Fréttir frá 2019

09 29. 2019

Fjórða iðnbyltingin, sveinsbréfaafhending og kjaraviðræður

rafidnadarsambandid2Fjöldi funda vegna kjarasamninga fóru fram í vikunni. Fundað var með Landsvirkjun, Rarik, Orkuveitu Reykjavíkur og ISAL. Það er ljóst að hraði viðræðna þarf að vera mikið meiri til þess að árangur fari að sjást úr þessum viðræðum. Það er ljóst að óþreyju er farið að gæta í baklandi okkar innan fyrirtækjanna og því nauðsynlegt að koma hreyfingu á málin. Viðræður eru lengst komnar hjá Landsvirkjun og bundum við vonir við að geta komist langt með viðræðurnar þar í vikunni. 

Í vikunni sem leið var haldið málþing á vegum menntanefndar ASÍ um tæknibreytingarnar sem tengjast hinni svokölluðu fjórðu iðnbyltingu. Miklar og hraðar tæknibreytingar hafa sífellt meiri áhrif á störf í heiminum og augljóst að í rafiðnaði verða til ný og mjög spennandi verkefni fyrir okkar félagsmenn. Rafiðnaðarstéttin ætti að vera sú stétt sem leiðir nýjan tæknibúnað inn á íslenskan markað. Það er meðal annars þess vegna sem við verðum að fylgja málum eftir með eftirmenntun í okkar greinum. 

Í vikunni náðust mjög áhugaverðir kjarasamningar í Noregi. Félagsmenn Fellesforbundet (samtök marga iðngreina þar í landi) sem vinna fyrir fyrirtækið Foodora náðu því markmiði sínu að gera kjarasamning um störf sem höfðu áður fallið á milli skips og bryggju. Starfsmenn sem vinna mjög nátengt hinu svokallaða tengihagkerfi (e. Platform economy). Starfsmenn fyrirtækisins, sem eru oftar en ekki skólafólk hafði verið ráðið til starfa eftir óhefðbundnum leiðum, ráðningarkjör og réttindi óljós, gripu til þess ráðs að leggja niður störf með því að beita verkfallsvopninu. Baraáttan skilaði kjarasamningi vegna þessara starfa. Virkilega vel gert!

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hjá okkur þá fór fram afhending sveinsbréfa á laugardaginn þar sem 49 nýsveinar fengu sveinsbréfin afhent. Það er alltaf jafn gaman að koma að þessum merka viðburði í lífi þeirra sem ná þessum áfanga. Sveinsbréfin veita bæði aðgang að því að starfa sem rafvirki, rafeindavirki eða í þeirri grein sem lokið er. Sveinsbréfið veitir því rétt til þess að vinna í greininni en auk þess eru atvinnumöguleikar gríðarlega miklir enda skortur á iðnaðarmönnum hér á landi. 

Sveinsbréf og starfsreynslan veitir jafnframt aðgang að frekara námi og tala nú ekki um ljúki nemendur stúdentsprófi frá iðn- eða verknámsskóla samhliða iðnnáminu (sem er ekki veruleg viðbót í tíma) þá opnast fjölmargar leiðir til frekara náms og þeir einstaklingar sem það velja verða iðulega mjög eftirsóttir í atvinnulífinu að því loknu enda með einkar dýrmæta reynslu í farteskinu hvort sem valið verður að hefja störf sem iðnaðarmaður eða sækja meiri menntun. Hvetjum þó sem flesta að fara beint út á vinnumarkaðinn enda góð staða þar.

 

Til hamingju með sveinsbréfin nýsveinar!

KÞS

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?