Fréttir frá 2017

11 17. 2017

Ályktun um kjararáð

rafidnadarsambandid2Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands sem haldin var dagana 16. og 17. nóvember 2017 ítrekar ályktun sína frá síðasta ári þar sem þess var krafist að kjararáð breyti fyrri úrskurðum sínum þar sem laun alþingismanna hækkuðu langt umfram aðra í samfélaginu. Við erum enn á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að gera róttækar breytingar á kjararáði þar sem nauðsynlegt er að tengja kjararáðið við raunveruleikann. 

Í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem í gangi eru virðist vera áhugi á því að endurvekja viðræður um rammasamkomulag, svokallað SALEK, en öllum ætti að vera augljóst að launafólk er ekki reiðubúið til þess að fylgja afmarkaðri línu launahækkana á meðan alþingismenn og aðrir hópar sem heyra undir kjararáð njóta launahækkana og lífeyrisréttinda sem eru oft langt umfram það sem almennt gerist.

Nú styttist í að kjarasamningar losni á almennum vinnumarkaði og þá er eðlilegt að almenningur spyrji sig hvert skuli sækja fordæmi launahækkana. Það er augljóst að aðhafist Alþingi ekkert í málinu þá er Alþingi að staðfesta að svigrúm til launahækkana sé í samræmi við úrskurði kjararáðs. 

Ljóst er að alþingismenn og ráðherrar komandi ríkisstjórnar munu ekki geta borið fyrir sig varnaðarorð um óstöðugleika þegar kemur að því að verkalýðsfélög leggi fram kröfugerðir í komandi viðræðum að þessu óbreyttu.

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?