Fréttir frá 2020

05 1. 2020

1. maí ávarp formanns RSÍ

VerkfallshnefiKæru félagar,

Til hamingju með daginn! Baráttudag verkalýðsins.

Nú upplifum við mjög sérstaka tíma. Í fyrsta skipti frá því að kröfugöngur hófust verða engar kröfugöngur í ár sökum samkomubanns. Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að standa vörð um okkar réttindi og skyldur í samfélaginu. 

Við höfum barist fyrir bættum kjörum og auknum réttindum á síðustu áratugum og hefur okkur tekist að bæta verulega í réttindi launafólks á þeim tíma. Okkur hefur tekist að bæta launakjör á síðustu árum. Okkur hefur tekist að stíga skref í rétta átt með styttingu á vinnutímanum. En það er augljóst að betur má ef duga skal. Litlir sigrar verða oft að enn stærri sigrum þegar frá líður.

Ég ætla ekki að draga úr alvarleika þeirrar stöðu sem upp er komin í samfélaginu og í heiminum öllum þar sem efnahagslíf hefur staðnað að miklu leyti. Mikill fjöldi starfa hefur nú þegar tapast. Það er þó samt sem áður þannig að það á ekki við um alla hluta atvinnulífs. Sumstaðar ganga verkefni líkt og áður en sumstaðar er jafnvel enn meira álag. 

Staðan er alvarleg. Gripið hefur verið til gríðarlegra aðgerða til þess að auðvelda fyrirtækjum sinn rekstur. Þetta er fjármagnað með fjármunum úr okkar sameiginlegu sjóðum samfélagsins. Á þessum tímum telja fulltrúar fyrirtækjanna að ríkið eigi að standa vörð um þeirra rekstur og fjármagna að miklu leyti. Að mati margra talsmanna fyrirtækjanna þá á ríkið ekki að skipta sér af rekstri fyrirtækja nema þegar illa árar.

Það einkennir líklega æði mörg fyrirtæki til dæmis í ferðaþjónustu að þau hafa ekki lagt krónu til hliðar í sparnað til mögru áranna. Á fyrstu dögum áfallanna var staðan orðin það alvarleg að bregðast þurfti samstundis við.

Ríkissjóður, okkar sameiginlegi sjóður landsmanna, er vel í stakk búinn til að aðstoða fyrirtækin og það er gríðarlega mikilvægt þegar fjárstreymi stöðvast á einni nóttu. 

En erum við sem samfélag sátt við að þetta sé gert án skilyrða? Á ríkið núna að vera bakhjarl fyrirtækjanna þegar ríkið má ekki koma nálægt rekstri þegar vel árar? 

Svarið er nei. 

Þetta verkefni okkar snýr að því að tryggja störfin. Að tryggja afkomu fólksins. Að tryggja réttindi launafólks.

Við þurfum að standa fast við bakið á fyrirtækjunum. En það skal vera skilyrðum háð um eðlilega framkomu. 

Það skal vera háð því að fyrirtækin brjóti ekki á launafólki! Það skal vera háð því að fyrirtækin skili samfélaginu auknum verðmætum á komandi árum.

Við sáum það í upphafi þessa veirufaraldurs þegar fyrstu einstaklingar fóru í sóttkví og gátu ekki unnið að heiman þá voru það fyrstu viðbrögð fulltrúa fyrirtækjanna að fólk ætti engan rétt að hafa hjá fyrirtækjunum! 

Fólkið ætti sem sagt að vera tekjulaust heima við. 

Það þurfti að draga fulltrúana að borðum til að finna leiðir til að tryggja stöðu fólksins. Það tókst sem betur fer að tryggja réttindi launafólks. 

Að höggva í réttindi launafólks til þess að sýna samstöðu hefur jafnvel verið nefnt í þessu ferli. Það geti verið merki um “samstöðu” að taka réttindi af fólki, bara svona til að sýna að við erum saman í þessu.

Þegar launafólk hefur lent í áföllum og kaupmáttur launa hefur minnkað þá hafa samtök fyrirtækja aldrei nokkurntímann komið fram með tillögu um að hækka laun eða bæta í réttindi launafólks til að sýna samstöðu. 

Slíkt hefur alltaf þurft lausa samninga eða forsenduákvæði til. 

Við í verkalýðshreyfingunni höfum samt sem áður sýnt frumkvæði í að finna leiðir til að tryggja stöðu fyrirtækja og tryggja þau störf sem mögulegt er að styðja. 

En það sem er mikilvægast er ætíð það að tryggja tekjur til fólksins sem lendir í áföllunum.

Framundan eru erfiðari tímar en við bjuggumst við. Forsendur kjarasamninga verða metnar í september næstkomandi þar sem við munum verða tilbúin til þess að hefja viðræður verði kjarasamningum sagt upp. Þá mun samstaða launafólks skipta mestu máli!

Það er með þeirri samstöðu sem við getum náð stórum sigrum í bættum kjörum, bæði við veiruna, með því að fylgja í einu og öllu tilmælum sóttvarnarlæknis, með því að hlýða Víði!

Það verður með samstöðunni sem okkur mun takast að komast á beinni braut á skemmri tíma. Við tökum á þessum áskorunum saman.

Með samstöðunni munum við, verkalýður þessa lands, ná að standa vörð um okkar réttindi. Með samstöðunni getum við skipt kökunni með réttlátari hætti.

Það er okkar verkefni að Byggja réttlátt þjóðfélag!

Já nú eru tímar þar sem við þurfum að skipta kökunni upp á réttlátan hátt til framtíðar. 

Við, launafólk, ætlum að setja mark okkar á nýjan vinnumarkað. Við látum ekki auðvaldið ráða þeirri stefnu sem við tökum fram á við. Við verðum að standa vörð um allt launafólk, óháð ráðningarformi!

Við gerum kröfu til þess að þau fyrirtæki sem geta nýtt sér stuðning stjórnvalda muni endurgjalda það til samfélagsins með endurgreiðslum eða þá með því að ríkið verði handhafi hlutafés viðkomandi fyrirtækis sem samsvarar þeim stuðningi sem veittur er.

Við gerum kröfu til þess að hagsmunir fólksins verði grunnur að nýjum tímum. Þannig að réttlátt þjóðfélag hafi fólkið allt í fyrirrúmi.

Við gerum kröfu til að staða heimilanna verði tryggð til frambúðar, með sanngjörnum lánum, hófstilltum og réttlátum vaxtakjörum. 

Við gerum jafnframt kröfu til þess að ungu fólki verði gert kleyft að komast inn á fasteignamarkaðinn. Hlutdeildarlán, með stuðningi samfélagsins, geta orðið ein stærsta og mikilvægasta breyting seinni tíma.

Við höfum sýnt það með uppbyggingu Bjargs íbúðafélags að verkalýðshreyfingin hefur svo sannarlega beitt sér fyrir bættri stöðu leigjenda. Hundruðir íbúða nú þegar komin á markaðinn. Enn mun bætast í fjölda íbúða.

Aðgerðir okkar hafa nú þegar haft áhrif á leigumarkaðinn til hagsbóta fyrir leigjendur. 

Við höldum áfram á þessari vegferð til að bæta stöðu landsmanna til frambúðar!

Byggjum réttlátt þjóðfélag! 

Búum til ný og betri störf!

Berjumst fyrir bættri stöðu og auknum réttindum launafólks!

Ég vona að þið eigið góðan dag, góðan rafrænan baráttudag verkalýðsins! 

Stöndum saman, virðum 2ja metra regluna áfram. Með samstöðunni komumst við í gegnum þetta!

Til hamingju með daginn!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?