Hefja töku lífeyris

09 11. 2014

Að hefja töku ellilífeyris

Þegar launafólk fer að nálgast efri ár á vinnumarkaði er ekki úr vegi að viðkomandi kynni sér réttindi sín hjá Lífeyrissjóðum og ríki. Ýmsar spurningar geta vaknað upp sem nauðsynlegt er að leita svara við. Við hvetjum okkar félagsmenn til þess að leita til þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi greiddi síðast í til þess að kynna sér stöðu sína. Birta lífeyrissjóður svara öllum fyrirspurnum vegna þeirra rafiðnaðarmanna sem þangað greiða en jafnframt má finna ýmsar upplýsingar á heimasíðu Birtu, www.birta.is, þar er meðal annars mögulegt að skrá sig inn á vefsvæði þar sem hægt er að lista upp réttindi viðkomandi en jafnframt að tengjast lífeyrisgátt lífeyrissjóðanna.

Hafi launamaður greitt síðast til Birtu lífeyrissjóðs þá er rétt að viðkomandi sæki um lífeyri hjá Birtu en eyðublöð vegna þessa er að finna hér. Nauðsynlegt er að fylla þessa umsókn út, því næst skal prenta hana út og undirrita. Almennt þarf umsókn að berast eigi síðar en 20. hvers mánaðar til að viðkomandi fái greitt næstu mánaðarmót á eftir.

Rétt er að vekja athygli á að ekki er hægt að sækja um afturvirkar greiðslur. Lífeyrir er greiddur frá þeim tíma sem umsókn berst.

Réttindi miðast við 67 ára aldur, heimilt er að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri en þá með skerðingu. Jafnframt er heimilt að fresta töku lífeyris til 72 ára aldurs með álagi. Ekki er reiknað álag eftir 72 ára aldur.

Umsækjandi þarf jafnframt að sækja um hjá Tryggingastofnun (TR). TR krefst þess að búið sé að sækja um hjá lífeyrissjóði áður en til greiðslu kemur frá TR. Á umsóknareyðublað hjá lífeyrissjóði þarf að merkja við hvort óskað sé eftir því að viðkomandi lífeyrissjóður sendi staðfestingu til TR á því að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði. Við hvetjum félagsmenn til þess að kynna sér málin hjá TR á vef þeirra, www.tryggingastofnun.is.

Hafi viðkomandi greitt í séreignarsjóð á starfsævinni þá getur launamaður hafið töku séreignarsparnaðar eftir að 60 ára aldri er náð. Viðkomandi getur ákveðið hvort hann dreifir séreigninni á ákveðinn árafjölda eða skammtað sér ákveðna upphæð á mánuði þar til séreign er uppurin.

Kynnið ykkur stöðu ykkar hjá lífeyrissjóðum sem og Tryggingastofnun.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?