Fréttir frá 2020

05 29. 2020

Vikulegur pistill formanns

rafidnadarsambandid2Í líðandi viku hefur starfsemi sífellt færst nær eðlilegra horfi. Samfélagsleg smit veirunnar eru lítil og sá árangur náðist að eingöngu eitt virkt smit er í samfélaginu þegar þetta er skrifað. Þetta er hins vegar ekki búið, við verðum að halda áfram aga í hreinlæti og sóttvörnum til þess að tryggja að veiran dreifi sér ekki í miklum mæli aftur. Sé horft til annarra landa þá eru blikur á lofti í Suður Kóreu þar sem smitum hefur fjölgað nokkuð á síðustu dögum. Þar er gripið til aðgerða til að stemma stigu við þeirri útbreiðslu.

Við sjáum það hjá okkur að staðan getur breyst snöggt og því vissara að hafa áfram varann á og halda hreinlæti áfram miklu. Þetta verður að gera til þess að tryggja öryggi starfsmanna á vinnumarkaði. Fyrirtækjunum ber að tryggja hreinlætisaðstöðu og starfsfólk á ekki að láta það óáreitt ef brotalöm er þar á! Ræðið við öryggistrúnaðarmann, trúnaðarmann eða skrifstofu RSÍ og fáið ráðleggingar og aðstoð.

Nú eru fjölmörg mál til umræðu á Alþingi, mörg mikilvæg í þeirri aðstöðu sem samfélagið er. Unnið er að því að tryggja launafólki launagreiðslur þrátt fyrir erfiðleika. Fyrirtæki munu geta sótt stuðning frá hinu opinbera til þess að tryggja að mögulegt sé að greiða laun á uppsagnarfresti, að skýrum skilyrðum uppfylltum. Þetta er mikilvægt. Það er enn mikilvægara að tryggja réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja áfram launakjörin. ASÍ hefur beitt sér mjög markvisst til að tryggja að svo verði áfram og því munum við halda áfram!

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytingar á lögum um almannatryggingar. Þar er verið að leggja til breytingar til að bregðast við þeirri takmörkun sem hefur verið á aðgengi launafólks að hálfum lífeyri. Nú er það svo að eingöngu þeir tekjuhæstu hafa geta nýtt sér úrræðið um hálfan lífeyri. Það hefur gert það að verkum að afar fáir hafa nýtt sér þetta úrræði. Verulega jákvæð breyting ætti að verða á sem gerir tekjulægri hópum kleyft að nýta sér þetta úrræði um að hefja töku hálfan lífeyri.

Þess ber þó að geta að vart er hægt að styðja við þetta frumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að taka á upp tekjuskerðingar í hálfum lífeyri. Þrátt fyrir þær deilur sem hafa staðið um lögmæti skerðinganna gagnvart lífeyrisþegum þá virðist Alþingi ætla að stíga enn eitt skrefið gegn launafólki, gegn lífeyrisþegum. Frumvarpið gengur út á að taka upp jafn grimmar skerðingar sem við höfum gagnrýnt á undanförnum árum og áratugum.

Fari svo að frumvarpið verði samþykkt fæ ég ekki betur séð en að hálfur lífeyrir muni vart standa okkar félögum til boða nema með verulega lækkun ráðstöfunartekna. Nú þegar störfum fækkar á vinnumarkaði hefði verið mögulegt að bjóða fólki upp á að hefja töku hálfs lífeyris en samt sem áður taka þátt að hluta á vinnumarkaði. Með þessu hefði verið hægt að fækka þeim sem eru í atvinnuleit eða mögulega missa starf á komandi mánuðum.

Við gerum kröfu til þess að þessari tekjutengingu verði hafnað á Alþingi en á sama tíma verði launafólki gert kleyft að hefja töku hálfs lífeyris samhliða hlutastarfi án frekari takmarkana. Það verður að tryggja landsmönnum nægilegar ráðstöfunartekjur til þess að halda hjólum samfélagsins gangandi!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?