Fréttir frá 2021

05 1. 2021

1. maí ávarp formanns RSÍ

1mai2021 2F 1300x400

Kæru félagar,

Til hamingju með baráttudag launafólks. Annað árið í röð þurfum við að sætta okkur við að sýna samstöðu án þess að koma saman í kröfugöngur og setjast niður saman í kjölfarið yfir kaffibolla og ræða málin. Við sjáum ljósið við enda gangnanna hvað varðar heimsfaraldurinn. Nú stefnir allt í að við séum að ná tökum á faraldrinum og náum vonandi að koma í veg fyrir smitdreifingu í samfélaginu innan nokkurra mánaða.

Verkefnin eru ærin nú í kjölfar þessara erfiðu tíma en við glímum við mikið atvinnuleysi í samfélaginu en á sama tíma hafa þeir hópar, sem eru við störf, oftar en ekki unnið undir miklu álagi. Á sama tíma og faraldurinn hefur geysað þá hefur félagsfólk okkar haldið áfram byggingu húsa, þjónustað fyrirtæki, haldið netsambandi virku, haldið tækjum sjúkrahúsa í lagi, sett upp ný rannsóknartæki á sjúkrahúsin til þess að gera það mögulegt að vinna á faraldrinum og svo framvegis. Þessi störf og mörg fleiri eru undirstaðan undir að allt geti gengið upp í samfélaginu.

Við höfum eins og áður sagði einnig glímt við mikið atvinnuleysi í samfélaginu og á meðal okkar félagsfólks. En augljósu dæmin eru öll sú vinna sem tengist tækniþjónustu við sviðslistir, tónleika og leikhús. Viðburður hafa svo sannarlega verið af skornum skammti þrátt fyrir að við höfum fært okkur yfir á netútsendingar og fjarvinnu. Stuðningur við þá sem ekki fá atvinnu þarf að vera til staðar og þarf að tryggja afkomu heimilanna. Það hefur verið mikil áskorun og hefur eingöngu tekist að hluta til að mínu mati.

Samfélagið þarf að byggja upp ný og góð störf.

Næstu ár verða örugglega mikil áskorun fyrir okkur sem samfélag. Við eigum að horfa inn á við og byggja upp réttlátara samfélag þar sem jöfnuður verður meiri en áður. Við þurfum á góðum, vel launuðum störfum að halda. Störf þar sem aðbúnaður og hollustuhættir eru til fyrirmyndar. Við erum að nálgast þau tímamörk að kjarasamningar renna úr gildi en ef allt gengur upp, þ.e.a.s. ef forsendur kjarasamninga halda í september á þessu, þá renna flestir kjarasamningar út seinnipart næsta árs.  

Það er ljóst að við munum sækja hart fram við gerð næstu kjarasamninga rafiðnaðarmanna. Við þurfum annars vegar að vinna úr þeim tímum sem við erum að ganga í gegnum núna sem samfélag en einnig þurfum við að rýna í stöðu greinanna og sækja á þær kjarabætur sem þörf er á. Árangur síðustu kjarasamninga hefur verið þó nokkur en þeir voru hins vegar ákveðið milliskref hvað iðnaðarmenn varðar og augljóst að við ætlum okkur að ljúka verki að rétta af yfirvinnugreiðslur iðnaðarmanna, gera til dæmis yfirvinnuna verðmætari en áður hefur verið.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hversu víða skref hafa verið tekin til að stytta vinnuvikuna hjá félagsfólki RSÍ. Samkvæmt launakönnun 2020 kom í ljós að innan ríflega helmings vinnustaða hefur vinnuvikan verið stytt og er vinnan hafin í 12,5% tilvika til viðbótar. En þetta fyrirkomulag hefur samt sem áður sýnt sig að það verða stórir hópar útundan í þessari vinnu, þar sem fyrirtæki hafa sett sig upp á móti breytingum. Um næstu áramót kemur hins vegar inn ný leið sem kemur í veg fyrir að fyrirtækin geti komið í veg fyrir styttingu vinnuvikunnar. Hér er því mikið verk óunnið.

Við höfum á undanförnum árum lagt mikla áherslu í að efla iðn- og tæknigreinar. Við höfum í því tilliti unnið að því að auka aðsókn í greinarnar og höfum séð slíka aukningu á síðustu árum að ljóst er að átakið er að skila sér að ákveðnu leyti. Við höfum herjað á stjórnvöld að tryggja aðgengi að námi. Í fallegum ræðum hefur oftar en ekki öllu fögru verið lofað en því miður þá virðist sem hljóð og mynd fari ekki alltaf saman.

Nú er verið að stíga skref í breytingum á starfsþjálfunarfyrirkomulagi í iðngreinum, sem sumar hverjar verða alls ekki til bóta. Þessar breytingar hafa verið gerðar án alls samráðs við fulltrúa launafólks. Breytingarnar eru á þann veg að kerfið sem á að taka við keflinu er ekki tilbúið og hefur ekki getu til að taka við.

Nú stefnir í að ákveðinn hópur iðnnema geti ekki starfað með sama hætti í starfsþjálfun og áður. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett reglugerð þar sem opnað er inn á að iðnnemar verði launalausir í einhvers konar „kynningarþjálfun“. Fari svo að þetta komi til framkvæmda þá er hætta á því að úr verði félagsleg undirboð á vinnumarkaði en það sem er verra er að framfærsla iðnnema verður í stórhættu á sama tíma! Því er ljóst að við verðum að standa vörð um okkar réttindi og koma í veg fyrir slík framkoma nái fram að ganga. Fulltrúar iðnaðarmannafélaganna í Húsi Fagfélaganna á Stórhöfða standa saman í þessari baráttu!

En að lokum þá hvet ég ykkur félagsfólk RSÍ til þess að standa saman, fylgjast með ykkar réttindum og skyldum. Fögnum saman í sitthvoru horninu þetta skiptið en látum ekki brjóta á okkur á vinnumarkaði. Til hamingju með daginn!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?