Fréttir frá 2014

09 22. 2014

Sveinsbréfaafhending 20. september 2014

sveinsbrefLaugardaginn 20. september fengu nýsveinar afhend sveinsbréf í rafvirkjun, rafveituvirkjun og rafeindavirkjun. Að þessu sinni luku 50 nýsveinar sveinsprófi en flestir luku prófi í rafvirkjun eða 33 talsins þar á eftir voru 10 sem luku prófi í rafeindavirkjun og 7 í rafveituvirkjun.

Ánægjulegt var að sjá svo fjölmennan hóp ljúka sveinsprófi í rafveituvirkjun en á síðustu árum hefur reynst erfiðlega að fá námið kennt í framhaldsskólum sökum niðurskurðar og stífra reglna um fjöldatakmarkanir sem ríkið setur sér. Fyrirsjáanlegt er á næstu árum og áratugum verður mikill skortur á rafveituvirkjum en meðalaldur þeirra sem fyrir eru á vinnumarkaði með þá menntun er tiltölulega hár.

Athygli vekur þegar rætt er við nýsveina um stöðu á vinnumarkaði þá eru nýsveinar iðulega komnir í fasta vinnu þar sem menntun þeirra nýtist. Almennt hefur það ekki reynst nemum í rafiðnaði erfitt að komast á námssamning í faginu til þess að ljúka sveinsprófi enda er staðan á markaðnum þannig að erfitt er að ná í rafiðnaðarmenn til vinnu enda eftirsótt vinnuafl. Rafiðnaðarmenn sem ljúka sveinsprófi þurfa þó að starfa hér á landi í tvö ár eftir að þeir fá sveinsbréf afhent til þess að eiga möguleika á að starfa sem rafiðnaðarmenn í Noregi. Æði oft heyrist í okkar nýsveinum að þeir stefni á störf erlendis enda eru launakjör ekki sambærileg því sem boðið er upp á hér á landi sökum lágs gengis íslensku krónunnar.

Rafiðnaðarsamband Íslands óskar nýsveinum innilega til hamingju með glæsilegan árangur og óskar þeim velfarnaðar á vinnumarkaði í rafiðnaðarstörfum. Jafnframt bjóðum við þá velkomna í fagfélögin í rafiðnaði.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?