Fréttir frá 2020

04 26. 2020

Vikulegur pistill formanns

bordar 1300x400 12Skrifstofunni berast töluvert margar fyrirspurnir vegna styttingar vinnuvikunnar. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi er til þess að stytta vinnuvikuna. Í stuttu máli þá er mögulegt að stytta virkan vinnutíma niður í 36 dagvinnustundir á viku. Útfærslur á því hvernig þessar 36 vinnustundir eru útfærðar þarf að semja um á hverjum vinnustað fyrir sig en algengar leiðir eru að vinna 8 klst fjóra daga vikunnar og 4 klst einn dag, yfirleitt föstudagur. Þá hefur matartími víða verið styttur niður í 30 mínútur í stað 60 mínútna. Rétt er að vekja sérstaka athygli á upplýsingaefni vegna þessa sem hefur verið sett á heimasíðuna og má finna hér.

Rétt er að vekja sérstaka athygli að laun hækkuðu 1. apríl 2020 um að lágmarki 18.000 kr en þeir félagar okkar sem eru á lágmarkstöxtum hækkuðu um að lágmarki 24.000 kr. misjöfn upphæð eftir kjarasamningi. Þess ber að geta að lágmarkslaunataxti rafiðnaðarsveins á almenna kjarasamningnum hækkaði um 30.331 kr. 1. apríl og tímakaup hækkaði um 376 kr. Lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði eru því orðin  418.496 kr fyrir rafiðnaðarsvein. Launataxtar kjarasamnings RSÍ-SA/SART, sem gilda frá 1. apríl 2020, má sjá hér. 

Hvetjum við félaga RSÍ og aðildarfélaga til þess að fylgjast með því að launahækkun skili sér í næstu launaútborgun sem verður núna um mánaðarmótin.

Hvað varðar málefni sem unnið er að með stjórnvöldum þá hefur farið mikill tími í ýmsa vinnu þar í síðustu viku. Í vinnslu er pakki sem snýr að húsnæðismálum líkt og hefur komið fram í fjölmiðlum hjá félagsmálaráðherra. Gríðarlega mikilvægt er að haldið verði áfram á þeirri braut að tryggja fólki öruggt og viðráðanlegt húsnæði. Þess má geta að Bjarg íbúðafélag, sem ASÍ og BSRB standa að, hefur nú þegar komið 152 íbúðum í leigu og eru rúmlega 300 á byggingarstigi og tæplega 440 íbúðir í hönnunarferli. Þessu til viðbótar hefur markmið þeirra kjarasamninga sem gerðir voru fyrir ári síðan að ná lækkun á vaxtastigi hér landi náðst og gott betur. Næsta skref er að bjóða upp á leiðir til að auðvelda fyrstu kaup á íbúðum og gera má ráð fyrir að stórt skref verði stigið meðal annars með svokölluðum hlutdeildarlánum sem eru að breskri fyrirmynd. Afar mikilvægt er að stjórnvöld standi við yfirlýsingu sem gefin var út í tengslum við kjarasamningana hvað þetta varðar.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?