Fréttir frá 2014

09 21. 2014

Ályktun miðstjórnar vegna fjárlaga

Logo RSÍMiðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) gagnrýnir harðlega áform stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts á matvælum sem mun hafa mest áhrif á þá sem minnst hafa. Hækkun á nauðsynjum líkt og mat- og drykkjarvörum, raforku, heitu vatni og bleium hefur bein áhrif á útgjöld heimilanna. Þetta eru þær vörur sem hvað erfiðast reynist að skera niður í rekstri heimilanna, enda hafa heimilin nú þegar dregið úr neyslu þeirra vara sem mögulegt er að sleppa.

Miðstjórn RSÍ gagnrýnir jafnframt áform stjórnvalda um að draga úr verkefninu „Allir vinna“ en fyrir liggur að endurgreiðsla virðisauka af vinnu lækkar úr 100% niður í 60%. Þegar ákveðið var að hækka þetta hlutfall var það gert til þess meðal annars að fjölga verkefnum í viðhaldsvinnu en ekki síður til að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Gera má ráð fyrir að þeir sem þó hafa svigrúm til framkvæmda dragi frekar úr fyrirhuguðum framkvæmdum eða leiti annarra leiða til að standa undir þeim kostnaði.

Miðstjórn RSÍ gagnrýnir harðlega þá ákvörðun stjórnvalda að ætla sér að auka fjárveitingu minna til iðn- og verknámsskóla í samanburði við bóknámsskóla. Gefur það vísbendingu um að iðn- og verknám sé ekki metið til jafns við bóknám hjá stjórnvöldum og kemur jafnframt í veg fyrir að fleiri nemendur komist að í iðnnámi. Þetta eru þær greinar sem skortir starfsafl og þörfin fyrir iðn og verkmenntað fólk verður meiri á næstu árum verði ekkert að gert.

Miðstjórn RSÍ telur að eðlilegra hefði verið að ríkið hefði aflað sér aukinna tekna með öðrum leiðum en að sækja þær í vasa þeirra sem minna hafa á meðan þeir efnameiri njóti góðs af minni skattbyrði. Auknum útgjöldum heimilanna verður að mæta með auknum tekjum og því verður ekki séð önnur leið en að sú hækkun verði sótt í komandi kjarasamningum.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?