Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri

 

 

Möltukrossinn er “hjarta” sýningarvélarinnar. Þetta vita allir
sýningarmenn. Þessi gangráður er einstök uppfinning og mikil völundarsmíð.
Möltukrossinn sem “tákn” á sér langa og merkilega sögu- allt frá árinu 1126,
sem merki Krossfara en var staðfestur sem einkenni riddara frá eyjunni Möltu
árið 1530 og þaðan er nafnið dregið.
Kross þessi táknar m.a. heiðarleika, trúleika, hugrekki, fórnfýsi og hjálp
til þeirra sem í neyð eiga. ( Já, Möltukrossinn er ekki sá kross sem
bíóeigendur þurfa að bera ! )
Greina má þennan “fjögra blaða smára” sem einkenni hjálparstofnana um víða
veröld í dag. Ótal félagasamtök hafa tileinkað sér þetta merki í einhverri
mynd, t.d. F.S.K.
Meira að segja leit ég augum í Bónus, bökunarger frá Kanada ! Á þessm
litla plastpoka stendur: Maltesecross TÖR GER ( pakkað í Danmörku) og svo
mynd af krossinum. Nú veit ég ekki um samhengið nema þú kunnir
“brauð að baka” í hrærivél með möltukrossi ! Möltukross hefur verið
smíðaður hér á landi til að stjórna nákvæmu “stop–start” ferli á færibandi
við fiskvinnslu. Önnur tækni tók svo við.
Til er sagan um Möltukross- riddara á elleftu öld, sem herjuðu á borgarvirki
í Landinu Helga. Verjendur helltu eldfimum vökva á innrásarliðið og köstuðu
logandi kyndlum að. Árásarmenn stóðu í björtu báli. Félagar þeirra sem
undan sluppu, reyndu að koma til hjálpar. Flestir hlutu bana af. Eitt dæmi
um þá fórnfýsi sem Möltukrossinn stendur fyrir.
Ef þú sérð brunaliðsmann í dag (t.d í USA), sem ber merki
Möltukrossins, þá hefur sá hinn sami boðið sig fram að láta líf sitt
meðvitað, til að reyna bjarga mannslífum á örlagastundu.
Hverfum að Möltu-krossinum. Möltukrossinn, sem grunnur að sýningarvélinni,
leit dagsins ljós um 1890 Tíu árum síðar er hann orðinn fastur í sessi um
ókomna tíð. Þessi ódauðlegi vélarhluti snýst og snýst endalaust, ef hann hefur næga
olíu. Jafn blóðþrýstingur, engin aukaslög. “Krossinn” í FP7 Philips
sýningarvélunum í Stjörnubíó hamaðist í 50 ár – hnökralaust.
Mannshjartað slær undir eðlilegum kringumstæðum u.þ.b. 70 slög á mínútu og
getur við bestu heilsu gjört svo í hundrað ár - en kannski ekki alltaf í
takt. Til samanburðar skulum við fara í tölfræðilegan útreikning á “hjartslætti”
Möltukrossins - miðað við vöðvabúntið bak við lungun í líkama mannsins.
Möltukrossinn flytur 4 filmuramma fyrir ljósopið á einum hring en
við sýningar á kvikmyndum þarf hann að flytja 24 myndir á sek.
4x6 eru 24 Það eru 6 hringir á sekúndu. Í einni mínútu eru 60 sek. 6x60
eru 360 snúningar á mínútu. Í raun er þessi hraði ekki tiltakanlea mikill,
því algengir rafalar geta t.d. snúist 1000 – 4000 hringi á einni mínútu. En
tölur eru fljótar að margfaldast.
Í klukkutímanum eru 60 mínútur. 360x60 eru 21.600 snúningar.
Allir útreikningar miðast við þennan snúningshraða Möltukrossins á einni klst.
Til að mynda eitthvað meðaltal, þá gefum við okkur að sýningarvélin sé í
notkun átta tíma á dag, sem samsvarar fjórum bíómyndasýningum.
8 x 21.6oo eru þar með 172.800 snúningar á venjulegum sýningardegi.
Þetta er einn dagur og svo kemur sjö daga vikan og við höldum okkur við 8
tíma á dag eða 56 sýndar klst. x 21.600 = 1.209600 snúningar
(nú fer þetta ”snúninga-tal” að verða svolítið snúið ! )
Í einum mánuði eru fjórar vikur eða sýndar 224 klst.
224 x 21.600 = 4.838400
Í einu ári eru 52 vikur eða 52 x 224 sýningartímar= 11.648 klst.
11.648 x 21.600 = 25.159,680 hringir á þvi herrans ári.
Hér sýndi vasatölvan mín “ERROR” og beitti ég því öðrum ráðum.

Samantekt:

6 hringir á sek. x 60 = 360 hringir á mín.
360 hringir á mín x 60 mín. = 21.600 hringir á klst.
8 klst. x 21.600 = 172.800 á dag.
56 klst. x 21.600 = 1.209.600 hringir á viku.
224 klst. x 21.600 = 4.838.400 hringir á mán.
52 vikur x 224 klst. = 11.648 klst. á ári.
11.648 klst. x 21.600 = 25.159.680 hringir á ári.
Ég nefndi að krossinn í Stjörnubíó hefði “slegið” í 50 ár. Ef eitt
sýningarár er að meðaltali 11.648 klst. og margföldum með 50, þá gera það
582.400 klst.
582.400 x 21.600 = 12.579.840.000 hringir !!
Til að vera sanngjarn, þá verður að deila í þessa tölu með tveimur, því
allan þennan tíma var sýnt á tvær sýningarvélar og sýningartíminn að auki
styttri en gerist í kvikmyndahúsum í dag = 6.289.770.000 snúningar pr.vél,
verður samt að teljast dágóð ending !
Þá er komið að hjartanu, þessari lífsins maskínu. Það slær að
jafnaði 70 slög á mínútu, eins og komið hefur fram áður.
( nema þú sért ástfanginn eða tekið myntkörfu-lán !)
Munurinn á þessum hjartavöðva og Möltukrossinum er sá, að hjartað er að
störfum 24 tíma á sólarhring til að viðhalda líftórunni.
Möltukrossinn hlær að sprengitöflum, blóðþynningarlyfjum og hjartaþræðingum.
70 slög á mín. í eina klst. 60 x 70 = 4200 slög. Það eru 24 tímar í
sólarhringnum. 4200 x 24 = 100.800 pumpanir. Þessi tala verður viðmiðun við
útreikningana eða 100.800 á sólarhring.
Þá er það vikan. 7 dagar x 100.800 = 705.600 hjartaslög.
Í mánuðinum eru 30 dagar x 100.800 = 3.024000 slættir. Í árinu eru 52 vikur
eða 365 dagar ( sólarhringurinn) 100.800 x 365 = 36.792.000 hjartaslög árið út.

Samantekt:

70 slög á mín x 60 mín = 4200 slög á klst.
4200 slög á klst. x 24 klst. = 100.800 slög.
100.800 slög á sólarhring x 365 dagar = 36.792.000 slög á ári.
Hjartað hefur vinningin um 11.128.320 en vinnutíminn er líka þrefaldur á við
Möltukrossinn. Gerum ráð fyrir að hjartað starfi aðeins 8 tíma á dag (
meðal sýningartími ) og deilum með tölunni þremur í árs-sláttinn, 36.792.000
Þá slær hjartað ekki nema 12.264.000 slög og Möltukrossinn hefur vinninginn
um 13.063.680 snúninga eða slög.
( skiptir litlu máli. Þú værir löngu dauður ! )
Ég læt þetta duga í bili enda er ég orðinn gufusoðinn !
Allir útreikningar hafa verið endurskoðaður af löggiltum talnaspekingi og ég
legg við drengskap minn að þeir eru svo gjörðir eftir beztu samvizku.
Til Skattstjóra –nei afsakið – til FSK
 

Virðingafyllst
Agnar Einarsson

PS.

Ef upp koma grunsemdir um vafasama útreikninga á framtali þessu,
skal ábendingum þar að lútandi ekki komið á framfæri !
A.E.

   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220