Fréttir frá 2020

01 12. 2020

Viðræður við ISAL, Grái herinn í málsóknarham

rafidnadarsambandid2Árið fer af stað af krafti í félagsstarfinu. Síðasta vika var undirlögð af fundum vegna kjarasamninga. Ef við byrjum á að rifja upp það sem gerðist hjá okkur fyrir jól, frá því síðasti vikulegi pistill var birtur, þá var upplýst að allir kjarasamningar í orkugeiranum hjá RSÍ væru afgreiddir. Nokkrum dögum síðar var gengið frá vinnustaðasamningi við Marel en samningurinn nær til félagsmanna í RSÍ, VM og FIT en samningurinn er svokallaður 5. Kafla samningur aðalkjarasamninganna þar sem útfærsla á styttingu vinnutímans og launakerfi er útfært. Samningurinn var samþykktur í atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna.

Strax í fyrstu viku ársins hófust fundir vegna kjaraviðræðna við ISAL en fjölmargir fundir starfshópa hafa verið haldnir á fyrstu dögum ársins og formlegur fundur var haldinn hjá Ríkissáttasemjara síðastliðinn föstudag. Ljóst er að staðan í þessum viðræðum er erfið en samningsaðilar hafa sýnt mikinn vilja til þess að ræða saman og finna lausnir. Ljóst er að tíminn og ekki síst þolinmæði starfsmanna er á þrotum og því afar brýnt að það fari að sjást í samning sem er ásættanlegur. Næsti fundur verður núna á föstudag. Fundað var með fulltrúum Norðuráls í upphafi síðustu viku en kjarasamningurinn rann út um áramótin. 

Fundað var með fulltrúum ríkisins vegna endurnýjunar kjarasamnings RSÍ við Ríkið. Ljóst er að þó nokkuð ber í milli samningsaðila og ekki sér fyrir endann á þeim viðræðum. Lítill sem enginn samningsvilji virðist vera hjá fulltrúum ríkisins til þess að semja á sömu nótum og samið var um á hinum almenna vinnumarkaði. Eru það gríðarleg vonbrigði að svo skuli vera. Boðað hefur verið til fundar með félagsmönnum RSÍ og Samiðnar sem starfa hjá Ríkinu. Þar verður farið yfir stöðu mála. 

Nú þegar nýtt ár er hafið þá eru auk þess að fara af stað viðræður við Advania vegna kjarasamnings sem RSÍ og fyrirtækið gera. Uppi hefur verið deila á milli samningsaðila þar sem fyrirtækið hefur ekki uppfyllt ákvæði um friðarskyldu líkt og samið hefur verið um. Það mun koma í ljós í vikunni hvort samningsaðilar geti náð saman hvað þetta varðar. Í gildi hefur verið samkomulag um að starfsmenn muni ekki grípa til verkfallsaðgerða á móti því að fá greiðslu fyrir þá undanþágu en auk þess eigi laun starfsmanna að fylgja launaþróun ákveðins samanburðarhóps. Ljóst er að þar ber gríðarlega mikið á milli og þýðir það að dagvinnulaun starfsmanna hafa dregist verulega aftur úr samanburðarhópsins. 

Að öðrum fréttum þá var jákvætt að sjá að Grái herinn er kominn á fullt vegna málsóknar gagnvart ríkinu vegna þeirra grimmilegu skerðinga sem Ríkið/TR stundar gagnvart þeim sem hafa safnað hafa til efri áranna með greiðslum í lífeyrissjóði. Aldrei nokkurn tímann hefur það verið markmið að greiðslur úr lífeyrissjóðum eigi að létta undir með ríkinu. Miðstjórn RSÍ ákvað snemma á síðasta ári að styðja heilshugar við bakið á Gráa hernum með styrktarframlagi en miðstjórn RSÍ ákvað að leggja til 1.500.000 kr. til málsóknarsjóðs Gráa hersins. Þetta er hagsmunamál fyrir okkur öll!

Þann 1. apríl næstkomandi opnast á enn meiri tækifæri til þess að stytta vinnutíma félagsmanna og hvetjum við félagsmenn til þess að hefja umræðu um mögulegar leiðir til að stytta dagvinnu á vinnustöðum. Trúnaðarmenn á hverjum vinnustað eru lykileinstaklingar í þessari vinnu og er skrifstofa RSÍ ætíð tilbúin til að leiðbeina félagsmönnum um þær leiðir sem hægt er að fara en jafnframt ber að geta þess að ef félagsmenn og fyrirtæki komast að samkomulagi um styttingu á vinnutíma með gerð samkomulags um slíkt ber að senda samkomulagið á skrifstofu RSÍ til yfirferðar. Við hvetjum félaga okkar til þess að vera í sambandi við skrifstofuna vegna þessa.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?