Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri

 
Efnisyfirlit

 

SÝNINGARMAÐURINN OG STARF HANS.

Framleiðsla einnar kvikmyndar er afar mikil og flókin samvinna fjölda manna.Rithöfundur, framleiðandi, leikarar og leikstjóri sameina hæfileika sína ásamt kvikmyndatökumönnum, hljóðmönnum og öðru tæknifólki, og kostnaður er geysimikill.

En kvikmyndin kemst aðeins til áhorfenda vegna vinnu eins manns, SÝNINGARMANNSINS. Allt verkið , fyrirhöfnin, hin nákvæma vinna og fjárhagslega áhætta sem liggur í einni kvikmynd endar að lokum á nokkrum filmuspólum, líflaus með öllu.   Það þarf umhyggju og kunnáttu til að gefa myndinni líf án þess að verkið glati þeirri list og fegurð sem upprunalega var lagt í það.Mikilvægi sýningarmannsins og tækja hans er því aldrei ofmetið.

Í dag er þetta þýðingarmeira en nokkru sinni fyrr.  Vegna samkeppni við aðra fjölmiðla , t.d. sjónvarp, myndbönd og DVD, verða tæknileg gæði kvikmyndahúsanna að vera sem allra best til að áhorfendum gefist kostur á upplifun sem ekki er hægt að ná annarsstaðar.  Þess vegna er mikilvægt að sýningarmaðurinn sé ekki aðeins í stakk búinn til að sýna kvikmyndina án þess að misbjóða henni eða sýningartækjunum, heldur einnig að hann sé vakandi fyrir því að bæði mynd og hljóð séu í hæsta gæðaflokki.

 

ÖRLÍTIÐ UM SÖGU KVIKMYNDANNA.

 

Kvikmyndir voru í upphafi kallaðar lifandi myndir.  En ef maður skoðar filmulengju sér maður röð einstakra mynda sem alls ekki eru lifandi, en þó örlítið breytilegar frá mynd til myndar.  Auga mannsins er gætt þeim hæfileikum að geyma sjónskynjun í mynni eftir að sýnin er horfin og er þessi eiginleiki nýttur við sýningu kvikmyndar.  Svo framarlega sem hver einstök mynd er sýnd svo hratt að fyrri mynd er ekki horfin úr mynni mannsins, nær augað ekki að greina myndirnar sem einstakar einingar, heldur renna saman og við það fæst hreyfing.

35mm kvikmyndafilman hefur lítið breyst frá því að Edison fann hana upp í kringum 1891.  Í fyrstu var kvikmyndin án hljóðs og myndin fyllti út í allan rammann milli gataraðanna á filmunni.

Í lok 3. áratugar þessarar aldar var fyrsta talmyndin gerð.  Eftir margar tilraunir var niðurstaðan sú, að var sett á ljósrönd á aðra hlið filmunnar, milli gataraðar og myndar.

Fljótlega var einnig farið að gera tilraunir með litmyndir, m.a. með því að sýna svart/hvíta mynd gegnum litfiltera eða með því að handmála hverja einustu mynd á filmunni.  Fyrsta litfilman var framleidd á 4. áratugnum.

Í samkeppnisstríðinu við sjónvarpið hófust svo tilraunir með mismunandi breidd myndar á tjaldið.  Ein aðferðin var að breikka bilið milli myndanna á filmunni þannig að myndin fyllti ekki út í rammann og nota linsu með styttri brennivídd.  Þannig fékkst á tjaldið breiðari mynd en þó með sömu hæð og áður.  Þetta er það sem kallast í dag “breiðtjald” (Wide-Screen).

Önnur aðferð sem þróaðist var “CinemaScope”.  Þar nýtist filman betur, því upptöku er myndin pressuð saman til hliðanna og látin ná út í allan ramman en síðan sýnd með linsu sem víkkar myndina aftur út til hliðanna.

Jafnframt þessu varð fjölrása steriotónn útbreiddur.  Það var hægt með því að setja á filmuna segulrás. CinemaScope filma getur verið með margs konar tónröndum, það geta verið 4 segulrásir sem skiptast í vinstri rás, miðrás, hægri rás og eina rás með sérstökum áhrifshljóðum (effectrás).

Til að ná fram eins stórum  og skýrum myndum og unnt var þróuðust önnur kerfi, t.d. “Cinerama” og “Cinemiracle”.    Við upptöku á myndum á þessum kerfum voru notaðar þrjár sambyggðar 35mm tökuvélar sem hver tók 1/3 hluta af myndinni.  Ein  slík vélasamstæða vóg meira en 250 kg.  Við sýningu myndarinnar voru einnig notaðar þrjár samtengdar sýningarvélar, og sýndi hver um sig einn hluta myndarinnar, sem var á þrem spólum.  Steriotónninn var spilaður á 7 aðskyldum rásum af sérstöku segulbandi.  Til lausnar á þessu flókna kerfi hannaði Mike Todd ásamt American Optical Company hið svokallaða TODD AO kerfi, þar sem aðeins var notuð ein 70mm filma með 6 rása segultón.   Þetta kerfi betrumbætti PANAVISION 70 síðar.

 

Til að bæta ljóstóninn hefur DOLBY þróað kerfi sem hefur í för með sér bæði betri tóngæði og möguleika á sterio afspilun.   Þetta kerfi samanstendur af vinstri rás, miðrás, hægri rás og effektrás, (svokölluð surround).

Þannig að þó ekki sé mögulegt að sýna 70 mm myndir vegna þess hve kostnaðarsamt það er, má gleðjast yfir því að þróun síðari ára á linsum, betri og fínkornaðri filmu og betri ljóstón jafnframt steríói, hefur fært okkur gæði sem nálgast æ meir þau gæði sem þekkjast frá 70mm filmunni.

Það hafa komið tímabil sem tilraunir hafa verið gerðar til að ná meiri dýpt í myndina á tjaldinu, hin svonefnda 3-D filma eða þrívíddarfilma.  Upp úr 1950 voru framleiddar nokkrar slíkar myndir.  Á sýningunni fengu áhorfendur sérstök gleraugu, sem notast skyldu þegar horft var á myndina.  Gleraugun voru þannig, að fyrir öðru auganu var rauður filter og fyrir hinu grænn filter.  Filman er þannig gerð að innan hins venjulega myndramma eru tvær myndir (rammanum er skipt lárétt).  Þegar sýnt er koma báðar myndirnar samtímis gegnum spegillinsu, sem samræmir myndrammana í eina mynd.   Þegar horft er á myndina með þrívíddargleraugum sér vinstra augað aðra myndina og hægra augað hina.   rívíddarmyndir er nauðsynlegt að sýna á mjög ljósnæmu tjaldi (þ.e.silfurtjaldi).

 

FILMAN OG MEÐHÖNDLUN HENNAR.

 

Áður fyrr voru allar filmur eldfimar og var samsetning þeirra 70-80% nitrocellulose og 20-30% kamfóra. bruni hófst við 90°C.  Síðar komu svokallaðar öryggisfilmur (safety-films).  Þær eru óeldfimar og samsettar úr azetate og cellulosa. Bruni hefst við 400°C og er það stór munur á öryggi miðað við nitrofilmur.

Filman er gerð úr sveigjanlegu, gagnsæju efni (undirstaða) og myndin (bindiefni) , er sett á aðra hlið filmunar.  Sú hlið sem bindiefnið er á er matta hliðin (bakhliðin) og hin hliðin er glansandi.  Á svart/hvítum filmum er bindiefnið eitt lag en á litfilmum eru þrjú lög, sem hvert um sig er næmt fyrir ákveðnum lit.

Innsetning tóns á filmuna fer þannig fram að tónrönd filmunar er kópberuð inn á filmuna, líkt og myndin sjálf.  Þetta er oftast gert eftir töku myndarinnar.  Notuð er sérstök tónfilma sem í þar til gerðri vél rennur með myndfilmunni.  Á vissum stað liggja filmurnar þétt saman og þar er tónröndin kópberuð inn á filmuna.

filmubreiddir.

Algengasta breidd kvikmyndafilmu er 35mm.   Fyrir hverja mynd á filmunni eru 8 færslugöt, 4 hvoru megin.    35mm filmur eru frábrugðnar filmum með ljóstón að því leiti að færslugötin eru minni, svo hægt sé að koma fyrir 4 segulrásum.   Verður því að skipta um færsluhjól í sýningarvélinni.

myndstærði.

Stærð myndar á filmu er breytileg eins og komið hefur fram.  Sú elsta, og jafnframt sú sem lengst hefur dugað er Normal myndstærðin.

 

normal filma:

Myndstærðin er venjulega

15.2 X 20.9mm  (mest 15.29 X 21.11).                         

Hlutföllin eru 1:1.37  þ.e.a.s. 1 metri

á hæð tjaldsins á móti 1.37 metrum á breidd.

 

 

wide screen.

Myndin á filmunni er í venjulegri breidd

en hæðin er ekki nýtt til fulls, heldur er

breitt strik milli myndanna.

 

Þegar breiðtjaldsfilma er sýnd er notuð                           (

linsa með styttri brennivídd er notuð er

við sýningu Normalfilmu.  

Það eru þrjár mismunandi myndstærðir

á breiðtjaldsfilmu:

 

1:1.66 með myndstærð 12.6 X 20.9mm

1:1.75 með myndstærð 11.9 X 20.9mm

1:1.85 með myndstærð 11.3 X 20.9mm

 

cinemascope (með ljóstón):

Myndin á Cinemsacope filmunni

er eins og áður er getið samanþjöppuð.

Við sýningu er notað forstykki á

grunnlinsuna sem víkkar myndina

út til hliðanna svo hún fær sitt

upprunalega form.  Á tjaldinu eru  

hlutföllin 1:2.35. og myndstærð

Cinemascope filmu með ljóstón

er venjulega 18.16 X 20.9mm.

 

 

cinemascope (með Segultón):

Cinemascopefilma með 4 rása

segultón hefur minni færslugöt

og breiðari mynd.   Þessa tegund

filmu er því hægt að sýna með

myndbreidd 23.2mm.  

Hlutföll á tjaldi eru 1:2.55m.

Venjulega eru segultónsmyndir

þó framleiddar með sömu

myndstærð og ljóstónsmyndir.

 

cinemascope (með Digital):

Cinemascopefilma með

Dolbydigital, SDDS og analog-sterio

 

Meðhöndlun filmunnar.

Filmur úr plastefni eru tiltölulega endingargóðar.   Hægt er að sýna þær nokkur þúsund sinnum án þess að þær slitni að nokkru marki.   En vegna hinnar miklu stækkunar við sýningu koma jafnvel hinar minnstu rispur fram á tjaldinu.

Af því að filman er statískt rafmögnuð dregur hún auðveldlega til sín ryk og óhreinindi.   Þessar fíngerðu örður grafa sig inn í filmuna, sérstaklega þegar verið er að spóla henni.   Þannig getur filman orðið svo skemmd af rispum og “snjókomu”, að áhorfendur fái ekki notið sýningarinnar.

Hægt er að draga verulega úr slíkum skemmdum með því að hafa í heiðri eftirfarandi reglur.

 
  1. Sjá um að sýningarklefinn sé hreinn. 
  2. Að ekki séu teppi á gólfum, heldur efni sem má þvo,og að þvegið sé oft. 
  3. Ef um er að ræða einhvers konar loftræstingu,er mikilvægt að hún sé útbúin ryksíu.

Það er auðvitað einnig mikilvægt að allt sem filman kemst í beina snertingu við, svo sem sýningarvél og spóluborð, séu vel hrein.

Ef filman er sýnd í langan tíma getur verið nauðsynlegt að setja sérstakan hreinsibúnað á sýningarvélina (eða á turn eða platta).  Þá hreinsast filman um leið og hún er sýnd.

 

 

Eins og áður sagði myndast smárispur og “snjókoma” sérstaklega við spólun.

Ef filman er spóluð of þétt upp skerast óhreinindin inn í filmuna og einnig ef filman er spóluð svo laust að hvert einstakt lag getur nuddast við það næsta.

Ef filman er spóluð of laust má ALDREI reyna að þétta rúlluna með því að toga í filmuendann,  heldur skal umspóla filmunni varlega.   Spólun skal vera jöfn og rúllan á að vera þétt, hvorki of laus eða “hörð” eins og steinn.

Þegar tekið er á móti filmueintaki þarf að umspóla henni til að kanna hvort eintakið er í lagi.   Athuga þarf rispur og færslugöt, hvort byrjunar-og endaræmur eru límdar rétt á hvort límingar (ef um er að ræða) eru í lagi.
 

Til að líma saman filmuna er notaður lím- eða límbandssplæsari.   Ef notað er fljótandi lím þarf að slípa báða enda filmunnar, möttu hliðina til að ná burt 0magn af lími, ekki of lítið, en heldur ekki svo mikið að það fljóti út á myndirnar.   Munið að halda límaranum hreinum og loka límflöskunni eftir notkun, því ef límflaskan stendur opin glatar límið eiginleikum sínum.

Ef notaður er límari með límbandi, er filman klippt saman á myndsamskeytum og endarnir settir þétt saman.   Örlítið bil milli filmuendanna virkar sem hvellur í hátalaranum þegar um er að ræða ljóstón.  Þegar búið er að klippa filmuna og leggja endana saman er límt á báðum hliðum.   Aðeins má nota þar til gert filmulímband.  Ef taka á í sundur filmu sem límd hefur verið með límbandi er hægt að fjarlægja límbandið varlega án þess að skaða myndirnar.  Límbandslímari sem fullur er af lím-, filmu- og límbandsögnum er ekki gott verkfæri.    Gætið þess að hreinsa límarann, t.d. með vattpinna vættum í spritti eða hreinsuðu bensíni.    Farið varlega í að taka límarann í sundur.    Ef hnífar og tappar, sem skera filmuna og stilla af færslugöt, eru settir örlítið skakkt saman er límarinn ónýtur.

 

SÝNINGARVÉLIN.

Hraði 35mm kvikmyndafilmu gegnum sýningarvélina er 24 myndir á sekúndu.  

Þetta samsvarar því að 27.5 metrar af filmu fara gegnum vélina á mínútu.

Leið filmunnar gegnum vélina er frá efra spóluhúsi gegnum leiðirúllur að efra færsluhjóli, sem flytur filmuna með jöfnum hraða að sleða og skautum, en þau halda filmunni fastri fyrir framan ljósopið.  Þá tekur möltukrossinn við og togar filmuna með rykkfærslu fyrir ljósop sýningarvélinnar.  Færsluhjól möltukrossins hefur 16 tennur, snýst 6 hringi á sek. og flytur 24 myndir á sek. fyrir ljósopið.

Ljóslokan (blennan) er staðsett á milli ljósgeisla frá ljósgjafa (Xenon-kolbogi) og ljósops.  Ljóslokan lokar fyrir ljósgeislann á því augnabliki sem möltukrossin færir filmuna og opnar fyrir ljósið, og myndin birtist á tjaldinu, þegar möltukrossinn er í kyrrstöðu.  Þetta er gert í þeim tilgangi að færsla filmunnar sjáist ekki.  Til þess að áhorfendur verði síður varir við flökt ljóssins þegar ljóslokan sker ljósið, er hún látin opna og loka tvisvar á hverja mynd, þ.e. 48 sinnum á sek.

 

 

Af  því að færsluhjól möltukrossins dregur filmuna með rykkfærslu er nauðsynlegt að gera “slaufu” á filmuna bæði áður en filman fer í sleðann og eftir að hún kemur af möltukrosshjólinu,(þ.e. áður en filman fer í tóntromluna), til að jafna út titring filmunnar.

Frá möltukrossinum fer filman gegnum leiðirúllur sem taka af allan slátt og titring af filmunni áður en hún fer yfir tóntromluna.  Til að breyta tónröndinni á filmunni í heyranlegt hljóð þarf tónlampa, linsu sem fókuserar ljósið á filmuna, ramma sem ákveður hæð og breidd ljóssins, sólarsellu, magnara, tíðnideili og hátalara.    Tónlampinn og sólarsellan eru staðsett í sýningarvélinni og skal nú lýst hlutverki þeirra nánar.

Tónlampinn er lágspennulampi.  Oftast er spenna hans um 4-5 volt.   Hann er tengdur við jafnstraum sem fenginn er frá afriðli, því 50 riða straumsveiflurnar frá veituspennunni myndu koma fram sem 100 riða undirtónn í hátölurunum.

Og þar sem heyranlegt tíðnisvið er 15-15000rið á sek. myndu áhorfendur heyra slíkan undirtón.

Ljósgeislanum frá tónlampanum er beint í gegnum linsu og spjald með mjórri rifu á , sem skammtar ákveðna breidd og hæð á ljósgeislann sem lendir á tónröndinni.

Þegar ljósgeislinn hefur farið í gegnum tónröndina, lendir hann á sólarsellunni sem breytir ljóssveiflum í rafsveiflur.  Sama hlutfall er á styrk og tíðni ljósgeislans og tónmyndarinnar á filmunni.

Frá tóntromlunni fer filman í neðra færsluhjól og þaðan í neðra spóluhús.

 

SPÓLUHÚS, TURNAR, PLATTAR.

Hér að framan hefur eingöngu verið fjallað um sýningarvélar með hefðbundnum spóluhúsum.  Þar er um að ræða filmur allt að 600 metra langar eins og kvikmyndahúsin fá hana í hendur.  Mörg önnur form eru notuð við sýningu filmunnar, t.d. er filman límd upp á stórar spólur allt að 4.000 metrar, og eru þá notaðir spóluarmar eða turnar.  Þá þarf að spóla filmunni til baka eftir hverja sýningu.

Ef um er að ræða platta sem filman liggur á, þarf ekki að spóla til baka, því filman er sýnd innan úr kjarnanum á einum diskinum inn í kjarnann á þeim næsta.

Einnig eru til plattar þar sem filman er límd saman í heilan hring svo ekki þarf að þræða filmuna í vélina á milli sýninga  (endless-system).

  

 

SÝNINGARVÉLALINSUR.

 

Nútíma sýningarvélalinsa er samsett úr 6-8 glerjum.  Hún er mjög ljósnæm, það er til að sem minnst ljós tapist á leiðinni gegnum linsuna.  Ystu glerin eru bláhúðuð til að minnka innbyrðis ljósbrot og verja sjálf glerin fyrir rispum.

Ljós, sem fellur gegnum safngler, brotnar niður á við og myndar lítinn ljóspunkt í ákveðinni fjarlægð frá glerinu.  Þessi punktur nefnist brennipunktur og fjarlægðin brennivídd.

Í brennipunktinum víxlast ljósgeislarnir, þ.e.a.s. þeir geislar, sem koma að ofan halda áfram niður og öfugt.  Af þessari ástæðu er filman þrædd “á haus” í vélina, því myndin snýst við í brennipunktinum.

Linsa breytir ekki myndinni á filmunni, nema að því leiti að stækka hana.  

Þetta á við um allar myndstærðir  (Normal, Widescreen, Todd AO)

nema Cinemascope.

Myndirnar á Cinemascope filmunni eru samanþjappaðar og uppteygðar.

Því þarf sérstaka linsu til að breyta þeim í eðlilegar myndir á sýningartjaldinu.

Cinemascope linsan er í raun tvær linsur eða linsueiningar.    Næst filmunni

er Normal linsa, sem ákvarðar stærð myndarinnar á tjaldið, en að framan er

dreifilinsa (anamorphic), sem dreifir úr ljósgeislanum til hliðar,

en hæðin helst óbreytt.

Með þessari tökuaðferð er breiðari sjónhring þjappað saman, og gerir það

 myndina áhrifameiri.

Á linsum eru tvær tölur, önnur segir til um ljósnæmi linsunnar og hin er brennivídd hennar.

Það er þrennt sem ákvarðar stærð myndar á sýningartjaldið, stærð myndopsins á sýningarvélinni, brennivídd linsunnar og fjarlægðin milli sýningarvélar og tjalds.

Ef vitað er hver fjarlægðin er milli vélar og tjalds og einnig hæð tjaldsins, má reikna út hver brennivídd linsu þarf að vera.:

 

f = P/H-  x  h

f = brennivídd linsu í mm.
P= fjarlægð milli vélar og tjalds í metrum.
H= sú hæð sem óskað er á mynd á tjaldinu.
h = hæð myndops vélar í mm.
(hæð myndops vélar er gefið upp).

 

Linsan er nákvæmur og viðkvæmur hlutur.    Linsu sem ekki er í notkun á að geyma vel varða gegn ryki og óhreinindum.    Ef nauðsynlegt er að hreinsa linsuna verður að fara mjög varlega, bæði til að rispa ekki linsuna og til að skemma ekki bláhúðunina.

Ryk má fjarlæja með mjúkum pensli (með marðarhárum) eða mjög mjúkum

(og hreinum) klút.    Ef þetta nægir ekki, t.d. ef fita hefur komist á linsuna, má væta klútinn með sérstökum linsuhreinsivökva.

 

 

LAMPAR OG LAMPAHÚS.

Kolbogaljós hafa í áratugi verið notuð til lýsingar á kvikmyndum.   Notaðir eru eirhúðaðar kolastangir, og þegar vissum skilyrðum er fullnægt í sambandi við straum og spennu myndast bjart ljós á milli odda kolanna eftir snertingu við hvort annað.  Eftir endilöngu miðju jákvæða kolinu er kjarni (mergur) úr sérstöku efni.   Þetta efni gefur ljósboganum hina hvítu birtu.    Efnið verður að hvítu dufti við bruna, og sest  tíðum á spegla og innanvert lampahús.    Athugið að það kolið sem hefur neikvæðu hleðsluna er einum millimetra grennra en það jákvæða.  Halogen/kvarts lampinn er lágspennulampi, 12, 24, 36 eða 220volt, og er frá 100 Wött.    Hann er bæði kallaður halógenlampi og kvartslampi.  Halogen er lofttegundin sem er inni í lampanum og kvarts er glerið sem lampinn er búin til úr.     Kvartsgler hefur þann eiginleika að þola mjög háan hita.    Um leið gerir hinn hái hiti það að verkum að uppgufað wolfram (járn-mangan blanda) úr glóðþræðinum brennur ekki fast innan á glerið.  Þar sem halogenlamparnir gefa ekki fullnægjandi ljós eru notaðir Xenonlampar.    Þeir fást frá 75 Wöttum upp í 6500 Wött.    Þeir gefa frá sér sterkt, hvítt ljós (5600° kelvin) og endast í um 2000 tíma.  Xenonlampar eru til bæði sem lóðréttir og lágréttir glerhólkar.    Þeir lágréttu gefa   ca. 30% meira ljós.  Xenonlampinn er glerhylki úr kvarts.    Innaní eru tvö skaut úr wolfram.  Glerhylkið er fyllt upp með xenongasi undir miklum þrýstingi.    Lampinn fær straum frá afriðli, og það er mikilvægt að lampinn sé rétt settur í, þ.e. að + og – snúi rétt.  Háspenntur neisti (30-40.000 volt) sem hleypur milli skautanna kveikir á lampanum og um leið eykst gasþrýstingurinn inni í lampanum.    Það er því nauðsynlegt að lampinn sé alveg kaldur  áður en lampahús er opnað.  Ávalt skal nota andlitsgrímu og hanska þegar unnið er við xenonlampa.  Þegar xenonlampi er settur í eða hann tekinn úr skal gæta þess að nota öryggishlíf lampans, því fingraför eða fitublettir eyðileggja lampann.  Gasið í xenonlampanum gegnir tvennu hlutverki.     Annars vegar sér það um að ljósið sé alveg hvítt og hins vegar að uppgufun frá skautum sé sem minnst.  Þetta lengir endingu skautanna og minnkar sót á glerhylkinu.

 
Hlíflðarumbúðir utanum Xenonlampa
 

Tveir holspeglar eru umhverfis lóðréttan lampa, annar stór en hinn lítill.  Stóri spegillinn safnar sem mestu ljósi frá lampanum og sendir það fram að ljósopi, í ákveðinn punkt.  Litli spegillinn safnar því ljósi sem sá stóri nær ekki og sendir það að stóra speglinum.  Stóri spegillinn er svokallaður kaldljósspegill, en það þýðir að hann hleypir ljósinu í gegnum sig að spegilhúðinni og varpar því fram, en hitinn frá ljósinu heldur áfram í gegnum spegilinn.  Það er mikilvægt að stilla spegla lampahússins rétt.  Ekki aðeins til að sterkt og jafnt lýsta mynd, heldur einnig til að hita ekki umhverfi ljósopsins að óþörfu.  (

Nauðsynlegt er að kæling lampahússins sé góð, það lengir endingu xenonlampans.  Einkum á þetta við um alla lágrétta lampa og stærri lóðréttu lampana.  Endingartími xenonlampa er nokkuð breytilegur.  Þá skal skipta um þegar glerið er orðið sótað eða skautin eru brunnin þannig að ljósboginn er orðin kvikandi.  Á lampahúsum á að vera tímamælir, sem segir til um hve lengi hefur logað á lampanum.  Til að hindra að olíuskánin og rykið sem sest á spegilinn brenni fast, er mælt með því að þrífa lampahúsið reglulega.  Meirihluti þeirra spegla sem notaðir eru í dag  eru húðaðir yst, sem þýðir að ysta lagið er viðkvæmt.  Þess vegna má aðeins þurrka varlega af speglunum með mjúkum klút.

 

SJÁLFVIRKNI  Í  KVIKMYNDAHÚSUM.

Starf sýningarmannsins hefur breyst talsvert á síðustu árum.  Áður var algengast að sýnt væri á tvær sýningarvélar og að hver filmurúlla væri um 600 metrar.  Þá þurfti að skipta á milli véla með reglulegu millibili (á ca. 20 mín. fresti).  Í dag eru flest kvikmyndahús með 1800 metra filmurúllur sem sýndar eru á tvær vélar, eða alla filmuna á platta eða turni, og þá sýnt á eina vél.  Mörg kvikmyndahús hafa einnig fleiri en einn sal, svonefnd “fjölsalabíó” , og sér einn sýningarmaður um allar vélarnar.  Þetta er að sjálfsögðu aðeins mögulegt vegna tilkomu ýmis konar sjálfstýribúnaðar.  Sjálfstýring sýningartækja getur verið með ýmsu móti, allt eftir þörfum hverju sinni.  Frá því að sýningarvélin kveiki og slökkvi á sér sjálf og til algerrar sjálfvirkni allra sýningartækjanna.  Með hinum fullkomnari tækjum þarf sýningarmaðurinn aðeins að þræða vélina og ýta á kveikirofa, allt annað er sjálfvirkt.  Vélin kveikir á sér, það kviknar á xenonlampanum, ljósin í salnum dofna og sýningin hefst.  Þegar myndinni er lokið slokknar á xenonlampanum og ljósin í salnum kvikna.  Þar sem um fleiri en eina sýningarvél er að ræða, getur verið nauðsynlegt að hver vél sé útbúin öryggisrofa ef eitthvað fer úrskeiðis.  Í fjölsalabíóum kemur fyrir að sama filman er sýnd í fleiri en einum sal í einu. Til að þetta sé mögulegt, er mikilvægt að sýningarvélarnar séu samstilltar.  Vélarnar eru þá útbúnar synkro-mótorum.     Einnig þarf að gera slaufu á milli vélanna til að koma í veg fyrir hraðamismun, einkum þegar kveikt er á vélunum  í upphafi.

(Mynd úr sýningarklefa bls.21)

TÓNNINN.

Ljóstónninn er kópieraður inn á filmuna,   og er á 35mm filmu tæplega 2mm breiður.

 

 

Það kerfi sem mest er notað er

Dobble bilateral og lítur svona út

 

Dæmi um lágtíðni (100 Hz) sem

spiluð er á litlum styrk :

 

Dæmi um sömu tíðni

á miklum styrk :

 

Dæmi um hátíðni ( diskant) sem spiluð er á litlum styrk :

Dæmi um sömu tíðni

á miklum styrk :

 

Það er nauðsynlegt að stilla nákvæmlega saman mynd og hljóð.  Ljóstónninn er staðsettur 21 myndramma framar en sá rammi sem tónninn tilheyrir. Þegar filman er þrædd í vélina á bilið á milli myndgluggans og ljósspjaldsins í tóndeilinum að vera 20 rammar.  Ástæðan fyrir þessu eina rammabili er mismunurinn á hraða ljóssins og hljóðsins.  Þegar filman hefur farið fram hjá ljósopinu og færsluhjólinu kemur hún í tóntromluna, þar sem tónninn myndast.  Tóntromlan er útbúin þungu “swing”hjóli til að filman haldi jöfnum hraða.  Það er mikilvægast þar sem filmur eru textaðar, þar sem notað er vax við textun.  Það eru tvær aðferðir sem notaðar eru við skönnun á ljóstóninum.  Önnur er svokölluð nærskönnun, sem fer þannig fram að ljósið frá tónlampanum safnast í kondensator-linsu, beinist gegnum rifuna á ljósspjaldinu, er fókuserað af tónlinsunni og ljósröndin á filmunni á að vera 2.13mm breið og minna en 1/50mm há.  Eftir að ljósið hefur farið gegnum tónrönd filmunnar nemur sólarsellan það.  Þá hefur tónröndinni á filmunni verið breytt í tíðnibylgjur sem magnaðar eru í formagnara og útgangsmagnara, og ná síðan eyrum áhorfenda gegnum hátalara í salnum.  Fjarskönnun er hin aðferðin sem notuð er við skönnun á ljóstóni.  Ljósið frá tónlampanum safnast í kondensator-linsu, beinist á tónrönd filmunnar, er fókuserað af tónlinsunni gegnum rifuna á ljósspjaldinu og er numið af sólarsellunni.  Tóntæki kvikmyndahússins eiga að geta skilað tóni kvikmyndarinnar án þess að breyta, bæta við eða tapa upprunalegum tóni.  Ástæðan fyrir tapi á tóngæðum getur t.d. verið ryk og óhreinindi á tónlinsunni.  Það hefur í för með sér að ljósröndin sem skannar tónröndina í filmunni verður ekki nógu skörp og hátíðni tapast.

 

 

Eins tapast hátíðni ef tónlinsan er ekki fókuseruð rétt eða ef ljósspjaldið er ekki nákvæmlega 90° vinkilrétt á tónrönd filmunnar.  Stilling ljósspjaldsins á tónröndina kallast fasastilling.  Stilling á fasa og fókus er einungis framkvæmd með sérstakri filmu og mælitækjum af tæknimönnum.  Við skönnun á ljóstóni verður alltaf örlítið tap á hátíðni.  Þess vegna þarf að vera möguleiki á að jafna niður þetta tap í formagnara með aukinni mögnun á hátíðni.  Milli formagnara og útgangsmagnara er styrkstillir sem staðsettur er í sýningarklefa.  Þar er einnig staðsettur monitor hátalari sem þarf að vera sæmilegur að gæðum til að sýningarmaðurinn geti fylgst með því að tónninn sé í lagi  Hátalarar í sýningarsal þurfa að sjálfsögðu að uppfylla gæðakröfur þannig að þeir skili tóninum án þess að auka við eða tapa neinu af þeim tíðnisviðum sem á filmunni eru.  Sumir kvikmyndahússhátalarar eiga það til að draga fram lágtíðnina en skila hátíðninni illa, þannig að allt tal verður illskiljanlegt.  Samkvæmt staðli á hátalarinn að hafa ákveðna breidd í hátíðninni.  Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að hátalarar sem ætlaðir eru fyrir Hi Fi tónlist eru ekki heppilegir til notkunar í kvikmyndahúsum.  Með sérstakri prufufilmum og mælitækjum  er hægt að fylgjast reglulega með tíðnisviðum á tóndeili   sýningarvélar, formagnara, útgangsmagnara og hátölurum.  Þannig er hægt að draga úr ástæðum fyrir lélegri tóngæðum.  En án mælitækja getur sýningarmaðurinn, með gagnrýnni hlustun, einnig fylgst með því að tónninn sé í lagi.  Algengustu tóntæki í kvikmyndahúsum fyrir hágæðatón eru svokölluð SVA tæki (sound variable area), og þekktust að þeim eru Dolby.  Dolby SVA er “suð-eyðandi” (noise reduction) sterio kerfi, sem notað er við sýningu á filmu með ljóstóni.  Kvikmynd, sem framleidd er í Dolby sterio, hefur tvær ljóstónsrendur  sem liggja hlið við hlið á filmunni, eins og á venjulegri mono filmu.   Þess vegna er hægt að sýna filmu sem framleidd er í Dolby sterio í kvikmyndahúsi sem aðeins hefur mono tóntæki.

 

Að vísu verður styrkur Dolby stereios heldur veikari við afspilun í mono, og er þá nauðsynlegt að auka mögnun við afspilun.  Við afspilun á Dolby SVA filmu er notuð tvískipt sólarsella sem getur skannað tónrendurnar tvær sitt í hvoru lagi.  Þessi tvö tónmerki fara áfram í magnara Dolby tækjanna og þaðan gegnum tvo suðeyðara  (noise reduction), þar sem jafnvægið milli tónmerkis og suðs er lagað.  Með aðstoð rásadeilis (dicoter) skiptast þessi tvö tónmerki í 4 rásir.  Þær skiptast í vinstri, mið- og hægri rás ásamt effektrás (surround).  Eftir að Dolby tækjunum sleppir er hljóðið magnað með 4 aðskildum útgangsmögnurum og sent í 4 sett af hátölurum, þrjá sem staðsettir eru bak við sýningartjaldið og effekthátalara í salnum.  Við afspilun á Dolby filmu er mjög mikilvægt að tónstyrkurinn frá tóndeili sýningarvélarinnar og frá formagnara sé réttur.   Í því sambandi hefur ljósstyrkur tónlampans mikil áhrif á tónstyrkinn.

 

Ljósstyrkurinn minnkar til dæmis þegar tónlampinn dökknar, sem gerist eftir talsverða notkun.  Þess vegna er nauðsynlegt að stilla styrkinn á hverri rás með “Dolby level test filmu”.

Það er eina stillingin sem sýningarmaðurinn getur sjálfur gert á Dolby tækjunum.

 

 

AFRIÐILL TÓNLAMPANS.

Tónlampinn verður alltaf að fá jafnspennu.  Ef hann fær 50 Hz riðspennu, (t.d. frá spennubreyti) sveiflast ljós tónlampans 100 sinnum á sek.  Þar sem fótósellan/sólarsellan er næm fyrir hverri breytingu ljóssins, koma þessar ljóssveiflur fram í hátalara sem er100 Hz suð eða niður.  Þetta hefur í för með sér mikla brenglun á tóninum.  Athugið að afriðlar, sérstaklega þeir eldri, geta verið ófullkomnir, þannig að tónlampinn fær ekki hreina jafnspennu.

 

BUZZ TRACK.

Buzz Track er prufu filma sem notuð er til að fylgjast með því að tónhausinn skanni tónrönd filmunnar rétt. Ef skönnunin er of nálægt  myndinni á filmunni heyrist 300Hz tónn.  Ef skönnunin er of nálægt færslugötunum heyrist 1000Hz tónn.  Stillingin er rétt þegar hvorugur tónninn (300Hz og 1000Hz) Heyrist.  Það er mismunandi eftir tegundum sýningarvéla hvernig skönnunin er stillt.  Á sumum vélum er filman færð til hliðar við tónromluna, á öðrum flytur maður ljósspjaldið við tónlinsuna til hliðar.  Þar sem fjarskönnun er stillt með því að breyta stöðu ljósspjaldsins gagnvart sólarsellunni.

 

DECIBEL (db)

Decibel er mælieining fyrir tónstyrk.  0dB er lægsta tónsvið og sterkasta tónsvið  (t.d. í þrýstiloftsmótor)  er á bilinu 120 til 140 dB.  Ef styrkur er aukinn um 3 dB er það rétt merkjanlegt.  Styrkstillir fyrir sal sem er með þrepstillingu hefur því oft 3dB milli þrepa.  Athugið að aukning úr 20 Wöttum í 40 Wött samsvarar 3dB í tónstyrk.

 

FET.

Enska mælieiningin fet er oft notuð í tengslum við þræðingarenda (startstrimla).  Eitt enskt fet er 30.5cm og samsvarar það 16 myndrömmum.  Þegar þræðingarendinn byrjar á 11, þýðir það að það eru 11 fet – ca. 3.35 metrar að fyrsta myndramma.

Það eru einnig til þræðingarendar sem nefna má sekúndustrimla.  Þeir eru númeraðir með reglulegu millibili og eru 24 myndrammar milli talna.
 

FORFÓKUS,  (PREFOKUS).

Sumir tónlampar eru “forfókuseraðir”,  þ.e.a.s. að glóðþráðurinn í lampanum er stilltur með tilliti til lampafestingarinnar.  Ef lampinn er rétt settur í getur maður verið nokkuð viss um að tónröndin fær bestu mögulega lýsingu.

 

FÓKUS.

Þegar fjarlægðin milli linsu sýningarvélar og filmunnar rétt, er sagt að myndin sé í fókus.  Myndin á tjaldinu er þá skýr.  Sama gildir um tónlampann.  Ljósröndin sem skannar tónrönd filmunnar á að vera nákvæmlega í fókus, annars tapast hátíðni.

 

FÓTÓSELLA.

Fótósella er lítill lampi sem í eru kadóða og anóða.         Fótósellan þarf  70-90 volta jafnspennu.  Þegar ljós fellur á fótóselluna losnar um veikar rafbylgjur.

Þar sem rafbylgjurnar breytast í takt við ljóstónsröndina á filmunni, er hægt að magna þær upp og flytja í hátalara.

 

HLJÓMBURÐUR, (acoustics).

Það hefur mikla þýðingu með tilliti til  hlustunarskilyrða, að hljómburður kvikmyndasalarins sé góður.      Ómtími  (eftirhljómur)  sem lifir lengi eða bergmál frá hörðum veggjum getur gert  talmál ill-  eða óskiljanlegt.        Því er mikilvægt að salurinn (og stólarnir) sé hannaður þannig að ómtíminn sé nokkurn veginn sá sami hvort sem fáir eða margir áhorfendur eru í salnum. Hlustun verður einnig erfið ef ómtíminn er ekki svipaður á öllum tíðnisviðum.

 

LJÓSHITI.

Birta frá ljósgjafa er mæld í kelvingráðum.         Sólarljós frá heiðum himni er

ca. 6000 gráður á kelvin en stofulampar (venjulegar ljósaperur),eru gulleitari, og því ekki nema um 3000 gráður á kelvin.  Kvarts/halogen lampar eru ca. 3400° K og xenonlampar ca. 5600° K.

 

LJÓSLOKUR,     (blennur).

Það fara 24 myndrammar á sek. fyrir ljóslok sýningarvélarinnar.  Hlutverk ljóslokunnar er að loka fyrir ljósgeislann til að rykkfærslan sjáist ekki og einnig á meðan myndramminn er í kyrrstöðu.  Ljóslokan lokar því fyrir ljósið 48 sinnum á sek.  Aðallega eru notaðar 3 tegundir af ljóslokum.  Það eru blaðblenna (með tveim vængjum) tunnublenna (cylindrisk) og hliðarblenna (kónisk).  Hlutverk allra tegundanna er hið sama.  Það er líka til ein tegund sem hefur aðeins einn væng og snýst á tvöföldum hraða miðað við þá tvívængjuðu.  Þessi gerð er ekki mjög útbreidd en með henni fæst örlítið betri ljósnýting.Það er mjög mikilvægt að ljóslokan loki alveg fyrir ljósið á meðan rykkfærslan fer fram.  Annars myndast “draugur” á tjaldinu.  Sérstaklega kemur þetta fram á ljósum flötum, t.d. á textanum.  Ef draugur kemur fram á textanum lokar ljóslokan of fljótt fyrir ljósið og ef draugur kemur fram fyrir ofan texta lokar hún of seint.  Þetta fyrirbæri mætti nefna “blennudraug”.  Stilling ljóslokunnar fer þannig fram:  Takið blýant og haldið honum við eina af tönnum færsluhjólsins.  Færið vélina áfram með handafli þar til færsluhjólið hefur færst um tvær tennur.  Miðja ljóslokunnar á nú að vera nákvæmlega fyrir miðju ljósopinu.  Athugið, að til að ná sem mestu ljósmagni á tjaldið eru sumar ljóslokur svo þröngt skornar að erfitt er að ná fullum myndgæðum nema með nákvæmum stillingum.  Sérstaklega á þetta við um Cinemascope myndir, þar sem hæð myndrammans er nýtt til fulls.

 

MYNDSTRIK.(frame).

Myndastrik er svarta röndin milli myndramma á filmunni.  Áður en filman er þrædd í vélina þarf að athuga að myndstriksstillingin (framestillingin) sé á miðju.  Síðan er filman þrædd í þannig að myndramminn sé nákvæmlega fyrir framan ljósopið.  Þá á ekki að þurfa að stilla myndstrikið eftir að sýningin er byrjuð.  Athugið að færslu sé í læstri stöðu en ekki í færslustöðu.

 

OZON.

Ozon er gastegund sem myndast þegar sýrur í andrúmsloftinu komast í snertingu við ultrafjólublátt ljós.  Hæsta hlutfall ozons sem orðið getur í sýningarklefa er 1 hluti ozons  á móti 10.000.000 hlutum andrúmslofts.  Sumir xenonlampar gefa frá sér ozon.  Ef um slíkt er að ræða þarf góða loftræstingu, því ozonlykt á ekki að finnast í klefanum.

 

SÓLARSELLA.

Sólarsella er ljósnæmt efni af hálfleiðaragerð.  Sólarsellan sendir frá sér straum þegar lýst er á hana.  Hún þarf því ekki spennu eins og fótósellan.  Hins vegar þarf formagnarinn sem tekur við af sólarsellunni að passa fyrir hana, t.d. eins og lágómsmagnari.  Þegar um sterio filmu er að ræða er notuð tvískipt sólarsella.

 

TÍÐNIDEILIR,  (crossover).

Tíðnideilir er notaður í sumum hátalarakerfum þar sem lágtíðnin deilist í bassahátalara, millitíðnin í millitónshátalara og hátíðnin í hátíðnihátalara.  Algengast er að í kvikmyndahúsum sé tvöfaldur tíðnideilir og er lágtíðnin og hátíðnin skilin við 500Hz.

 

TÓNBJÖRGUN.

Tónbjörgun er fyrirbæri sem skeður þegar tónn filmunnar skilar sér ekki hreinn og tær eða upprunalegur tónn brenglast á einn eða annan hátt.  Bjögun verður til dæmis ef færsla filmunnar við tónhausinn er ekki jöfn eða vegna bilanna í magnara og hátalara.

 

BILANIR OG LAUSNIR.

ÞEGAR SÝNING STÖÐVAST.

  1. Kveikið ljósin í salnum um leið og stöðvun verður á sýningu.

  2. Sjáið um að áhorfendum sé gert kunnugt, ef einhver tími líður áður en sýning getur hafist aftur. 

  3. Ef um er að ræða að sýnt er á tvær vélar og möguleiki er að notast við aðra vélina, látið áhorfendur vita að hlé verði á sýningu við spóluskipti.

  4. Ef hins vegar er um stærri bilun að ræða, þarf að meta það hvort aflýsa á sýningu.

 

MYNDBILANIR.
SLÆM MYNDSKERPA.
  1. Linsan er ekki rétt stillt. Skerpan getur breyst frá byrjun á spólu og til loka hennar. Fylgist því vel með skerpunni á myndinni.
  2. Olía eða ryk á linsunni hefur í för með sér skyggða mynd.
  3. Linsan getur hafa ofhitnað. Ef vélin er keyrð með fullum ljósstyrk án filmu, getur linsan hitnað og kíttið sem linsuglerin eru fest saman með, getur skemmst. Sams konar skemmdir geta átt sér stað vegna raka og elli.
  4. Gler linsunnar geta verið laus.
  5. Ysta húð linsunnar getur verið slitin.
  6. Þar sem speglar eru notaðir við sýningu getur einn þeirra verið skemmdur.
  7. Ryk getur verið á glugga sýningarsalarins.
  8. Slitinn filmusleði eða ójöfn rykkfærsla hefur í för með sér að filman situr ekki rétt.
  9. Filman getur verið illa kópieruð þannig að myndin verði ekki skörp. Það er þó mjög sjaldgæft að um slíkt sé að ræða.
ILLA LÝST MYND.
  1. Það vantar einn “fasa” í afriðill xenonlampans.Ljósið verður þá “órólegt” og veikara en venjulega.
  2. Gler xenonlampans er sótað. Með tímanum sótast glerið að innanverðu og dregur það talsvert úr ljósmagninu.
  3. Xenonlampinn er ekki rétt settur í, þannig að ljósboginn er ekki í fókus.
  4. Speglanir í lampahúsinu eru óhreinir, slitnir eða rangt stilltir. Farið varlega í að hreinsa speglana því að flestir þeirra hafa sérstaka húð yst og eru því mjög viðkvæmir.

 

Draugur.

Ef ljóskokan er ekki rétt stillt, lokast ekki alveg fyrir ljósið meðan myndfærslan fer fram. Þá mundast draugur á ljósum flötum þetta sést best á textanum. (sjá nánar í “Tæknilegt ABC undir “Ljóslokur”).

Óróleg mynd.
  1. Athugið að slaugur fyrir ofan sleðann og neðan möltukrossinn séu af réttri stærð.
  2. Sjáið um að sleðinn sé laus við óhreinindi.
  3. Kannið hvort pressan á filmunni í sleðanum sé rétt. Ef pressan er of lítil “hoppar “myndin. En athygið að of mikil pressa getur eyðilagt færslugöt filmunnar.
  4. Athugið hvort hliðarstýring sleðans er í lagi. Oft situr hliðarstýringin föst vegna ryks og óhreininda.
  5. Eitthvað getur verið athugavert við færsluhjólið.
  6. Möltukrossinn getur verið slitinn.

Það er aldrei hægt að koma algerlega í veg fyrir myndóróa, en á sýningavél sem vinnur rétt og vel er hugsaða um, á myndórói ekki að vera meiri en 0.2% af myndhæð, það eru 8mm a´4 metra mynd.

 

Tónbilun

Það fyrsta sem þarf að gera er að finna út hvar bilun er.  Hvaða hlekkur í keðjunni hefur gefið sig ?  ER í lagi með tóninn frá annari sýningarvélinn en ekki hinni ?  Er í lagi með hátalara í sýuningarklefa en ekki í sal ?  Önnur bilun á tóni getur verið tónbjögun ( sjá bls.34 og 39 ).

bilun á tóni annarar sýningarvélar.

  1. Athugið hvort logar á tónlampanum, eða hvort skipta þarf um hann. (Munið að setja ekki fingraför á lampaglerið).
  2. Ef ekki logar á tónlampanum jafnvel þegar skipt hefur verið um hann, kannið þá hvort spenna er í leiðslum frá afriðli tónlampans. Ef ekki athugið þá öryggi afriðilsins. Hugsanlega má skipta yfir á vara-afriðil af hann er til staðar.
  3. Kannið hvort ljós kemu ´ða tónrönd filmunnar eða hvort ryk eða flimubútur heftir ljósgeisla frá tónlampanum.
  4. Athugið hvort leiðslur frá sólarsellu eru tengdar í formagnara.
  5. Ef tvær sýningarvélar eru notaðar hvor með sinn formagnara, má reyna ða víxla formögnurum. ATH. takið magnarann út sambandi áður en þið víxlið formögnurum og setið styrkstilli á 0. Ef vara-formagnari er fyrir hendi þarf hugsamlega að nota hann.
bilun á tóni beggja sýnigavéla.
  1. Athugið hvort magnarinn er stilltur á “ljóstón”.
  2. Kannið hvort straumur er á magnaranum.
  3. Athugið hvort bilunin nær einnig til tónlistar af segulbandi, ef sami magnari er notaður við það.
  4. Athugið öryggi magnarans.
  5. Ef vara-magnari er til staðar þá skiptið yfir á hann.

Ath.þar sem Dolby tæki eru skal fara eftir leiðbeiningum sem þeim fylgja.brenglum á tóni

 

Brenglun á tóni

  1. Vélahljóð. Ljósrönd filmunnar er tæplega 2mm á breidd. Ef röndin er ekki skönnuð nákvæmlega – annað hvort af því að hliðarstýring filmunnar við tónrtomluna er ekki í lagi, eða vegna þess að ljósspjald tónlinsunnar er ekki rétt stillt, getur myundast mikill hávaði. Þetta skeður vegna þess að færslugöt filmunnar eða strikin milli mundanna koma inn á skönnun með tónröndinni. Ástæðan fyrir því að hliðarsýring filmunnar er ekki í lagi, er oft af því að færslurúllur eru settar öfugt í eftir hreinsun og smurnigu. Röng möskvun á breidd ljósspjaldsins við tónlampann getur einnig verið ástæðan. (sjá nánar í Tæknilegu  undir “Buzz track”).
  2. Djúpur – dimmur – loðinn tónn. Ef hátiðni tapast við afspilun verður tónninn dimmur og “loðinn”, eins og ef að teppi væri breitt yfir hátalarann. Tónlist verður ekki eins tær og allt tal verður illskiljanlegt. Ástæðan getur verið sú að ryk og óhreinindi eru á tónlinsunni eða að ljósspald tónlinsu er ekki nákvæmega stillt á tónrönd filmunnar. Ástæðan getur einnig verið sú að fasastilling er ekki rétt, það er að segja að ljósspaldið er ekki nákvæmleg 90° vinkilrétt á tónrönd filmunnar. (sjá nánar um fasastillingu ).
  3. Flöktandi og óhreinn tónn. Ef filman rennur ekki með jöfnum hraða yfir tóntromluna verður talið óhreint og tónlistin fölsk. Þettaheyrist sérstaklega vel á píanótónlist. Ástæðan getur verið sú að neðri slaufan er of lítil, en oftar er það þó vegna þess að tóntromlan og leiðirúllur snúast ekki létt og óhindrað. Það getur verið vegna slits í legum tóntromlunnar eða vegna skorts á hreinsun og smurningu.
 
 
   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220