Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri

 
 

 

BÍÓ ÁN SÝNINGARKLEFA !

 

Einn af félögum okkar, Markús B. Kristinsson, lést að sumri 2008, fæddur 1930

 

Markús var vélstjóri að mennt. Hann var í siglingum hjá Eimskipum, starfaði hjá Öryggiseftirliti Ríkisins í tíu ár, sýningarmaður, útgerðarmaður og framkvæmdarstjóri, ók rútubílum og strætisvögnum.  Markús var borinn og barnfæddur Hafnfirðingur. Hann fékk síðar áhuga á starfi sýningarmannsins, lauk tilskyldu prófi og sýndi af og til í nokkrum bíóhúsum í Reykjavík, meðfram sinni fastri vinnu - einnig í Bæjarbíó með Róbert Bjarnasyni sýningarstjóra þar.

Löngu síðar tók Markús að sér reksturinn upp á eigin spýtur í eitt ár, eftir að Hafnarfjarðarbær hætti afskiptum að kvikmyndasýningum. Síðar kom Laugarásbíó til skjalanna.

 

Ég hitti Markús dag einn fyrir tilviljun í forsal Bæjarbíós, að lokinni sýningu á vegum Kvikmyndasafnsins. Hann var í hópi félaga sinna úr Oddfellow-reglunni, á yfirreið um menningar -og menntastofnanir. í Hafnarfirði. Hann sagði mér athyglisverða sögu frá byggingu hússins árið 1944 en þá var Markús 14 ára gamall. Þeir ágætu menn sem hönnuðu húsið – sérbyggt sem kvikmyndahús- gleymdu að gera ráð fyrir sýningarklefa. !! Bíó án hjartahólfs !  Til einhverra ráða hefur verið gripið og frumteikningin tekið breytingum. Þeir sem leggja leið sína í Bæjarbíó, sjá að stórt skyggni skagar fram í salinn. Þar er steyptur gólfflötur og ný framhlið. Sérkennilegur sýningarklefi leit dagsins ljós. Hann er bæði langur og mjór. Burðarstólpar skaga upp í klefann, með innskotum á milli. Til að vera sýningarmaður í Bæjarbíó, þarftu helst að nærast á flatkökum og vera hokinn eins og kroppinbakurinn Quasimodo í "Hringjaranum frá "Notre Dame"- svo unnt sé að smeygja sér bak við sýningarvélarnar !  Að öðru leiti er hátt til lofts, sem í kirkjunni frægu. Útskot, eins og klessa utan á húsinu er fyrir stigaganginn upp í klefann og þangað á varla nokkuð erindi- nema sýningarmaðurinn. Einskonar fjallabaksleið !  Falleg fellihurð skilur í dag á milli miðasölunnar og innri forstofu. Hún er frá 1944 en var ekki tekin í notkun af einhverjum ástæðum, sagði Markús mér og hóf reyndar mál sitt með að nefna þetta. Það er ekki fyrr en Hafnarfjarðarbær afhendir Kvikmyndasafni Íslands húsið til afnota að hurðin er framdregin, pússuð og fægð af fagmönnum og prýðir nú innganginn. Þessi sögubrot dreg ég ekki í efa, þó svo að nokkrar kannanir af minni hálfu um uppruna Bæjarbíós, hafi ekki borið afgerandi árangur. Ég ræddi þó við einn aldinn bæjarráðsmann frá þessum árum. Hann mundi ekki alveg rás atburðanna en sagði svo: "Þetta kæmi mér ekki á óvart" Svar, sem erfitt er að ráða í. Þessi mæti maður bætti svo við: " En ég er hreykinn af því, að mér tókst að koma í veg fyrir að Bæjarbíó yrði að hluta til breytt í skrifstofur" Sú hugmynd mun hafa komið upp, þegar Hafnarfjarðarbær lauk aðild sinni að rekstri kvikmyndahússins. Okkur Markúsi var vel til vina þó að samfundir væru strjálir. Hann var spaugsamur og orðheppinn en að skálda upp slíka frásögn, var ekki hans stíll. Hann var bara forvitinn unglingur 1944 í litlu bæjarfélagi,  með áhuga á sýningarvélum og kvikmyndasýningum. Ég heimsótti Markús í tvö skipti, þegar hann dvaldist á Sólvangi. En þrátt fyrir veikindin var alltaf stutt í kímnigáfuna. Markús var ágætis harmonikkuleikari áður fyrr og lék oft á jólaböllum  hjá Oddfellowreglunni.

Hann sagði við mig, þegar við vorum að fá okkur kaffisopa.  "Agnar veistu... ég greip í harmonikkuna mína fyrir nokkru síðan - og hvað heldurðu? Fjárans nikkan var búin að gleyma öllum lögunum ! "  Markús sýndi um tíma í Nýja –Bíó. Einu sinni kom kunningi hans í heimsókn upp í klefann og mælti: " Er þetta góð mynd sem þú ert að sýna ?"

" Ég hef ekki hugmynd" svaraði Markús. "Ég gleymdi gleraugunum mínum heima !! 

 

Þannig var Markús.

Með kveðju, Agnar

 

 

   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220