georgsson verkefnastj., Erna Sigfúsdóttir verkefnastj., Jóhanna Gautsdóttir verkefnastj., Hróbjartur Árnason verkefnastj., Guðjón Stefánsson kennari, Ragnheiður Brynjólfsdóttir kennari.
Auk þess er skólinn með samninga við yfir 20 kennara.

Í aðildarfélögum sambandsins voru 1998 og 99 :

FÉLAG

Alls
1998

Þar af konur
1998

Skattsk.
Alls
1998

Alls
1999

Þar af
Konur
1999

Skattsk.
Alls
1999

Félag íslenskra rafvirkja

1096

5

959

1.194

8

1.131

Félag rafeindavirkja

618

14

545

587

19

581

Rafiðnaðarfélag Norðurlands

130

0

115

119

1

115

Félag rafiðnaðarmanna Suðurl.

79

0

67

77

0

71

Rafiðnaðarfélag Suðurnesja

70

0

63

75

7

70

Rafveituvirkjafélag Íslands

139

0

123

0

0

0

Félag tæknifólks í rafiðnaði

197

23

149

221

23

149

Fél. Sýningarm. v/ kvikm.hús

24

1

20

23

1

23

Félag símsmiða

197

5

169

167

5

167

Félag ísl. Símamanna

0

0

0

802

371

633

Félag nema í rafiðnum

332

2

249

286

11

286

Samtals

2.865

50

2.459

3.551

461

3.297

Nýja húsið við Stórhöfða.
Félagsmannafjöldi RSÍ hefur aukist úr 1.700 í 4.400 á síðustu 10 árum. Á sama tíma höfum við aukið þjónustu sambandsins við félagsins í orlofsmálum geysilega mikið og erum með á leigu 200 ferm. húsnæði undir tjaldvagnana og útgerð orlofsnefndar. Lífeyrissjóðurinn okkar hefur gengið til samstarfs við lífeyrissjóði þjóna og matreiðslumanna og hafa umsvif hans vaxið mikið og er hann orðin einn af stærstu lífeyrissjóðunum. Matvís sem er einnig vaxandi samband og er byggt upp með sama skipulagi og RSÍ. Nýja húsið er tvö sambyggð hús 1800 ferm. á 4 hæðum með 300 ferm millibyggingu á tveim hæðum. Grafið var út bílastæði fyrir ofan húsið og fengin þar rúmgóð aðstaða fyrir tjaldvagna og geymslur. Húsið er staðsett fremst á syðri bakka Grafavogs við Stórhöfða með gífurlega fallegu útsýni yfir flóann. Annað húsið ásamt innri kjallara dugði, en eftir nánari skoðun var ákveðið að stofna eignarhaldsfélag sem er í eigu að 2/3 hlutum af RSÍ og 1/3 af Matvís og það myndi kaupa millihúsið og hitt húsið, þ.e. nr. 29.

Skrifstofur RSÍ, Innheimtustofunnar, Lífiðnar og Matvís verða í húsi nr. 31. Um áramótin var búið að glerja það hús og ganga frá þaki. Efstu 3 hæðirnar þar sem skrifstofurnar verða staðsettar verða afhentar í apríllok, en jarðhæðin þar sem fundarsalur verður ásamt skrifstofum fræðsluskrifstofu Matvís verður afhent í maí. Félag mjólkurfræðinga hefur einnig leigt skrifstofuhúsnæði á jarðhæð.

Íslandspóstur er með aðstöðu gegnt okkur við Stórhöfðann og hefur verið að byggja þar upp nýja aðstöðu fyrir dreifingarmiðstöð sína. Þeir vildu leigja allt lausa húsnæðið og nú er búið að ganga frá leigusamningum í 10 ár og munum við afhenda Íslandspósti það tilbúið til notkunar í september.

Orlofshúsin
Nú er lokið fyrri úthlutun orlofshúsanna. 447 sóttu um. 386 vikur voru til úthlutunar og fengu 304 það sem þeir sóttu um. 82 vikur eru því lausar og fara þær ásamt þeim úthlutunum sem ekki verða staðfestar í seinni úthlutun sem verður í byrjun maí.

Í sumar verður boðið uppá nýja valkosti. 3 ný hús verða tekin í notkun við Hæðargarðsvatn við Kirkjubæjarklaustur. Þetta eru 30 ferm. hús með einu svefnherbergi en önnur aðstaða er svipuð og í hinum orlofshúsum. Þessi hús fara ekki inn í úthlutunarkerfið heldur verður þeim úthlutað með sama hætti og í vetrarleigunni, menn geta hringt inn og pantað eina eða fleiri nætur. Einnig verða 2 tjaldvagnar staðsettir inn í Þórsmörk og verður þeim úthlutað með sama hætti. Í sumar verður bætt við 4 vögnum og verður tjaldvagnaútgerðin eins og síðasta sumar í samvinnu með Matvís, nokkrir vagnar verða staðsettir á Akureyri. Í sumar var skipt við Einingu á Akureyri þeir verða með eitt húsa okkar í Lóninu en við fáum eitt hús við Illugastaði.

Þegar við tókum við orlofshúsum FÍS við Apavatn þurftu þau umtalsverða endurnýjun. Á síðasta ári var unnið mikið á svæðinu og tjaldstæðið sett i notkunarhæft ástand með uppsetningu á snyrtingum og sturtum. Í vetur hefur verið skipt um allar innréttingar í orlofshúsunum og þau endurskipulögð. Þegar hefur verið varið vel á annan tug milljóna í svæðið. Fyrir liggur að taka verður stóra húsið í gegn og mun það kosta umtalsverða fjármuni. Með tilkomu tjaldsvæðis þá var ákveðið að ráða sumarstarfsmann til þess að sjá um svæðið á Apavatni og sinna útleigu tjaldvagnanna. Samstarf við Matvís í orlofshúsamálum hefur vaxið og hefur það verið rætt að sameina sem mest viðhaldvinnu við húsin. Orlofskerfið er mjög umfangsmikið í rekstri og blasir við að það þurfi að ráða starfsmann í fullt starf til þess.

RSÍ 30 ára.
Í haust verður RSÍ 30 ára. Í tilefni af því hefur miðstjórn ákveðið að leggja sérstaklega í fjölskylduhátíðina sem verður á Apavatni um Jónsmessuna eins og venjulega. Með innkomu FÍS í RSÍ skapaðist aðstaða fyrir hin árlegu fjölskyldumót á orlofssvæði FÍS við Apavatn. Mjög góð þátttaka var í fyrra og voru þátttakendur mjög ánægðir með hina nýju aðstöðu.

Í haust er ákveðið að hafa fjölskyldudag í og við nýja húsið. Einnig hefur verið ákveðið að RSÍ verði styrktaraðili íslenska kvennahandboltalandsins, með 3ja ára samning. Með því vill RSÍ minna á það forvarnarstarf sem unnið er í íþróttahreyfingunni. Kvennaboltin hefur verið á hraðri uppleið en ekki fengið jafnmikinn stuðning og karlaboltinn. RSÍ hefur margoft reynt að vekja athygli á því að rafiðnaðarstörf eru mörg vel til þess fallin að vera fyrir bæði kynin.

Golfmótið
Spennugolfmót RSÍ 1999 fór fram á Strandarvelli við Hellu 11. júní. Mikil þátttaka var að venju og voru skráðir keppendur 64. Nokkrir forfölluðust á síðustu stundu þannig að 59 tóku þátt í mótinu. Mörg vegleg verðlaun voru veitt sem velunnarar mótsins höfðu gefið.Veðrið var ekki eins og best verður á kosið, en þátttakendur létu það ekki á sig fá og skemmtu sér konunglega. Í tilefni af afmælisári RSÍ hefur verið ákveðið að leggja aðeins meira í mótið og verður það á Akureyri í byrjun júní. Í golfnefnd RSÍ eru Björn S. Björnsson, Garðar Árnason Vilhjálmur Ingvason og Víðir Tómasson. Með þeim starfa Helgi R. Gunnarsson, Stefán Ó. Guðmundsson og Jón Árni Rúnarsson. Starfsmenn mótsins voru Þór Ottesen og Ísleifur Tómasson og formaður RSÍ afhenti verðlaun.

Heimasíðan
Umfang heimasíðu RSÍ hefur vaxið jafnt og þétt. Greinilegt er að félagsmenn og aðrir nota síðuna mikið og fer heimsóknum stöðugt fjölgandi. Hún er mjög góður vettvangur til þess að koma á framfæri upplýsingum um starfsemina og einnig skoðunum og sjónarmiðum sambandsins.

Kjaramálaráðstefna RSÍ 1999.
Á síðasta samningstímabili hækkuðu heildarmánaðarlaun innan sambandsins að meðaltali um tæplega 36% og eru nú um 260 þús. og meðaldaglaun hækkað um 40% og séu nú að meðaltali rúmlega 160 þús. kr. RSÍ var þátttakandi í gerð þjóðarsáttarsamninganna, eða skynsemisleiðarinnar hans Ásmundar Stefánssonar eins og hún er oft nefnt, og fylgt þeirri stefnu síðan. Á kjaramálaráðstefnu RSÍ, sem haldin var haustið 1996 við upphaf undirbúnings síðustu kjarasamninga var samþykkt að stefna að áframhaldandi stöðugleika og stefna að gerð kjarasamninga sem sköpuðu möguleika til aukins kaupmáttar. Við höfum aðgang að hagfræðingum og vitum hvaða svigrúm er hverju sinni. Því miður virðist það ekki vera svo með Kjaradóm og Kjaranefnd sem er að ákvarða laun efstu laganna í í þjóðfélaginu. Einnig höfum við gagnrýnt þegar þessir aðilar sömdu við sjálfa sig um 15,5% greiðslur í lífeyrissjóði ásamt breytingum á viðmiðunum lífeyrisins.

Ályktun kjaramálaráðstefnunnar
Ráðstefnan telur að kjarasamningar til lengri tíma, t.d. 2ja ára, séu frekar til þess fallnir að stuðla að stöðugleika og stígandi kaupmætti, en stuttir samningar. Ráðstefnan vill ekki hafa forgöngu um að þjóðfélagið fari á taugum og lendi í niðursveiflu á ímynduðum forsendum. Með sameiginlegu átaki á að vera hægt að jafna efnahagssveiflur og setja markið áfram á "Stígandi lukku" eins og RSÍ hafði forgöngu um við gerð síðustu kjarasamninga. Mörg teikn eru á lofti um að ekki verði hægt að ná jafn mikilli kaupmáttaraukningu næstu ár, eins og tókst á yfirstandandi samningstímabili. En ráðstefnan vill að RSÍ taki þátt í því, að verja þann árangur sem náðst hefur og telur að hægt sé með réttum aðgerðum að halda áfram að auka kaupmáttinn í stað þess að yfirkeyra efnahagskerfið, sem leiði til þess að kaupmáttur minnki.

Ráðstefnan fordæmir vinnubrögð Kjaradóms og hvetur til þess að hann taki sér leyfi frá störfum a.m.k fram eftir næstu öld. RSÍ telur að samtök atvinnurekenda og launamanna eigi að taka höndum saman um að ákveðnir hópar geti ekki sett í hættu stöðugleika efnahagslífs og eyðileggja þann árangur, sem náðst hefur síðan tekin var upp skynsemisstefna við gerð kjarasamninga 1990. Ráðstefnan hvetur forystu RSÍ að taka því ekki þegjandi eða láta það yfir sig ganga að stjórnvöld, atvinnurekendur eða einhverjir í röðum launamanna hafni þessari stefnu.

Ráðstefnan hvetur forystu RSÍ til þess að halda áfram á þeirri braut sem sambandið hefur fylgt um að tryggja stöðugleika sem hefur leitt til góðs atvinnuástands. Ráðstefnan harmar hvernig til hefur tekist með þróun tekjutengdra bóta eins og vaxta- og barnabóta. Hún hvetur til þess að RSÍ taki þátt í sameiginlegri baráttu allra samtaka launamanna um að breyta skattkerfinu til betri vegar.
Ráðstefnan telur að forysta RSÍ hafi haldið rétt á málum gagnvart ASÍ í skipulagsmálum og lýsir yfir fullum stuðning við þær sáttatillögur sem formaður RSÍ hefur sett fram í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu þ. 30. september síðastliðinn.

Kjarasamningur RSÍ-SART/SA, úrdráttur helstu atriða :
Þann 24. marz var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir almenna markaðinn. Samningstíminn er 4 ár, en hægt er að segja samningnum upp á árinu 2003, þannig að hann verði til 3ja ára.

Upphafslaunahækkun er 3,9% og svo um 3% á hverju ári. Nefnd á vegum ASÍ og SA skoðar árlega breytingar á vinnumarkaði og efnahagsástandi og ákvarðar hvort meiri launabreytingar eigi rétt á sér eða hvort launalið samningsins sé sagt upp. Nefnd á vegum RSÍ og SART mun endurskoða launatöfluna í samræmi við niðurstöður Kjararannsóknar um launaþróun á vinnumarkaði eins og gert var á síðasta samningstímabili, þá var bætt við kerfið tveim töxtum.

Við undirskrift hækka lágmarkslaun í rafiðnaði um tæp 13% og verða kr. 90.000. Lágmarkslaun rafiðnaðarmanna með sveinspróf hækka úr taxta 5 í taxta 6 eða um 10% og verða kr. 117.861. Lágmarkslaun rafiðnaðarmanna sem bera tæknilega ábyrgð og geta starfað sjálfstætt er 10. taxti og verða kr. 148.764. Þetta er nýtt ákvæði sem á að tryggja að vanir rafiðnaðarmenn séu ekki á lægri launum en 10. taxta og á að skila því launaskriði sem hefur verið á suð-vestur horninu út á landsbyggðina. Lágmarkslaun nema hækka um 30% og verða kr. 73.095 og fara í kr. 90.000 síðasta árið. Lágmarkslaun í virkjanaframkvæmdum hækka um 26% og verða kr. 145.000. Í bókun kemur fram að SA telji að launakerfi RSÍ og SART er lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði rafiðnaðarmanna.

Desemberuppbót hækkar í kr. 31.000 á samningstímanum. Desemberuppbót nema fer í kr. 19.700. Orlofsuppbót hækkar í kr. 10.000 og hjá nemum fer hún í kr. 7.700.
Á samningstímanum munu atvinnurekendur greiða 2% í séreignasjóð gegn jafnháu framlagi rafiðnaðarmanna. Útkall um nætur og um helgar lengist um eina klst. Inn kemur nýtt ákvæði að verði rafiðnaðarmenn fyrir truflunum í frítíma beri þeim endurgjald.

Öll ákvæði um hvíldartíma og frítökurétt eru mun skýrari og betri og er fallist á sjónarmið RSÍ um ágalla fyrri samnings. Hér er átt við skýringar um hvíldartíma og að yfirvinnulaun verði tvöföld fari hvíld niður fyrir 8 klst.

Réttur rafiðnaðarmanna til fullra launa í veikindum tvöfaldast og getur ekki fallið niður fyrir 10 daga eftir 3 starfsár og ekki niður fyrir mánuð eftir 5 ár. Hér er um verulega bót frá fyrrverandi ákvæðum þar starfsmenn gátu fallið niður í engan rétt fyrsta mánuð ef skipt var um vinnustað og svo 2 veikindadaga eftir það. Orlof vegna veikinda barna lengist um 3 daga eða í 10 daga eftir eins árs starf.

Eftir áratuga barátta um veikindarétt í orlofi erlendis tókst loks að fá veikindi í orlofi á Evrópska efnahagssvæðinu viðurkennd. Slysatryggingar hækka umtalsvert, t.d.við varanlega örorku fara þær úr 5 millj. kr. í 12 millj. kr. Orlof lengist í 28 daga eftir 10 ára starf og ávinnsla á hærri orlofsrétt styttist verulega ef skipt er um vinnustað.

Nýr ákvæðisvinnusamningur var undirritaður og gerðar breytingar á honum til samræmis við þær breytingar sem urðu þegar skrifstofu Ákvæðisvinnunefndar var lokað. Einingakerfið verður endurskoðað og á þeirri vinnu að vera lokið fyrir 1. des. næstk. Ákvæðisvinnutímaeiningin hækkar um 2% aukalega nú og um önnur 2% um næstu áramót.

Fullnægi atvinnurekandi ákvæðum um að útvega hlífðarfatnað. Ber hann kostnað vegna þess. Útborgun launa síðasta virkan dag í mánuði. Það hefur valdið vandræðum ef mánuður byrjar á frídögum að útborgun var fyrsta virkan dag í mánuði, þessu er breytt núna. Endurgjald ef fyrirfram skipulagðri vinnu er aflýst tvöfaldast. Viðurkenndur er í ákvörðunarréttur starfsmanna um heimferð í vinnutíma ef þeir sem eru að störfum í innan við klst. fjarlægð frá heimili sínu.

Á kjaramálaráðstefnu RSÍ var samþykkt að RSÍ tæki þátt í samráði ASÍ félaga gangvart stjórnvöldum. Eftirfarandi mál voru nefnd : Hækkun skattleysismarka og Tekjutengingar barnabóta. Einnig fjölskyldumál og réttindakerfi foreldra eins og Fæðingar- og foreldraorlof. Þessi mál gengu eftir eins og hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga.

Einnig er búið að ganga frá kjarasamning við Íslenska útvarpsfélagið, þar hækkuð lágmarkslaun umtalsvert eða í 117. þús. kr. Fastar krónutölur voru settar inn í launataxta auk sömu prósentuhækkana og samið var um á almennamarkaðnum. Það var gert á grundvelli útreikninga sem sýndu fram á að laun hjá ÍÚ höfðu hækkað minna en laun á almenna markaðnum.

Skipulagsmálin
Það mál sem var mest áberandi innan verkalýðshreyfingarinnar á síðasta ári var umræðan um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar. Forystumenn Verkamannasambandsins og Landssambands verzlunarmanna reyndu að nota ASÍ til þess að koma í veg fyrir að Félag íslenskra símamanna kæmist í RSÍ. Félagsmenn í Félagi íslenskra símamanna ákváðu í kjölfar einkavæðingar Landssímans, að ganga úr BSRB og sækja um inngöngu í RSÍ og þar með í ASÍ. Fram fór allsherjaratkvæðagreiðsla í félaginu og þar var þessi tillaga samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Þann 21. apríl, daginn fyrir þing RSÍ þar sem átti að afgreiða inngöngu FÍS með formlegum hætti, var kallaður saman fundur skipulagsnefndar ASÍ. Á þeim fundi hafnaði skipulagsnefnd því að FÍS gæti gengið í RSÍ. Sama dag er einnig kölluð saman laganefnd ASÍ og hún hafnaði umsókn Matvís um inngöngu í ASÍ. Það var gert á grundvelli þess álits laganefndar að í Matvís gætu einungis verið þeir sem hefðu sveinspróf. Þessar samþykktir nefndanna voru síðan staðfestar seinna sama dag í miðstjórn ASÍ. Einkennilegt þótti að þessar nefndir voru kallaðar saman daginn fyrir þing RSÍ og sama dag og sambandstjórnarfundur er hjá Samiðn. Formaður Rafiðnaðarsambandsins lagði fram bókun á miðstjórnarfundi ASÍ og gekk af fundi.

Á þingi RSÍ var innganga FÍS samþykkt samhljóða, þrátt fyrir samþykktir í stofnunum ASÍ daginn áður og að það myndi hugsanlega þýða brottrekstur RSÍ úr ASÍ. Ástæða höfnunar ASÍ á inngöngu Matvís var harkalega gagnrýnd. Lög Matvís væru nákvæmlega eins og lög RSÍ og þau væru margsamþykkt og staðfest innan ASÍ allt frá stofnun RSÍ fyrir 30 árum. Þessi sambönd væru starfsgreinasambönd, það gerði uppbyggingu öflugrar sí- og starfsmenntunar mun auðveldari og hagkvæmari og félli mjög vel að kröfum nútímavinnumarkaðar. Þessi afstaða ASÍ stæði í vegi fyrir að starfsgreinasambönd eins og t.d. Matvís og Bókagerðamanna komist í ASÍ og sambönd sem væru þar þegar inni þyrftu að fara út. Á sama tíma hefði laganefnd ASÍ samþykkt lög stéttarfélaga innan Verkamannasambandsins, þar sem gert er ráð fyrir samskonar skipulagi og hafnað væri í lögum Matvís.

Rafiðnaðarmenn settu fram eftirfarandi spurningar til miðstjórnar og forseta ASÍ :

  1. Á hvaða forsendum var inngöngu FÍS í Rafiðnaðarsambandið hafnað? Það er gert þrátt fyrir að nær hver einasti félagsmaður FÍS hefði samþykkt að sækja um inngöngu í RSÍ og umtalsverður hluti þeirra væru rafiðnaðarmenn.
  2. Á sama tíma leggur skipulagsnefnd ASÍ til að Félag hljómlistarmanna og Félag flugfreyja gangi í jafn ólíkt samband og samband verzlunarmanna er, og að Félag mjólkurfræðinga gangi í Samiðn frekar en Matvís. Þetta er gert þrátt fyrir yfirlýstan vilja félagsmanna þessara félaga, að þeir vilji ekki ganga í þessi sambönd.

  3. Á hvaða forsendum var lögum Matvís hafnað? Rúmast starfsgreinasambönd ekki innan ASÍ? Á skipulag verkalýðshreyfingarinnar að standa óbreytt og verða í andstöðu við þróun atvinnulífs og þjóðfélags? Er það ekki markmið forystu verkalýðshreyfingarinnar að stuðla að sameiningu launafólks?
  4. Hvers vegna gerir miðstjórn ASÍ þennan mismun á milli sambanda?
  5. Eru þessar ákvarðanir í samræmi við samþykkt lög ASÍ og samþykktir sem gerðar hafa verið um skipulagsmál sambandsins? Ef svo er fer miðstjórn RSÍ fram á að fá að sjá það rökstutt, með tilvísunum. Í greinargerð frá lögmanni ASÍ þar sem hann svarar spurningum frá RSÍ um þetta mál kemur fram að þetta standist ekki gildandi samþykktir ASÍ.

Í mjög ítarlegri greinargerð frá lögmanni ASÍ þann 19. maí var staðfest það sem RSÍ hélt fram, samþykktir sem gerðar voru á þingum ASÍ 1958 og 1960 hafi aldrei verið aflagðar. Saga samþykkta um skipulag ASÍ frá 1958 til þessa dags segi okkur að menn hafi ýtt til hliðar innbyrðis ágreining um skipulagsmál eða um hvaða skipulagsform henti best með því að hafa samþykktir óljósar og hugtakanotkun hafi verið mjög á reiki. Þannig hafi ákvarðanir miðstjórnar miðað að því að halda óbreyttu ástandi fremur en að færa skipulag sambandsins að einhverri rökréttri fyrirmynd. Á fyrri hluta þessa tímabils, þ.e. frá 1958 til dagsins í dag, virðist sem tilhneiging hafi verið til umburðarlyndari túlkunar, en síðastliðin áratug hafi hins vegar gætt tilhneigingar til þrengri túlkunar, sem fyrst og fremst hafi birst í þeim ágreiningi sem upp hefur komið gagnvart iðnaðarmannafélögunum.

Staða samþykkta sambandsþinga sem almennra stefnuyfirlýsinga hefur verið veik. Aldrei hefur verið ákveðið að skerða fullveldi félaganna nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta hefur leitt til þess að heildarsamtökin hafa í raun ekki sjálf ákveðið skipulag sitt heldur fremur aðhæft það að þeirri stöðu sem uppi hefur verið innan hreyfingarinnar hverju sinni en kannski síður að breytingum sem orðið hafa í umhverfinu.

Rafiðnaðarsambandið aftur til starfa innan ASÍ.
Á sambandsstjórnarfundi ASÍ 22. – 23. 11. voru töluverðar umræður um skipulagsmál sambandsins og þau vandamál, sem hafa verið innan sambandsins undanfarin misseri. Forseti ASÍ fylgdi úr hlaði ályktun, sem hann lagði fram í nafni forsetatríósins. Í ræðu sinni kom hann inn á að það væri útilokað að búa við það ástand, að ASÍ ætti það á hættu að starfsemi sambandsins nánast lamaðist ef upp risu landamæradeilur milli landssambanda eða félaga. Hann sagði að þessu yrði að breyta, menn yrðu að horfast í augu við það að ósveigjanlegt skipulag gæti ekki gengið. Hann benti á að fyrir utan ASÍ væru mörg félög og sambönd sem hugsanlega myndu vilja ganga í ASÍ. Hann nefndi sem dæmi inngöngu Félags símamanna í RSÍ og hann nefndi einnig að til væru önnur félög og sambönd sem stæðu utan ASÍ og væru uppbyggð með svipuðum hætti, þ.e. að þar væru saman komnar fleiri en ein starfsstétt. Það gengi ekki að skipulag ASÍ væri með þeim hætti að þessi félög kæmust ekki inn í ASÍ með öðrum hætti en þeim væri tvístrað. Nútímavinnumarkaður væri með öðrum hætti en áður og viðhorf fólks væri einnig með öðrum hætti. Hann benti á nýgerða viðhorfskönnum meðal launamanna. Þar kæmi fram mjög ákveðin vilji að heildarsamtök launamanna væri sterk. Einnig kom fram að tæplega 80% telja að ASÍ sé gamaldags.

Í ályktun forseta ASÍ stóð m.a. :
Sambandsstjórn telur mikilvægt sé, að tryggja að skipulag sem verkalýðshreyfingin velur sér til að marka ramma um starfsemina verði sveigjanlegt og einfalt. Skipulagið má ekki hefta að starfsemi hennar og einstakra stéttarfélaga geti breyst og þróast í takt við breytingar í starfsumhverfinu.

Þannig er ljóst að þær reglur sem gilda innan ASÍ verða að taka mið af heildarhagsmunum. Einnig verður ljóst að það, með hverjum hætti einstök félög eða sambönd eiga aðild að ASÍ, getur aldrei orðið samkvæmt einni ósveigjanlegri reglu.
Reglurnar þurfa að vera þannig að ný aðildarsamtök sem eftir atvikum eru skipulögð á annan hátt en núverandi aðildarsambönd ASÍ geti átt aðkomu að ASÍ.

Vinna verður að því að allir núverandi aðilar ASÍ geti áfram átt aðild að sambandinu og efla þarf samstarf við aðila utan ASÍ með það að markmiði að þeir geti einnig átt aðild að sambandinu. Endurskoða verður form aðildar að sambandinu til að tryggja að ASÍ geti þjónað því hlutverki sínu, að vera samnefnari verkalýðshreyfingarinnar allrar. Formskilyrði mega ekki vera fjötur um fót ef einstakir hlutar hreyfingarinnar sem nú eru utan ASÍ vilja koma til liðs við sambandið.

Sambandsstjórn felur forsetum sambandsins að vinna að þeim markmiðum sem fram koma í þessari ályktun á næstu mánuðum og kalla til formlegs samráðs fulltrúa aðildarfélaga og sambanda til að vinna tillögugerð fyrir lok apríl árið 2000. Þessar tillögur verða ræddar í miðstjórn í apríl og lagðar fyrir til kynningar á sérstökum formanna- og sambandsstjórnarfundi ASÍ sem haldinn verður í maí. Tillögurnar skal taka til afgreiðslu á sambandsþingi í nóvember 2000.

Þessi ályktun var samþykkt mótatkvæðalaust, nokkrir sátu hjá. Fulltrúar RSÍ tilkynntu í umræðum að þeir væru mjög sáttir við þessa ályktun, hún væri þannig að viðurkennd væru þau sjónarmið sem RSÍ hefði sett fram og fulltrúar sambandsins myndu því hefja starf í nefndum og ráðum ASÍ frá og með deginum í dag. Fram kom hjá nokkrum ræðumanna að það væri þeirra álit að þetta væri síðasti möguleiki til þess að ná sáttum. Ef aðilar næðu ekki saman í vetur þá væri sjálfhætt að reyna áfram, ASÍ væri þá búið að vera.

Alþýðutrygging
Það hefur lengi verið mikið kappsmál rafiðnaðarmanna að kannað yrði innan verkalýðshreyfingarinnar hvort grundvöllur sé að koma á svipuðu tryggingarkerfi og samtök launamanna á hinum Norðurlandana hafa komið sér upp. Þetta mál hefur verið á umræðustigi um langt árabil. Eins og kom fram í síðustu skýrslu var ákveðið að stofna undirbúningsfélag, sem myndi láta kanna hvaða tryggingarpökkum væri hægt að koma á og hvað það myndi kosta. Þessi vinna var unnin á síðasta ári og í vetur hefur starfsmaður A-tryggingar unnið að kynningu hjá stéttarfélögunum. Þeir tryggingarpakkar sem haf verið kynntir eru framhald þeirra tryggingar sem launþegar hafa í kjarasamningum, vegna veikinda og slysa. Verzlunarmenn hafa ekki ljáð máls á því að vera með í þessu og það hefur gert hópinn óhagkvæmari til tryggingar en ella. Það hefur komið í ljós við kynningu á tryggingum að mörg félög hafa ekki áhuga þátttöku. Þannig að allar líkur eru á að á hluthafafundi sem haldin verður í byrjun mái verði ákveðið að falla frá málinu.

Samskipti stéttarfélaganna.
Í síðustu kjarasamningum sat RSÍ undir skeytasendingum frá nokkrum forystumönnum innan Verkamannasambandsins, þar sem reynt var með kostulegum málflutning að gera RSÍ ábyrgt fyrir því að þeir hefðu ekki náð markmiðum sínum i kjarasamningunum. Miðstjórn RSÍ svaraði með því að hún hefði ekki orðið þess var að önnur stéttarfélög hefðu borið kröfugerðir sínar undir hana og hún gæti því með engu móti axlað þessa ábyrgð. Margar af þessum kröfugerðum væru mun frekar óraunhæfur óskalisti, sem ætíð hefði verið ljóst að engin von væri um að koma fram. Menn gætu ekki fríað sjálfa sig af eigin axarsköptum, þeir yrðu sjálfir að bera þær byrðar. Yfirstandandi kjarasamningar eru endurtekning, umræddir verkalýðsforingjar lofuðu félagsmönnum sínum miklum kjarabótum og réðust svo að forystu Flóabandalagsins með ódrengilegum hætti og sakaði þá um að standa í veginum fyrir því að þeir næðust fram.

Síðastliðið haust setti formaður RSÍ fram hugmyndir hvernig ASÍ 21. aldarinnar gæti verið. Í dag eru landssamböndin og mörg stærri félaganna sjálfum sér nóg í flestum málum. Hlutverk ASÍ í dag er að vinna úr hagfræðilegum gögnum og koma á framfæri upplýsingum er varða launafólk. Móta afstöðu til lögfræðilegra atriða, koma fram gagnvart ríkisvaldi, gefa umsagnir um frumvörp, sjá um alþjóðleg samskipti eins og t.d. hin mikilvægu Evrópumál. Nokkur stéttarfélög og landssambönd vilja ekki fela ASÍ ákvörðunarvald í innri málum sínum og þaðan af síður gerð kjarasamninga. Með því er augljóslega verið að gera það óframkvæmanlegt sem ætlast er til að ASÍ geri. Það eru svo miklar þversagnir í umræðunni.

ASÍ hefur misst mjög hæfa starfsmenn og við blasir, ef ekkert verður að gert, þá munu fleiri hverfa á braut. Nýta má miklu betur þá fjármuni sem ASÍ hefur úr að spila. Hin gríðarlega umfangsmiklu þing ASÍ kosta óhemju fjármagn, þar gerist ekkert og þau eru óþörf. Þar koma saman 500 manns og hlusta á forseta lesa upp þykkar skýrslur um hvað gerst hafi undanfarin 4 ár og svo eyða pólitísku fylkingarnar mörgum dögum í að rífast um orðalag á ályktunum, sem á endanum verða svo útþynntar að engum dettur í hug að lesa þær. Forsetar ASÍ og miðstjórn ASÍ eru óþörf valdastig. Kjósa má einn forseta eða formann, en hann á ekki að vera starfsmaður ASÍ. Ráða á framkvæmdastjóra og setja framkvæmdastjórn sem í ættu sæti 1 - 2 menn frá stærstu félögum eða landssamböndum. ASÍ myndi síðan halda árlegan aðalfund. Þá væri hægt að efla verulega hina nauðsynlegu hagdeild, sama má segja um lagadeildina. Þá væru til fjármunir til þess að standa fyrir ráðstefnum um þau málefni sem væru efst á baugi hverju sinni. Með þessu fyrirkomulagi væri hægt að ná öllum samtökum launamanna á Íslandi saman í ein heildarsamtök. Þá hefðu margskonar innri deilur ekkert þangað að gera. Samtökin væru í sinni einföldu mynd samstarfsvettvangur um þau verkefni sem vinna þarf hverju sinni. Pólitísku valdablokkirnar hyrfu aftur í grámósku þess tíma sem þær eiga heima. Það er ljóst að þær munu berjast af alefli gegn þessum hugmyndum. Þær vilja geta nýtt ASÍ í pólitísku brambolti sínu. Við erum á hraðferð inn í harðskeytt þjóðfélag, þar sem markaðshugsjónir verða ráðandi og mannlegir hagsmunir munu verða undir í mörgum tilfellum. Íslenskt launafólk þarf nauðsynlega og á svo sannarlega skilið sterka verkalýðshreyfingu og það er svo auðvelt að koma því í framkvæmd.

Stærri framkvæmdir
Við allar stærri framkvæmdir er búin til framkvæmdaáætlun. Hún miðast einungis við hversu langan tíma tekur að grafa, steypa sökkla, steypa upp og loka húsinu. Lokadagur framkvæmda ákvarðast svo að því hvenær búið er að reisa innveggi og mála. Í framkvæmdaskipulagi er ekki gert ráð fyrir að tíma þurfi til þess að þurrka gólf áður en þau eru dúklögð, setja upp raflagnir, setja upp hillur og annan búnað. Tæknimenn verða að klofa yfir smiði, dúkleggjara og málara þegar þeir bera inn viðkvæman tæknibúnað inn í rykmettað loft og hann er settur upp, þó vitað sé að hætta sé að hann eyðileggist. Þeir sem semja framkvæmdaáætlanir eru oft staðnir að því að taka t.d. verkhluta sem talið að séu 10 mannmánuðir og segja, "Ekkert mál, við setjum 20 rafiðnaðarmenn í það og gerum þetta á 2 vikum" Hér er oft um að ræða verk þar sem einungis 5 menn komast til þess að framkvæma. Þessir 5 menn verða síðan að redda þessu einhvern veginn, annars sitja þeir undir skömmum og svívirðingum og fá dagsektir sem skipta hundruðum þúsunda. Þeir verða því að vinna sólarhringum saman.

Þegar að hinum skipulagða lokadegi kemur er stillt upp mikilli flugeldasýningu og koktailboði þar sem einhver glerfínn ráðherra kemur og klippir á borða og skálar svo við eigendurna og þeir taka svo í hendurnar hvor á öðrum brosandi framan í sjónvarpsvélarnar og fréttamenn hrósa þessum mönnum fyrir hvað þeir séu duglegir. Engir dökkir baugar eru undir augum og þaðan af síður þreytumerki á svona ofurmennum, sem svitna ekki einu sinni þó þeir klippi í sundur sveran silkiborða í einu handtaki, þó þeir haldi á kampavínsglasi í hinni hendinni. Starfsfólkið liggur örmagna baksviðs. Greiðslur fyrir hvíldartíma og önnur atriði vegna lágmarkshvíldar standa því ekki til boða.

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja.
RSÍ hefur undanfarin misseri lent inn í harkalegum deilum sem snúast um framferði erlendra verktaka hér á landi gagnvart launþegum. En deilurnar snúast í raun oftar um að verja stöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum. Við gerum þær kröfur til íslensku fyrirtækjanna að þau fari eftir kjarasamningum og að eftirlitsstofnanir eins og t.d.Vinnueftirlit sjái um að aðbúnaður sé í lagi og að Rafmagnseftirlit sjái um að frágangur og efnisval sé framkvæmd samkvæmt kröfum. Þetta kostar oft á tíðum umtalsverðar upphæðir, sem íslensku fyrirtækin verða taka mið af þegar þau gera tilboð í verkefni. Í vaxandi mæli eru erlend fyrirtæki eru að ná verkefnum í útboðum.
Sem betur fer er það oft þannig að ekkert er athugavert við framgöngu erlendu fyrirtækjanna, en við höfum fengið inn í landið fyrirtæki sem svífast einskis. Þau greiða lágmarkslaun, hvíldartímareglugerðir eru ekki virtar, aðbúnaður starfsmanna er fjarri því sem við gerum kröfur um. Efnisval og frágangur er ekki í samræmi við útboðslýsingar.

Það fyrsta sem íslensku fyrirtækin gera er að hafa samband við RSÍ, þau hafa ekki samband við Samtök atvinnurekenda og ekki við Vinnueftirlitið. Hvers vegna beita Samtök atvinnurekenda sér ekki í svona málum? Það virðist vera SA þóknanlegt að brotnir séu á bak aftur kjarasamninga og reglugerðir. Hagsmunir lítilla og millistórra íslenskra fyrirtækja skipta engu. Þar á bæ ráða ríkjum hagsmunir stóru fyrirtækjanna, þau litlu eru í raun launþegar hjá þeim. Markmið SA er að brjóta þau á bak aftur, jafnvel þó um sé að ræða samninga sem SA hefur þó staðið að og undirritað. Þó það kosti að íslensk fyrirtæki missi verkefni og íslenskir launamenn gangi um verkefnalausir. Hér má benda á afstöðu SA í Technomálinu, málum Eimskipa og nú síðast í málum í Sultartanga.

Í haust sauð upp úr hjá rafiðnaðarmönnum að störfum við Sultartangavirkjun. Ástæðan var sú að eftirlitsmenn voru að saka þá um að þeir stæðu sig ekki, fagvinna væri ekki góð og mikið um upptekningar og verkin væru á eftir áætlun. Á fundi sem RSÍ hélt á staðnum kom fram að Írskt fyrirtæki skilaði ekki inn teikningum og verklýsingum, skápar sem kæmu frá Írlandi væru rangt unnir. Þetta væri ástæða þess að rafiðnaðarmennirnir stæðu oft verkefnalausir eða það þyrfti að endurmontera skápa.

Þetta ætti eftirlitsmönnum að vera ljóst og þeim væri nær að snúa sér þangað með ásakanir sínar. RSÍ hafði samband við Landsvirkjun og fulltrúa Írska fyrirtækisins. Eftirlitsmennirnir eru undirverktakar hjá Landsvirkjun. Okkur var tjáð að það væri greinilegt að eftirlitsmennirnir færu ekki eftir starfsreglum, þeim væri uppálagt ef þeir hefðu eitthvað að athuga við störf og fráganga að hafa samband við viðkomandi fyrirtæki ekki starfsmennina á gólfinu. Landsvirkjun brást fljót og drengilega við þessu og hafði samband við eftirlitsmennina. Í ljós kom að mönnum var kunnugt um þetta og viðurkennt var að íslensku rafiðnaðarmennirnir hefðu setið undir röngum og ósanngjörnum ásökunum og þeir voru beðnir afsökunar. Starfsmönnum RSÍ þóttu það undarlegt úr því svo væri, að ekkert hefði verið gert í að leiðrétta þetta fyrr.

Hingað til lands hafa komið erlend fyrirtæki og undirboðið íslensk rafverktakafyrirtæki. Það gera þau í skjóli þess að erlendu fyrirtækin geta fullnægt skilyrðum með því að greiða lágmarkslaun, en íslensku fyrirtækin fá enga innlenda rafiðnaðarmenn til þess að vinna á launum sem eru undir þeim launum sem í gildi eru á almennum markaði rafiðnaðarmanna. Þetta var lagfært að nokkru með því að setja inn í kjarasamninginn lágmarkslaun í stærri verkum sem samsvara meðallaunum.

Landsvirkjun þýðir öll verkútboð á erlend tungumál, þannig að íslensk fyrirtæki verða að kaupa dýra túlkun yfir á íslensku ef þau ætla að geta boðið í verkin. Þess er krafist réttilega af íslenskum rafiðnaðarmönnum að þeir skili verkum sínum eð faglegum hætti og noti viðurkenndan búnað. Gagnvart erlendum fyrirtækjum er allt annað upp á teningnum. Þau komast upp með ótrúlega lélegan frágang og að því að mér er tjáð þá eru þau stundum að setja upp búnað sem ekki er viðurkenndur gagnvart íslenskum fyrirtækjum.

Starfmenntakerfi rafiðnaðarmanna - það langstærsta á Íslandi.
Þegar Eftirmenntun rafiðna var stofnuð 1974 höfðu rafiðnaðarmenn þurft að horfa upp á erlenda rafiðnaðarmenn setja upp allan nýtæknibúnaðinn í Búrfellsvirkjun og í álverinu í Straumsvík. Öllum nýjum tæknibúnaði í fiskveiðiflotanum og í fiskvinnslunni fylgdu erlendir rafiðnaðarmenn. Í hinum frægu sólstöðusamningum veturinn 1974 þegar nær gjörvöll forysta íslenskra launamanna og atvinnurekenda hélt til á Hótel Loftleiðum í nokkrar vikur, hittust forysta rafverktaka og rafiðnaðarmanna einn morgun við morgunverðarborðið og urðu sammála um að þetta gengi ekki. Samtökin yrðu að sjá til þess að íslenskum iðnaði stæðu ávalt til boða hæfir tæknimenn, öðruvísi væri aldrei hægt að skapa það umhverfi sem hann þyrfti að búa við til þess að standast erlenda samkeppni. Þetta hefur tekist, nú telst það til tíðinda ef erlendir rafiðnaðarmenn eru hér að störfum, það er þá helst í grófum störfum. Óhætt er að fullyrða að engin starfsgrein hefur lagt sjálf eins mikið fram að uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Bilanatíðni og stöðvun vegna bilana er með því lægsta, sem þekkist. Íslenskum fyrirtækjum stendur ávalt til boða það nýjast sem til er. Íslenskir rafiðnaðarmenn setja í dag upp allan hátæknibúnað og eru að auki að störfum við það um allan heim.

Á síðasta ári voru nemendur í starfsmenntakerfi rafiðnaðarmanna tæplega 9000, skólarnir voru reknir í tæplega 4000 ferm. húsnæði í eigu rafiðnaðarmanna, fastir starfsmenn voru tæplega 40 og lausráðnir voru á annað hundrað. Hröð þróun í rafiðnaði kallar á síaukna starfsemi og tölvudeild Rafiðnaðarskólans hefur vaxið með ævintýralegum miklum hraða. Ákveðið að kaupa Viðskipta og tölvuskólann til þess að styrkja tölvudeildina tæknilega og rekstrarlega. RSÍ og aðildarfélög hafa lagt fram fjármuni til húsnæðiskaupa og voru 1000 ferm. keyptir og innréttaðir í Faxafeni 10 skammt frá húsnæði Rafiðnaðarskólans. Starfsemin sprengdi það utan af sér á einu ári og hefur það húsnæði verið stækkað nokkrum sinnum með kaupum á sífellt stærri hlut í húseigninni í Faxafeni. Eigum við nú alla efri hæð hússins og um þriðjung neðri hæðarinnar, eða vel á þriðja þúsund ferm. Meginhluti námsframboðsins þar byggist á lengri starfsmenntabrautum. Ekki duga lítil hús til útskrifta, því Borgarleikhúsið og Íslenska óperan hafa verið leigð til útskriftar.

Nú er boðið upp á yfir 200 gerðir námskeiða. Lengra nám hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna og er boðið upp á margskonar nám sem tekur allt frá einni önn upp í nokkrar annir. Þar er m.a um sérfræðinám á háskólastigi að ræða. Rafiðnaðarskólinn hefur ætíð einbeitt sér að fagtengdum námskeið fyrir rafiðnaðarmenn, en hann hefur notið góðs af annarri menntastarfsemi okkar. T.d. hefði ekki verið unnt að byggja upp og viðhalda mörg hinna gífurlega dýru sérhæfðu fagnámskeiða með eftirmenntunargjaldinu einu saman.

Í gegnum árin hafa margir aðilar leitað upplýsinga af reynslu okkar í starfsmenntastarfsemi og sumir hafa leitað eftir samstarfi. Í síðustu viku gekk Rafiðnaðarskólinn til samstarfs við Prenttæknistofnum um stofnun Margmiðlunarskólans. Þar var margmiðlunardeild Rafiðnaðarskólans sameinuð starfsemi Prenttæknistofnunar á þessu sviði. Hinn nýi skóli er í ný innréttuðu 700 ferm. húsnæði sem við keyptum á síðasta sumri undir margmiðlunardeild Rafiðnaðarskólans á fyrstu hæð í Faxafeni 10. Prenttæknistofnun flutti einnig sína starfsemi þangað. Það húsnæði er nú þegar orðið fullnýtt.
Nýverið keypti Rafiðnaðarskólinn Tölvuskóla Reykjavíkur í samstarfi við Eflingu-stéttarfélag. Tölvuskólinn Framtíðarbörn kom inn í þau kaup og hafa skólarnir verið sameinaðir. Ætlunin er að sameina rekstur Tölvuskóla Reykjavíkur/Framtíðarbörn rekstri almennra tölvunámskeiða Rafiðnaðar- og VT skólanna. Þessi skóli verður í því húsnæði sem Tölvuskóli Reykjavíkur er í við Borgartún. Leigusamningur á því húsnæði rennur út seinni hluta næsta árs. Ekki er ólíklegt að þetta samstarf Rafiðnaðarskólans og Eflingar geti leitt til mun víðtækara samstarfs á sviði starfsmenntunar. Í lok síðasta árs var gengið frá samstarfssamningi Rafiðnaðarskólans og Kvikmyndaskóla Íslands og flutti hann starfsemi sína í Rafiðnaðarskólann nú um áramótin.

Það hefur tíðkast að rafiðnaðarmenn í námi hverfa oft á tíðum úr námi og fara til starfa innan rafiðnaðargeirans, oft lenda menn í þannig störfum að ekki er krafist sveinsprófs, en viðkomandi sækir sérmenntun á sínu sviði í Rafiðnaðarskólanum eða annarsstaðar. Viðkomandi getur hvenær sem er tekið upp þráðinn og hafið nám að nýju og lokið sveinsprófi í einhverri rafiðnaðargrein. Hann fær þá metið það sérnám sem hann hefur sótt og þá starfsþjálfun sem hann hefur öðlast. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að þörfum atvinnulífsins fyrir rafiðnaðarmenn með styttri menntun hefur verið fullnægt og ekki síður, einstaklingurinn hefur ætíð möguleika á að bæta við sig námi. Aðstoðarmenn rafiðnaðarmanna og sérstök menntun vegna þeirra hefur þar af leiðandi aldrei tíðkast, það er engin þörf fyrir þá.

LÍFIÐN
Helstu kennitölur .

 

      1997

     1998

     1999

Ellilífeyrir

36.428.903

50.351.044

57.884.963

Örorkulífeyrir

37.252.593

37.514.519

40.869.245

Makalífeyrir

19.553.549

21.453.789

23.402.634

Barnalífeyrir

3.462.087

4.305.690

3.829.328

Samtals

96.697.132

113.625.042

125.986.170

Lán til sjóðfélaga

114.355.000

135.287.003

231.879.693

Innkominn iðgjöld

634.398.870

807.049.479

951.172.155

Grundvallarlaun Lífeyrissjóðsins Lífiðnar er nú kr. 76.239- á mánuði. Samkvæmt reglugerð sjóðsins skal gera tryggingafræðilega úttekt á hverju ári.

Styrktarsjóður rafiðnaðaramanna
Styrktarsjóðurinn greiðir félagsmönnum bætur og styrki vegna veikinda og slysa, eftir að greiðslum frá atvinnurekenda lýkur. Þá greiðir sjóðurinn einnig útfararkostnað, dánarbætur og styrkir sjóðsfélaga sem þurfa að fara sjálfir eða með einhvern úr fjölskyldu sinni til lækninga fjarri heimilum til Reykjavíkur eða erlendis. Einnig tekur sjóðurinn þátt í greiðslum vegna sjúkranudds og sjúkraþjálfunar.
Greiðslur úr styrktarsjóð hafa vaxið verulega undanfarin ár. Til þess eru nokkrar ástæður, réttindi félagsmanna hafa verið kynnt þeim ítarlega á fundum og í RSÍ-blaðinu, einnig hefur meðalaldur félagsmanna vaxið umtalsvert undanfarin ár. Fyrir nokkrum árum voru ekki margir félagsmenn í aðildarfélögum RSÍ yfir 40 ára, þeir voru undantekningalítið orðnir atvinnurekendur.

Greiðslur úr sjóðnum skiptast þannig:

Styrkir

1997

1998

1999

Sjúkrabætur

7.164.797

21.611.314

20.983.696

Dánarbætur og jarðarfarir

892.710

3.587.200

4.135.000

Sjúkranudd og sjúkraþjálfun

912.103

1.299.684

1.869.480

Sjúkrahúsaðgerðir

525.000

382.670

203.000

Ferðastyrkir

723.424

699.635

445.406

Líkamsr. og forvarnarstarf

711.519

1.459.022

2.295.908

Aðrir styrkir

1.529.030

2.513.982

4.850.893

Samtals

12.458.483

31.553.507

34.783.383

Í dag greiðir sjóðurinn bætur sem eru 80% af meðallaunum. Þessi ákvörðun var tekin á síðasta ári og hefur haft umtalsverða aukningu á útgjöldum sjóðsins í för með sér.

Niðurlag
Í skýrslu um starfsemina er að sjálfsögðu ekki hægt að gera grein fyrir öllum þeim málefnum sem unnið hefur verið að, heldur eru aðeins nefnd helstu verkefnin. Skýrslan ber vitanlega þess merki að FÍR starfar innan öflugs landssambands, sem er skipulagt þannig að kjarasamningar, styrktarsjóður, orlofshús og starfsmenntakerfi er rekið með sameiginlegum hætti. Það hefur reynst okkur rafiðnaðarmönnum ákaflega vel, við höfum komið mörgu í verk sem hefur reynst öðrum stéttarfélögum um megn. Í landsfélagi eins og FÍR, er nauðsynlegt að birta ítarlegar skýrslur svo þeir félagsmenn sem ekki komast til aðalfundar, eigi þó kost á því að kynna sér til nokkurrar hlítar starfsemina.

Eins og fram kemur í skýrslunni snýst starfsemi nútíma verkalýðsfélags ekki einungis um gerð kjarasamninga og innheimtu á gjöldum. Lifandi þróttmikil starfsemi á að skapar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra leið til öruggara og fyllra lífs. Eitt af þeim markmiðum sem núverandi stjórn setti sér, var að efla félagslíf og gera eignir sambandsins aðgengilegri félagsmönnum og fjölskyldum þeirra.

Haraldur Jónsson apríl 2000.

Til baka á forsíðu