INNGANGUR
 
 
Ríflega fjögur ár eru frá því þetta rit barst fyrst í tal. Höfundur hafði þá starfað um skeið sem kynningarstjóri Sambíóanna og notið þess að vinna í samneyti við stétt sýningarmanna í kvikmyndahúsum – mennina bak við sýningarvélina. Þrátt fyrir talsverða vinnu við efnisöflun og skoðun frumgagna félagsins er það vonum seinna sem ritun þessarar litlu sögu af einu smæsta verkalýðsfélagi landsins er lokið. En þegar fram í sækir skiptir það vitaskuld engu máli. Öllu skiptir hins vegar að halda nafni Félags sýningarmanna við kvikmyndahús (FSK) á lofti, svo samofið sem það er mikilvægum þætti í menningarsögu þjóðarinnar á öldinni sem var að líða.
Svo þröngur stakkur sem félagssaga örsmás verkalýðsfélags á borð við FSK óneitanlega er, hefur um leið verið ögrandi viðfangsefni. Ég hef farið þá leið að takmarka mjög endursagnir úr misfullkomnum fundargerðum stjórnar á hverjum tíma, en leitast þeim mun meira við að gefa lesendum innsýn inn í starf þeirra sýningarmanna sm félagið mynduðu og mynda í dag, en um leið starfsvettvang þeirra; hinn heillandi heim kvikmyndanna.
Að mörgu er að hyggja þegar félagssaga er rituð. Ákveðin tímabil í sögu hvers félags eru betur þekkt en önnur; sum miklu merkilegri en önnur. Þetta er alþekkt og því er jafnan vandasamt að halda tímalegu jafnvægi í framvindu sögunnar – greina jafn mikið frá hverju einstöku tímabili. Deila má meira að segja um hvort slíkt sé í raun æskilegt? Er ekki fullkomlega eðlilegt að ákveðnum mönnum sé gert hærra undir höfði en öðrum? Er ekki sjálfgefið að í litlu félagi sem stórum hafa menn verið misduglegir og séu þar af leiðandi mis fyrirferðarmiklir í sögu eins og þessari? Sú er að minnsta kosti skoðun höfundar.
Sömuleiðis hefur sú staðreynd að afskaplega lítið hefur verið skrifað um upphaf kvikmyndasýninga hér á landi, gert það að verkum að svið þess varð víðtækara en ella hefði orðið. Í bókinni er þess vegna rakið í stórum dráttum hvernig kvikmyndirnar komu til lands, hvernig var staðið að sýningu þeirra í upphafi og með hvaða hætti þær breiddust út um landið á fyrstu áratugum aldarinnar. Um leið er hér að finna heildaryfirlit yfir sögu kvikmyndasýninga á höfuðborgarsvæði allt frá upphafi og til okkar daga. Nú eins og jafnan fyrr, eru blikur á lofti á kvikmyndahúsamarkaðnum og nýtt risastórt kvikmyndahús í tengslum við risavaxna verslunarmiðstöð hefur tekið til sín stóra sneið af markaðnum um leið og tvö rótgróin kvikmyndahús hafa liðið undir lok.
En þannig er nú einu sinni gangur tímans og þróunin hefur vitaskuld orðið mikil á þessari tæpu öld frá því fyrst var sýnt bíó hér á ísa köldu landi. Félag sýningarmanna við kvikmyndahús hefur ekki farið varhluta af þessari þróun, svo sem nærri má geta, en um leið hefur félagið – þótt lítið sé – haldið reisn sinni og virðingu og félagsmenn þess geta nú með nokkru stolti litið til baka yfir farinn veg.
Þegar komið er að leiðarlokum vil ég þakka þeim fjölmörgu sýningarmönnum sem lögðu hönd á plóginn til að gera rit þetta að veruleika. Þrír fyrrverandi formenn félagsins, þeir Óskar Steindórsson, Sigurjón Jóhannsson og Pétur Pétursson eiga þakkir skildar, einnig Agnar Einarsson, Stefán Jónsson og þeir fjölmörgu sem veittu úr viskubrunni sínum til þess að skapa gleggri mynd af sögu lítils félags í ríflega hálfa öld.
Ég vil einnig færa Þresti Árnasyni, gjaldkera FSK um árabil, sérstaklega ánægjulegt samstarf, en hann var einn helsti hvatamaðurinn að gerð þessa rits. Aukinheldur eiga Jón Pétursson, formaður FSK, Gunnar Geirsson, Friðjón Guðmundsson og margir fleiri þakkir skildar fyrir ýmiskonar aðstoð.
 
Björn Ingi Hrafnsson.