GallupNú er launakönnun RSÍ 2019 komin í loftið, smelltu hér til að nálgast niðurstöðurnar. Þátttakan í könnuninni var svipuð og fyrir ári síðan en alls svöruðu 1.624 félagsmenn þessari könnun. Það sem mikilvægast er að horfa í er hvernig launaþróun dagvinnulauna er á milli ára. Að meðaltali eru dagvinnulaun í september 2019 621.000 kr. og eru að hækka um 3,8% að meðaltali. Það er hins vegar misjafnt á milli félaga hvernig breytingar mælast en mest er hækkun dagvinnulauna á Suðurlandi eða 11,5% en dagvinnulaun lækka að meðaltali á Suðurnesjum um 1,3%. Rétt er að taka fram að þetta eru tiltölulega fáir svarendur í hvorum hópi fyrir sig sem getur valdið meiri sveiflum í mælingum á milli ára. Heildarlaun eru að hækka nokkuð minna en dagvinnulaun en heildarlaun mældust 774.000 kr og hækka um 2,2% á milli ára.

Dagvinnulaun mælast 6,3% hærri á milli ára í byggingaiðnaði og mældust þau 539.000 kr en laun í þeim hluta vinnumarkaðar mælast lægst í dagvinnu. Hæst dagvinnulaun mælast í tækniþjónustu eða 751.000 kr. 

Spurt var um tímakaup hjá þeim sem fá greitt samkvæmt tímakaupi og var meðaltímakaupið 2.987 kr og stendur tímakaup því í stað á milli ára. Langflestir sem svara því til að fá greitt samkvæmt tímakaupi eru í byggingariðnaði.

Meðalvinnutími hjá þeim sem vinna fullt starf samkvæmt könnuninni voru 186,7 klst. 

Launakönnunin er mjög umfangsmikil og hvetjum við félagsmenn til þess að kynna sér helstu niðurstöður hennar en jafnframt gefur könnunin félagsmönnum gott tækifæri til að bera sig saman við markaðinn og sækja á um launahækkanir séu laun ekki samkeppnishæf. 

rafidnadarsambandid2Í vikunni hélt RSÍ árlega trúnaðarmaannaráðstefnu þar sem farið var yfir ýmis mikilvæg málefni er snúa að starfi trúnaðarmanna og stöðuna á vinnumarkaði. Farið var yfir stöðu í efnahagslífinu og hagspá ASÍ komandi mánaða og ára. RSÍ er bakhjarl UN Women á Íslandi og var málefni UN Women til umræðu á ráðstefnunni. Send var áskorun frá ráðstefnunni vegna þessa en mjög mikil umræða varð um það hvað við getum gert og hvað þarf að gera til þess að vinna að jafnrétti í samfélaginu. Við þekkjum hvernig umræðan um jafnrétti eða almennt um þá stöðu þegar hallar á aðila/einstaklinga að þá sé það viðkomandi sem þurfi eingöngu að vinna að því að bæta sína stöðu. Það mátti heyra á trúnaðarmönnum RSÍ að sá tími eigi að vera liðinn. Lausnin að jafnrétti felist ekki í því að laga konur heldur að við sem samfélag vinnum saman að því að bæta samfélagið!

Farið var yfir niðurstöður launakönnunar RSÍ sem bárust á föstudag. Könnunin er mjög umfangsmikil og verður gerð opinber í vikunni á heimasíðu RSÍ. Þó nokkur umræða var um stöðu kjaraviðræðna en þegar ráðstefnan stóð yfir áttum við eftir að ganga frá 16 kjarasamningum, 9 samningar hafa verið undirritaðir frá því í maí síðastliðnum. Stytting vinnutímans var mikið í umræðunni auk þess að farið var yfir eftirfylgni á þeim þáttum sem ríkisstjórnin lagði til málanna við gerð kjarasamninganna.

Það er gaman að segja frá því að í kjölfar ráðstefnnunnar héldum við beint á fund með Landsvirkjun þar sem skrifað var undir kjarasamning við fyrirtækið vegna félagsmanna RSÍ, VM og Samiðnar. Samningurinn verður kynntur starfsmönnum á mánudagsmorgun og hefst atkvæðagreiðsla í kjölfarið.

Þrátt fyrir þétta dagskrá vikunnar þá voru haldnir samningafundir vegna Landsnets, RARIK og Landsvirkjunar. Undirbúningsfundur var haldinn vegna kjarasamnings stéttarfélaganna við Norðurál. 

KÞS

rafidnadarsambandid rautt

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ 2019

Áskorun frá trúnaðarmannaráðstefnu RSÍ

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ styður heilshugar UN Women í baráttunni við að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi. Það er löngu orðið ljóst að jafnrétti í samfélaginu þarf að byggja upp með samstarfi og gagnkvæmri virðingu og er það ekki einkamál kvenna. Samfélagið þarf að aðlagast að þörfum kynjanna og tryggja jafnan rétt, jöfn kjör og öryggi á vinnustöðum á allan hátt.

Öll eigum við rétt á því að starfsumhverfi okkar einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum og felur það m.a. í sér að njóta verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Slík hegðun er bæði lögbrot og siðferðilega ámælisverð. Það á við hvort heldur sem um er að ræða hegðun atvinnurekanda, samstarfsmanna eða einstaklinga sem starfsmaður þarf að hafa samskipti við vegna starfs síns.

Rafiðnaðarsamband Íslands hefur ákveðið að taka frumkvæði í málefnum sem stuðla að því að breyta menningunni og tryggja öruggt starfsumhverfi félaga sinna. Í þeim tilgangi verður sett upp aðgerðaáætlun til að fylgja eftir í starfi RSÍ og aðildarfélögum þess þegar upp koma áreitnis-, ofbeldis- og eineltismál. 

RSÍ skorar á aðila vinnumarkaðarins að taka höndum saman um að tryggja öruggt starfsumhverfi, breyta vinnustaðamenningunni til hins betra, fordæma hverskonar ofbeldi og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir ofbeldi í samfélaginu. Við viljum tryggja að allir njóti sömu tækifæra því þá blómstrar samfélagið.

 

 

National Committee Logos RGB UN Icelandic ICELAND.png 600RSI tviskipt

rafidnadarsambandid bleikur

Í dag var opnað fyrir bókanir í orlofshús / íbúðir innanlands fyrir tímabilið 3. janúar til 29. maí 2020.  Íbúðir á höfuðborgarsvæðinu er hinsvegar hægt að bóka til 28. ágúst 2020.

Í gildi er reglan "fyrstur kemur fyrstur fær" smella hér

rafidnadarsambandid2Í síðustu viku héldu áfram spjaldtölvuafhendingar, byrjuðum á því að afhenda spjaldtölvur í Tækniskólanum, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Undir lok vikunnar var farið í heimsókn til Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Vesturlands. Ánægjulegt er að sjá fjölda nýnema í rafiðngreinum.

Kjaraviðræður héldu áfram en nú er október mánuður nánast búinn en viðræður eru farnar að skila árangri á nokkrum stöðum og gera má fastlega ráð fyrir því að þessar viðræður fari að skila meiri og sýnilegri árangri. Í vikunni var fundað með fulltrúum RARIK, Landsvirkjun, ISAL, HS, Alcoa, HS Orku.

Á föstudag var haldinn fundur í miðstjórn RSÍ. Í komandi viku verður trúnaðarmannarásðtefna RSÍ haldin og fór mikill tími í undirbúning ráðstefnunnar. 

KÞS

rafidnadarsambandid2Síðasta vika var evrópsk starfsmenntavika og hófst með viðburði í húsnæði OR á mánudag. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, opnaði formlega vefinn www.namogstorf.is þar sem allar helstu upplýsingar er að finna um iðngreinar hér á landi. Á fimmtudag var boðið upp á opið hús hjá Rafmennt þar sem húsnæði og tækjabúnaður voru til sýnis. Þar hélt undirritaður stutt erindi um þá tækniþróun sem í gangi er og opnaði á umræður um þau sóknarfæri sem blasa við. Fundarmenn áttu mjög gott samtal um stöðu mála og góðar ábendingar komu um hvað við getum gert í sameiningu í okkar starfi.

Í vikunni var formannafundur ASÍ haldinn í Reykjavík. Fyrir fundinum lágu nokkur málefni en báru hæst umræða um forsendur kjarasamninganna sem gerðir voru í apríl og maí. Ljóst er að mest óvissa ríkir um málefni sem snúa að ríkinu og uppfyllingu þeirra loforða sem lögð voru fram. Forsetateymi ASÍ fundar reglulega með stjórnvöldum til að fylgja þeim málefnum eftir. Lækkun skatta, fjölgun skattþrepa, launaþjófnaður og brotastarfsemi á vinnumarkaði og hvernig mögulegt verður að stöðva slíka starsfemi, efling eftirlits á vinnumarkaði, bætt staða á húsnæðismarkaði auk fjölda annarra mála eru mál sem við fylgjumst vel með. Kaupmáttur launa þarf að aukast þegar kemur að næstu mælingu og að stýrivextir hafi lækkað verulega og haldist lágir út samningstímann.

Umræða og kynning á stöðu mála hvað varðar styttingu á vinnutímanum. Formenn fengu kynningu á tilraunaverkefnum sem hafa verið unnin á opinberum vinnumarkaði en formaður BSRB og framkvæmdastjóri mættu á fundinn. Farið var yfir stöðu styttingar á meðal aðildarfélaga ASÍ. 

Fundur var haldinn í fulltrúaráði Birtu lífeyrissjóðs en þar var farið yfir tvö meginmál, annars vegar fengu fulltrúar kynningu á fyrirhugaðri málsókn Gráa hersins vegna þeirra miklu og ósanngjörnu skerðinga sem ríkið hefur innleitt hjá TR. Virkilega gott innlegg frá fulltrúa Gráa hersins og er alltaf jafn sláandi niðurstaða sem fram kemur. Það er með ólíkindum að ríkið sé enn að skerða lífeyri með jafn grimmum hætti og raun ber vitni. Þess má geta að RSÍ mun leggja fjármuni í þessa málsókn enda klárt brot á lögum að okkar mati. Farið var yfir stöðu sjóðsins. Miklar umræður urðu um fjárfestingar Birtu sem annars vegar hafa verið í umræðu að undanförnu sem og  sjóðsfélagalán.

Fundir vegna kjarasamninga voru haldnir í vikunni. Ekki er mikið að frétta af þeim fundum sem haldnir voru. Það hefur gefist tilefni til að funda og mál þokast örlítið áfram þó svo varla sé hægt að tala um hraða í þeim efnum. Fundað var hjá RARIK, Landsneti, OR. 

KÞS

asi rautt

Efnahagslífið hægir nú á sér eftir 8 ára samfellt hagvaxtarskeið. Samkvæmt nýrri hagspá ASÍ dregst landsframleiðsla saman um 0,3% á þessu ári sem skýrist bæði af verulegum samdrætti í útflutningi og minni þjóðarútgjöldum. Framundan er því skammvinnt samdráttarskeið. Raungerist spá ASÍ má búast við hægum vexti á næsta ári, 0,6%, en að umsvif í hagkerfinu fari vaxandi á árinu 2021 og þá verði hagvöxtur 2,3%. 

Aðlögun hagkerfisins var viðbúin en gjaldþrot WOW air í mars markaði skarpari skil í efnahagsþróunina þótt afleiðingarnar hafi góðu heilli verið minni en óttast var í fyrstu. Geta heimila og fyrirtækja til að takast á við stöðuna nú er hins vegar almennt betri en í síðustu niðursveiflu. Sama má segja um getu stjórnvalda og Seðlabankans til að bregðast við.

Horfur á vinnumarkaði hafa versnað eftir því sem liðið hefur á árið 2019 og útlit fyrir að svo verði áfram. Um sjö þúsund manns eru nú án atvinnu samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar og hefur þeim fjölgað um ríflega 2.500 frá sama tíma í fyrra. 

Staðreyndin er sú að þeir hópar sem skildir voru eftir í uppsveiflu síðustu ára, m.a. vegna mismununar á húsnæðismarkaði, eru þeir sömu og eiga í mestri hættu á að missa atvinnuna í niðursveiflu og verða illa fyrir barðinu á umbreytingum á vinnumarkaði. Aðgerðir til að tryggja að umskiptin gerist á forsendum launafólks með jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi eru þess vegna ekki viðfangsefni framtíðarinnar heldur meðal mikilvægustu verkefna dagsins í dag.

rafidnadarsambandid2Sveinsbréf voru afhent á Akureyri á föstudaginn. Við afhendinguna voru formaður RSÍ, formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands sem og framkvæmdastjóri Rafmenntar og formaður sveinsprófsnefndar. Það er gríðarlega mikilvægur áfangi að ljúka sveinsprófi í iðngrein en níu nýsveinar luku sveinsprófi í rafvirkjun og einn í rafeindavirkjun og óskum við nýsveinum innilega til hamingju með árangurinn. Þess ber þó að geta að einn nýsveinn lauk sveinsprófi bæði í rafvirkjun og rafeindavirkjun sem er auðvitað einstakur árangur!

Í vikunni sóttu fulltrúar frá RSÍ og FÍR alþjóðlegan fund rafiðnaðarsambanda, GPTU / Global Power Trade Unions. Fundurinn fór fram í Washington DC og var skipulagður af IBEW (International Brotherhood of Electrical Workers). IBEW er Rafiðnaðarsamband Bandaríkjanna og Kanada og eru félagsmenn þess 750.000 talsins. 

Til umræðu á fundinum voru málefni eins og alþjóðleg stjórnmál, ellilífeyrir, uppbygging lífeyrissjóða og fjárfestingar þeirra, græn raforka og uppbygging raforkukerfa, öryggismál rafiðnaðarmanna, notkun verkjalyfja tengt starfsgreinum og síðast en ekki síst funduðu ungliðar sérstaklega um málefni ungs fólks í rafiðnaði.

Farið var í heimsókn í tvo eftirmenntunarskóla nærri Washington DC. Fyrri skólinn er rekinn af IBEW og þar er bæði boðið upp á grunnnám í rafiðngreinum sem og eftirmenntunarnámskeið. Mjög áhugavert var að sjá hversu framarlega þau eru í að nýta sér tækni og bjóða upp á kennslu á nýjasta tæknibúnaði. Seinni skólinn var rekinn af IUEC sem er félag þeirra sem vinna í lyftuiðnaði. Þar er kennt á uppsetningu og viðhald á lyftubúnaði. Verulega flottir skólar sem reknir eru af félögunum.

Í vikunni héldu kjaraviðræður áfram. Ekki var skrifað undir neinn kjarasamning en unnið er að því að móta ákveðnar lausnir sem gætu mögulega hentað innan mismunandi fyrirtækja sem samið er við. Það er þó ekki þannig að von sé á því að gengið verði frá kjarasamningum í næstu viku því viðræður ganga hægar en æskilegt væri. Fundað var með fulltrúum hjá Landsneti, HS Orku, Landsvirkjun, ISAL og OR. 

Í lok vikunnar var haldinn fundur í miðstjórn RSÍ og í næstu viku fer fram formannafundur ASÍ. 

 

Launakönnun RSÍ fór af stað í vikunni og ljóst að á fyrstu dögunum var þátttakan mjög góð. Við viljum heyra frá sem flestum félagsmönnum í gegnum þessa launakönnun og hvetjum því alla sem ekki hafa þegar tekið þátt að gera það. Gallup sér um framkvæmd þessarar könnunar.

KÞS

 

rafidnadarsambandid bleikur

Rafiðnaðarsamband Íslands er að gera launakönnun meðal félagsmanna sinna þessa dagana. Gallup sér um alla gagnavinnslu og framkvæmd könnunarinnar. 

Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt til að niðurstöður verði sem áreiðanlegastar. 

Með því að taka þátt í könnuninni leggur þú þitt af mörkum í baráttunni fyrir bættum kjörum. 

Til mikils er að vinna þvi fjögur gjafabréf að andvirði kr. 25.000 verða dregin úr innsendum svörum í nóvember. Að auki verða fjórir heppnir svarendur sem ljúka könnuninni dregnir út og fá helgarleigu í orlofshúsi RSÍ innanlands á tímabilinu frá 3. janúar 2020-29. maí 2020 fyrir utan páskatímabil. 

 

 

rafidnadarsambandid bleikur

Nú gefst félagsmönnum Rafiðnaðarsambands Íslands kostur á að kaupa sumarhús í  Miðdal (orlofshúsasvæði Grafíu) en eingöngu félagsmönnum stendur þetta til boða, sjá (smella hér)

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?