Nýtt og fullkomið kvikmyndahús rís.
Nýja bíóið samt kallað Gamla Bíó.

Sem nærri má geta fór Bíópetersen fljótlega að þykja þröngt um kvikmyndahúsið í hinum fátæklega Fjalaketti, og aðstæður vart boðlegar. Þar var eldhætta líka mikil, ekki síst þar sem svo ótrúlega háttaði til að ein af heildverslunum bæjarins geymdi olíubirgðir sínar í kjallara hússins.
Hin góða aðsókn varð einnig til þess að forstjórinn varð stórhuga og svo fór að hann festi kaup á lóð við Ingólfsstræti árið 1924 og í september næsta ár hófust framkvæmdir þar við byggingu nýtískulegs kvikmyndahúss.
Einar Erlendsson arkitekt teiknaði húsið. Þeir Petersen höfðu tekið sér ferð á hendur til Svíþjóðar og Danmerkur í því skyni að kynna sér þarlend kvikmyndahús og nýjustu tækni, t.d. ljósabúnað.
Ekki fór á milli mála að nýja kvikmyndahúsið skyldi búið nýjustu tólum og tækjum til kvikmyndasýninga. Húsið var búið hitunar- og loftræstitækjum eftir nýjustu tísku og lýsing í kvikmyndasalnum var óbein þannig að hvergi sáust ljósin. Við hönnun salarins var einnig fylgt til hins ítrasta kröfum um hljómburð og þótti salurinn því henta afar vel til hljómleikahalds. Varð húsið því fljótlega aðal hljómleikahús landsins.
Bíópetersen, sem sjálfur var í hinum ágætustu holdum, vildi að vel færi um gesti kvikmyndahússins:
 
Sætin lét ég gera mátuleg fyrir mig, en ég var ásamt tveimur öðrum þekktum borgurum talinn í einna bestum holdum í Reykjavík, svo það er ekki að undra þótt sætin séu rúmgóð.
 
Með tilkomu lengri kvikmynda má segja að fyrstu stjörnur hvíta tjaldsins hafi orðið til. Hér á landi voru í einna mestu uppáhaldi dönsku leikararnir Asta Nielsen, Olaf Fönss og Valdemar Psilander. Sænskir nutu einnig vinsælda, einkum eftir að þarlend kvikmynd um Fjalla-Eyvind var tekin til sýninga.
Smám saman komu svo amerískar hetjur hvíta tjaldsins til sögunnar, einkum eftir fyrri heimsstyrjöld. Kynntust íslenskir kvikmyndahúsgestir þá góðviljuðum einfeldningi sem sífellt kom sér í vandræði með uppátækjum sínum - gleraugnagláminum Harold Lloyd.
Danir voru þá ekki lengur einir um hituna, hvorki í kvikmyndunum sjálfum eða kvikmyndahúsarekstri. Annað íslenskt kvikmyndahús hafði nefnilega tekið til starfa árið 1912 - Nýja Bíó. Við það varð Reykjavíkur biograftheater eða Bíó að Gamla bíó í munnum bæjarbúa, enda þótt það væri enn ekki af barnsaldri, og nafn það sat fast við kvikmyndahúsið lengst af fram eftir öldinni.
Eigendaskipti urðu á því um það leyti sem blásið var í herlúðra í Evrópu öðru sinni á öldinni. Í árslok 1939 seldi Peter Petersen kvikmyndahúsið nýstofnuðu hlutafélagi, Gamla Bíó h/f, og starfrækti það kvikmyndahúsið upp frá því, eða þar til kvikmyndasýningum var hætt í því á níunda áratugnum. Upp frá því hefur margvísleg menningarstarfsemi átt inni í Gamla Bíó, sem enn er þekkt undir því nafni, en þar hafa um nokkurt skeið verið höfuðstöðvar Íslensku óperunnar.
Bíópetersen hins vegar ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur, en á efri árum hafði hann í auknum mæli tekið að finna til heimþrár. Við komuna þangað stofnaði hann eigið fyrirtæki og hóf rekstur kvikmyndahúss og það rak hann til dauðadags, 28. maí 1961. Hann var hinsvegar greftraður hér á landi.