Fréttir frá 2020

12 16. 2020

NÝ VERÐKÖNNUN Á BÓKUM - Algengur verðmunur 1.500-2000 kr.

Jolabaekur2020 

Algengur verðmunur á jólabókum 1.500-2000 kr.

Í yfir helmingi tilfella var 1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á vinsælum jólabókum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 10. desember. Í 12 tilfellum af 53 var verðmunur á bókum yfir 2.000 kr. en mest fór munurinn upp í 3.000 kr. Penninn.is var oftast með hæsta verðið í könnuninni en Forlagið var næst oftast með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið.

Penninn Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni og var fulltrúa verðlagseftirlits ASÍ vísað út úr versluninni í Austurstræti. Fyrirtækið virðist ekki telja það þjóna hagsmunum sínum að neytendur séu upplýstir um verð í versluninni. Rétt er að vekja athygli á að verð var kannað á Penninn.is sem er netverslun Pennans Eymundssonar.

Allt að 2000 kr. munur á barnabókum og 3.000 kr. munur á öðrum bókum
Í meirihluta tilfella eða 35 af 53 var 30-40% verðmunur á bókum í könnuninni. Í 45 af 53 tilfellum var verðmunurinn yfir 1.000 kr. og í 29 tilfellum yfir 1.500 kr. Bækur eru vinsælar jólagjafir og getur slíkur verðmunur því verið fljótur að telja ef margar bækur eru keyptar. Penninn.is var oftast með hæsta verðið, í 26 tilfellum af 53 en Forlagið var með hæsta verðið í 23 tilfellum. Bónus var oftast með lægsta verðið á bókum, í 47 tilfellum af 53. 

Í tveimur tilfellum var yfir 3.000 kr. verðmunur í könnuninni. Mestur munur á hæsta og lægsta verði í krónum talið var á bókinni um arkitektinn Guðjón Samúelsson húsameistara, 3.009 kr. eða 21%. Hæst var verðið á Penninn.is, 13.999 kr. en lægst í Forlaginu og á Heimkaup.is, 10.990 kr. Þá var 3.001 kr. eða 40% munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Ellert eftir Ellert B. Schram og Björn Jón Bragason. Lægst var verðið í Bónus, 4.498 kr. en hæst á Penninn.is, 7.499 kr. 

Einnig var mikill verðmunur á ódýrari bókum en sem dæmi má nefna 2.001 kr. eða 33% mun á hæsta og lægsta verði á bókinni Aprílsólarkuldi e. Elísabetu Jökulsdóttur. Lægst var verðið í Bónus, 3.998 kr. en hæst á Penninn.is, 5.999 kr. Þá var 1.592 kr. eða 27% munur á hæsta og lægsta verði á Þagnarmúr eftir metsöluhöfundinn, Arnald Indriðason. Lægst var verðið í Bónus, 4.398 kr. en hæst í Forlaginu, 5.990 kr.

 

 

 

 

 

2.000 kr. verðmunur á barnabókum
Í mörgum tilfellum var mikill verðmunur á barnabókum en mestur munur á hæsta og lægsta verði á barnabók var 2.101 kr. eða 35% á bókinni Krakkalögin okkar. Lægst var verðið í Bónus, 3.898 kr. en hæst á Penninn.is, 5.999 kr. Þá var 38% eða 1.501 kr. munur á bókinni Öflugir strákar: Trúðu á sjálfan þig eftir Bjarna Fritzson. Lægst var verðið í Nettó, 2.589 kr. en hæst í Hagkaup, 3.999 kr. 

 

 

 

 

 

Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast ört í verslunum á þessum árstíma.

Um könnunina
Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, Nettó Mjódd, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Smáratorgi, Heimkaup.is og Pennanum.is. Penninn Eymundsson vísaði starfsmanni verðlagseftirlitsins út úr verslun í Smáralind og meinaði honum að taka niður upplýsingar um verð.  

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Þær verslanir sem eru í könnuninni eru ólíkar og bjóða sumar hverjar einungis upp á bækur í kringum jól og eru með minna úrval á meðan aðrar selja bækur allan ársins hring. 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?